Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 925, 145. löggjafarþing 375. mál: siglingalög o.fl. (réttindi farþega skipa, gerðarviðurkenning, skilgreiningar o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 12 10. mars 2016.

Lög um breytingu á siglingalögum, umferðarlögum og lögum um rannsókn samgönguslysa vegna innleiðingar EES-reglna (réttindi farþega skipa, gerðarviðurkenning, skilgreiningar o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

1. gr.

     Á eftir 148. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 148. gr. a og 148. gr. b, ásamt millifyrirsögn, svohljóðandi:
3a. Réttindi farþega samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010.
     a. (148. gr. a.)
     Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010 frá 24. nóvember 2010 um réttindi farþega sem ferðast á sjó eða skipgengum vatnaleiðum, að undanskildum viðaukum, skal hafa lagagildi hér á landi að því er varðar farþega:
 1. í farþegaflutningum ef höfn þar sem farið er um borð er hér á landi eða í öðru EES-ríki,
 2. í farþegaflutningum ef höfn þar sem farið er frá borði er hér á landi eða í öðru EES-ríki, að því tilskildu að flutningsaðili á Evrópska efnahagssvæðinu starfræki flutninginn, eins og hann er skilgreindur í e-lið 3. gr. reglugerðarinnar,
 3. í skemmtisiglingu ef höfn þar sem farið er um borð er hér á landi eða í öðru EES-ríki. Ákvæði 2. mgr. 16. gr., 18. gr., 19. gr. og 1. og 4. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar gilda þó ekki um þessa farþega.

     Reglugerðin, sbr. 1. mgr., gildir ekki um farþega:
 1. í skipum sem mega ekki flytja fleiri en 12 farþega,
 2. í skipum þar sem í áhöfn, sem ber ábyrgð á siglingunni, eru ekki fleiri en þrír eða heildarlengd siglingar með farþega er styttri en 500 metrar (aðra leið),
 3. í skoðunar- og kynnisferðum, að undanskildum skemmtisiglingum, eða
 4. í skipum sem eru ekki vélknúin eða sögufrægum farþegaskipum frá því fyrir 1965 sem eru í upprunalegri gerð eða endursmíðuð að mestu leyti úr upprunalegu efni og mega ekki flytja fleiri en 36 farþega.

     Ráðherra er heimilt að gefa út reglugerð til nánari framkvæmdar á reglugerð (ESB) nr. 1177/2010, m.a. um rétt til endurgreiðslu eða breytinga á ferð, aðstoð í höfnum og um borð í skipum, og meðferð kvartana og tímafresti, sbr. 148. gr. b laga þessara.
     
     b. (148. gr. b.)
     Samgöngustofa annast framkvæmd og eftirlit með ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010.
     Samgöngustofa skal birta á vefsíðu sinni yfirlit yfir helstu réttindi og skyldur sem felast í reglugerðinni.
     Telji farþegar að flutningsaðili, ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjandi eða rekstraraðili samgöngumiðstöðvar hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010, sbr. 148. gr. a laga þessara, eða reglugerðum settum á grundvelli 3. mgr. þeirrar greinar, getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Samgöngustofu um að hún láti málið til sín taka.
     Berist Samgöngustofu slík kvörtun skal hún m.a. leita álits viðkomandi þjónustuveitanda á kvörtuninni, ganga úr skugga um að upplýsingar sem þar eru veittar eigi við rök að styðjast og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan og markvissan hátt.
     Náist ekki samkomulag skv. 4. mgr. skal Samgöngustofa ljúka málinu með rökstuddu áliti. Áliti Samgöngustofu verður ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.

2. gr.

     Á eftir 242. gr. laganna kemur ný grein, 242. gr. a, svohljóðandi:
     Brot gegn ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010, sbr. 148. gr. a laga þessara, varðar sektum.

3. gr.

     Við 243. gr. a laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010 frá 24. nóvember 2010 um réttindi farþega sem ferðast á sjó eða skipgengum vatnaleiðum, að undanskildum viðaukum, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 116/2015.

II. KAFLI
Breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Skilgreiningin Bifhjól orðast svo: Vélknúið ökutæki sem ekki telst bifreið, torfærutæki eða dráttarvél, er aðallega ætlað til fólks- eða vöruflutninga og er á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, eða á þremur, fjórum eða fleiri hjólum.
 2. Skilgreiningin Torfærutæki orðast svo: Vélknúið ökutæki sem ekki telst bifreið, bifhjól eða dráttarvél, er aðallega ætlað til fólks- eða vöruflutninga utan vega og/eða til að draga annað ökutæki og er á hjólum eða er búið beltum og eftir atvikum stýrimeiðum/stýrihjólum.


5. gr.

     65. gr. laganna orðast svo:
     Framleiðandi, fulltrúi framleiðanda, innflytjandi eða dreifingaraðili skráningarskylds ökutækis skal við beiðni um skráningu framvísa lögmæltum upplýsingum um gerðarviðurkenningu, gögnum um prófunarniðurstöður og öðrum nauðsynlegum gögnum sem varða tækniupplýsingar um ökutækið. Það varðar viðurlögum að halda leyndum gögnum eða framvísa röngum gögnum sem gætu valdið innköllun, synjun eða afturköllun gerðarviðurkenningar. Sama á við um gögn er varða kerfi, íhluti, aðskildar tæknieiningar eða annan búnað ökutækis sem þarfnast viðurkenningar.
     Það varðar viðurlögum að setja á markað ökutæki, kerfi, íhluti eða aðskildar tæknieiningar sem þarf að viðurkenna án þess að slík viðurkenning liggi fyrir eða falsa gögn eða merkingar í þessum tilgangi.

