Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 996, 146. löggjafarþing 355. mál: varnir gegn mengun hafs og stranda og hollustuhættir og mengunarvarnir (EES-reglur, refsiákvæði).
Lög nr. 44 14. júní 2017.

Lög um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir (EES-reglur, refsiákvæði).


I. KAFLI
Breyting á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. 5. mgr. orðast svo:
  2.      Losun skolps frá skipum er óheimil á hafnarsvæðum og á svæðum innan við 300 m frá stórstraumsfjöruborði. Skipum sem eru 400 brúttótonn eða stærri og skipum sem skráð eru til að flytja 15 manns eða fleiri en eru minni en 400 brúttótonn er óheimilt að losa skolp innan tólf sjómílna frá grunnlínu landhelginnar. Heimilt er að losa skolp, sem hefur verið meðhöndlað í hreinsikerfi samþykktu af Samgöngustofu eða sambærilegu stjórnvaldi annars ríkis, utan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um losun skolps innan íslenskrar mengunarlögsögu.
  3. 6. mgr. orðast svo:
  4.      Losun mengandi efna, sem upp eru talin í viðauka I og II við MARPOL-samninginn, þ.m.t. minni háttar tilvik slíkrar losunar frá skipum sem ekki leiðir til þess að gæði vatns spillist, er óheimil. Þetta á við um losun jafnt á úthöfum sem og í mengunarlögsögu Íslands. Þó er losun mengandi efna heimil að uppfylltum skilyrðum um notkun bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir um borð og bestu umhverfisvenjur þar sem slíkt hefur verið skilgreint. Losun mengandi efna er einnig heimil að uppfylltum skilyrðum um flokkun fljótandi efna sem eru flutt í fargeymum skipa til eða frá íslenskum höfnum, svo og skilyrðum um takmörkun á losun þeirra efna sem eru talin hættuleg í hafið samkvæmt nánari ákvæðum í viðauka I og II við MARPOL-samninginn. Losun mengandi efna frá skipum telst ekki brot gegn ákvæði þessu ef losunina leiðir af skemmdum á skipi eða búnaði þess.


2. gr.

     Orðin „skipum sem þjónusta fiskeldi“ í 1. mgr. 11. gr. c laganna falla brott.

3. gr.

     Á eftir 1. mgr. 25. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ítrekuð minni háttar tilvik losunar, sbr. 6. mgr. 8. gr., þar sem hvert tilvik spillir ekki gæðum vatns heldur samansafn tilvika sem leiðir til þess að gæði vatns spillist, teljast refsiverður verknaður hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.

4. gr.

     Á eftir 25. gr. laganna kemur ný grein, 25. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Refsiábyrgð lögaðila.
     Gera má lögaðila sekt vegna brots á 6. mgr. 8. gr. og 2. og 3. mgr. 25. gr. óháð sök fyrirsvarsmanns lögaðilans, starfsmanns hans eða annars á hans vegum í starfsemi lögaðilans. Lögaðila verður gerð refsing þótt ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut. Refsiábyrgð stjórnvalda er bundin sömu skilyrðum enda sé brotið gegn ákvæðum 6. mgr. 8. gr. og 2. og 3. mgr. 25. gr. í starfsemi sem telst vera sambærileg starfsemi einkaaðila.
     Lögaðili ber ábyrgð ef skortur á eftirliti eða umsjón af hans hálfu með losun mengandi efna hefur gert einstaklingi á hans vegum kleift að fremja refsiverðan verknað í skilningi 6. mgr. 8. gr. og 2. og 3. mgr. 25. gr. í þágu lögaðilans.

II. KAFLI
Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

5. gr.

     Við 33. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Tilraun til brota og hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim og samþykktum sveitarfélaga eru refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

III. KAFLI
Innleiðing.

6. gr.

     Lög þessi eru sett til innleiðingar á eftirfarandi EES-gerðum:
  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB frá 21. október 2009 um breytingu á tilskipun 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum, sem vísað er til í tölulið 56v, V. kafla, XIII. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2015, 10. júlí 2015.
  2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/99/EB frá 19. nóvember 2008 um vernd umhverfisins með refsiákvæðum, sem vísað er til í tölulið 1m, I. kafla, XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2015, 10. júlí 2015.


7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2017.