Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1711, 139. löggjafarþing 348. mál: rannsóknarnefndir (heildarlög).
Lög nr. 68 16. júní 2011.

Lög um rannsóknarnefndir.


Skipun rannsóknarnefndar.

1. gr.

     Forseti Alþingis skipar rannsóknarnefnd ef Alþingi samþykkir ályktun þar um til þess að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varða.
     Í tillögu til ályktunar skal kveðið á um hvað rannsaka á, hvernig haga skal rannsókninni og um fjölda nefndarmanna. Ef tillaga um skipan rannsóknarnefndar kemur ekki frá þeirri þingnefnd sem fer með eftirlit Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu skal vísa henni til þeirrar nefndar til athugunar og skal nefndin gefa þinginu álit sitt um hana áður en greidd eru atkvæði um tillöguna við síðari umræðu.

2. gr.

     Rannsóknarnefnd skal skipuð a.m.k. þremur nefndarmönnum. Heimilt er þó að fela einum einstaklingi rannsókn máls ef rök mæla með því. Forseti Alþingis velur formann og afmarkar umboð nefndarinnar, hvort tveggja í samráði við forsætisnefnd og að fengnum tillögum þeirrar nefndar sem fer með eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu.
     Formaður rannsóknarnefndar skal vera lögfræðingur. Fari einn maður með rannsókn máls skal hann enn fremur vera lögfræðingur. Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, en að undanskildum ákvæðum um hámarksaldur, sbr. 5. mgr. 31. gr. sömu laga.
     Sé rannsóknarnefnd falið að meta lögfræðileg atriði sem geta varpað ljósi á það hvort einstaklingar skuli sæta ábyrgð skulu nefndarmenn vera þrír hið minnsta.

3. gr.

     Forseti Alþingis skal tryggja rannsóknarnefnd þann mannafla, sérfræðiaðstoð og aðbúnað sem er nauðsynlegur við rannsóknina.
     Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er heimilt að ráða starfsmenn til starfa hjá rannsóknarnefnd án auglýsingar. Lögin gilda að öðru leyti um réttindi og skyldur starfsmannanna.
     Kostnaður af starfi rannsóknarnefndar greiðist úr ríkissjóði.

Sjálfstæði og hæfi nefndarmanna.

4. gr.

     Rannsóknarnefnd er í störfum sínum óháð fyrirmælum frá öðrum, þar með talið Alþingi. Skulu nefndarmenn jafnframt vera óhlutdrægir og óvilhallir gagnvart þeim stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og öðrum sem nefndin hefur til athugunar. Sama á við um starfsmenn og aðstoðarmenn rannsóknarnefndarinnar að öðru leyti. Rannsóknarnefnd sker úr um hæfi starfsmanna nefndarinnar.
     Um sérstakt hæfi nefndarmanna og starfsmanna fer eftir sömu reglum og fram koma í 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ber nefndarmanni að víkja sæti að því marki sem hann tengist einstaklingi, stofnun eða einkafyrirtæki sem rannsókn nefndarinnar beinist að.
     Nú verður ágreiningur um sérstakt hæfi nefndarmanns og sker þá rannsóknarnefnd úr, sbr. 5. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Til forseta Alþingis verður skotið ágreiningi um almennt hæfi nefndarmanns.

Verkefni rannsóknarnefnda.

5. gr.

     Verkefni rannsóknarnefndar skal skýrt afmarkað í umboði hennar, sbr. 1. mgr. 2. gr.
     Meginhlutverk rannsóknarnefndar er að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í tilteknu máli, sbr. 1. mgr. 1. gr., en einnig getur nefndin í skýrslu sinni gert tillögu um breytingu á lögum, reglugerðum eða stjórnsýsluframkvæmd eftir því sem rannsóknin gefur tilefni til.
     Rannsóknarnefnd má fela að meta lögfræðileg atriði til að varpa ljósi á það hvort grundvöllur sé fyrir því að einstaklingar eða lögaðilar skuli sæta ábyrgð. Skal nefndin þá fjalla um það í skýrslu sinni.
     Vakni grunur við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað tilkynnir hún ríkissaksóknara um það og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála.
     Ef nefndin telur að ætla megi að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eða ákvæðum annarra laga sem gilda um störf hans skal hún tilkynna viðkomandi forstöðumanni þar um og hlutaðeigandi ráðuneyti.
     Ekki er skylt að gefa viðkomandi kost á að tjá sig sérstaklega um þá ákvörðun rannsóknarnefndar að senda mál til ríkissaksóknara eða tilkynna það forstöðumanni eða ráðuneyti, sbr. 4. og 5. mgr.
     Rannsóknarnefnd skal aðeins meta lögfræðileg atriði til að varpa ljósi á hvort grundvöllur sé fyrir því að ráðherrar sæti ábyrgð ef Alþingi fer sérstaklega fram á álit nefndarinnar um það efni. Skal slík beiðni þá skýrt afmörkuð í umboði nefndarinnar.
     Skipan rannsóknarnefndar sem ætlað er að fjalla um störf ráðherra, sbr. 7. mgr., hefur sömu réttaráhrif og kosning rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til athugunar á störfum ráðherra, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð.

