Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1397, 145. löggjafarþing 742. mál: lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (menntun lögreglu).
Lög nr. 61 10. júní 2016.

Lög um breytingu á lögreglulögum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (menntun lögreglu).


I. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður, h-liður, svohljóðandi: að starfrækja mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu, sbr. VIII. kafla.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
 1. Orðin „skólastjóri Lögregluskóla ríkisins“ í 1. mgr. falla brott.
 2. Í stað orðanna „Lögregluskóla ríkisins“ í 8. mgr. kemur: lögreglufræðum.


3. gr.

     Í stað orðanna „a-, b-, c- og d-liðum 2. mgr. 38. gr. laganna“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: a-, b-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 38. gr.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „lögreglustjórar“ í 2. mgr. kemur: og.
 2. Orðin „og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins“ í 2. mgr. falla brott.
 3. Á eftir orðunum „Lögregluskóla ríkisins“ í a-lið 3. mgr. kemur: eða diplómaprófi í lögreglufræðum sem jafngildir a.m.k. 120 stöðluðum námseiningum, sbr. ákvæði laga um háskóla, nr. 63/2006, þ.m.t. starfsnám á vegum lögreglunnar.
 4. Við 2. málsl. 4. mgr. bætist: eða diplómaprófi í lögreglufræðum sem jafngildir a.m.k. 120 stöðluðum námseiningum, þ.m.t. starfsnám á vegum lögreglunnar.
 5. Í stað orðanna „prófi frá Lögregluskóla ríkisins, enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. 38. gr. laganna og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins er tiltækur í stöðuna“ í 5. mgr. kemur: prófi frá Lögregluskóla ríkisins eða diplómaprófi í lögreglufræðum sem jafngildir a.m.k. 120 stöðluðum námseiningum, þ.m.t. starfsnám á vegum lögreglunnar, enda fullnægi hann skilyrðum í a-, b-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 38. gr. og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins eða diplómapróf í lögreglufræðum sem jafngildir a.m.k. 120 stöðluðum námseiningum, þ.m.t. starfsnám á vegum lögreglunnar, er tiltækur í stöðuna.


5. gr.

     VIII. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Menntun lögreglu, orðast svo:
     
     a. (36. gr.)
Áætlun um endurnýjun í lögreglu ríkisins.
     Ríkislögreglustjóri gerir ár hvert greiningu á æskilegum fjölda nemenda í starfsnámi hjá lögreglu á grundvelli áætlunar um endurnýjun í lögreglu ríkisins. Hafa skal þá greiningu til hliðsjónar við mat á inntöku nema í starfsnám hjá lögreglu ár hvert.
     
     b. (37. gr.)
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu.
     1. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu starfar innan embættis ríkislögreglustjóra.
     2. Hlutverk mennta- og starfsþróunarseturs er m.a.:
 1. að annast starfsnám nema í lögreglufræðum við háskóla, sbr. 38. gr., í samstarfi við háskóla,
 2. að hafa umsjón með símenntun lögreglumanna innan lögreglu,
 3. að annast skipulagningu og framboð sérhæfðra námskeiða, eftir atvikum í samstarfi við háskóla eða á grundvelli alþjóðasamstarfs,
 4. að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um menntun lögreglumanna,
 5. að annast alþjóðasamskipti á vettvangi lögreglumenntunar,
 6. að annast önnur verkefni er lúta að menntun og fræðslu lögreglu.

     
     c. (38. gr.)
Inntökuskilyrði nema í starfsnám hjá lögreglu.
     1. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu annast starfsnám lögreglunema og velur nema í starfsnám í samstarfi við háskóla. Ákvörðun setursins um val á nemum í starfsnám er endanleg. Nemar í starfsnámi skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:
 1. vera íslenskir ríkisborgarar, 20 ára eða eldri,
 2. hafa ekki gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því að það var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta,
 3. vera andlega og líkamlega heilbrigðir og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum sem mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu setur reglur um í samstarfi við háskóla,
 4. hafa lokið stúdentsprófi eða annarri sambærilegri menntun,
 5. samkvæmt nánari kröfum sem ráðherra setur með reglugerð, á grundvelli tillagna frá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu, m.a. um menntun, starfsþjálfun, tungumálakunnáttu og líkamlega færni.

     2. Til að sannreyna hvort viðkomandi uppfylli skilyrði b-liðar 1. mgr. er mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.
     
     d. (39. gr.)
Samningar um kennslu- og rannsóknastarfsemi á sviði lögreglufræða.
     1. Ráðherra sem fer með málefni háskóla gerir samninga við háskóla um kennslu- og rannsóknastarfsemi á sviði lögreglufræða í samræmi við ákvæði 21. gr. laga um háskóla. Við gerð samnings skal haft samráð við mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu.
     2. Í samningum skv. 1. mgr. skulu koma fram lágmarkskröfur um inntak og gæði náms í lögreglufræðum, helstu áherslur í kennslunni, námskrár, námsframboð, kennslufyrirkomulag, mat og eftirlit með gæðum og annað sem talið er æskilegt af hálfu samningsaðila. Þá skal kveðið á um sérstök inntökuskilyrði, nemendafjölda, gjaldtöku af nemendum og greiðslur fyrir aðra þjónustu sem veitt er á grundvelli samningsins.
     3. Samráð skal haft við mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu þegar fjallað er um framkvæmd kennslu- og rannsóknastarfsemi á sviði lögreglufræða á árlegum samráðsfundi háskóla með ráðherra sem fer með málefni háskóla.
     
     e. (39. gr. a.)
Reglugerð um starfsemi mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.
     Ráðherra setur í reglugerð, að fenginni tillögu mennta- og starfsþróunarseturs, nánari fyrirmæli um framboð sérhæfðra námskeiða, inntökuskilyrði nema í starfsnám og starfsemi mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.

II. KAFLI
Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.

6. gr.

     Orðin „skólastjóri Lögregluskóla ríkisins“ í 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna falla brott.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. skulu nemendur, sem við gildistöku laga þessara eru í námi við Lögregluskóla ríkisins, eiga rétt fram til 30. september 2016 á að ljúka því námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við gildistöku laga þessara, miðað við gildandi reglur um námsframvindu. Skal Lögregluskóli ríkisins starfa fram til 30. september 2016 og ljúka starfrækslu grunnnáms í almennum lögreglufræðum fyrir þá nemendur sem hófu skólagöngu haustið 2015 og eiga að útskrifast frá skólanum í ágúst 2016.

II.
     Lögregluskóli ríkisins telst formlega lagður niður frá og með 30. september 2016. Embætti og störf þeirra sem eru með ráðningarsamband við Lögregluskóla ríkisins við gildistöku laga þessara verða lögð niður 30. september 2016. Að öðru leyti fer um réttindi starfsmanna Lögregluskóla ríkisins samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2016.