Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1804, 139. löggjafarþing 826. mál: stjórn fiskveiða (strandveiðar, aflamark, veiðigjald o.fl.).
Lög nr. 70 21. júní 2011.

Lög um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (strandveiði, aflamark, samstarf, tekjur af veiðigjaldi, tímabundin ákvæði).


1. gr.

     Á eftir 4. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra skal hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nemi allt að 300 lestum af óslægðum botnfiski á hverju fiskveiðiári, sem gegn greiðslu gjalds er heimilt að ráðstafa til skipa sem hafa leyfi til frístundaveiða skv. 2. tölul. 4. mgr. vegna afla sem er fenginn við frístundaveiðar. Verð á aflaheimildum skal vera 80% af meðalverði í viðskiptum með aflamark, sem birt er á vef Fiskistofu, í lok dags daginn áður en viðskipti fara fram og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Þessar heimildir miðast við óslægðan afla og skulu dragast frá þeim heildarafla sem veiða má á hverju tímabili, sbr. 3. gr. Ráðherra kveður nánar á um úthlutun aflaheimilda þessara í reglugerð. Tekjur af aflaheimildum þessum skulu renna í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:
  1. Í stað orðsins „mánuði“ í 2. málsl. 2. mgr. og „mánaðar“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: tímabil; og: tímabils.
  2. Á eftir orðinu „útgerð“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: eiganda.
  3. Á eftir 2. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið.


3. gr.

     Í stað 3. og 4. mgr. 8. gr. laganna koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Aflamark veiðiskips á hverju fiskveiðiári, veiðitímabili eða vertíð ræðst af leyfðum heildarafla í viðkomandi tegund og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla skv. 2. mgr., að frádregnu hlutfalli af magni hverrar tegundar sem skal vera allt að 5,3%. Sama gildir um aflamark samkvæmt lögum nr. 151/1996. Ráðherra skal ákveða hlutfall skv. 1. málsl. Við þá ákvörðun skal hann leitast við að hlutfallið sé sem næst í samræmi við að mætt sé magntölum 5. mgr. þegar skipti hafa farið fram skv. 6. mgr.
     Við frádrátt skv. 1. málsl. 3. mgr. skal tekið mið af sérstakri tilgreiningu eigenda veiðiskipa á þeim tegundum sem hlutfall skv. 1. málsl. 3. mgr. skal dregið frá. Slíkt er þó aðeins heimilt að því leyti sem samanlögð þorskígildi aflaheimilda sérstaklega tilgreindra tegunda eru jöfn samanlögðum þorskígildum frádreginna aflaheimilda skv. 1. málsl. 3. mgr. Aðeins er heimilt að tilgreina skv. 1. málsl. ýsu, ufsa, þorsk og steinbít.
     Því aflamagni sem dregið er frá heildarafla í hverri tegund skv. 3. mgr. skal varið til að mæta áföllum skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr., til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr., til línuívilnunar skv. 11. gr. og til strandveiða skv. 6. gr. a.
     Því aflamagni sem dregið er frá heildarafla skv. 3. mgr. í öðrum tegundum en þeim sem úthlutað er skv. 5. mgr. skal skipt í viðkomandi tegundir samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu ákveðna framkvæmdaþætti til að tryggja að skipti þessi geti gengið eftir. Jafnframt er heimilt að flytja milli fiskveiðiára aflaheimildir samkvæmt þessu ákvæði.
     Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd ákvæða greinarinnar í reglugerð.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Í stað „2%“ í 2. málsl. og lokamálslið 1. mgr. kemur: 1,5%.
  2. Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tilfærsla úr einstakri botnfisktegund getur þó aldrei orðið meiri en 30% af aflamarki skips í viðkomandi tegund.
  3. Í stað 2. málsl. 9. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skipsins skal þó aldrei nema meira en 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem hlutaðeigandi skip veiðir á hverju tímabili. Ráðherra skal binda heimild þessa við ákveðin tímabil.


