Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1938, 139. löggjafarþing 698. mál: ársreikningar (góðir stjórnunarhættir o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 118 26. september 2011.

Lög um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum (góðir stjórnarhættir o.fl.).


1. gr.

     Á eftir 66. gr. b laganna kemur ný grein er verður 66. gr. c og orðast svo ásamt fyrirsögn:
Góðir stjórnarhættir.
     Félag skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal árlega birta yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í sérstökum kafla í skýrslu stjórnar.
     Í yfirlýsingunni skal að lágmarki koma fram eftirfarandi:
  1. Tilvísanir í þær reglur sem og leiðbeiningar, handbækur og fleira um stjórnarhætti sem félagið fylgir eða fylgja ber samkvæmt lögum og upplýsingar um hvar slíkt er aðgengilegt almenningi. Víki félag frá reglum eða öðru skv. 1. málsl. í heild eða að hluta skal greina frá því hver frávikin eru og ástæðu fráviksins.
  2. Lýsing á helstu þáttum innra eftirlits og áhættustýringarkerfa félagsins í tengslum við samningu reikningsskila.
  3. Lýsing á samsetningu og starfsemi stjórnar, framkvæmdastjórnar og eftirlitsstjórnar og nefnda þeirra.

     Upplýsingar um móðurfélag skv. 2. mgr. skulu jafnframt birtar í skýrslu stjórnar með samstæðureikningi auk lýsingar á helstu þáttum innra eftirlits og áhættustýringarkerfa samstæðunnar í tengslum við samningu samstæðureiknings.

2. gr.

     Á eftir 3. mgr. 94. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
     Þegar um er að ræða félag sem er með skráða skrifstofu utan Evrópska efnahagssvæðisins en gefur út verðbréf sín sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi skal ársreikningaskrá hafa eftirlit með því hvort ársreikningur sem saminn er samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum heimaríkis er hliðstæður ákvæðum þessara laga. Ráðherra getur sett reglugerð um nánari ákvæði varðandi framkvæmd þessa eftirlits.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 128. gr. laganna:
  1. Í stað tilvísunarinnar „og 2004/109/EB“ kemur: 2004/109/EB og 2006/46/EB.
  2. Við greinina bætist: svo og reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. september 2011.