Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1605, 144. löggjafarþing 629. mál: verndarsvæði í byggð (vernd sögulegra byggða, heildarlög).
Lög nr. 87 13. júlí 2015.

Lög um verndarsvæði í byggð.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um byggð innan þéttbýlis og byggðarkjarna utan þéttbýlis sem ástæða er til að varðveita vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum hafa eftirfarandi hugtök svofellda merkingu:
  1. Byggðarkjarni: Samstæða mannvirkja utan þéttbýlis sem mynda byggðarheild.
  2. Listrænt gildi: Gildismat sem tekur til listfræði og byggingarlistar.
  3. Menningarsaga: Saga menningar og lífshátta á fyrri tíð sem endurspeglast í manngerðu umhverfi á tilteknum stað. Gildi hennar felst m.a. í möguleika fólks til að upplifa og skynja áþreifanlega tengsl við liðna tíma og horfnar kynslóðir.
  4. Svipmót: Einkennandi yfirbragð byggðar sem birtist m.a. í ríkjandi formgerðum húsa, afstöðu þeirra innbyrðis og rýmismyndun, stærðarhlutföllum, byggingarstíl, efnis- og litavali og sambandi byggðar og náttúrulegs umhverfis.
  5. Varðveislugildi: Niðurstaða mats á mörgum mismunandi gildum sem áhrif geta haft á varðveislu byggðar, svo sem listrænu gildi, menningarsögulegu gildi, svipmóti, umhverfisgildi og upprunaleika.
  6. Verndarsvæði í byggð: Afmörkuð byggð með varðveislugildi sem nýtur verndar samkvæmt ákvörðun ráðherra á grundvelli laga þessara.


4. gr.

Ákvörðun um verndarsvæði í byggð.
     Sveitarstjórn skal að loknum sveitarstjórnarkosningum meta hvort innan staðarmarka sveitarfélagsins sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu svipmóts og menningarsögu varðar, ásamt listrænu gildi, að ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð.
     Sveitarstjórn skal á fjögurra ára fresti, að loknum sveitarstjórnarkosningum, endurmeta þau verndarsvæði sem fyrir eru í sveitarfélaginu með tilliti til þess hvort auka eigi við þau eða breyta mörkum þeirra að öðru leyti.
     Sinni sveitarstjórn ekki skyldu skv. 1. mgr. um mat á gildi byggðar getur ráðherra falið Minjastofnun Íslands að meta gildi byggðar innan staðarmarka sveitarfélagsins og hvort ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð.
     Ráðherra getur einnig falið Minjastofnun Íslands að útbúa tillögu um að tiltekin byggð, sem að mati ráðherra hefur varðveislugildi á landsvísu, verði gerð að verndarsvæði í byggð.
     Ráðherra tekur ákvörðun um vernd byggðar að fenginni tillögu sveitarstjórnar eða Minjastofnunar Íslands. Greinargerð um mat á varðveislugildi svæða í byggð skv. 5. gr. skal fylgja tillögunni. Ákvörðun ráðherra skal birt í Stjórnartíðindum með auglýsingu.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um tilhögun og efni tillagna til ráðherra og um efni ákvörðunar ráðherra, þar á meðal skilmála og skilyrði.

5. gr.

Mat á varðveislugildi svæða í byggð.
     Við mat á varðveislugildi svæða í byggð skal líta til gagna sem eru til um hið fyrirhugaða verndarsvæði, þar á meðal korta, húsakannana, fornleifaskráningar, mynda og frásagna um byggðina. Jafnframt skal litið til byggingarstíls og byggingarlistar, efnisvals og samhengis bygginga á viðkomandi svæði auk heildarásýndar svæðisins.
     Minjastofnun Íslands er sveitarstjórn til ráðgjafar um mat á varðveislugildi svæða í byggð.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd mats á varðveislugildi svæða í byggð, efni greinargerðar til ráðherra, efni auglýsingar um tillögu að verndarsvæði og framkvæmd tengda slíkri auglýsingu að öðru leyti.
     Sveitarstjórn skal auglýsa tillögu um að byggð innan staðarmarka sveitarfélagsins verði gerð að verndarsvæði í byggð á áberandi hátt, svo sem í staðarblaði eða með sérstöku kynningarefni sem aðgengilegt er íbúum sveitarfélagsins, eigi skemur en í sex vikur. Þá skal tillagan jafnframt liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins eða á öðrum opinberum stað og vera auk þess aðgengileg á netinu.
     Þegar frestur til athugasemda er liðinn skal sveitarstjórn taka tillögu um verndarsvæði til umræðu og taka afstöðu til þeirra athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni.

6. gr.

