Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1822, 145. löggjafarþing 894. mál: Grænlandssjóður.
Lög nr. 108 19. október 2016.

Lög um Grænlandssjóð.


1. gr.

Hlutverk.
     Hlutverk Grænlandssjóðs er að efla samskipti Grænlands og Íslands í samræmi við ákvæði þessara laga.
     Grænlandssjóður veitir styrki til kynnisferða, námsdvalar, listsýninga, íþróttaviðburða og annarra málefna á sviði menningar, menntunar og vísinda sem geta stuðlað að auknum samskiptum Grænlendinga og Íslendinga.

2. gr.

Sjóðstjórn.
     Ráðherra skipar þrjá menn í sjóðstjórn Grænlandssjóðs, einn samkvæmt tilnefningu Alþingis, einn samkvæmt tilnefningu utanríkisráðuneytis og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Sjóðstjórn hefur á hendi stjórn sjóðsins og gerir tillögur til ráðherra um styrkveitingar.
     Ráðherra úthlutar styrkjum úr Grænlandssjóði að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins.
     Ráðherra er heimilt að semja við þar til bæran aðila um að annast umsýslu Grænlandssjóðs.
     Ríkissjóður annast fjárreiður Grænlandssjóðs. Kostnaður af starfsemi Grænlandssjóðs greiðist úr sjóðnum sjálfum.

3. gr.

Úthlutun.
     Til styrkveitinga skal verja allt að 3 millj. kr. á ári miðað við verðlag ársins 2016 þar til sjóðurinn er uppurinn.
     Gjafir til sjóðsins skulu leggjast við höfuðstól hans.
     Auglýst skal eftir umsóknum um fjárveitingu úr sjóðnum í dagblöðum eða á sambærilegan hátt, bæði á Íslandi og Grænlandi, í upphafi hvers almanaksárs.

4. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara í heild eða einstakar greinar þeirra.

5. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi taka þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um Grænlandssjóð, nr. 102/1980.

Samþykkt á Alþingi 13. október 2016.