Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1382, 141. löggjafarþing 417. mál: skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins (afnám greiðslumiðlunar).
Lög nr. 44 5. apríl 2013.

Lög um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum (greiðslumiðlun).


1. gr.

     II. kafli laganna, Um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, fellur brott.

2. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur, svo og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu, skulu greiða tiltekið hlutfall, allt að 0,5% af samanlögðu verðmæti þess afla sem þeir taka við af opnum bátum, þilfarsbátum undir 10 lestum og krókaaflamarksbátum, inn á reikning tilgreindra samtaka útgerðaraðila, enda hafi útgerðaraðili, eða samtök útgerðaraðila fyrir hans hönd samkvæmt umboði, óskað eftir því að svo verði gert.
     Samtök útgerðaraðila skulu láta framleiðendum sjávarafurða og öðrum fiskkaupendum í té skrá yfir þá útgerðaraðila sem hafa óskað þess að greiða gjald skv. 1. mgr. inn á reikning þeirra. Samtökin skulu leitast við að hafa með sér samvinnu um gerð slíkrar skrár svo að einungis verði til ein skrá um gjaldendur. Færsla á skrána felur í sér staðfestingu þess að útgerðaraðili óski þess að greiða gjald skv. 1. mgr. Á skránni skulu koma fram upplýsingar um hversu hátt álagningarhlutfall skv. 1. mgr. skal vera. Heimilt er að birta skrána á netinu. Gjaldanda skal heimilt að segja sig frá greiðslu samkvæmt skránni án tillits til samþykkta þeirra samtaka sem hann kann að eiga aðild að. Uppsögnin öðlast gildi í upphafi annars mánaðar frá því að beiðni þar um var send viðkomandi samtökum.
     Þegar framleiðandi sjávarafurða veðsetur framleiðslu sína við töku afurðaláns hjá viðskiptabanka skal það ekki standa í vegi ráðstöfunar skv. 1. mgr. Greiðsla skal innt af hendi innan 14 daga frá því að fiskur var afhentur. Sama skylda hvílir á þeim sem taka fisk í umboðssölu.
     Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2016.

4. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um skiptaverðmæti.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.

6. gr.

     Við gildistöku þessara laga falla úr gildi lög um greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa, nr. 17/1976, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 27. mars 2013.