Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1767, 139. löggjafarþing 706. mál: nálgunarbann og brottvísun af heimili (heildarlög).
Lög nr. 85 23. júní 2011.

Lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili.


I. KAFLI
Skilgreiningar og aðild.

1. gr.

     Með nálgunarbanni samkvæmt lögum þessum er átt við þau tilvik þegar manni er bannað að koma á tiltekinn stað eða svæði, veita eftirför, heimsækja eða setja sig með öðru móti í samband við annan mann.

2. gr.

     Með brottvísun af heimili samkvæmt lögum þessum er átt við þau tilvik þegar manni er vísað brott af heimili sínu eða dvalarstað og honum bannað að koma þangað aftur í tiltekinn tíma.

3. gr.

     Sá maður sem misgert er við, brotaþoli, fjölskylda hans eða annar honum nákominn, getur borið fram beiðni til lögreglu um að maður, sakborningur, sem brotið hefur gegn honum eða raskað friði hans á annan hátt, sæti nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili.
     Sömu heimild skv. 1. mgr. hefur lögráðamaður brotaþola og sá sem kemur fram fyrir hönd félagsþjónustu og/eða barnaverndarnefndar í sveitarfélagi þar sem viðkomandi er búsettur.
     Lögreglustjóri getur einnig að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögum þessum ef hann telur ástæðu til.

II. KAFLI
Skilyrði.

4. gr.

     Heimilt er að beita nálgunarbanni ef:
  1. rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða
  2. hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið.


5. gr.

     Heimilt er að beita brottvísun af heimili ef:
  1. rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot gegn ákvæðum XXII.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga og/eða 108. gr., 233. gr., 233. gr. b, 253. gr. og/eða 257. gr. sömu laga og verknaður hefur beinst að öðrum sem er honum nákominn og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, enda varði brotið fangelsi allt að sex mánuðum, eða
  2. hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið.

     Heimilt er að beita nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili ef það þykir nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni brotaþola.
     Lögreglu er heimilt að handtaka sakborning á heimili eða þar sem til hans næst í þágu meðferðar og ákvörðunar vegna nálgunarbanns og/eða brottvísunar af heimili.

6. gr.

     Nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili verður aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
     Við mat skv. 1. mgr. er heimilt að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili sem og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig háttað að hætta er talin á að hann muni fremja háttsemi sem lýst er í 4. gr. og 1. mgr. 5. gr.

III. KAFLI
Málsmeðferð hjá lögreglustjóra.

7. gr.

     Lögreglustjóri, eða löglærður fulltrúi hans, á heimilisvarnarþingi brotaþola tekur ákvörðun um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili, á grundvelli beiðni skv. 1. eða 2. mgr. 3. gr., eða ef ríkir almannahagsmunir, einkahagsmunir eða hagsmunir vegna rannsóknar og/eða dómsmeðferðar sakamáls krefjast þess.
     Hraða skal meðferð máls og taka ákvörðun skv. 1. mgr. svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en sólarhring eftir að beiðni hefur borist skv. 1. eða 2. mgr. 3. gr. eða mál komið upp með öðrum hætti.
     Nálgunarbanni skal markaður ákveðinn tími, þó ekki lengur en eitt ár í senn. Ekki er heimilt að framlengja nálgunarbann nema til komi ný ákvörðun, enda séu skilyrði 4. gr. enn þá fyrir hendi.
     Brottvísun af heimili skal markaður ákveðinn tími, þó ekki lengur en fjórar vikur í senn. Ekki er heimilt að framlengja brottvísun af heimili nema til komi ný ákvörðun, enda séu skilyrði 5. gr. enn þá fyrir hendi.

8. gr.

     Lögreglustjóra er skylt að tilnefna sakborningi verjanda vegna meðferðar máls samkvæmt lögum þessum og fer um slíka tilnefningu skv. IV. kafla laga um meðferð sakamála. Brotaþola skal jafnframt tilnefndur réttargæslumaður og fer um þá tilnefningu skv. V. kafla laga um meðferð sakamála.
     Nú skilur sakborningur eða brotaþoli íslensku ekki nægilega vel og skal þá lögregla, ef þess er talin þörf, kalla til löggiltan dómtúlk eða annan hæfan mann til að annast túlkun þess sem fram fer. Ef sakborningur eða brotaþoli er ekki fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli skal á sama hátt kallaður til kunnáttumaður til aðstoðar. Þóknun til handa túlki eða kunnáttumanni og annar kostnaður vegna starfa þeirra greiðist úr ríkissjóði. Um störf þeirra og hæfi gilda að öðru leyti ákvæði 12. gr. laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.

9. gr.

     Ákvörðun um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili skal vera skrifleg, rökstudd og tilgreina sakborning og brotaþola. Tímamörk, gildissvið og gildistaka nálgunarbanns og/eða brottvísunar skulu jafnframt tilgreind í ákvörðun.
     Ákvörðun skal birt fyrir sakborningi eða fyrir verjanda hans eða öðrum lögráða manni sem fengið hefur skriflegt umboð frá honum til að taka við birtingu. Réttaráhrif ákvörðunar miðast við birtingu ákvörðunar. Við birtingu skal leiðbeina um réttaráhrif ákvörðunar og málsmeðferð fyrir héraðsdómi skv. IV. kafla þessara laga.

10. gr.

