Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 929, 149. löggjafarþing 303. mál: fjármálafyrirtæki (stjórn og endurskoðun).
Lög nr. 8 18. febrúar 2019.

Lög um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (stjórn og endurskoðun).


1. gr.

     Við 3. mgr. 52. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu verja fullnægjandi tíma í störf sín í þágu fjármálafyrirtækis.

2. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 52. gr. a laganna fellur brott.

3. gr.

     Á eftir 52. gr. d laganna kemur ný grein, 52. gr. e, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Takmörkun á öðrum störfum framkvæmdastjóra og stjórnarmanns.
     Stjórnarmanni í kerfislega mikilvægu fjármálafyrirtæki hér á landi eða á alþjóðavísu er óheimilt að taka að sér störf í stjórnareiningum annarra félaga samhliða setu í stjórn þess nema heildarfjöldi félaganna að meðtöldu fjármálafyrirtækinu sé innan eftirfarandi marka:
 1. fjögur félög, ef eingöngu er um að ræða stjórnarsetu, eða
 2. tvö félög þar sem viðkomandi sinnir stjórnarsetu og eitt þar sem um er að ræða starf framkvæmdastjóra.

     Við afmörkun á fjölda félaga skv. 1. mgr. er heimilt að telja:
 1. öll sæti í stjórnum félaga sem eru hluti af sömu samstæðu sem setu í stjórn eins félags,
 2. öll sæti í stjórnum félaga sem fjármálafyrirtæki fer með virkan eignarhlut í sem setu í stjórn eins félags,
 3. öll sæti í stjórnum félaga sem eru aðilar að stofnanaverndarkerfi sem fjármálafyrirtækið er aðili að sem setu í stjórn eins félags,
 4. öll störf sem framkvæmdastjóri hjá félögum sem eru hluti af sömu samstæðu sem starf framkvæmdastjóra í einu félagi,
 5. öll störf sem framkvæmdastjóri hjá félögum sem fjármálafyrirtæki fer með virkan eignarhlut í sem starf framkvæmdastjóra í einu félagi,
 6. öll störf sem framkvæmdastjóri hjá félögum sem eru aðilar að stofnanaverndarkerfi sem fjármálafyrirtækið er aðili að sem starf framkvæmdastjóra í einu félagi.

     Takmarkanir skv. 1. mgr. taka hvorki til starfa í stjórnareiningum félaga sem eru ekki rekin í atvinnuskyni að meginstefnu til né til einstaklings sem settur er í starf framkvæmdastjóra eða í stjórn fjármálafyrirtækis fyrir hönd ríkisins á grundvelli laga vegna sérstakra aðstæðna í starfsemi umrædds fjármálafyrirtækis.
     Framkvæmdastjóra í kerfislega mikilvægu fjármálafyrirtæki hér á landi eða á alþjóðavísu er óheimilt að taka að sér störf í stjórnareiningum annarra félaga nema með leyfi stjórnar. Heildarfjöldi félaga sem framkvæmdastjórinn starfar fyrir skal vera innan marka skv. b-lið 1. mgr. að teknu tilliti til 3. mgr.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt, að teknu tilliti til umfangs og eðlis þeirra starfa sem framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður gegnir eða vegna sérstakra aðstæðna, að veita undanþágu frá 1. mgr. og heimila setu í stjórn eins félags til viðbótar. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að upplýsa Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina um slíka undanþágu.

4. gr.

     2. mgr. 90. gr. laganna orðast svo:
     Endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki skv. 1. mgr. skal kjósa á aðalfundi fjármálafyrirtækis til a.m.k. eins árs, þó ekki lengur en til tíu ára. Fjármálafyrirtæki getur vikið endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki frá áður en kjörtímabili skv. 1. málsl. lýkur að fengnu áliti endurskoðendaráðs. Að öðru leyti gilda ákvæði 20. gr. laga um endurskoðendur, nr. 79/2008, um starfstíma endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis fjármálafyrirtækis.

5. gr.

     92. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Upplýsinga- og tilkynningarskylda endurskoðanda.
     Endurskoðanda er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður endurskoðunar sé þess óskað.
     Endurskoðanda er skylt að gera Fjármálaeftirlitinu tafarlaust viðvart fái hann vitneskju, í starfi sínu fyrir fjármálafyrirtækið eða aðila sem er í nánum tengslum við það, um atriði eða ákvarðanir sem:
 1. fela í sér veruleg brot á löggjöf sem gildir um starfsemi fjármálafyrirtækisins eða hvers konar brot sem koma til skoðunar á grundvelli 9. gr.,
 2. kunna að hafa áhrif á áframhaldandi starfsemi fjármálafyrirtækisins, þ.m.t. atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir fjárhagsstöðu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis,
 3. leitt geta til þess að endurskoðandi mundi synja um áritun eða gera fyrirvara við ársreikning fjármálafyrirtækisins.

     Endurskoðandi skal gera stjórn fjármálafyrirtækis viðvart um tilkynningu skv. 2. mgr. nema rík ástæða sé til þess að gera það ekki.
     Upplýsingar sem endurskoðandi veitir Fjármálaeftirlitinu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar teljast ekki brot á lögbundinni eða samningsbundinni þagnarskyldu endurskoðanda.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 110. gr. laganna:
 1. Á eftir 27. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 1. mgr. 52. gr. e um takmarkanir á öðrum störfum stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra.
 2. Í stað orðsins „upplýsingaskyldu“ í 50. tölul. kemur: upplýsinga- og tilkynningarskyldu.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 112. gr. b laganna:
 1. 29. tölul. orðast svo: 91. gr. um hæfi endurskoðanda.
 2. Á eftir 29. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 92. gr. um upplýsinga- og tilkynningarskyldu endurskoðanda.


8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 3. gr. og a-liður 6. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2020.

Samþykkt á Alþingi 7. febrúar 2019.