Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1356, 141. löggjafarþing 288. mál: opinber innkaup (meðferð kærumála, EES-reglur).
Lög nr. 58 9. apríl 2013.

Lög um breytingar á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup (aukin skilvirkni í meðferð kærumála).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Öll innkaup á vörum yfir 11.500.000 kr. og kaup á þjónustu yfir 14.900.000 kr. og verkum yfir 28.000.000 kr. skal bjóða út eða gera í samræmi við þau innkaupaferli sem nánar er kveðið á um í V. kafla.
 3. Í stað ártalsins „2009“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 2015.


2. gr.

     42. gr. laganna orðast svo:
     Skylt er að krefjast þess í útboðsgögnum að bjóðandi upplýsi hvaða hluta samnings hann hyggst láta þriðja aðila framkvæma sem undirverktaka og skulu þær upplýsingar liggja fyrir áður en samningur er undirritaður. Bjóðandi skal jafnframt upplýsa verkkaupa um hvaða undirverktaka hann hyggst nota og leita samþykkis verkkaupa áður en undirverktaki hefur störf. Upplýsingar bjóðanda um undirverktaka skulu ekki hafa áhrif á ábyrgð bjóðanda gagnvart kaupanda. Undirverktaka skal í öllum tilvikum byggjast á skriflegum verksamningi.

3. gr.

     73. gr. laganna orðast svo:
     Þegar tilboð virðist óeðlilega lágt með hliðsjón af vöru, verki eða þjónustu sem kaupa á skal kaupandi, áður en hann getur vísað þessu tilboði frá, óska eftir nákvæmri, skriflegri lýsingu á þeim efnisþáttum tilboðsins sem hann telur skipta máli. Þessar upplýsingar geta einkum varðað:
 1. hagkvæmni byggingaraðferðar, framleiðsluferlis eða þjónustu,
 2. tæknilegar lausnir, sem hafa verið valdar, og/eða hvers konar óvenjulega hagstæðar aðstæður bjóðanda við framkvæmd verks, afhendingu vöru eða veitingu þjónustu,
 3. frumleika í tillögum bjóðanda varðandi verk, vöru eða þjónustu,
 4. samræmi við gildandi ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði á staðnum þar sem framkvæmd verks, afhending vöru eða veiting þjónustu fer fram,
 5. laun, önnur starfskjör og aðbúnað starfsfólks,
 6. möguleika bjóðanda á því að fá ríkisaðstoð.

     Kaupandi skal sannreyna efnisþætti tilboðs með viðræðum við bjóðanda, að teknu tilliti til þeirra gagna sem hafa verið lögð fram.
     Komist kaupandi að þeirri niðurstöðu að tilboð sé óeðlilega lágt vegna þess að bjóðandi hafi hlotið ríkisaðstoð verður boði hans því aðeins hafnað að bjóðanda hafi ekki tekist, innan hæfilegs frests sem ákveðinn var eftir að bjóðanda var gefinn kostur á að tjá sig, að sýna fram á að ríkisstyrkur hafi verið löglega veittur. Ef kaupandi vísar tilboði frá við þessar aðstæður skal hann tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um þá ákvörðun.
     Kaupanda er skylt að rökstyðja ákvörðun um að hafna tilboði á þeim grundvelli að það sé óeðlilega lágt. Upplýsingar sem kaupandi fær samkvæmt þessari grein skal fara með sem trúnaðarmál.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 75. gr. laganna:
 1. 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Í tilkynningu um ákvörðun um val tilboðs skv. 1. mgr. skal koma fram nafn þess bjóðanda sem var valinn og upplýsingar um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi með hliðsjón af valforsendum útboðsgagna. Í slíkri tilkynningu skal einnig koma fram yfirlýsing um nákvæman biðtíma samningsgerðar skv. 76. gr.
 4. Í stað tilvísunarinnar „2. mgr.“ í 3. mgr., sem verður 4. mgr., kemur: 3. mgr.
 5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 6.      Tilkynningu skv. 1. og 2. mgr. skal senda öllum fyrirtækjum sem ekki hefur verið hafnað eða vísað frá innkaupaferli með endanlegri ákvörðun. Ákvörðun um útilokun telst ekki endanleg fyrr en hún hefur verið tilkynnt bjóðanda og frestir til að bera hana undir kærunefnd útboðsmála eru runnir út eða hún hefur verið staðfest af nefndinni.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 76. gr. laganna:
 1. Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Óheimilt er að gera samning í kjölfar ákvörðunar um val tilboðs fyrr en að liðnum tíu daga biðtíma frá deginum eftir að tilkynning skv. 1. og 2. mgr. 75. mgr. telst birt. Biðtíma telst þó ætíð lokið þegar liðnir eru fimmtán dagar frá deginum eftir sendingu tilkynningar að telja. Um birtingu rafrænna tilkynninga, þar á meðal tilkynninga með símbréfi, fer eftir fyrirmælum 39. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 51/2003.
       Biðtími skv. 1. mgr. gildir ekki í eftirfarandi tilvikum:
  1. Við gerð samnings sem heimilt er að gera án undangenginnar útboðsauglýsingar.
  2. Við gerð samnings þar sem endanlega liggur fyrir að aðeins einn bjóðandi eða þátttakandi er fyrir hendi.
  3. Við gerð samnings á grundvelli gagnvirks innkaupakerfis skv. 35. gr. eða rammasamnings skv. 34. gr.