Takmarkanir innan verndarsvæða í byggð.
     Bannað er að rýra varðveislugildi verndarsvæðis í byggð.
     Sveitarstjórn skal tryggja að allar framkvæmdir innan verndarsvæðis í byggð samrýmist svipmóti og hinni vernduðu menningarsögu á viðkomandi verndarsvæði.
     Óheimilt er að breyta, bæta, rífa niður eða fjarlægja mannvirki sem eru innan verndarsvæða í byggð nema með leyfi sveitarstjórnar. Ekki má veita leyfi ef varðveislugildi verndarsvæðisins er stefnt í hættu eða rýrt með hinni fyrirhuguðu framkvæmd.
     Áður en sveitarstjórn tekur ákvörðun um leyfi til framkvæmda skal auglýsa hina fyrirhuguðu framkvæmd og veita almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn áður en ákvörðun er tekin um framkvæmdina.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um sjónarmið sem sveitarstjórnir skulu líta til við mat á því hvort leyfa eigi framkvæmd innan verndarsvæða í byggð, hvað koma skuli fram í auglýsingu um fyrirhugaða framkvæmd, svo og hvar nálgast megi uppdrætti og önnur gögn um framkvæmdina.

7. gr.

Samþykkt sveitarfélags.
     Sveitarfélögum er heimilt að setja sér samþykkt um frekari vernd svipmóts byggðar en mælt er fyrir um í ákvörðun ráðherra skv. 5. mgr. 4. gr. og að gera framkvæmdir sem snerta svipmót byggðar og mælt er fyrir um í samþykkt leyfisskyldar skv. 3. mgr. 6. gr.
     Getur samþykkt skv. 1. mgr. lotið að formgerð húsa, afstöðu þeirra innbyrðis og rýmismyndun, stærðarhlutföllum, byggingarstíl, lit, áferð og efnisvali ytra byrðis húsa auk sambands byggðar og náttúrulegs umhverfis innan verndarsvæða í byggð sem samþykktin tekur til. Getur slík samþykkt tekið til verndarsvæðis í heild eða að hluta.
     Samþykkt sveitarfélags skal send ráðherra til staðfestingar. Ráðherra leitar umsagnar Minjastofnunar Íslands áður en hann staðfestir samþykktina.
     Ráðherra metur hvort samþykkt sé í samræmi við varðveislugildi svæðis skv. 5. gr. Synji ráðherra staðfestingar þar sem samþykktin samræmist ekki varðveislugildi svæðisins endursendir hann samþykktina til sveitarstjórnar með leiðbeiningum um hvað þurfi til svo að til staðfestingar komi.
     Staðfestar samþykktir sveitarfélaga samkvæmt þessari grein skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.

8. gr.

Nauðsynleg verk innan verndarsvæða í byggð.
     Ef eigandi mannvirkis innan verndarsvæðis í byggð hefur framkvæmdir án leyfis sem rýra varðveislugildi viðkomandi svæðis að mati sveitarstjórnar er henni heimilt að láta vinna verk á kostnað eiganda mannvirkis að undangenginni áskorun um að úr verði bætt innan hæfilegs frests, ef það er nauðsynlegt til að tryggja varðveislugildi svæðisins. Ákvörðun sveitarstjórnar er háð samþykki ráðherra.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd slíkrar heimildar sveitarstjórnar.

9. gr.

Tengsl verndarsvæða í byggð við skipulagsáætlanir og friðlýsingar.
     Sveitarstjórn skal tryggja að ákvörðun ráðherra um verndarsvæði í byggð endurspeglist í skipulagsáætlunum, öðrum áætlunum og leyfisveitingum sveitarfélagsins.
     Ákvörðun ráðherra um verndarsvæði í byggð kemur ekki í veg fyrir að einstök hús, mannvirki og fornleifar innan viðkomandi svæðis séu friðlýst sérstaklega á grundvelli laga um menningarminjar.

10. gr.

Refsiákvæði.
     Það varðar sektum að hefja framkvæmdir innan verndarsvæðis í byggð án þess að fyrir liggi leyfi viðkomandi sveitarstjórnar fyrir framkvæmd skv. 3. mgr. 6. gr., enda sé brot framið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða getur refsing orðið fangelsi allt að fjórum árum. Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila má gera honum sekt, enda hafi brot orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Um refsiábyrgð lögaðila fer að öðru leyti eftir 19. gr. c almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

12. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á skipulagslögum, nr. 123/2010, með síðari breytingum:
  1. Við 6. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um verndarsvæði í byggð samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð.
  2. Við 6. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal gætt ákvæða laga um verndarsvæði í byggð.
  3. Orðin „og varðveislugildi“ í 2. málsl. 5. mgr. 37. gr. laganna falla brott.


Samþykkt á Alþingi 2. júlí 2015.