Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1770, 139. löggjafarþing 783. mál: fjármálafyrirtæki (eftirlit með slitum, EES-reglur).
Lög nr. 78 21. júní 2011.

Lög um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum (slit, eftirlit og innleiðing).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 99. gr. laganna:
  1. D-liður orðast svo: Heimild til endurskipulagningar fjárhags fjármálafyrirtækis hefur ekki áhrif á eignarrétt, þar á meðal veðrétt, lánardrottna eða annarra yfir eignum sem staðsettar eru í öðru aðildarríki. Hið sama gildir um réttinn til að ráðstafa veðsettri eign, hvort heldur með framsali eða öðrum hætti, og réttinn til að taka við arði af eigninni. Skal litið svo á að réttindi sem skráð eru í opinbera skrá og njóta réttarverndar gagnvart þriðja manni teljist til eignarréttar í skilningi ákvæðisins.
  2. Við n-lið bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Löggerningur verður þó ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir.


2. gr.

     Við 4. mgr. 101. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þeir menn sem eiga sæti í slitastjórn eða bráðabirgðastjórn skulu einnig uppfylla hæfisskilyrði 2. mgr., 4. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 52. gr.

3. gr.

     Á eftir 101. gr. laganna kemur ný grein, 101. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
Sérstakt eftirlit Fjármálaeftirlitsins.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með rekstri fjármálafyrirtækis sem er stýrt af slitastjórn, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi eða hvort starfsleyfi þess hefur verið afturkallað. Dótturfélag fjármálafyrirtækis í slitameðferð sem heldur utan um eignir þess skal jafnframt heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitið nær meðal annars til viðskiptahátta þess sem felur meðal annars í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavinum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.
     Viðskipti og ráðstöfun eigna fjármálafyrirtækis sem stýrt er af slitastjórn eða viðskipti slitastjórnar við einstaka aðila sem sitja í slitastjórn, eða aðila í nánum tengslum við slíkan aðila, skulu fara að reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur. Fjármálaeftirlitið skal, að eigin frumkvæði eða á grundvelli ábendinga kröfuhafa, hafa eftirlit með slíkum viðskiptum.
     Neitun á kröfu Fjármálaeftirlitsins um afhendingu gagna getur varðað brottrekstri úr slitastjórn. Hið sama á við fullnægi maður sem sæti á í slitastjórn ekki almennum hæfisskilyrðum sem um hann gilda. Fjármálaeftirlitið skal bera slíka kröfu undir héraðsdóm sem skal taka málið til úrskurðar þegar í stað.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að víkja skuli slitastjórn frá í heild eða að hluta í þeim tilvikum þegar viðkomandi slitastjórn telst ekki hafa unnið störf sín í samræmi við 1. og 2. mgr. þessarar greinar eða eftir atvikum samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Héraðsdómur skal taka málið til úrskurðar þegar í stað.
     Ákvæði greinar þessarar eiga við um rekstur fjármálafyrirtækis sem er stýrt af bráðabirgðastjórn eða skilanefnd eftir því sem við á.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 102. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Við slit fjármálafyrirtækis gilda reglur 74. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., meðal annars um að sá sem hvorki vissi né mátti vita um slitin getur unnið rétt á hendur fjármálafyrirtækinu vegna ráðstafana fram til þess að tilkynning er birt um slitin. Skal þá litið svo á að þeim sem í hlut á hafi ekki verið kunnugt um að slit hafi verið hafin, ef slík tilkynning hefur ekki farið fram, nema sýnt sé fram á annað. Skal jafnframt litið svo á að þeim sem í hlut á hafi verið kunnugt um að slit hafi verið hafin, hafi slík tilkynning farið fram, nema sýnt sé fram á annað.
  2. Á eftir orðunum „að greiða viðurkenndar kröfur“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: skv. 109.–112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
  3. Í stað lokamálsliðar 6. mgr. koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar endanleg niðurstaða hefur fengist um ágreininginn skal hlutdeild þeirrar kröfu í innstæðu geymslureikningsins ásamt hlutdeild í áföllnum vöxtum greidd kröfuhafanum að því leyti sem krafan hefur verið viðurkennd, en fé sem eftir kann að standa skal renna aftur til fjármálafyrirtækisins. Fari hlutagreiðslur fram í fleiri en einum gjaldmiðli má stofna sérstakan geymslureikning fyrir hvern gjaldmiðil. Við hverja hlutagreiðslu sem fram fer með innborgun inn á sérstaka geymslureikninga skal senda kröfuhafa sem greiðslu fær tilkynningu, en með innborgun inn á slíkan reikning telst hlutagreiðsla til viðkomandi kröfuhafa hafa farið fram. Með sérstökum geymslureikningi í skilningi ákvæðisins er átt við fjárvörsluinnlánsreikning á nafni fjármálafyrirtækisins sem stofnaður er í því skyni að leggja hlutagreiðslur inn á.


5. gr.

     Við 3. mgr. 103. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Slitastjórn eða skilanefnd er jafnframt skylt að kynna kröfuhöfum um allar umtalsverðar ráðstafanir sem varða sölu eða ráðstöfun eigna eða annarra réttinda fjármálafyrirtækis á fundum sem slitastjórn boðar til með almennum hætti.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. a laganna:
  1. 3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Eftir því sem átt getur við fara nauðasamningsumleitanir að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr. 149. gr. og 151.–153. gr. sömu laga, þó með því fráviki að frestur skv. 1. mgr. 51. gr. sömu laga skal vera átta vikur, en slitastjórn gegnir þá því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi og heldur kröfuhafafundi við þessar umleitanir.
  2. Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis telst samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöf af samningskröfum á að nema samkvæmt frumvarpinu, þó að lágmarki 60 hundraðshluta þeirra atkvæða. Jafnframt er áskilið samþykki 70 hundraðshluta atkvæða þeirra atkvæðismanna sem greiða atkvæði um nauðasamninginn.


7. gr.

     Á eftir orðunum „2000/28 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB er varðar skilgreiningu á lánastofnun og 2000/46 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja“ í 117. gr. laganna kemur: tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki:
  1. Í stað 2. málsl. 3. tölul. koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Að því leyti sem ekki er mælt fyrir um á annan veg í lögum þessum gilda reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti um skilanefnd, störf hennar og þá menn sem eiga sæti í henni. Þeir menn sem eiga sæti í skilanefnd skulu einnig uppfylla hæfisskilyrði 2. mgr., 4. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 52. gr. laganna. Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2012 og skulu þá þau verk sem skilanefndir hafa sinnt falla til slitastjórna. Þegar slitastjórn hefur tekið við verkefnum skilanefndar getur héraðsdómari eftir beiðni slitastjórnar skipað fleiri menn í slitastjórn en þeir mega þó ekki vera fleiri en fimm.
  2. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins skv. 101. gr. a laganna nær einnig til starfa skilanefndar sem starfar samkvæmt ákvæði þessu og þeirra manna sem í henni eigi sæti.


9. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2011“ í 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 1. júlí 2012.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. júní 2011.