Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1460, 132. löggjafarþing 433. mál: háskólar (heildarlög).
Lög nr. 63 13. júní 2006.

Lög um háskóla.


I. KAFLI
Gildissvið. Hlutverk háskóla.

1. gr.

     Lög þessi taka til skóla sem veita æðri menntun er leiðir til prófgráðu á háskólastigi og hlotið hafa viðurkenningu menntamálaráðuneytis, sbr. 3. gr.

2. gr.

     Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Hlutverk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi.
     Háskólar mennta nemendur með kennslu og þátttöku í vísindarannsóknum og búa þá undir að gegna störfum sem krefjast vísindalegra vinnubragða, þekkingar og færni. Menntun, sem háskólar veita, tekur mið af þörfum samfélagsins hverju sinni og getur verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð.
     Háskólar hafa sjálfdæmi um starfsemi sína að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögum, reglum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem veitt eru á grundvelli þeirra. Háskólar skulu setja sér siðareglur, m.a. um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna.

II. KAFLI
Viðurkenning háskóla.

3. gr.

     Háskóla má reka sem ríkisstofnun, sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Ríkisrekinn háskóli er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir menntamálaráðherra nema yfirstjórn hennar sé falin öðrum ráðherra að lögum.
     Menntamálaráðherra veitir háskólum viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum laga þessara.
     Menntamálaráðherra gefur út reglur um viðurkenningu háskóla sem byggjast á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi. Í þeim skulu tilgreind skilyrði sem háskólar skulu fullnægja til að öðlast viðurkenningu. Skilyrðin lúta að eftirtöldum þáttum:
 1. hlutverki og markmiðum háskóla,
 2. stjórnskipan og skipulagi,
 3. fyrirkomulagi kennslu og rannsókna,
 4. hæfisskilyrðum starfsmanna,
 5. inntökuskilyrðum og réttindum og skyldum nemenda,
 6. aðstöðu kennara og nemenda og þjónustu við þá, þ.m.t. fatlaðra nemenda,
 7. innra gæðakerfi,
 8. lýsingu á inntaki náms út frá þekkingu, hæfni og færni við námslok,
 9. fjárhag.

     Viðurkenning háskóla er bundin við tiltekin fræðasvið.
     Háskóli skal sækja um heimild til menntamálaráðherra óski hann eftir viðurkenningu til að stunda kennslu eða rannsóknir á öðru fræðasviði en viðurkenning hans nær þegar til. Háskólar geta eingöngu starfað á fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nær til.
     Menntamálaráðherra skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í nefnd er veitir umsögn um umsóknir um viðurkenningu er taki til einstakra fræðasviða.
     Hyggist háskóli láta af kennslu eða rannsóknum á tilteknu fræðasviði skal menntamálaráðuneyti tilkynnt um það. Hafi ekki verið stunduð kennsla eða rannsóknir í tvö ár samfleytt á fræðasviði, sem viðurkenning háskóla nær til, fellur viðurkenning háskólans á því fræðasviði úr gildi.
     Í viðurkenningu háskóla felst staðfesting á því að starfsemi viðkomandi háskóla sé í samræmi við lög þessi og reglur sem settar kunna að vera með stoð í þeim. Viðurkenning felur ekki í sér að stjórnvöld séu skuldbundin til að veita fé til viðkomandi háskóla.
     Menntamálaráðherra skal setja reglur um erlendar þýðingar á heitum þeirra háskóla sem hann veitir viðurkenningu.

4. gr.

     Uppfylli háskóli, sem fengið hefur viðurkenningu, ekki ákvæði laga þessara og reglur og skilyrði sem sett eru á grundvelli þeirra eða þær kröfur sem gerðar eru til kennslu og rannsókna getur menntamálaráðherra afturkallað viðurkenningu á einstökum fræðasviðum eða að fullu.

5. gr.