Framkvæmd rannsóknar.

6. gr.

     Formaður stýrir fundum nefndarinnar. Rannsóknarnefnd metur sjálf hvort fundir nefndarinnar séu opnir eða lokaðir. Rannsóknarnefnd skal færa gerðabók á fundum sínum.
     Rannsóknarnefnd skal leitast við að upplýsa mál eins vel og unnt er. Nefndin ákveður sjálf, innan þess ramma sem umboð hennar og lög þessi leyfa, hvernig framkvæmd rannsóknar skal hagað með það að markmiði að mál það sem til athugunar er verði sem best upplýst. Nefndin kallar í því skyni eftir þeim upplýsingum um málið sem hún telur nauðsynlegar.
     Við ákvarðanir nefndarinnar um framkvæmd rannsóknarinnar ræður afl atkvæða úrslitum mála. Verði ágreiningur um einstök atriði í niðurstöðum hennar geta einstakir nefndarmenn gert sérstaklega grein fyrir afstöðu sinni í bókun.

Öflun gagna og upplýsinga.

7. gr.

     Sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té gögn sem hún fer fram á. Með gögnum er m.a. átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga, álit sérfræðinga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar, hvort sem þau eru prentuð (skrifleg) eða á rafrænu formi.
     Sömu aðilum og greinir í 1. mgr. er jafnframt skylt að verða við óskum rannsóknarnefndar um að skýra skriflega frá athöfnum sínum og svara skriflega fyrirspurnum hennar.
     Skylt er að verða við kröfu rannsóknarnefndar um afhendingu gagna og að veita upplýsingar þótt þær séu háðar þagnarskyldu. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki.
     Lögmaður, endurskoðandi eða annar aðstoðarmaður verður þó ekki krafinn upplýsinga, sem honum hefur verið trúað fyrir út af rannsókn nefndarinnar, nema með leyfi þess sem í hlut á. Ákvæði a- og b-liðar 2. mgr., 3. mgr. og 4. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, gilda enn fremur um upplýsingagjöf þeirra sem þar eru tilgreindir. Dómari sker úr um upplýsingaskyldu þeirra og verður mál af því tagi rekið skv. 5. mgr. þessarar greinar.
     Nú verður ágreiningur um afhendingu gagna, skýringa eða skriflegra svara, sbr. 1.–3. mgr., og getur rannsóknarnefnd þá leitað um hann úrskurðar héraðsdóms á grundvelli XV. kafla laga um meðferð sakamála. Lögregla skal veita nefndinni liðsinni við að framfylgja slíkum dómsúrskurði. Heimilt er að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar innan þriggja sólarhringa frá uppkvaðningu hans.
     Í þágu rannsóknar er rannsóknarnefnd heimilt að beita ákvæði 73. gr. laga um meðferð sakamála til að varna því að gögnum sé fargað og skal lögregla framfylgja þeirri ákvörðun.
     Rannsóknarnefnd á frjálsan aðgang að öllum starfsstöðvum stjórnvalda og til rannsókna á aðstæðum í þágu þess verkefnis sem henni hefur verið falið. Starfsmenn stjórnvalda og þeir aðilar sem rannsókn tekur til, sbr. 3. og 7. mgr. 5. gr., skulu láta rannsóknarnefnd í té alla nauðsynlega aðstoð vegna starfa hennar.

8. gr.

     Rannsóknarnefnd getur kallað einstaklinga til skýrslugjafar og skulu þeir sem gefa skýrslu segja satt og rétt frá fyrir nefndinni. Formaður stýrir skýrslutökum en getur falið öðrum nefndarmanni það. Þá getur hann falið starfsmanni nefndarinnar eða öðrum er vinna að rannsókninni að beina spurningum að þeim sem gefur skýrslu. Taka skal upp á hljóð- eða myndband það sem fram fer við skýrslutöku eða varðveita það með öðrum tryggilegum hætti.
     Ef þeir sem kallaðir eru fyrir rannsóknarnefnd til skýrslutöku verða ekki við ósk nefndarinnar þar um getur nefndin óskað þess að héraðsdómari kveðji mann fyrir dóm til að bera vitni telji hún það nauðsynlegt í þágu rannsóknar málsins. Um kvaðningu og skýrslugjöf og aðra framkvæmd skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Ákveða má að skýrsla sé gefin fyrir luktum dyrum.

Vernd uppljóstrara.

9. gr.

