Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 970, 149. löggjafarþing 26. mál: nálgunarbann og brottvísun af heimili (meðferð beiðna um nálgunarbann).
Lög nr. 12 27. febrúar 2019.

Lög um breytingu á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, með síðari breytingum (meðferð beiðna um nálgunarbann).


1. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ríkissaksóknari getur gefið út almenn fyrirmæli um vægari úrræði skv. 1. mgr., þar á meðal hver slík úrræði geti verið, hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi og hvernig staðið skuli að framkvæmd þeirra.

2. gr.

     2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     Hraða skal meðferð máls og taka ákvörðun skv. 1. mgr. svo fljótt sem auðið er. Ákvörðun um brottvísun af heimili skal þó taka eigi síðar en sólarhring eftir að beiðni hefur borist skv. 1. eða 2. mgr. 3. gr. eða mál komið upp með öðrum hætti, en ákvörðun um nálgunarbann eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að beiðni hefur borist eða mál komið upp samkvæmt framangreindu.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Orðin „4. og/eða“ í 1. málsl. og „nálgunarbanns og/eða“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
  2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Sakborningur getur krafist þess að lögreglustjóri beri ákvörðun sína um beitingu úrræðis skv. 4. gr. undir dómstóla til staðfestingar. Kröfu um slíkt skal beint skriflega til lögreglustjóra innan tveggja vikna frá birtingu ákvörðunar og skal lögreglustjóri þá bera ákvörðun sína undir héraðsdóm svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að beiðni sakbornings barst. Hið sama gildir um ákvörðun um framlengingu nálgunarbanns.


4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2019. Um ákvarðanir um nálgunarbann sem bornar hafa verið undir dóm til staðfestingar skv. IV. kafla laganna fyrir gildistöku laga þessara skal fara eftir þeim lögum sem þá voru í gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. febrúar 2019.