III. KAFLI
Breyting á lögum um rannsókn samgönguslysa, nr. 18/2013, með síðari breytingum.

6. gr.

     Eftirfarandi orðskýringar bætast við 3. gr. laganna og jafnframt verði orðskýringum lagagreinarinnar raðað í rétta stafrófsröð:
 1. Alvarlegt sjóslys: Sjóslys sem leiðir til elds, sprengingar, ásiglingar, strands, skemmda vegna óveðurs, skemmda vegna íss, sprungu í bol eða gruns um galla í skipsbol og veldur:
  1. stöðvun aðalvéla, miklum skemmdum á vistarverum, alvarlegum bolskemmdum svo að skipið er ekki lengur haffært, t.d. þegar gat kemur á bolinn undir sjólínu; eða
  2. mengun (án tillits til magns); og/eða
  3. bilun með þeim afleiðingum að taka þarf skipið í drátt eða aðstoðar er þörf frá landi.
 2. Flugatvik: Atvik, annað en flugslys, sem tengist starfrækslu loftfars og hefur eða getur haft áhrif á öryggi starfrækslunnar.
 3. Mjög alvarlegt sjóslys: Sjóslys þar sem skip ferst, mannskaði verður eða meiri háttar mengun.


7. gr.

     Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við ákvarðanir um rannsókn skal nefndin m.a. taka tillit til alvarleika og umfangs samgönguslyss eða samgönguatviks og annarra þátta sem skipt geta máli, og þess hvaða lærdóm má draga af slíkri rannsókn og hversu líklegt sé að niðurstöður rannsóknar leiði til þess að slíkt samgönguslys og samgönguatvik hendi ekki aftur.

8. gr.

     Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Rannsóknarskylda vegna flugslysa og alvarlegra flugatvika.
     Rannsóknarnefndin skal annast rannsókn í kjölfar flugslysa og alvarlegra flugatvika. Um rannsókn flugatvika fer skv. 2. mgr. 4. gr.

9. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Lögsaga rannsóknarnefndar tekur til allra sjóslysa og sjóatvika þar sem íslensk skip eiga í hlut, enn fremur allra sjóslysa og sjóatvika sem verða í landhelgi og innsævi Íslands eða varða aðra verulega hagsmuni Íslands.

10. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Rannsóknarskylda vegna mjög alvarlegra sjóslysa og alvarlegra sjóslysa.
     Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal annast rannsókn í kjölfar mjög alvarlegra sjóslysa þar sem íslenskt skip á í hlut, óháð slysstað, enn fremur sjóslysa sem verða á íslensku yfirráðasvæði, óháð fána skips eða skipa sem hlut áttu að slysinu, eða þar sem verulegir hagsmunir Íslands eru í húfi, óháð slysstað og fána skips eða skipa sem hlut áttu að slysinu.
     Verði alvarlegt sjóslys skal rannsóknarnefndin framkvæma bráðabirgðamat á því hvort ástæða sé til að rannsókn fari fram eða ekki. Ákveði rannsóknarnefndin að efni séu til rannsóknar skal tilkynna um ástæðu þeirrar ákvörðunar í samræmi við málsmeðferð sem ráðherra mælir fyrir um í reglugerð.

11. gr.

     18. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Þátttaka erlendra ríkja í rannsókn máls og samstarf við erlend ríki.
     Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal veita yfirvöldum í ríki sem á mikilla hagsmuna að gæta af rannsókn rétt til að taka þátt í rannsókn máls. Nefndin skal leita samkomulags við viðkomandi ríki um hlut þess í rannsókninni og, ef við á, hvaða ríki stýri rannsókninni.
     Fulltrúar erlendra ríkja sem eiga mikilla hagsmuna að gæta af rannsókn skulu bundnir þagnarskyldu í samræmi við 9. gr.
     Rannsóknarnefndin skal að öðru leyti eiga eins mikið samstarf og auðið er við þau ríki sem eiga mikilla hagsmuna að gæta í tengslum við rannsókn máls.

12. gr.

     Við 1. mgr. 27. gr. laganna bætast fjórir nýir stafliðir, svohljóðandi:
 1. öðrum skýrslum, yfirlýsingum, frásögnum og athugasemdum sem rannsóknarnefndin skráir við rannsókn máls;
 2. upplýsingum sem leiða í ljós deili á einstaklingum sem hafa borið vitni í tengslum við rannsókn máls;
 3. efni sem verður til meðan á rannsókn stendur, svo sem athugasemdum, drögum, áliti sem rannsakandi skrifar niður og áliti sem látið er í ljós við greiningu upplýsinga;
 4. drögum að bráðabirgðaskýrslum eða lokaskýrslum eða bráðabirgðayfirlýsingum.


13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
 1. Á undan orðinu „bókun“ í 3. mgr. kemur: einfaldaðri skýrslu eða.
 2. Í stað orðsins „yfirlýsingu“ 2. málsl. 4. mgr. kemur: bráðabirgðaskýrslu eða bráðabirgðayfirlýsingu.


14. gr.

     Við 35. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Rannsóknarnefndin skal, eftir því sem við á, gefa út tilmæli á grundvelli kannana, greininga á rannsóknum, heildarniðurstaðna rannsókna eða annarra aðgerða.
     Í tilmælum skal ekki kveða á um eða skapa forsendu fyrir skiptingu ábyrgðar eða sakar vegna samgönguslysa og samgönguatvika.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun um að endurupptaka mál eða synjun um endurupptöku máls skal rökstudd sérstaklega.
 2. 2. og 3. mgr. falla brott.


16. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 1. mars 2016.