5. gr.

     Í stað hlutfallstölunnar „9,5%“ í 2. málsl. 4. mgr. 21. gr. laganna kemur: 13,3%.

6. gr.

     Á eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 23. gr. a, svohljóðandi:
     Tekjur af veiðigjaldi skulu renna í ríkissjóð.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að ráðstafa 15% tekna af veiðigjaldi til sveitarfélaga. Nánari útfærsla á þeirri ráðstöfun skal koma fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012.

7. gr.

     Í stað orðanna „1. september 2011“ í 2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum kemur: 1. september 2012.

8. gr.

     Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     
     a. (VIII.)
     Á fiskveiðiárunum 2010/2011 og 2011/2012 hefur ráðherra til ráðstöfunar, til sérstakrar úthlutunar, 2.000 lestir af síld (íslenskri sumargotssíld) og 2.000 lestir af norsk-íslenskri síld. Fiskveiðiárið 2011/2012 hefur ráðherra til ráðstöfunar, til sérstakrar úthlutunar, 1.200 lestir af skötusel. Þessar heimildir miðast við óslægðan afla og skulu dragast frá heildarafla þeim sem veiða má á hverju tímabili, sbr. 3. gr.
     Aflaheimildum þessum er heimilt að ráðstafa til fiskiskipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni. Útgerð á þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip, gegn greiðslu gjalds, allt að 10 lestum af skötusel og 20 lestum af síld í senn. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
     Verð á aflaheimildum skv. 1. mgr. skal vera 176 kr. fyrir hvert kg af skötusel og 13 kr. fyrir hvert kg af síld. Gjaldið skal greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Með aflaheimildir þessar skal að öðru leyti fara eins og aflamark sem úthlutað er á grundvelli aflahlutdeildar.
     Tekjur af aflaheimildum þessum skulu renna til ríkissjóðs og skal þeim ráðstafað á þann veg að þær renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun í sjávarbyggðum.
     
     b. (IX.)
     Á fiskveiðiárinu 2010/2011 hefur ráðherra til ráðstöfunar allt að 1.900 lestum af óslægðum þorski og 600 lestum af óslægðum ufsa til strandveiða, til viðbótar við það aflamagn sem tiltekið er í 6. gr. a.
     Á fiskveiðiárinu 2011/2012 hefur ráðherra til ráðstöfunar allt að 2.000 lestum af óslægðum þorski og 600 lestum af óslægðum ufsa til strandveiða, til viðbótar við það aflamagn sem tiltekið er í 6. gr. a.
     Á fiskveiðiárinu 2011/2012 skal allt að 2.500 lestum af þorski og 500 lestum af ufsa, til viðbótar við það aflamagn sem tiltekið er í 1. mgr. 10. gr., ráðstafað til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr.
     Aflaheimildum samkvæmt þessu ákvæði skal einungis ráðstafað á fiskveiðiárinu 2011/2012 verði leyfilegur heildarafli þorsks meiri en 160.000 lestir og ufsa meiri en 50.000 lestir. Aflaheimildir þessar skal draga frá leyfðum heildarafla áður en kemur til skiptingar og frádráttar skv. 3. mgr. 8. gr.
     
     c. (X.)
     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 8. gr. laganna skulu frádráttarliðir samkvæmt þeirri málsgrein eins og þeir voru fyrir gildistöku 3. gr. laga þessara koma til frádráttar að 3/ 4 hlutum frá leyfðum heildarafla á fiskveiðiárinu 2011/2012. Skal frádráttarhlutfall skv. 3. mgr. 8. gr. laganna á því fiskveiðiári aðeins koma til frádráttar svo nemi fjórðungi þess. Skal aflamagni samkvæmt þessari málsgrein ráðstafað skv. 5. og 6. mgr. 8. gr. laganna.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2.–6. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en fiskveiðiárið 2011/2012.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2011.