Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1536, 140. löggjafarþing 686. mál: greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota (hækkun hámarksgreiðslna o.fl.).
Lög nr. 54 22. júní 2012.

Lög um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, með síðari breytingum (hækkun hámarksgreiðslna o.fl.).


1. gr.

     Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki verða þó greiddar bætur fyrir varanlegan miska nema hann sé að lágmarki 5% og ekki verða greiddar bætur fyrir varanlega örorku nema hún sé að lágmarki 15%.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 7. gr. laganna:
  1. B-liður orðast svo: 5.000.000 kr. fyrir líkamstjón, þ.m.t. fyrir varanlegan miska og varanlega örorku.
  2. Í stað „600.000“ í c-lið kemur: 3.000.000.
  3. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: 1.500.000 kr. vegna útfararkostnaðar.


3. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Eigi ríkissjóður endurkröfu á hendur tjónþola á grundvelli 19. gr. skal hún dregin frá ákvarðaðri fjárhæð bóta til hans. Bótanefnd er heimilt að veita undanþágu frá þessu ef veigamikil rök mæla með því. Skal þá meðal annars horft til aldurs tjónþola og félagslegra aðstæðna.

4. gr.

     Við 19. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Endurkröfur ríkissjóðs skv. 1. mgr. skulu vera aðfararhæfar.
     Bótanefnd er heimilt að fela innheimtuaðila að annast innheimtu fyrir hönd tjónþola vegna þess sem fellur utan greiðslu ríkissjóðs. Þetta gildir þó aðeins ef bætur eru ákvarðaðar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. og krafan er ekki fyrnd. Heimilt er að taka gjald fyrir umrædda þjónustu sem ákveða skal nánar í reglugerð.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. júní 2012.