 3. Við 2. mgr., sem verður 3. mgr., bætast fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar kaupanda er ekki unnt að taka afstöðu til tilboða innan tilboðsfrests er heimilt að óska eftir því að bjóðendur framlengi tilboð sín í stuttan tíma. Skilyrði er að fyrir liggi samþykki allra þátttakenda eða málefnalegar ástæður réttlæti framlengingu. Með sama skilyrði er heimilt að óska eftir því, eftir að tilboðsfrestur hefur runnið út, að bjóðendur lýsi því yfir að tilboð þeirra séu að nýju gild, þó aðeins í mjög stuttan tíma. Þegar samningur hefur verið lýstur óvirkur samkvæmt ákvæðum XV. kafla er heimilt að samþykkja það tilboð sem hefði með réttu átt að velja án tillits til tilboðsfrests.
 4. Fyrirsögn greinarinnar verður: Biðtími samningsgerðar og samþykkt tilboðs.


6. gr.

     Við 77. gr. laganna bætist nýr málsliður sem verður 1. málsl., svohljóðandi: Ráðningarsamband milli aðila er meginregla í samskiptum starfsmanna og atvinnurekenda.

7. gr.

     83. gr. laganna orðast svo:
     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að grípa til þeirrar málsmeðferðar sem kveðið er á um í 2.–4. mgr. ef stofnunin telur, áður en samningur hefur verið gerður, að við framkvæmd innkaupaferlis sem fellur undir tilskipunina eins og hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn hafi verið framið alvarlegt brot gegn reglum EES-samningsins um opinber innkaup. Ráðherra skal vera í fyrirsvari fyrir íslenska ríkið við þessa málsmeðferð. Í þágu þessarar málsmeðferðar er ráðherra heimilt að stöðva um stundarsakir útboð eða annað innkaupaferli eftir að tilkynning Eftirlitsstofnunar EFTA hefur borist.
     Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnir íslenska ríkinu um ástæður fyrir því að stofnunin telur að alvarlegt brot hafi verið framið og fer fram á að það verði leiðrétt með viðeigandi hætti. Eigi síðar en 21 degi eftir að tilkynningin berst skal ráðuneytið senda eftirlitsstofnuninni staðfestingu á því að bætt hafi verið úr brotinu, rökstudda greinargerð um ástæður þess að engar úrbætur hafi verið gerðar eða tilkynningu um að innkaupaferli og gerð samnings hafi verið stöðvuð um stundarsakir, hvort heldur er fyrir atbeina ráðherra eða kærunefndar útboðsmála.
     Greinargerð um ástæður þess að engar úrbætur hafi verið gerðar getur grundvallast á því að brot sé þegar til umfjöllunar hjá kærunefnd útboðsmála eða dómstólum eða þá að úrlausn kærunefndar hafi verið borin undir dómstóla. Við þessar aðstæður skal ráðuneytið tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um niðurstöðu slíks máls um leið og hún verður kunn.
     Þegar tilkynnt hefur verið um stöðvun innkaupaferlis um stundarsakir, sbr. 2. mgr., skal ráðuneytið tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um það þegar stöðvun er aflétt eða innkaupaferli vegna sömu innkaupa, að hluta eða í heild, er hafið á ný. Í þessari tilkynningu skal greint frá því að úrbætur hafi verið gerðar eða færðar fram ástæður fyrir því hvers vegna það hefur ekki verið gert.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Í kærunefnd útboðsmála sitja þrír menn og jafnmargir til vara skipaðir af ráðherra eftir tilnefningu Hæstaréttar til fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmanna, og varamenn þeirra, skulu fullnægja skilyrðum laga til að gegna embætti héraðsdómara og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Þriðji nefndarmaður og varamaður hans skulu hafa alhliða reynslu og þekkingu á viðskiptum. Nefndarmenn skulu vera óháðir hagsmunum ríkis og annarra opinberra aðila.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Hlutverk kærunefndar útboðsmála er að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunarinnar, tilskipunar 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, svo og annarra EES-gerða sem þar er vísað til.
 5. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 6.      Kærunefnd útboðsmála fjallar aðeins um lögmæti innkaupa sveitarfélaga að því marki sem þau falla undir 3. þátt laganna.