     Menntamálaráðherra gefur út formleg viðmið um æðri menntun og prófgráður. Viðmið um æðri menntun og prófgráður eru kerfisbundin lýsing á prófgráðum og lokaprófum þar sem lögð er áhersla á almenna lýsingu á þeirri þekkingu, hæfni og færni sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok. Í þeim skulu koma fram þau skilyrði sem háskólum ber að uppfylla á hverju námsstigi. Háskólum ber að birta sambærilegar lýsingar fyrir hverja námsleið á þeirri þekkingu, hæfni og færni sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok. Birta skal viðmiðin á íslensku og ensku.

III. KAFLI
Námsframboð og prófgráður.

6. gr.

     Kennsla í háskólum skal fara fram í námskeiðum sem metin eru í stöðluðum námseiningum. Að jafnaði svara 60 námseiningar til fulls náms á ársgrundvelli og endurspegla alla námsvinnu nemenda. Námi á háskólastigi skal ljúka með prófgráðu eða öðru lokaprófi sem veitt er þegar nemandi hefur staðist próf í öllum námskeiðum og skilað með fullnægjandi árangri þeim verkefnum sem áskilin eru. Við útskrift skulu nemendur fá viðauka með prófskírteinum.

7. gr.

     Háskólar ákveða fyrirkomulag kennslu, rannsókna, náms og námsmats.
     Háskólar ákveða hvaða nám þeir bjóða innan síns fræðasviðs. Viðurkenndar prófgráður og lokapróf, sem háskólar miða við, eru:
 1. diplómapróf sem jafngildir a.m.k. 30–120 stöðluðum námseiningum,
 2. bakkalárpróf sem jafngildir a.m.k. 180–240 stöðluðum námseiningum,
 3. meistara- eða kandídatspróf sem jafngildir a.m.k. 90–120 stöðluðum námseiningum til viðbótar bakkalárprófi eða jafngildi þess,
 4. doktorspróf sem jafngildir að lágmarki 180 stöðluðum námseiningum til viðbótar tilskildum einingafjölda til meistara- eða kandídatsprófs.

     Ráðherra getur heimilað háskólum, þegar sérstaklega stendur á, að víkja frá námseiningafjölda skv. 2. mgr. Háskólar geta skilgreint nám sem felur í sér starfsþjálfun til námseininga á námsstigum skv. 2. mgr.
     Háskólar skulu leita heimildar menntamálaráðherra til að bjóða nám til doktorsprófs. Skal sýnt fram á að viðkomandi háskóli uppfylli viðeigandi kröfur og skilyrði sem tilgreind eru í reglum um doktorsnám í háskólum. Menntamálaráðherra skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í nefnd er veitir umsögn um hæfi háskóla til að veita doktorsgráður.
     Ráðherra getur heimilað háskólum að veita doktorsgráðu án þess að byggt sé á stöðluðum einingum.

8. gr.

     Háskólar skulu reglulega gera grein fyrir því opinberlega hvernig tryggt er að það nám, sem þeir bjóða, uppfylli viðmið um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr.
     Við undirbúning og skipulagningu nýrra námsleiða skal háskóli birta upplýsingar um hvernig námið uppfyllir þau skilyrði og kröfur sem fram koma í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður.

9. gr.

     Háskólar, sem starfa á grundvelli laga þessara, skulu gera með sér samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta. Þeir skulu hafa með sér samstarf til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttri háskólamenntun. Háskólum er heimilt að veita prófgráður skv. 7. gr. í samstarfi við aðra háskóla, innlenda sem erlenda.

10. gr.

     Heimilt er háskólum að meta til eininga nám sem fram fer í öðrum háskólum. Jafnframt er háskólum heimilt að meta til eininga nám sem fram fer við aðra skóla og rannsóknastofnanir enda ábyrgist þeir að námið uppfylli sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru á grundvelli laga þessara.

IV. KAFLI
Eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna.

11. gr.

     Markmið eftirlits með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum er:
 1. að tryggja að skilyrði fyrir viðurkenningu háskóla séu uppfyllt,
 2. að tryggja að viðmið um æðri menntun og prófgráður séu uppfyllt,
 3. að bæta kennslu og rannsóknir á markvissan hátt,
 4. að stuðla að aukinni ábyrgð háskóla á eigin starfi,
 5. að tryggja samkeppnishæfni háskóla á alþjóðavettvangi.

     Eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna fer annars vegar fram með innra mati háskóla og hins vegar með reglubundnu ytra mati. Menntamálaráðherra setur reglur um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna.

12. gr.

     Háskóli sinnir kerfisbundnu eftirliti með gæðum kennslu og rannsókna á grundvelli innra mats. Innra mat háskóla og eininga innan hans skal vera reglubundið og snúa að stefnu og markmiðum, inntaki náms, kennslu, kennsluháttum, námsmati, rannsóknum, árangri rannsókna, aðbúnaði, stjórnun og ytri tengslum. Tryggja skal virka þátttöku starfsmanna og nemenda í innra gæðastarfi háskóla, eftir því sem við á.
     Háskóli skal birta upplýsingar um innra gæðastarf skólans.

13. gr.

     Menntamálaráðherra ákveður hvenær ytra mat á gæðum kennslu og rannsókna fer fram og gerir áætlanir um slíkt mat til þriggja ára. Jafnframt getur menntamálaráðherra ákveðið að láta fara fram sérstakt mat á háskóla eða einstökum einingum hans ef ástæða þykir til.
     Ytra matið getur náð til háskóla í heild, einstakra vísinda- og fræðasviða, deilda, námsbrauta eða annarra skilgreindra þátta í starfsemi háskóla. Jafnframt getur ytra mat náð til nokkurra háskóla í senn.
     Samráð skal haft við viðkomandi háskóla um ytra mat og skulu háskólar leggja fram þá aðstoð og þau gögn sem matið útheimtir. Matsskýrslur, sem unnar eru samkvæmt lögum þessum, skulu birtar, auk greinargerðar um hvernig viðkomandi háskóli hyggst bregðast við niðurstöðum matsins.

14. gr.

     Menntamálaráðherra getur falið nefnd, stofnun, fyrirtæki eða öðrum til þess bærum aðilum, innlendum eða erlendum, að annast almenna umsýslu með ytra mati á kennslu og rannsóknum.
     Framkvæmd ytra mats skal falin óháðum aðila. Að því mati skulu að jafnaði koma bæði innlendir og erlendir sérfræðingar og fulltrúi nemenda.

V. KAFLI
Stjórnskipan háskóla.

15. gr.

     Yfirstjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor eftir því sem nánar er kveðið á um í sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða öðrum stofnskjölum háskóla. Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan hvers háskóla nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum þessum, sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða stofnskjölum háskóla.
     Að öðru leyti fer um stjórnskipan háskóla eftir sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða stofnskjölum háskóla.

16. gr.

     Í hverjum háskóla skal haldinn háskólafundur a.m.k. einu sinni á ári. Háskólafundur er vettvangur fyrir umræðu um fagleg málefni innan háskólans og akademíska stefnumótun. Háskólaráð ákveður nánar hlutverk og fyrirkomulag háskólafundar. Háskólaráð skal tryggja að fulltrúar kennara, nemenda og annars starfsliðs eigi rétt til setu á háskólafundi. Rektor stýrir háskólafundi.

VI. KAFLI
Starfslið háskóla.

17. gr.

     Starfsheiti kennara við háskóla skulu vera prófessor, dósent, lektor og aðjunkt. Háskólaráð getur sett nánari reglur um þessi og önnur starfsheiti sem það ákveður að nota.

18. gr.

     Háskólar skulu setja á fót dómnefnd til að meta hæfi prófessora, dósenta, lektora og sérfræðinga. Þeir sem bera starfsheiti skv. 17. gr. skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði.
     Í dómnefndir má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla eða jafngildu námi og skal formaður dómnefndar hafa sama eða æðra hæfi og um er fjallað, verði því við komið. Í dómnefnd skal sitja a.m.k. einn fulltrúi sem ekki starfar við viðkomandi háskóla.
     Nánari fyrirmæli um dómnefndir, kröfur til kennara, hæfi þeirra og starfsskyldur eru sett í sérlög, samþykktir, skipulagsskrár eða stofnskjal háskóla.

