Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1775, 139. löggjafarþing 754. mál: embætti sérstaks saksóknara (flutningur efnahagsbrotadeildar).
Lög nr. 82 23. júní 2011.

Lög um breyting á lögum um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Embætti sérstaks saksóknara skal einnig rannsaka grun um alvarleg brot gegn 109. gr., 128. gr., 129. gr., 179. gr., 247.–250. gr., 253. gr., 254. gr., 262. gr., 264. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, alvarleg brot gegn skatta- og tollalögum, brot gegn lögum sem varða gjaldeyrismál, samkeppni, verðbréf, lánsviðskipti, umhverfisvernd, vinnuvernd, stjórn fiskveiða og grun um önnur alvarleg, óvenjuleg eða skipulögð fjármunabrot sem tengjast atvinnurekstri eða verslun og viðskiptum.

2. gr.

     3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Sérstakur saksóknari ræður aðra starfsmenn embættisins en saksóknara. Heimilt er að skipa lögreglumenn sem hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins til starfa við embættið, en ákvæði lögreglulaga og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt taka ekki til þessara starfsmanna. Skipun þeirra fellur niður þegar embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður eða sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. 7. gr., en þeir skulu þá halda óbreyttum launakjörum í þrjá mánuði frá þeim tíma. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildir ekki um ráðningu eða skipun samkvæmt þessu ákvæði.

3. gr.

      Í stað ártalsins „2011“ í 7. gr. laganna kemur: 2013.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 2011. Við gildistöku laga þessara flyst ákæruvald og þar með sókn þeirra mála sem þegar sæta ákærumeðferð fyrir dómstólum af hálfu ríkislögreglustjóra frá embætti ríkislögreglustjóra til embættis sérstaks saksóknara.
     Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast ákvæði til bráðabirgða þegar gildi.

5. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Lögreglulög, nr. 90/1996, með síðari breytingum: A-liður 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: að annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
  2. Lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum: Orðin „þar á meðal ríkislögreglustjóri“ í 2. og 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII og orðin „þar með talið ríkislögreglustjóra“ í ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum falla brott.
  3. Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum: Í stað orðsins „ríkislögreglustjóra“ í 84. gr. laganna kemur: embætti sérstaks saksóknara.
  4. Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum: Í stað orðsins „ríkislögreglustjóra“ í 5. mgr. 26. gr. laganna kemur: embætti sérstaks saksóknara; og í stað orðsins „ríkislögreglustjóra“ í 7. mgr. 41. gr. laganna kemur: embættis sérstaks saksóknara.
  5. Lög um bókhald, nr. 145/1994, með síðari breytingum: Í stað orðsins „ríkislögreglustjóri“ í 1. mgr. og orðanna „rannsóknarlögreglustjóra ríkisins“ í 4. mgr. 41. gr. laganna kemur: embætti sérstaks saksóknara; og: embættis sérstaks saksóknara.
  6. Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Ríkislögreglustjóri“ í 4. mgr. 20. gr. laganna kemur: Embætti sérstaks saksóknara.
  7. Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum: Í stað orðsins „ríkislögreglustjóra“ í 2. mgr. 16. gr. a laganna kemur: embættis sérstaks saksóknara.
  8. Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum: Í stað orðsins „ríkislögreglustjóra“ í 3. mgr. 97. gr. laganna kemur: embætti sérstaks saksóknara.
  9. Lög um ársreikninga, nr. 3/2006: Í stað orðsins „ríkislögreglustjóri“ í 1. mgr. og orðsins „ríkislögreglustjóra“ í 6. mgr. 126. gr. laganna kemur: embætti sérstaks saksóknara, og: embættis sérstaks saksóknara.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Frá gildistöku þessa ákvæðis er embætti sérstaks saksóknara heimilt að undirbúa sameiningu embættis sérstaks saksóknara og efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, m.a. með því að bjóða embættismönnum og öðrum starfsmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra starf hjá embætti sérstaks saksóknara. Þó er ráðherra heimilt að flytja saksóknara frá embætti ríkislögreglustjóra á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til embættis ríkissaksóknara. Þeim sem ekki þiggja starf hjá embætti sérstaks saksóknara skal boðið annað starf innan lögreglunnar. Skulu þeir þá njóta sömu kjara og þeir njóta hjá ríkislögreglustjóra. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ekki um störf sem er ráðið í samkvæmt þessari málsgrein.
     Innanríkisráðherra skal skipa nefnd sérfróðra manna að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti til þess að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum og gera tillögur að heildarskipulagi slíkra rannsókna innan einnar stofnunar í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari og markvissari og tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru í þessu skyni. Skal nefndin í störfum sínum hafa hliðsjón af skipan efnahagsbrotarannsókna annars staðar á Norðurlöndum. Skal nefndin skila ráðherra tillögum ásamt greinargerð eigi síðar en einu ári frá gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 10. júní 2011.