Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1272, 141. löggjafarþing 449. mál: sveitarstjórnarlög (rafrænar íbúakosningar og rafrænar kjörskrár).
Lög nr. 28 22. mars 2013.

Lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum (heimild til rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
     Í þeim tilgangi að styðja við framkvæmd rafræns lýðræðis í sveitarfélögum getur ráðherra heimilað, að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar, að íbúakosning á grundvelli X. kafla sveitarstjórnarlaga fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn.
     Ráðuneytið skal í reglugerð mæla nánar fyrir um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga og gerð rafrænnar kjörskrár, þar á meðal um gerð og notkun rafrænnar kjörskrár, viðmiðunardag kjörskrár, auglýsingu um kjörskrá og heimild til breytingar á henni, um skipan og starfshætti kjörstjórna, meðferð kjörgagna, tímafresti, öryggi við framkvæmd sem tryggir leynd kosninga, gerð kosningakerfa, dulkóðun og framkvæmd öryggisúttektar, kröfur til auðkenningar, framkvæmd talningar, kosningakærur og eyðingu gagna úr kosningakerfum að afloknum kosningum. Að öðru leyti gilda ákvæði 107. gr. um framkvæmd rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár.
     Í reglugerðinni skal einnig mælt fyrir um hlutverk Þjóðskrár Íslands, þar á meðal um gerð og umsjón vefsvæðis, auðkenningu, uppflettingu í þjóðskrá og talningu. Þjóðskrá Íslands er heimilt að taka gjald í samræmi við gjaldskrá stofnunarinnar fyrir þá þjónustu sem stofnunin veitir vegna undirbúnings og framkvæmdar rafrænna íbúakosninga skv. 1. mgr. og rafrænna undirskriftasafnana skv. 108. gr., svo og fyrir gerð rafrænnar kjörskrár skv. 1. mgr.
     Sveitarstjórn er heimilt að beita ákvæðum reglugerðarinnar við framkvæmd rafrænna íbúakannana eftir því sem við á.
     Sveitarstjórn er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að miða kosningaaldur í íbúakosningu við 16 ár.
     Til að vera ráðherra til ráðgjafar og til að fylgjast með framkvæmd rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár sem og að sinna öðrum verkefnum sem ráðherra felur henni á þessu sviði skal ráðherra skipa þriggja manna ráðgjafanefnd. Einn skal skipa samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tvo án tilnefningar. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2013 og gilda til 31. maí 2018.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 2013.