Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 810, 141. löggjafarþing 446. mál: alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands (hlutverk þróunarsamvinnunefndar).
Lög nr. 161 29. desember 2012.

Lög um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, með síðari breytingum (hlutverk Þróunarsamvinnunefndar).


1. gr.

     3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Alþingi kýs sjö fulltrúa til setu í Þróunarsamvinnunefnd til fjögurra ára í senn og sjö fulltrúa til vara, sbr. 4. gr. Nefndin kýs sér formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Ráðherra tilnefnir einn fulltrúa til starfa með nefndinni. Jafnframt situr forstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands eða fulltrúi hans fundi nefndarinnar. Hlutverk Þróunarsamvinnunefndar er að tryggja aðkomu fulltrúa þingflokka að stefnumarkandi umræðu og ákvörðunum ráðherra um alþjóðlega þróunarsamvinnu til lengri tíma, m.a. um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu, framlög til þróunarsamvinnu og skiptingu þeirra milli marghliða og tvíhliða samvinnu, forgangsröðun í þróunarsamvinnu, þ.m.t. um þátttöku Íslands í starfi fjölþjóðastofnana, og um val á samstarfslöndum, sbr. 3. og 4. gr. Enn fremur fjallar nefndin um starfsáætlanir á sviði þróunarsamvinnu, svo sem marghliða samvinnu á vegum ráðuneytisins og tvíhliða samvinnu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þróunarsamvinnunefnd kemur saman til fundar að jafnaði mánaðarlega. Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggur nefndinni til aðstöðu og greiðir kostnað vegna starfsemi hennar. Nefndin upplýsir utanríkismálanefnd reglulega um störf sín.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 2012.