Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 784, 149. löggjafarþing 471. mál: þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður (starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka).
Lög nr. 135 21. desember 2018.

Lög um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað (starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka).


1. gr.

     10. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka.
     Heimilt er að ráða starfsmenn fyrir þingflokka, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hvers árs, til þess að aðstoða þingmenn í störfum þeirra. Um þá gilda lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að undanskildum ákvæðum 7., 21., 44. og 45. gr. Þá gilda ákvæði 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, ekki um starfsmenn þingflokka.
     Formaður þingflokks stýrir daglegum störfum starfsmanna þingflokks og skiptir með þeim verkum. Þingflokkar skulu gera skriflega starfslýsingu fyrir starfsmenn sína.
     Skrifstofustjóri Alþingis ræður starfsmenn þingflokka að fenginni tillögu þingflokks og þegar við á segir skrifstofustjóri þeim upp störfum. Um laun og önnur starfskjör starfsmanna þingflokka fer samkvæmt kjarasamningi starfsmanna Alþingis og forseta Alþingis, sbr. 3. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
     Skrifstofustjóri Alþingis er í fyrirsvari gagnvart starfsmönnum þingflokka þegar fjallað er um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum nr. 70/1996, og starfsskilyrði samkvæmt öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningi. Skrifstofa Alþingis annast framkvæmd og umsýslu með ráðningarsamningum starfsmanna þingflokka.
     Formönnum stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, er heimilt að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf. Um kjör aðstoðarmanns formanns stjórnmálaflokks og starfsaðstöðu fer samkvæmt sömu reglum og gilda fyrir starfsmenn þingflokka.
     Í reglum forsætisnefndar má setja nánari fyrirmæli um ráðningu starfsmanna þingflokka og aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka, aðstöðu þeirra, starfslok o.fl.

2. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
     Ráðningarsamningar sem formenn stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, hafa gert á grundvelli eldri laga og reglna forsætisnefndar um aðstoðarmenn þingmanna halda gildi sínu við gildistöku laga þessara.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2018.