Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1262, 143. löggjafarþing 220. mál: opinber innkaup (innkaup á sviði varnarmála, EES-reglur).
Lög nr. 65 28. maí 2014.

Lög um breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup (innkaup á sviði öryggis- og varnarmála).


1. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Með fyrirvara um ákvæði 9. gr. gilda ákvæði XIV. og XV. kafla um innkaup á sviði varnar- og öryggismála sem falla undir gildissvið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013. Að öðru leyti taka lögin ekki til slíkra innkaupa.
     Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um innkaup á sviði varnar- og öryggismála sem falla undir gildissvið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB, til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði opinberra innkaupa samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum milliríkjasamningum. Í reglugerð skal jafnframt kveðið nánar á um réttarúrræði vegna slíkra innkaupa.

2. gr.

     Á eftir orðinu „póstþjónustu“ í 2. mgr. 91. gr. laganna kemur: tilskipunar 2009/81/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 102. gr. laganna:
  1. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Innleidd er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 frá 14. júní 2013.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Innleiðing.


4. gr.

     Við lögin bætist nýtt fylgiskjal, II, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Breyting á tilskipun 2004/18/EB.
     Í stað 10. gr. tilskipunar 2004/18/EB komi eftirfarandi:
     10. gr. Samningar á sviði varnar- og öryggismála
     Með fyrirvara um [123. gr. EES-samningsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006] gildir þessi tilskipun um opinbera samninga, sem gerðir eru á sviði varnar- og öryggismála, að undanskildum samningum sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála gildir um.
     Þessi tilskipun gildir ekki um samninga sem tilskipun 2009/81/EB gildir um skv. 8., 12. og 13. gr. hennar.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 2014.