Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1391, 141. löggjafarþing 680. mál: tekjuskattur (vaxtabætur vegna lánsveða).
Lög nr. 43 5. apríl 2013.

Lög um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (vaxtabætur vegna lánsveða).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ríkisskattstjóri skal ákvarða sérstakar vaxtabætur, lánsveðsvaxtabætur, til handa manni sem hefur tekið fasteignaveðlán til kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sem tryggt er með veði í fasteign í eigu annars einstaklings. Skilyrði er að íbúðarhúsnæðið hafi verið í eigu hans á tímabilinu frá og með 1. janúar 2009 til og með 31. desember 2010, um lengri eða skemmri tíma, að eftirstöðvar allra fasteignaveðlána vegna sama húsnæðis hafi þá verið umfram 110% af fasteignamati og einnig að hann hafi ekki fengið höfuðstól þeirra lána lækkaðan við sölu eða á annan hátt fyrir gildistöku laga þessara.
     Ákvæðið gildir einungis um fasteignaveðlán sem stofnað var til vegna fasteignakaupa sem fóru fram á tímabilinu 1. janúar 2004 til og með 31. desember 2008.
     Lánsveðsvaxtabætur skulu nema 2% af mismun á eftirstöðvum allra fasteignaveðlána 31. desember 2010 og 110% af fasteignamati þeirrar fasteignar sem lánið var tekið til kaupa eða byggingar á miðað við sömu dagsetningu. Hafi íbúðarhúsnæðið verið selt á árunum 2009 eða 2010 skal reikna lánsveðsvaxtabætur hlutfallslega í samræmi við samanlagðan eignarhaldstíma á þeim árum og eftirstöðvar fasteignaveðlána og fasteignamat eins og það var við sölu.
     Lánsveðsvaxtabætur mega ekki vera hærri en 160 þús. kr. hjá einstaklingi og 280 þús. kr. hjá hjónum og sambúðarfólki samkvæmt hjúskaparstöðu 31. desember 2010.
     Lánsveðsvaxtabætur samkvæmt ákvæði þessu skerða ekki rétt til annarra vaxtabóta og geta komið til viðbótar þeim.
     Sá sem rétt kann að eiga til lánsveðsvaxtabóta skal sækja um þær til ríkisskattstjóra eigi síðar en 15. september 2013 og leggja fram þau gögn sem ríkisskattstjóri telur nauðsynleg til ákvörðunar bótanna. Ríkisskattstjóra er heimilt að taka til greina beiðni um lánsveðsvaxtabætur sem berst eftir þetta tímamark í allt að tvö ár.
     Lánveitendur lána samkvæmt ákvæði þessu skulu að beiðni lántakenda afla og afhenda ríkisskattstjóra þau gögn sem hann telur nauðsynleg vegna ákvörðunar lánsveðsvaxtabóta. Gögnin skulu afhent á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Ákvörðun lánsveðsvaxtabóta samkvæmt ákvæði þessu skal fara fram eigi síðar en 17. mars 2014. Heimilt er að kæra ákvörðun bóta samkvæmt ákvæði þessu til yfirskattanefndar.
     Ákvörðun lánsveðsvaxtabóta fer að öðru leyti eftir B-lið 68. gr., sbr. og ákvæði til bráðabirgða XLI, eftir því sem við á.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 27. mars 2013.