Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1442, 140. löggjafarþing 348. mál: siglingalög (tryggingar skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum, EES-reglur).
Lög nr. 46 13. júní 2012.

Lög um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985 (um tryggingar skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum).


1. gr.

     Á eftir 171. gr. laganna bætist við ný grein, 171. gr. a, með fyrirsögninni 1a. Ábyrgð á tjóni þriðja aðila og orðast svo:
     Útgerðarmenn íslenskra skipa sem eru 300 brúttótonn og stærri og útgerðarmenn allra erlendra skipa af sömu stærð sem koma í íslenskar hafnir skulu tryggja skip sín tryggingu vegna tjóns sem þeir valda þriðja aðila með skipum sínum. Þetta tekur þó ekki til herskipa, aðstoðarskipa sjóherja eða annarra skipa í eigu eða rekstri EES-ríkis sem hið opinbera starfrækir ekki í ábataskyni. Útgerðarmaður telst sá sem er skráður eigandi skips eða sérhver annar einstaklingur eða lögaðili, svo sem leigutaki þurrleiguskipa, sem ber ábyrgð á rekstri skipsins.
     Skylda skv. 1. mgr. hefur ekki áhrif á fyrirkomulagið sem komið hefur verið á með þeim gerningum sem eru í gildi samkvæmt alþjóðasamningi um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar frá 1992, alþjóðasamningi um bótaskyldu og skaðabætur fyrir tjón í tengslum við flutning hættulegra og skaðvænlegra efna á sjó frá 1996 (HNS-samningurinn), alþjóðasamningi um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum mengunar sem stafar frá eldsneytisolíu skipa frá 2001, Naíróbísamþykktinni um fjarlægingu skipsflaka frá 2007 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 392/2009 frá 23. apríl 2009 um bótaábyrgð flutningsaðila vegna slysa við farþegaflutninga á sjó, eins og ákvæði þeirra hafa verið innleidd í íslenskan rétt.
     Tilvist tryggingarinnar skv. 1. mgr. skal staðfest með einu eða fleiri skírteinum sem tryggingafélagið gefur út og skulu þau geymd um borð í skipinu.
     Í skírteinunum, sem tryggingafélagið gefur út, skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
  1. nafn skipsins, IMO-númer þess og heimahöfn,
  2. nafn útgerðarmanns og aðalstarfsstöð,
  3. tegund tryggingar og gildistími hennar,
  4. heiti tryggingafélagsins og aðalstarfsstöð þess og ef við á sú starfsstöð sem gefur trygginguna út.

     Ef tungumálið sem notað er á skírteini skv. 4. mgr. er hvorki enska, franska né spænska þarf textinn einnig að vera þýddur á eitt þessara mála.
     Með tryggingu er átt við tryggingu með eða án sjálfsábyrgðar sem samanstendur t.d. af vátryggingu af þeirri tegund sem meðlimir í International Group of P&I Clubs veita og öðrum skilvirkum tegundum trygginga (þ.m.t. staðfestri sjálfsáhættutryggingu) ásamt fjárhagslegri tryggingu með svipuð skilyrði tryggingaverndar.
     Tryggingin skal taka til sjóréttarkrafna sem eru háðar takmörkunum samkvæmt LLMC-samningnum frá 1996. Tryggingarfjárhæðin fyrir hvert og eitt skip í tengslum við hvert atvik skal vera jöfn viðeigandi hámarksfjárhæð fyrir takmörkun á ábyrgð, eins og mælt er fyrir um í samningnum frá 1996, þ.e. uppfærðum texta úr samningnum um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum frá 1976 sem Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) samþykkti eins og honum var breytt með bókuninni frá 1996.
     Við framkvæmd hafnarríkiseftirlits skal Siglingastofnun Íslands sjá til þess að sérhver skoðun skips, sem er í höfn í samræmi við ákvæði reglugerðar um hafnarríkiseftirlit, feli í sér staðfestingu þess efnis að skírteini skv. 3. mgr. sé um borð. Ef skírteinið er ekki um borð getur Siglingastofnun Íslands kveðið á um brottvísun skipsins sem skal tilkynnt framkvæmdastjórn ESB, öðrum EES-ríkjum og hlutaðeigandi fánaríki, sbr. þó reglugerð um hafnarríkiseftirlit þar sem kveðið er á um kyrrsetningu skipa af öryggisástæðum. Þegar slík ákvörðun um brottvísun er gefin út skulu EES-ríki meina skipi aðgang að höfnum sínum þar til útgerðarmaðurinn tilkynnir um skírteini sem um getur í 3. mgr.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 172. gr. laganna:
  1. Síðari málsliður a-liðar 1. tölul. 2. mgr. orðast svo: Með maka er hér einnig átt við einstakling í óvígðri sambúð, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi viðkomandi barn saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár.
  2. Í stað orðanna „næstlægsta launaflokki Dagsbrúnar (efsta starfsaldursþrepi)“ í 4. mgr. kemur: launavísitölu.


3. gr.

     Á eftir 243. gr. laganna bætist við ný grein, 243. gr. a, sem orðast svo:
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB frá 23. apríl 2009 um tryggingar skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010 sem birt var 10. júní 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30/2010.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. október 2012.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2012.