Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1294, 145. löggjafarþing 648. mál: niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar (styrkur til hitaveitna).
Lög nr. 41 27. maí 2016.

Lög um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002 (styrkur til hitaveitna).


1. gr.

     Á eftir 1. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir 1. mgr. getur styrkur til hitaveitu numið allt að 16 ára áætluðum niðurgreiðslum skv. 1. mgr. ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
  1. Viðkomandi hitaveita er í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila.
  2. Viðkomandi hitaveita hefur ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélags og skal sýna fram á getu til að standa undir skuldbindingum sínum með rekstraráætlun til 16 ára.
  3. Viðkomandi hitaveita hefur fengið einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitu samkvæmt orkulögum, nr. 58/1967, og uppfyllir því skilyrði 2. mgr. 32. gr. þeirra laga um að uppdrættir og áætlanir séu tæknilega réttar, hitaveitan verði þjóðhagslega hagkvæmt fyrirtæki, fullnægi hitaþörf svæðisins og að tryggður sé eðlilegur og truflanalaus rekstur, eftir því sem aðstæður leyfa.
  4. Tryggt er að styrkurinn sé einungis til þess fallinn að eigandi (eigendur) hitaveitunnar fái lágmarksarð af fjárfestingunni.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Um framkvæmdir sem eru í undirbúningi eða eru þegar hafnar fer samkvæmt ákvæðum laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 17. maí 2016.