VII. KAFLI
Nemendur.

19. gr.

     Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Heimilt er háskólum að innrita nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla. Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.
     Heimilt er að ákveða sérstök inntökuskilyrði til að hefja nám í háskóla, þar á meðal að láta nemendur, sem uppfylla skilyrði 1. mgr., gangast undir inntökupróf eða stöðupróf.
     Háskólum er heimilt, að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis, að bjóða upp á aðfaranám fyrir einstaklinga sem ekki uppfylla inntökuskilyrði í háskóla.
     Að fenginni umsögn samtaka nemenda í viðkomandi háskóla setur háskólaráð reglur um réttindi og skyldur nemenda, þ.m.t. um málskotsrétt þeirra innan háskólans.

20. gr.

     Menntamálaráðherra skipar áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema sem í eiga sæti þrír menn skipaðir til tveggja ára í senn; einn tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, einn tilnefndur sameiginlega af samtökum háskólanema og einn skipaður án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Skulu þeir allir uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Varamenn eru skipaðir með sama hætti.
     Um málskot til áfrýjunarnefndar gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga. Máli háskólanema verður þannig ekki skotið til nefndarinnar nema fyrir liggi endanleg ákvörðun háskóla um rétt eða skyldu nemandans. Þó er nemanda heimilt að bera undir nefndina hvort málsmeðferð háskóla á skriflegu erindi hans hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti, og skal nefndin þá veita álit sitt um það efni.
     Áfrýjunarnefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara.
     Úrskurðir áfrýjunarnefndar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður þeim ekki skotið til ráðherra.
     Menntamálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um störf áfrýjunarnefndar.

VIII. KAFLI
Fjárhagsmálefni.

21. gr.

     Menntamálaráðherra er heimilt að gera samninga til 3–5 ára í senn um fjárframlög til kennslu og rannsókna í háskólum sem hlotið hafa viðurkenningu menntamálaráðuneytis samkvæmt lögum þessum. Slíkir samningar eru skilyrði fyrir veitingu fjárframlaga til viðkomandi háskóla.
     Í samningum skal kveðið á um eftirfarandi:
 1. skilmála sem menntamálaráðuneyti setur fyrir veitingu fjárframlaga til háskólans,
 2. skilgreiningu á þeirri kennslu- og rannsóknastarfsemi sem ríkissjóður greiðir fyrir,
 3. helstu áherslur í starfi háskólans og sameiginleg markmið samningsaðila,
 4. önnur verkefni sem háskólinn innir af hendi samkvæmt samningnum,
 5. fjárframlög og greiðslur úr ríkissjóði fyrir nám sem skilgreint er sem sí- og endurmenntun.

     Ráðherra er heimilt að kveða sérstaklega á um greiðslur úr ríkissjóði til háskóla fyrir nám einstaklinga sem ekki hafa ríkisfang innan Evrópska efnahagssvæðisins.

22. gr.

     Menntamálaráðherra setur reglur um fjárframlög til háskóla. Skal þar kveðið á um nám og rannsóknir sem fjárveitingar renna til, vægi námsgreina, umfang rannsókna og aðra þætti sem fjárveitingar skulu taka mið af.
     Kveðið skal á um gjaldtökuheimildir í ríkisháskólum, sem heyra undir menntamálaráðherra, í sérlögum sem um þá gilda.

23. gr.

     Árlega skal hver háskóli, sem nýtur fjárframlaga úr ríkissjóði, halda opinn ársfund þar sem fjárhagur háskólans og meginatriði starfsáætlunar eru kynnt.

IX. KAFLI
Önnur ákvæði.

24. gr.

     Menntamálaráðuneyti heldur skrá um þær prófgráður sem í boði eru við háskóla sem ráðuneytið hefur viðurkennt. Háskóli skal gefa út kennsluskrá fyrir hvert kennsluár þar sem birt er yfirlit og upplýsingar um öll einingabær námskeið og prófgráður sem skólinn veitir.