9. gr.

     92. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Skipan kærunefndar í einstökum málum og sérfræðileg ráðgjöf.
     Í málum sem varða verulega hagsmuni eða teljast að öðru leyti mikilvæg frá sjónarhóli almannahagsmuna getur formaður ákveðið að nefndin sé skipuð tveimur mönnum til viðbótar við fasta nefndarmenn. Skal a.m.k. annar þeirra fullnægja skilyrðum laga til að gegna embætti héraðsdómara og skulu þeir settir til að fara með málið eftir tilnefningu Hæstaréttar Íslands.
     Formaður getur ákveðið að kalla til ráðgjafar og aðstoðar nefndinni sérfróða aðila. Skulu þeir starfa með nefndinni eftir nánari ákvörðun formanns sem jafnframt ákveður þeim þóknun.

10. gr.

     Á eftir 1. mgr. 93. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þegar um er að ræða ætlað brot gegn skyldu til að nota lögákveðið innkaupaferli eða auglýsa innkaup eru lögvarðir hagsmunir þó ekki skilyrði kæru. Ráðherra er einnig heimil kæra vegna slíkra brota án tillits til lögvarinna hagsmuna.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 94. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Kæra skal borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Kröfu um óvirkni samnings er þó heimilt að bera undir nefndina innan 30 daga frá framangreindu tímamarki. Þó verður krafa um óvirkni samnings ekki höfð uppi þegar sex mánuðir eru liðnir frá gerð hans. Við nánari ákvörðun frestsins gildir eftirfarandi:
  1. Þegar kærð er ákvörðun um val tilboðs eða aðrar ákvarðanir sem um ræðir í 1. og 2. mgr. 75. gr. skal miða upphaf frests við birtingu þeirra tilkynninga sem þar greinir, enda hafi þær að geyma tilskildar upplýsingar.
  2. Þegar höfð er uppi krafa um óvirkni samnings sem gerður hefur verið án undanfarandi útboðsauglýsingar skal miða upphaf frests við eftirfarandi birtingu tilkynningar um gerð samningsins í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, enda komi þar fram rökstuðningur ákvörðunar kaupanda um að auglýsa ekki innkaup.

 3. Í stað lokamálsliðar 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Kröfugerð kæranda skal lúta að úrræðum nefndarinnar samkvæmt lögum þessum. Kærandi skal tilkynna kaupanda um kæru eins skjótt og mögulegt er.
 4. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Fyrir hverja kæru skal greiða kærugjald að fjárhæð 150.000 kr.


12. gr.

