Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1793, 149. löggjafarþing 542. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. (stjórnvaldssektir o.fl.).
Lög nr. 58 25. júní 2019.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum (stjórnvaldssektir o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: og vara skemur en þrjú ár.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum“ í 3. mgr. kemur: meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfis- eða skráningarskyldri starfsemi.
 2. Í stað orðanna „Með mengun er átt við það“ í 6. mgr. kemur: Mengun er.
 3. Í stað orðanna „lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu“ í 10. mgr. kemur: lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.
 4. 13. og 14. mgr. falla brott.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „setur ráðherra“ í 1. málsl. kemur: er ráðherra heimilt að setja.
 2. Orðin „m.a. vegna sullaveiki“ í 4. tölul. falla brott.
 3. Í stað orðsins „gistihús“ í 10. tölul. kemur: gististaði.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „mengunarvarnaeftirlits setur ráðherra“ í 1. málsl. kemur: mengunarvarna er ráðherra heimilt að setja.
 2. Í stað orðanna „þar sem fram skulu koma reglur“ í 16. tölul. kemur: þ.m.t.
 3. 17. tölul. orðast svo: umhverfisupplýsingar og skil á þeim til Umhverfisstofnunar, sbr. 34. gr.


5. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Útgefanda starfsleyfis er heimilt að framlengja gildistíma starfsleyfis á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, að hámarki til eins árs, hafi fullnægjandi umsókn um nýtt starfsleyfi borist útgefanda.

6. gr.

     34. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Umhverfisupplýsingar.
     Rekstraraðili atvinnurekstrar, sbr. viðauka I–IV, sem hefur í för með sér losun mengandi efna skal skila árlega til Umhverfisstofnunar upplýsingum um losun mengandi efna frá hverri starfsstöð með rafrænum hætti eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr. Rekstraraðili ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem hann skilar til Umhverfisstofnunar.
     Umhverfisstofnun skal hafa á vefsvæði sínu upplýsingar um Evrópuskrá yfir losun og flutning mengunarefna, sbr. reglugerð um útstreymisbókhald.

7. gr.

     Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Umhverfisupplýsingar.

8. gr.

     41. gr. a laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
 1. Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Heilbrigðisnefndir skulu fyrir 1. ágúst ár hvert birta á vefsvæði sínu skýrslu um starfsemi sína, þar sem fram komi yfirlit um helstu verkefni og áherslur undangengins árs, ásamt ársreikningi.
       Heilbrigðisnefndum er heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir:
  1. Útgáfu starfsleyfa og vottorða, sem og endurskoðun eða breytingar á starfsleyfum, sbr. 6. gr.
  2. Skráningu rekstraraðila, sbr. 8. gr.
  3. Eftirlit, þ.m.t. sýnatöku, sbr. 47. gr.
  4. Eftirfylgni eftirlits og beitingu þvingunarúrræða, sbr. XVII. kafla.

 3. 1. og 2. málsl. 3. mgr. falla brott.
 4. Í stað orðsins „gjaldsins“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: gjalds skv. 4. mgr.; og orðið „sveitarfélaga“ í lok sömu málsgreinar fellur brott.


10. gr.

     Á eftir 1. mgr. 48. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heilbrigðisnefnd getur falið framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits eða tilteknum heilbrigðisfulltrúum afgreiðslu einstakra mála í tilteknum málaflokkum sem undir heilbrigðisnefnd heyra og henni er ætlað að sinna samkvæmt lögum og reglugerðum. Heimilt er að kveða á um slíkt framsal heilbrigðisnefndar eftir atvikum í samstarfssamningi, í samþykktum um heilbrigðiseftirlit á hverju eftirlitssvæði eða í sérstakri samþykkt sem heilbrigðisnefnd samþykkir og birt er í B-deild Stjórnartíðinda.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. laganna:
 1. Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 2.      Umhverfisstofnun er heimilt að taka gjald fyrir:
  1. Útgáfu starfsleyfa og vottorða, sem og endurskoðun eða breytingar á starfsleyfum, sbr. 6. gr.
  2. Eftirlit, þ.m.t. sýnatöku, sbr. 51. gr.
  3. Eftirfylgni eftirlits og beitingu þvingunarúrræða, sbr. XVII. kafla.
  4. Álagningu stjórnvaldssekta, sbr. 67. gr.

 3. Orðin „sbr. 51. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.


12. gr.

     Við 2. mgr. 55. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heilbrigðisnefnd skal upplýsa Umhverfisstofnun um frávik þar sem til álita kemur að beita stjórnvaldssektum, sbr. 67. gr.