     Óheimilt er að láta einstakling gjalda þess ef hann veitir í góðri trú rannsóknarnefnd upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir rannsóknina.
     Undir 1. mgr. fellur sú háttsemi að rýra réttindi, segja upp samningi, slíta honum eða láta einstakling gjalda þess á annan hátt að hann hafi látið rannsóknarnefnd í té upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir rannsókn. Séu leiddar líkur að því skal gagnaðili sýna fram á að ákvörðun sé reist á öðrum forsendum en þeim að hann hafi veitt rannsóknarnefnd upplýsingar.
     Ef einstaklingur hefur frumkvæði að því að láta rannsóknarnefnd í té upplýsingar eða gögn sem tengjast stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, opinberri stofnun, fyrirtæki, móður- eða dótturfyrirtæki þess eða fyrirtækjum sem það er í viðskiptum við eða stjórnendum þeirra og óskar eftir því að hann sæti ekki ákæru, þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að refsiverðu broti hans sjálfs, er rannsóknarnefnd heimilt að óska eftir því við ríkissaksóknara að hann ákveði að hlutaðeigandi sæti ekki ákæru. Ef um opinberan starfsmann er að ræða getur rannsóknarnefnd, af sama tilefni, óskað eftir því við forstöðumann eða ráðuneyti að hlutaðeigandi verði ekki látinn sæta viðurlögum vegna brota á starfsskyldum.
     Skilyrði ákvörðunar skv. 3. mgr. eru að upplýsingar eða gögn tengist refsiverðu broti í opinberri stjórnsýslu eða broti á opinberum starfsskyldum og talið sé líklegt að þessar upplýsingar eða gögn geti haft verulega þýðingu fyrir rannsókn nefndarinnar samkvæmt lögum þessum eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Ef upplýsingar eða gögn tengjast refsiverðu broti er jafnframt skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar að rökstuddur grunur sé uppi um það að mati ríkissaksóknara að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti.

Réttarstaða einstaklinga fyrir rannsóknarnefnd.

10. gr.

     Sá sem til rannsóknar er, sbr. 3. og 7. mgr. 5. gr., á rétt á aðstoðarmanni að eigin vali á öllum stigum rannsóknar. Ef rök mæla sérstaklega með því getur nefndin ákveðið að kostnaður við störf aðstoðarmanns skuli greiddur af nefndinni. Ákvörðun nefndarinnar þar um má kæra til forseta Alþingis innan þriggja vikna frá því að hún var kunngjörð þeim sem í hlut á.
     Sá sem til rannsóknar er, sbr. 3. og 7. mgr. 5. gr., skal, á meðan það ekki skaðar rannsóknarhagsmuni, hafa aðgang að gögnum málsins og vera upplýstur um þau atriði sem til skoðunar eru hjá nefndinni hvað hann varðar og teljast mikilvæg fyrir mál hans. Heimilt er að takmarka aðgang að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum.
     Að skýrslutöku og gagnaöflun lokinni skal þeim sem til rannsóknar er og ætla má að sætt geti ábyrgð, sbr. 3. og 7. mgr. 5. gr., gert kleift að tjá sig um þá málavexti og lagatúlkun sem rannsóknarnefnd íhugar að fjalla um í skýrslu sinni. Nefndin veitir viðkomandi hæfilegan frest til að gera skriflega athugasemd við þessi atriði.
     Skylda til afhendingar gagna og til að láta af hendi upplýsingar og svör, sbr. 7. gr., og til að láta af hendi upplýsingar við skýrslugjöf, sbr. 8. gr., er þó ekki fyrir hendi ef ætla má að í henni geti falist játning eða bending um að sá sem beðinn er um að afhenda gögnin eða láta af hendi upplýsingar hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi honum siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni. Sama á við ef ætla má að afhending gagna eða veiting upplýsinga hefði sömu afleiðingar fyrir einhvern þann sem tengist viðkomandi með þeim hætti sem segir í 1. og 2. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Gögn sem ráðherra eða starfsmaður stjórnsýslu hefur útbúið um störf sín verða þó ekki undanþegin afhendingu.
     Ekki er heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum.
     Ef maður lætur af ásetningi rannsóknarnefnd í té rangar eða villandi upplýsingar samkvæmt fyrirmælum laga þessara fer um refsingu fyrir slík brot skv. 145. og 146. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Um slík mál skal fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

Þagnarskylda.

11. gr.