     Á eftir 94. gr. laganna kemur ný grein, 94. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Réttaráhrif kæru.
     Nú er ákvörðun um val tilboðs kærð innan lögboðins biðtíma skv. 76. gr., og er þá gerð samnings óheimil þar til kærunefnd útboðsmála hefur endanlega leyst úr kærunni. Sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar vegna kæru tekur gildi þegar kaupanda má vera kunnugt um kæruna, hvort heldur er vegna tilkynningar kæranda skv. 2. mgr. 94. gr. eða tilkynningar kærunefndar skv. 1. mgr. 95. gr.
     Kærunefnd getur, hvort heldur er að kröfu varnaraðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð. Við slíka ákvörðun gilda ákvæði 96. gr. eftir því sem við á. Ákvörðun kærunefndar um að aflétta banni við samningsgerð tekur aldrei gildi fyrr en að loknum biðtíma samningsgerðar skv. 76. gr.
     Að öðru leyti en leiðir af 1. mgr. hefur kæra ekki í för með sér sjálfkrafa stöðvun innkaupaferlis.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 95. gr. laganna:
 1. 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. falla brott.
 2. Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú er mál rekið fyrir kærunefnd útboðsmála þar sem taka þarf afstöðu til skýringar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið og getur þá nefndin í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta. Hvort sem aðili máls krefst að slíks álits verði leitað eða nefndin telur þess þörf án kröfu skal gefa aðilum kost á að tjá sig áður en úrskurður er kveðinn upp.


14. gr.

     Á eftir 95. gr. laganna kemur ný grein, 95. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Varnaraðild.
     Varnaraðili máls skal vera kaupandi eða fleiri kaupendur sameiginlega, ef því er að skipta. Ef Ríkiskaup eða önnur miðlæg innkaupastofnun í skilningi laga þessara hefur annast innkaup telst sú stofnun einnig varnaraðili máls fyrir nefndinni. Heimilt er kaupanda að fela miðlægri innkaupastofnun fyrirsvar vegna reksturs máls fyrir kærunefnd útboðsmála.
     Nú hefur annað fyrirtæki, svo sem annar bjóðandi í útboði eða þátttakandi í forvali vegna lokaðs útboðs, í samkeppnisviðræðum eða í samningskaupum, lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu máls hjá nefndinni og skal það þá einnig talið aðili til varnar.

15. gr.

     96. gr. laganna orðast svo:
     Að kröfu kæranda er kærunefnd útboðsmála heimilt að stöðva innkaupaferli um stundarsakir, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögum þessum við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Sama á við um brot gegn ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum eða brot gegn reglum settum samkvæmt lögunum. Við mat á því hvort stöðva beri samningsgerð um stundarsakir er heimilt að líta til þeirra einka- og almannahagsmuna sem í húfi eru og hafna kröfu ef þessir hagsmunir eru taldir meiri en hagsmunir fyrirtækis af því að fá kröfunni framgengt.
     Um kröfu kæranda gilda ákvæði 94. og 95. gr. eftir því sem við á. Frestur varnaraðila til að tjá sig um kröfu kæranda skal þó vera skammur og er heimilt að víkja alfarið frá honum ef um er að ræða skýrt og augljóst brot. Aðili máls getur krafist þess að nefndin rökstyðji ákvörðun samkvæmt þessari grein skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.
     Kærunefnd er heimilt að ákveða í starfsreglum sínum skv. 99. gr. að formaður nefndarinnar taki einn ákvarðanir samkvæmt þessari grein.
     Synjun kröfu um stöðvun um stundarsakir hefur ekki áhrif á aðrar kröfur sem kærandi kann að hafa uppi vegna innkaupa.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Nefndin getur með úrskurði fellt úr gildi ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa, að hluta eða í heild, lýst samning óvirkan samkvæmt nánari ákvæðum 100. gr. a –100. gr. c og/eða kveðið á um önnur viðurlög skv. 100. gr. d.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., skal ekki vera því til fyrirstöðu að lagt sé lögbann við athöfn sem brjóta mundi gegn úrskurði kærunefndar útboðsmála.


17. gr.

     100. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Gildi samninga.
     Eftir að bindandi samningur samkvæmt lögum þessum hefur komist á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.
     Um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögum þessum, fer að öðru leyti eftir almennum reglum fjármunaréttar.
     Ákvæðum þessa kafla um óvirkni samninga verður beitt án tillits til gildis skv. 2. mgr.

18. gr.