13. gr.

     Í stað orðanna „ lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu“ í 3. málsl. 56. gr. laganna kemur: lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.

14. gr.

     Orðin „að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar“ í 1. málsl. 5. mgr. 59. gr. laganna falla brott.

15. gr.

     60. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Áminning.
     Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum eða samþykktum sveitarfélaga er Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „heilbrigðisnefnd“ í 1. og 3. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. kemur: eða Umhverfisstofnun.
 2. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Dagsektir geta numið allt að 500.000 kr. á dag.
 3. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal m.a. höfð hliðsjón af alvarleika brotsins, hvað það hefur staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða.
 4. 4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 6.      Ákvarðanir Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda um dagsektir og kostnað eru aðfararhæfar. Gjalddagi sektar samkvæmt þessari grein er fyrsti dagur annars mánaðar eftir dagsetningu ákvörðunar Umhverfisstofnunar eða heilbrigðisnefndar. Greiða skal dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar sé hún ógreidd fimmtán dögum eftir gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Óinnheimtar dagsektir, sem lagðar eru á fram að efndadegi, falla ekki niður eftir gjalddaga þótt aðili efni viðkomandi kröfu nema Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd ákveði það sérstaklega. Sektir sem Umhverfisstofnun leggur á samkvæmt þessari grein að frádregnum kostnaði við innheimtu renna í ríkissjóð og sektir sem heilbrigðisnefndir leggja á að frádregnum kostnaði við innheimtu renna til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
 1. 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
 2. Við 4. mgr. bætist: eða starfsemin er skráð hjá Umhverfisstofnun, sbr. 8. gr.


18. gr.

     1. mgr. 63. gr. laganna orðast svo:
     Telji Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er þeim heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir. Einnig er Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd heimilt að stöðva starfsemi eða takmarka hana til bráðabirgða sé um alvarlegt tilvik eða ítrekað brot að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests.

19. gr.

     Á undan 67. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 67.–70. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:
     
     a. (67. gr.)
Stjórnvaldssektir.
     Umhverfisstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn ákvæðum um:
 1. að óheimilt sé að hefja atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út eða hann ekki verið skráður hjá Umhverfisstofnun, sbr. 1. mgr. 6. gr.,
 2. viðmiðunarmörk fyrir losun mengandi efna, sbr. 1. mgr. 10. gr.,
 3. upplýsingaskyldu rekstraraðila varðandi breytingar á rekstri, sbr. 1. mgr. 14. gr.,
 4. losun rokgjarnra, lífrænna efnasambanda, sbr. 1. mgr. 28. gr.,
 5. upplýsingaskyldu rekstraraðila varðandi frávik, sbr. 2. mgr. 40. gr.

     Ráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim innan þess ramma sem ákveðinn er í 4. mgr.
     Hafi fjárhæð sekta ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun sekta m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins. Umhverfisstofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af hagnaði aðila innan þess ramma sem er ákveðinn í 4. mgr.
     Sektir sem eru lagðar á einstaklinga geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Sektir sem eru lagðar á lögaðila geta numið frá 25.000 kr. til 25.000.000 kr.
     Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Ákvörðun Umhverfisstofnunar er endanleg á stjórnsýslustigi. Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla og er málshöfðunarfrestur þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
     
     b. (68. gr.)
Réttur manna til að fella ekki á sig sök.
     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Umhverfisstofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
     
     c. (69. gr.)
Fyrning.
     Heimild Umhverfisstofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
     Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Umhverfisstofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
     
     d. (70. gr.)
Kæra til lögreglu.
     Umhverfisstofnun er heimilt að kæra brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til lögreglu.
     Varði meint brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Umhverfisstofnun hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Umhverfisstofnun að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Umhverfisstofnun á hvaða stigi málsins sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
     Með kæru Umhverfisstofnunar skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Umhverfisstofnunar um að kæra mál til lögreglu.
     Umhverfisstofnun er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu og ákæruvaldi og taka þátt í aðgerðum lögreglu að öðru leyti.
     Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Umhverfisstofnun í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast brotum sem til meðferðar eru hjá stofnuninni og taka þátt í aðgerðum hennar að öðru leyti.
     Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Umhverfisstofnunar til meðferðar og ákvörðunar.

20. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða II–V í lögunum falla brott.

21. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á viðaukum laganna:
 1. Orðin „Starfsemi A“, „Starfsemi B“, „Starfsemi C“, „Starfsemi D“ og „Starfsemi E“ í fyrirsögnum viðauka I–V falla brott.
 2. Á eftir orðunum „förgun spilliefna“ í 9. tölul. viðauka II kemur: þ.m.t. námuúrgangsstaðir, sbr. 14. gr. laga um meðhöndlun úrgangs.
 3. Orðið „námuúrgangsstaðir“ í a–d-lið 9. tölul. viðauka II fellur brott.
 4. Við viðauka II bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Endurvinnsla skipa yfir 500 brúttótonnum, sbr. 64. gr. a laga um meðhöndlun úrgangs.
  2. Málningarvöruframleiðsla.
  3. Kítín- og kítosanframleiðsla.
 5. Á eftir tölulið 8.8 í viðauka IV kemur nýr töluliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því: Endurvinnsla skipa undir 500 brúttótonnum, sbr. 64. gr. a laga um meðhöndlun úrgangs.


II. KAFLI
Breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.

22. gr.

     Á eftir 67. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 67. gr. a – 67. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (67. gr. a.)
Stjórnvaldssektir.
     Umhverfisstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn:
 1. Banni við losun úrgangs annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát og opinni brennslu hans, sbr. 4. mgr. 9. gr.
 2. Ákvæðum um að starfsemi hafi gilt starfsleyfi, sbr. 14., 38., 58., 62. og 64. gr. a.
 3. Ákvæðum um skil á skýrslu, sbr. 19. gr.
 4. Skráningar- eða tilkynningarskyldu, sbr. 25. gr.
 5. Ákvæðum um takmarkanir á flutningi úrgangs, sbr. 26. gr.
 6. Ákvæðum um skyldur söluaðila rafhlaðna og rafgeyma, sbr. 3. mgr. 33. gr.
 7. Banni við markaðssetningu rafhlaðna, rafgeyma, raf- og rafeindatækja án greiðslu úrvinnslugjalds, sbr. 4. mgr. 34. gr. og 2. mgr. 45. gr.
 8. Ákvæðum um upplýsingaskyldu framleiðenda og innflytjenda rafhlaðna, rafgeyma, raf- og rafeindatækja, sbr. 35. og 46. gr.
 9. Banni við förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs án viðeigandi meðhöndlunar, sbr. 44. gr. b.
 10. Ákvæðum um skráningarskyldu framleiðenda og innflytjenda rafhlaðna, rafgeyma, raf- og rafeindatækja, sbr. 36. og 50. gr.
 11. Banni við blöndun spilliefna, sbr. 2. mgr. 54. gr.
 12. Ákvæðum um merkingu spilliefna, sbr. 55. gr.
 13. Ákvæðum um skráningu spilliefna, sbr. 56. gr.
 14. Ákvæðum um eftirlit og vöktun með urðunarstöðum, sbr. 60. gr.
 15. Ákvæðum um lokun urðunarstaðar, sbr. 61. gr.
 16. Ákvæðum um losunarmörk brennslustöðva, sbr. 64. gr.

     Ráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim innan þess ramma sem ákveðinn er í 4. mgr.
     Hafi fjárhæð sekta ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun sekta m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins. Umhverfisstofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af hagnaði aðila.
     Sektir sem eru lagðar á einstaklinga geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Sektir sem eru lagðar á lögaðila geta numið frá 25.000 kr. til 25.000.000 kr.
     Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Ákvörðun Umhverfisstofnunar er endanleg á stjórnsýslustigi. Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla og er málshöfðunarfrestur þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
     
     b. (67. gr. b.)
Réttur manna til að fella ekki á sig sök.
     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Umhverfisstofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
     
     c. (67. gr. c.)
Fyrning.
     Heimild Umhverfisstofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Fyrningarfrestur rofnar þegar Umhverfisstofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
     
     d. (67. gr. d.)
Kæra til lögreglu.
     Umhverfisstofnun er heimilt að kæra brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til lögreglu.
     Varði meint brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Umhverfisstofnun hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Umhverfisstofnun að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Umhverfisstofnun á hvaða stigi málsins sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
     Með kæru Umhverfisstofnunar skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Umhverfisstofnunar um að kæra mál til lögreglu.
     Umhverfisstofnun er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu og ákæruvaldi og taka þátt í aðgerðum lögreglu að öðru leyti.
     Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Umhverfisstofnun í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast brotum sem til meðferðar eru hjá stofnuninni og taka þátt í aðgerðum hennar að öðru leyti.
     Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Umhverfisstofnunar til meðferðar og ákvörðunar.

III. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, nr. 40/2015, með síðari breytingum.

23. gr.

     Við 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna bætist: eða skráningu hjá Umhverfisstofnun, sbr. 6. og 8. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

24. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2019.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2019.