Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1471, 149. löggjafarþing 635. mál: tekjuskattur (ríki-fyrir-ríki skýrslur).
Lög nr. 38 16. maí 2019.

Lög um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (ríki-fyrir-ríki skýrslur).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. a laganna:
 1. Á eftir orðinu „móðurfélag“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fjölþjóðlegrar.
 2. 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Skyldan til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil gildir ekki um innlent móðurfélag fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu ef tekjur heildarsamstæðunnar á síðasta reikningsári samkvæmt samstæðureikningi voru lægri en 750 milljónir evra.
 3. Á eftir orðunum „teljist ekki vera móðurfélag“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: fjölþjóðlegrar.
 4. B-liður 2. mgr. orðast svo: heimilisfestarríki hins erlenda móðurfélags hefur gert samning við Ísland þar sem kveðið er á um upplýsingaskipti en ekki er í gildi, við lok reikningsársins, samkomulag milli bærra stjórnvalda sem kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil skv. 1. mgr., eða.
 5. C-liður 2. mgr. orðast svo: ríkisskattstjóri hefur tilkynnt íslenska félaginu að kerfisbrestur sé til staðar í heimilisfestarríki móðurfélags sem leiðir til þess að íslensk skattyfirvöld fá ekki ríki-fyrir-ríki skýrslur.
 6. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 7.      Skylda til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu er ekki til staðar þegar staðgöngufélag móðurfélags er skilaskylt í öðru ríki að því gefnu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
  1. Heimilisfestarríki staðgöngufélags móðurfélags gerir sömu kröfur um efni ríki-fyrir-ríki skýrslna og gerðar eru hér á landi.
  2. Við lok reikningsársins er í gildi samkomulag við bært stjórnvald í heimilisfestarríki staðgöngufélags móðurfélags sem kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil skv. 1. mgr.
  3. Heimilisfestarríki staðgöngufélags móðurfélags hefur ekki tilkynnt ríkisskattstjóra um að kerfisbrestur sé til staðar sem leiðir til þess að íslensk skattyfirvöld fá ekki ríki-fyrir-ríki skýrslur.
  4. Ríki-fyrir-ríki skýrslu er miðlað til ríkisskattstjóra af bæru stjórnvaldi í heimilisfestarríki staðgöngufélags móðurfélags.
  5. Samstæðufélag hefur tilkynnt bæru stjórnvaldi í heimilisfestarríki um að það sé staðgöngufélag móðurfélags í samræmi við þarlendar reglur um slíkar tilkynningar.
  6. Samstæðufélag með heimilisfesti hér á landi skilar upplýsingum til ríkisskattstjóra um auðkenni og skattalega heimilisfesti staðgöngufélags móðurfélags.

 8. 3. mgr. orðast svo:
 9.      Samstæðufélag fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu sem er með skattalega heimilisfesti á Íslandi skal innan mánaðar frá lokum reikningsárs slíkrar fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu tilkynna til ríkisskattstjóra hvort félagið sé móðurfélag heildarsamstæðunnar eða staðgöngufélag móðurfélags.
 10. 4. mgr. orðast svo:
 11.      Félag, með skattalega heimilisfesti hér á landi sem er hluti af fjölþjóðlegri heildarsamstæðu og er hvorki móðurfélag heildarsamstæðu né staðgöngufélag móðurfélags, skal innan mánaðar frá lokum reikningsárs tilkynna ríkisskattstjóra hvaða félag í samstæðunni skili ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil og um heimilisfestarríki þess.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 2019.