Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1651, 139. löggjafarþing 580. mál: almenningsbókasöfn (gjaldtökuheimildir).
Lög nr. 69 16. júní 2011.

Lög um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997 (gjaldtökuheimildir).


1. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Almenningsbókasöfnum er heimilt að innheimta gjald fyrir þjónustu sína, svo sem fyrir útgáfu útlánsskírteina, millisafnalán, afritun, fjölföldun, ljósmyndun, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti.
     Hvert safn setur gjaldskrá skv. 1. mgr. að fengnu samþykki bókasafnsstjórnar og skal hún birt notendum á aðgengilegan hátt. Umrædd gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður viðkomandi safns vegna þjónustunnar og er ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum við hana:
  1. launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
  2. sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar.

     Almenningsbókasöfnum er heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest og bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda samkvæmt þeim reglum sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur skv. 15. gr. og gjaldskrá sem ráðherra setur skv. 4. mgr.
     Ráðherra skal gefa út gjaldskrá um dagsektir og bætur skv. 3. mgr. að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna. Samanlagðar dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest, sem ákveðnar eru með reglugerð, mega aldrei vera hærri en 4.000 kr. fyrir hvern lánþega. Bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda skulu að hámarki nema innkaupsverði viðkomandi efnis.

2. gr.

     Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um innheimtu dagsekta fyrir afnot fram yfir skilafrest og bóta fyrir safnefni almenningsbókasafna sem glatast eða skemmist í meðförum notenda.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 7. júní 2011.