Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1516, 144. löggjafarþing 672. mál: siglingalög (bótaábyrgð farsala o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 49 8. júlí 2015.

Lög um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum (ábyrgð farsala o.fl., EES-innleiðing).


1. gr.

     Á eftir 136. gr. laganna kemur ný grein, 136. gr. a, og jafnframt ný millifyrirsögn, 2a. Skip í millilandasiglingum og skip í innanlandssiglingum í flokki A og B, á undan henni, svohljóðandi:
     Um skip sem flytja farþega og farangur í millilandasiglingum og skip sem flytja farþega og farangur í innanlandssiglingum í flokki A og B, sbr. flokkun farþegaskipa í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/45/EB frá 6. maí 2009 um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip (endurútgáfa) eins og hún er innleidd hér á landi, gilda ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 392/2009 frá 23. apríl 2009, um bótaábyrgð flutningsaðila vegna slysa við farþegaflutninga á sjó, að því leyti sem hún mælir fyrir um sérreglur gagnvart ákvæðum þessa kafla.
     Samgöngustofa annast framkvæmd og eftirlit með ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 392/2009.
     Ráðherra er heimilt að gefa út reglugerð um form, efni, útgáfu og kostnað við útgáfu skírteina sem staðfesta að skip hafi gildandi vátryggingu eða aðra fjárhagslega tryggingu í samræmi við ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 392/2009.

2. gr.

     Á eftir 241. gr. laganna kemur ný grein, 241. gr. a, svohljóðandi:
     Vanræki útgerðarmaður að tryggja skip sitt, sbr. 1. mgr. 171. gr. a, varðar það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum.
     Ef útgerðarmaður, í merkingu laga þessara, er ekki einstaklingur eiga refsiákvæði 1. mgr. við um framkvæmdastjóra viðkomandi útgerðarfyrirtækis eða einstakling í sambærilegri stöðu.

3. gr.

     243. gr. a laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Innleiðing á EES-gerðum.
     Í lögum þessum eru eftirfarandi EES-gerðir innleiddar í íslenskan rétt:
  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB frá 23. apríl 2009 um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010.
  2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 392/2009 frá 23. apríl 2009 um bótaábyrgð flutningsaðila vegna slysa við farþegaflutninga á sjó eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2011.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. koma til framkvæmda gagnvart skipum í flokki A frá 30. desember 2016 og gagnvart skipum í flokki B frá 30. desember 2018.

Samþykkt á Alþingi 30. júní 2015.