25. gr.

     Háskóla ber að varðveita upplýsingar um námsferil þeirra sem þar stunda eða hafa stundað nám. Þeim ber einnig að láta í té þær upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru vegna opinberrar tölfræðivinnu og hagskýrslugerðar.

26. gr.

     Rektorar háskóla, sem hafa fengið viðurkenningu menntamálaráðuneytis, skipa sérstaka samstarfsnefnd háskólastigsins. Nefndin skal koma saman reglulega og fjalla um málefni er varða starfsemi og hagsmuni hlutaðeigandi háskóla. Nefndin skal veita umsögn í málum sem menntamálaráðherra eða einstakir háskólar vísa þangað. Nefndin setur sér nánari starfsreglur sem menntamálaráðherra staðfestir.

X. KAFLI
Gildistaka o.fl.

27. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um háskóla, nr. 136/1997.

28. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Á lögum nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, með síðari breytingum:
 2.      Við 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er hljóða svo:
       Þann einan má skipa í stöðu rektors sem lokið hefur æðri prófgráðu við háskóla og öðlast hefur stjórnunarreynslu. Óheimilt er að framlengja skipunartíma rektors án auglýsingar.
       Rektor verður ekki leystur frá störfum án þess að það sé borið undir háskólaráð og hljóti samþykki meiri hluta þess.
 3. Á lögum nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands, með síðari breytingum:
  1. Við 7. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar er hljóða svo:
  2.      Þann einan má skipa í stöðu rektors sem lokið hefur æðri prófgráðu við háskóla og öðlast hefur stjórnunarreynslu. Óheimilt er að framlengja skipunartíma rektors án auglýsingar.
        Rektor verður ekki leystur frá störfum án þess að það sé borið undir háskólaráð og hljóti samþykki meiri hluta þess.
        Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan hans og utan. Hann hefur almennt eftirlit með starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum. Á milli funda háskólaráðs hefur rektor ákvörðunarvald í umboði ráðsins í öllum málum háskólans sem ekki varða veruleg fjárhagsmálefni skólans eða hafa í för með sér breytingar á skipulagi hans.
  3. Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein er hljóðar svo:
  4.      Kennaraháskóla Íslands er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem háskólinn vinnur að hverju sinni. Háskólaráð fer með eignarhlut skólans í slíkum fyrirtækjum.
 4. Á lögum nr. 40/1999, um Háskólann á Akureyri, með síðari breytingum:
  1. Við 7. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar er hljóða svo:
  2.      Þann einan má skipa í stöðu rektors sem lokið hefur æðri prófgráðu við háskóla og öðlast hefur stjórnunarreynslu. Óheimilt er að framlengja skipunartíma rektors án auglýsingar.
        Rektor verður ekki leystur frá störfum án þess að það sé borið undir háskólaráð og hljóti samþykki meiri hluta þess.
        Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan hans og utan. Hann hefur almennt eftirlit með starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum. Á milli funda háskólaráðs hefur rektor ákvörðunarvald í umboði ráðsins í öllum málum háskólans sem ekki varða veruleg fjárhagsmálefni skólans eða hafa í för með sér breytingar á skipulagi hans.
  3. Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein er hljóðar svo:
  4.      Háskólanum er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem háskólinn vinnur að hverju sinni. Háskólaráð fer með eignarhlut skólans í slíkum fyrirtækjum.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Háskólar, sem starfa samkvæmt starfsleyfi menntamálaráðherra samkvæmt lögum nr. 136/1997, um háskóla, og Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskóli Íslands, sem starfa samkvæmt sérlögum, skulu innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara hafa öðlast viðurkenningu, sbr. 3. gr., er nái til þeirra fræðasviða sem starfsemi þeirra tekur til.
     Endurskoða skal lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara til að samræma og auka samvinnu við gæðaeftirlit og námsframboð á háskólastigi.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.