Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 124, 142. löggjafarþing 14. mál: Hagstofa Íslands (upplýsingar um fjárhagsmálefni).
2013  nr. 104  . júlí

Lög um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, með síðari breytingum (tölfræðilegar upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja).


1. gr.

     Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Óheimilt er að afhenda þær öðrum stjórnvöldum, ákvæði annarra laga um aðgang stjórnvalda að gögnum víkja fyrir þessu ákvæði og þær lúta ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum.

2. gr.

     Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:
     Brjóti starfsmenn Hagstofu Íslands gegn þagnarskylduákvæðum 10. og 11. gr. fer um refsiábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Þegar um er að ræða upplýsingar sem falla undir 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, varðar brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum.

3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Stjórnvöldum er heimilt að greina skulda-, greiðslu- og eiginfjárstöðu heimila og lögaðila með það að markmiði að stuðla að því að ákvarðanir um úrræði í þágu skuldugra heimila og lögaðila byggist á traustum grunni. Í því skyni er Hagstofu Íslands veitt heimild til að afla upplýsinga og vinna úr þeim samkvæmt ákvæði þessu í þeim tilgangi að vinna tölfræðiskýrslur sem nýtast til að fylgjast með framgangi og meta áhrif aðgerða stjórnvalda og annarra á hag heimila og lögaðila. Tölfræðiskýrslurnar skulu byggjast á gagnasöfnun sem tekur til lána sem eru útistandandi frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2017. Þó er einnig heimilt að afla upplýsinga um lán sem hafa verið greidd upp eða hefur verið breytt vegna úrræða í þágu skuldara allt frá 31. desember 2006.
     Hagstofu Íslands er heimilt að kalla eftir upplýsingum frá Íbúðalánasjóði, fjármálafyrirtækjum, þ.m.t. þeim sem stýrt er af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lífeyrissjóðum, Lánasjóði íslenskra námsmanna og öðrum fyrirtækjum og opinberum aðilum, sem stunda lánastarfsemi í atvinnuskyni eða samkvæmt lögum, um lánveitingar þeirra til einstaklinga og lögaðila. Undir slíka upplýsingagjöf falla einvörðungu upplýsingar um grunnforsendur láns, þ.e. hver sé lántaki, stöðu láns, skilmála, upphafs- og lokagjalddaga, fjölda afborgana, vaxtakjör, tegund lántöku, afborganir og innáborganir, verðbætur og áfallna vexti, greiðslueiginleika, veð og tryggingar að því er varðar lán til húsnæðiskaupa, vanskil og úrræði í þágu skuldara sem tengjast láninu, auk upplýsinga um uppgreiðslu. Hagstofu Íslands er heimilt að tengja upplýsingar sem fengnar eru á grundvelli þessarar málsgreinar við upplýsingar sem hún hefur aflað frá öðrum opinberum aðilum, sbr. 9. gr. Á grundvelli upplýsinga samkvæmt þessari málsgrein er Hagstofu Íslands heimilt að gefa með reglulegu millibili út tölfræðiskýrslur um fjárhag heimila og lögaðila. Hagstofa Íslands skal tryggja að upplýsingaöflun, samtenging og úrvinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur til að þjóna markmiðum skv. 1. mgr. og tryggja að ekki verði unnt að rekja upplýsingar í birtum skýrslum eða rannsóknum til einstaklinga, heimila eða lögaðila.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og önnur lagaákvæði um þagnarskyldu er lögaðilum skv. 2. mgr. skylt að afhenda Hagstofu Íslands umbeðnar upplýsingar. Afhending upplýsinga skal vera án endurgjalds.
     Tryggja skal að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga sem Hagstofa Íslands aflar á grundvelli 2. mgr. Setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við 11.– 13. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og reglur sem settar hafa verið á þeim grundvelli.
     Hagstofa Íslands skal eyða gögnum sem hægt er að rekja til einstaklinga, heimila eða lögaðila einu og hálfu ári eftir fyrstu útgáfu á niðurstöðum hvers tímabils og eigi síðar en í árslok 2018. Persónuvernd skal hafa eftirlit með eyðingu gagnanna.
     Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2018.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. september 2013.