     Við lögin bætast fjórar nýjar greinar, 100. gr. a – 100. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (100. gr. a.)
Óvirkni samninga.
     Kærunefnd útboðsmála getur lýst samning óvirkan samkvæmt ákvæðum þessarar greinar en þó aðeins samning sem er yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 78. gr. Úrskurður um óvirkni samnings hefur þau áhrif að réttindi og skyldur samkvæmt aðalefni samnings falla niður. Óvirkni samnings skal takmörkuð við þær greiðslur sem enn hafa ekki farið fram. Að því er varðar greiðslur sem þegar hafa farið fram skal kærunefnd kveða á um önnur viðurlög skv. 100. gr. d. Kærunefnd skal tilgreina frá hvaða tímamarki samningur er lýstur óvirkur og/eða hvaða nánari hlutar samnings eru óvirkir.
     Kærunefnd útboðsmála skal lýsa samning óvirkan í eftirfarandi tilvikum:
 1. Þegar samningur, þar á meðal samningur sem fellur undir reglur XI. kafla um gerð sérleyfissamninga um verk og hönnunarsamkeppni, hefur verið gerður heimildarlaust án auglýsingar í andstöðu við lög þessi eða reglur settar samkvæmt þeim.
 2. Þegar samningur hefur verið gerður á biðtíma samningsgerðar skv. 76. gr. eða meðan á stöðvun samningsgerðar skv. 94. gr. a stendur þannig að:
  1. kæranda hefur verið fyrirmunað að leita réttar síns með kæru áður en samningur var gerður,
  2. fyrir liggur brot á lögum þessum og/eða reglum settum samkvæmt þeim og
  3. brotið var til þess fallið að hafa áhrif á möguleika kæranda til að hljóta samning.
 3. Þegar samningur, yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 78. gr., hefur verið gerður á grundvelli rammasamnings í andstöðu við ákvæði 6. mgr. 34. gr. eða innan gagnvirks innkaupakerfis skv. 5. og 6. mgr. 35. gr.
 4. Þegar samningur hefur verið gerður þótt innkaupaferli, útboð eða samningsgerð hafi verið stöðvuð um stundarsakir af kærunefnd útboðsmála skv. 96. gr.

     
     b. (100. gr. b.)
Undantekningar frá óvirkni samninga eftir tilkynningu án skyldu.
     Samningur skal ekki lýstur óvirkur ef öllum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
 1. Innkaup eru talin heimil án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar.
 2. Kaupandi hefur birt tilkynningu skv. 3. mgr. þess efnis að hann hyggist gera samning um innkaup.
 3. Samningur hefur verið gerður að loknum biðtíma sem er að lágmarki tíu dagar frá opinberri birtingu tilkynningar.

     Samningur sem gerður hefur verið á grundvelli rammasamnings eða virks innkaupakerfis skal ekki lýstur óvirkur ef öllum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
 1. Talið er að fullnægt hafi verið ákvæðum 6. mgr. 34. gr. og 5. og 6. mgr. 35. gr.
 2. Kaupandi hefur sent tilkynningu um val tilboðs skv. 75. gr. til þeirra bjóðenda sem hagsmuna eiga að gæta.
 3. Samningur hefur verið gerður að loknum biðtíma skv. 76. gr.

     Í tilkynningu kaupanda um að hann hyggist gera samning um innkaup, sbr. b-lið 1. mgr., skal gera grein fyrir kaupanda, efni samnings, fyrirhuguðum viðsemjanda og ástæðum þess að talið er heimilt að gera samning án undangenginnar útboðsauglýsingar. Auk þess skulu koma fram aðrar viðeigandi upplýsingar ef því er að skipta. Við birtingu tilkynninga skal fylgja reglum um birtingu almennra útboðsauglýsinga, sbr. 55. og 79. gr., eftir því sem við á.
     