     Þagnarskylda skv. 18. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, hvílir á nefndarmönnum og öðrum er vinna að rannsókn um þær upplýsingar sem nefndinni berast og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt nefndin hafi lokið störfum. Rannsóknarnefnd er þó heimilt að afhenda upplýsingar og gögn til sérfræðilegra ráðgjafa í þeim mæli sem nauðsynlegt er. Sama á við ef nefndin telur afhendingu slíkra upplýsinga nauðsynlega vegna gagnkvæmrar miðlunar upplýsinga og samstarfs við aðila erlendis sem sinna hliðstæðum rannsóknum og nefndin. Afhendi nefndin upplýsingar á grundvelli þessara heimilda hvílir þagnarskylda á þeim sem fær gögnin afhent.
     Ákvæði 1. mgr. skal ekki standa því í vegi að rannsóknarnefnd geti birt upplýsingar sem annars væru háðar þagnarskyldu ef nefndin telur slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar. Nefndin skal þó því aðeins birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, að almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á.

Upplýsingagjöf nefndar á starfstíma.

12. gr.

     Rannsóknarnefnd ákveður sjálf hvaða upplýsingar eða tilkynningar hún birtir opinberlega um störf sín þar til hún hefur skilað lokaskýrslu sinni. Sama gildir um aðgang að gögnum sem nefndin aflar.
     Rannsóknarnefnd getur veitt forseta Alþingis upplýsingar um framgang rannsóknarinnar meðan á henni stendur og getur forseti í tilefni af slíkri upplýsingagjöf og að höfðu samráði við forsætisnefnd gert Alþingi grein fyrir fram komnum upplýsingum ef æskilegt þykir.
     Óheimilt er að veita aðgang að gögnum frá opinberum stofnunum sem rannsóknarnefnd hefur fengið afhent við rannsókn nema með samþykki nefndarinnar.

Skýrsla og starfslok rannsóknarnefndar.

13. gr.

     Rannsóknarnefnd skilar forseta Alþingis skriflegri skýrslu með rökstuddum niðurstöðum rannsóknar sinnar þegar henni er lokið. Rannsóknarnefnd getur ákveðið að skila sérstökum skýrslum um einstaka hluta rannsóknarinnar eða áfangaskýrslum og skal haga meðferð þeirra á sama hátt og lokaskýrslu.
     Forseti skal þegar í stað senda þeirri nefnd Alþingis sem fer með eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu lokaskýrslu nefndarinnar sem tekur ákvörðun um hvort hún skuli strax tekin til efnislegrar meðferðar í nefndinni eða að lokinni umræðu í þinginu. Skal nefnd sú sem fer með eftirlitshlutverk Alþingis að lokinni umfjöllun um skýrsluna gefa þinginu álit sitt um hana og leggja fram tillögur um úrvinnslu og meðferð niðurstaðna hennar.
     Með birtingu lokaskýrslu lýkur störfum rannsóknarnefndarinnar.
     Að rannsókn nefndarinnar lokinni skulu gögn, sem aflað hefur verið við rannsóknina, færð Þjóðskjalasafni Íslands. Um aðgang að þeim fer samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga og laga um Þjóðskjalasafn Íslands.

Lagatengsl, gildistaka o.fl.

14. gr.

     Ákvæði upplýsingalaga og ákvæði 18.– 21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda ekki á meðan rannsóknarnefnd er að störfum. Sama gildir um ákvæði stjórnsýslulaga, nema sérstaklega sé til þeirra vísað í þessum lögum. Ekki er unnt að bera fram kvörtun um störf nefndarinnar við umboðsmann Alþingis.
     Þegar rannsóknarnefnd hefur lokið störfum skulu þeir sem rannsókn hefur beinst að njóta réttinda samkvæmt ákvæðum 18.– 21. gr. laga nr. 77/2000 og 9. gr. upplýsingalaga, enda hafi ákæruvaldið ekki tekið mál viðkomandi til meðferðar sem sakamál. Fer þá um rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæðum laga um meðferð slíkra mála. Um réttindi annarra til aðgangs að gögnum rannsóknarnefndar, þar á meðal þeirra sem hafa komið fyrir rannsóknarnefnd, veitt upplýsingar eða rannsóknarnefnd hefur aflað upplýsinga um, fer skv. 4. mgr. 13. gr. að gættum ákvæðum 18. og 21. gr. laga nr. 77/2000.

15. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Allsherjarnefnd fer með verkefni þingnefndarinnar samkvæmt lögum þessum. Skal allsherjarnefnd fjalla um tillögur um skipun rannsóknarnefnda, leggja mat á og gera tillögu til Alþingis um hvenær rétt er að skipa rannsóknarnefnd, svo og eftir atvikum að taka skýrslur slíkrar nefndar til umfjöllunar, gefa þinginu álit sitt um þær og gera tillögur um frekari aðgerðir þingsins.

II.
     Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða I skal forseti Alþingis, samkvæmt þingsályktun frá 17. desember 2010, skipa rannsóknarnefnd til þess að rannsaka starfsemi Íbúðalánasjóðs. Um störf nefndarinnar fer að öðru leyti eftir lögum þessum.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2011.