     Beiðni skv. 1. eða 2. mgr. 3. gr. skal synjað ef skilyrði II. kafla laga þessara eru ekki talin vera fyrir hendi. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin.
     Nú er beiðni synjað og er lögreglustjóra þá skylt að tilkynna það brotaþola ásamt rökstuðningi. Skal brotaþola jafnframt bent á að honum sé heimilt að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því honum er tilkynnt um hana, eða hann fékk vitneskju um hana með öðrum hætti.
     Ríkissaksóknara ber að taka afstöðu til kærunnar innan viku frá því málsgögn vegna hinnar kærðu ákvörðunar berast frá lögreglustjóra. Felli ríkissaksóknari ákvörðun lögreglustjóra úr gildi skal lögreglustjóri leggja málið fyrir héraðsdóm samkvæmt reglum IV. kafla laga þessara nema ríkissaksóknari mæli fyrir um annað.

11. gr.

     Þegar ástæður þær sem lágu til grundvallar ákvörðun um beitingu úrræða skv. 4. gr. og/eða 5. gr. eru ekki lengur fyrir hendi skal lögreglustjóri fella bannið og/eða brottvísunina úr gildi með nýrri ákvörðun. Skylt er að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin.
     Nú er ákvörðun um úrræði skv. 4. gr. og/eða 5. gr. felld úr gildi og er lögreglu þá skylt að tilkynna það brotaþola og sakborningi ásamt rökstuðningi.
     Ákvörðun lögreglu um að fella úr gildi nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili verður ekki borin undir dómara en heimilt er að kæra hana eftir sömu reglum og gilda um kæru ákvörðunar lögreglu um að fella niður rannsókn sakamáls.

IV. KAFLI
Málsmeðferð fyrir dómi.

12. gr.

     Lögreglustjóri skal bera ákvörðun um beitingu úrræðis skv. 4. og/eða 5. gr. undir héraðsdóm til staðfestingar svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að ákvörðun var birt fyrir sakborningi. Hið sama gildir um ákvörðun um framlengingu nálgunarbanns og/eða brottvísunar.
     Málsmeðferð fyrir héraðsdómi frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar nema lögreglustjóri hafi ákveðið annað.

13. gr.

     Eftir að héraðsdómi hefur borist krafa lögreglustjóra ákveður dómari stað og stund þinghalds þar sem mál verður tekið fyrir. Þinghald skal háð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að gögn málsins hafa borist héraðsdómi.
     Dómari gefur út fyrirkall á hendur sakborningi sem greini stað og stund þinghalds ásamt áskorun til hans um að sækja þing. Telji dómari að afstaða sakbornings til kröfunnar liggi nægilega fyrir í gögnum lögreglu er dómara heimilt að taka fram í fyrirkalli að fjarvist sakbornings verði metin til jafns við afstöðu hans við meðferð máls hjá lögreglustjóra og að úrskurður kunni að ganga um málið þótt hann sæki ekki þing. Ella skal þess getið í fyrirkalli að lögregla megi færa sakborning fyrir dóm, með valdi ef með þarf, sinni hann því ekki.
     Dómari skal einnig tilkynna brotaþola, eða réttargæslumanni hans, hvenær þing verður háð.
     Fyrirkall skal birt fyrir sakborningi eða fyrir lögmanni hans eða öðrum lögráða manni sem fengið hefur skriflegt umboð frá honum til að taka við birtingu.

14. gr.

     Sakborningi skal skipaður verjandi vegna meðferðar máls fyrir dómi og fer um þá skipun skv. IV. kafla laga um meðferð sakamála. Brotaþola skal jafnframt skipaður réttargæslumaður og fer um þá skipun skv. V. kafla laga um meðferð sakamála.

15. gr.

     Um málsmeðferð fyrir héraðsdómi gilda ákvæði XV. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Ef sakborningur sækir þing við uppkvaðningu úrskurðar telst úrskurður birtur fyrir honum, enda standi honum þegar til boða endurrit úrskurðarins. Nú verður úrskurður ekki birtur á dómþingi og skal þá birta úrskurð fyrir sakborningi eða fyrir lögmanni hans eða öðrum lögráða manni sem fengið hefur skriflegt umboð frá honum til að taka við birtingu.
     Réttaráhrif úrskurðar héraðsdóms miðast við birtingu nema dómari hafi ákveðið annað.

V. KAFLI
Tengsl við sveitarfélög.

16. gr.

     Þegar manni hefur verið vísað brott af heimili sínu samkvæmt lögum þessum skal lögregla tilkynna brottvísunina til félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags. Í því skyni er lögreglu heimil miðlun upplýsinga um nöfn sakbornings og heimilisfólks að því marki sem hún verður talin nauðsynleg vegna vinnslu málsins.

17. gr.

     Ef barn býr á heimili þar sem brottvísun manns á sér stað skal lögregla ávallt tilkynna brottvísunina til barnaverndarnefndar. Hið sama gildir þegar manni er gert að sæta nálgunarbanni.

VI. KAFLI
Gildissvið og gildistaka.

18. gr.

     Ákvæði laga um meðferð sakamála gilda um málsmeðferð samkvæmt lögum þessum, eftir því sem við á og ekki er sérstaklega tilgreint í lögum þessum.

19. gr.

     Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 122/2008, um nálgunarbann.

20. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
  1. 1. mgr. 232. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, orðast svo:
  2.      Ef maður brýtur gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að 2 árum.
  3. Á eftir orðunum „um nálgunarbann“ í lokamálslið 37. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, með síðari breytingum, kemur: og brottvísun af heimili.

Samþykkt á Alþingi 10. júní 2011.