     c. (100. gr. c.)
Almenn heimild til að víkja frá óvirkni samninga.
     Nú telur kærunefnd útboðsmála að brýnir almannahagsmunir geri áframhaldandi framkvæmd samningsins nauðsynlega og er henni þá heimilt að hafna óvirkni þótt skilyrðum 100. gr. b sé fullnægt. Kærunefnd getur m.a. heimilað áframhaldandi framkvæmd samnings um tiltekið skeið sem tekur mið af því að kaupanda hafi gefist færi á að ljúka nýju innkaupaferli vegna sömu innkaupa innan ákveðins tíma. Nýti kærunefnd þessa heimild skal hún kveða á um önnur viðurlög skv. 100. gr. d.
     Fjárhagslegir hagsmunir af því að samningur sé framkvæmdur skulu aðeins teljast brýnir í undantekningartilvikum þegar afleiðingar óvirkni samnings yrðu úr hófi. Fjárhagslegir hagsmunir sem tengjast samningnum sjálfum teljast ekki brýnir almannahagsmunir, t.d. kostnaður vegna tafa á framkvæmd efnis samnings, kostnaður vegna nýs innkaupaferlis, kostnaður vegna nýs viðsemjanda eða kostnaður vegna lagalegra afleiðinga óvirkni samnings.
     Kærunefnd útboðsmála skal senda Eftirlitsstofnun EFTA árlega endurrit allra úrskurða þar sem heimild 1. mgr. hefur verið beitt.
     
     d. (100. gr. d.)
Önnur viðurlög: Stjórnvaldssektir og stytting samnings.
     Kærunefnd útboðsmála skal leggja stjórnvaldssektir á kaupanda vegna samnings sem er yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 78. gr., í eftirgreindum tilvikum:
 1. Þegar samningur hefur verið gerður á biðtíma samningsgerðar skv. 76. gr. eða meðan á stöðvun samningsgerðar stóð skv. 1. mgr. 94. gr. a eða 96. gr., en skilyrðum fyrir óvirkni er ekki fullnægt.
 2. Þegar samningur er ekki lýstur óvirkur frá upphafi eða aðeins að hluta, sbr. 1. mgr. 100. gr. a.
 3. Þegar óvirkni er hafnað, að hluta eða í heild, með vísan til brýnna almannahagsmuna, sbr. 100. gr. c.
Þegar fleiri kaupendur standa að innkaupum sameiginlega skal ákveða sekt fyrir hvern og einn kaupanda. Sama á við ef Ríkiskaup eða önnur miðlæg innkaupastofnun hefur annast innkaup. Stjórnvaldssekt skal nema allt að 10% af ætluðu virði samnings. Við ákvörðun á fjárhæð sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brots, ferli kaupanda og hvort og að hvaða marki samningur hefur verið látinn halda virkni sinni.
     Tollstjóri annast innheimtu stjórnvaldssekta sem renna til ríkissjóðs. Sektirnar eru gjaldkræfar einum mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar. Gera má aðför, án undangengins dóms, til fullnustu úrskurðar um stjórnvaldssekt. Kærunefnd útboðsmála skal tilkynna tollstjóra um uppkvaðningu úrskurðar um stjórnvaldssekt.
     Í stað stjórnvaldssektar, að hluta eða í heild, er kærunefnd heimilt að stytta gildistíma samnings ef talið er að slík ákvörðun sé í samræmi við eðli brotsins og hafi í för með sér nægileg varnaðaráhrif.

19. gr.

     Fyrirsögn XV. kafla laganna verður: Gildi samninga, óvirkni, önnur viðurlög og skaðabætur.

20. gr.

     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/66/EB um breytingu á tilskipunum ráðsins 89/665/EBE og 92/13/EB að því er varðar aukna skilvirkni í meðferð kærumála vegna gerðar opinberra samninga, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2011 sem birt var 6. október 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54/2011.

21. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 18. gr. öðlast gildi 1. september 2013.
     Um innkaup sem hafa verið auglýst fyrir gildistöku laga þessara fer eftir þágildandi ákvæðum laga nr. 84/2007. Miða skal við opinbera birtingu útboðsauglýsingar eða áætlaða móttöku þátttakenda á tilkynningu ef um er að ræða innkaupaferli þar sem útboðsauglýsingar eru ekki birtar opinberlega.
     Breytingar sem lög þessi hafa í för með sér á málsmeðferðarreglum kærunefndar útboðsmála gilda um meðferð kærunefndar útboðsmála á kærum um útboð sem auglýst eru eftir gildistöku laga þessara.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Einum mánuði eftir gildistöku laga þessara skal ráðherra skipa nýja kærunefnd útboðsmála skv. 8. gr. og fellur þá niður skipun núverandi kærunefndar útboðsmála.

Samþykkt á Alþingi 26. mars 2013.