Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1744, 149. löggjafarþing 763. mál: vátryggingarsamningar (upplýsingagjöf).
Lög nr. 61 21. júní 2019.

Lög um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, með síðari breytingum (upplýsingagjöf).


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Gildissvið.
     Lög þessi gilda um samninga um skaða- og persónutryggingar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir.
     Með skaðatryggingu er átt við vátryggingu gegn tjóni eða eyðileggingu á hlut, réttindum eða öðrum hagsmunum, vátryggingu gegn skaðabótaábyrgð eða kostnaði og aðra vátryggingu sem ekki er persónutrygging.
     Með persónutryggingu er í lögum þessum átt við líf- og heilsutryggingar. Vátryggingu má taka vegna lífs eða heilsu vátryggingartakans eða annarra. Þegar rætt er um líftryggingu í lögunum er einnig átt við heilsutryggingu án uppsagnarréttar nema annað sé tekið fram.
     Með vátryggingatengdum fjárfestingarafurðum er átt við vátryggingarafurð með líftíma eða endurkaupsvirði og líftíminn eða endurkaupsvirðið er að öllu leyti eða hluta, beint eða óbeint, óvarið fyrir flökti á markaði, sbr. 21. tölul. 2. gr.
     Ákvæði laga þessara gilda hvorki um endurtryggingar né um tryggingar lífeyrissjóða, samkvæmt lögum sem um þá gilda, eða tryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá gilda ákvæði um hópvátryggingar í lögunum ekki um persónutryggingar launþega samkvæmt kjarasamningum.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Í lögum þessum merkir:
 1. Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða Færeyjar.
 2. Aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð: Einstaklingur eða lögaðili, sem ekki er lánastofnun skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, staðbundið fyrirtæki skv. 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. a sömu laga, eða verðbréfafyrirtæki sem uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 25. gr. sömu laga, og dreifir vátryggingu sem aukaafurð gegn endurgjaldi og eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
  1. starfsemin er í meginatriðum önnur en vátryggingamiðlun,
  2. einstaklingurinn eða lögaðilinn dreifir eingöngu vátryggingu sem er viðbót við sölu á vöru eða þjónustu,
  3. vátryggingin er ekki líf- eða ábyrgðartrygging nema hún sé hluti af vöru eða þjónustu sem er seld.
 3. Bundið vátryggingarverð: Fjárhæð sem samið er um sem fullnaðarbætur fyrir vátryggðan mun, óháð raunverulegu verðmæti hans.
 4. Dreifing vátrygginga:
  1. starfsemi sem felst í að veita ráðgjöf, gera tillögu um eða undirbúa gerð vátryggingarsamnings, gera slíkan samning eða aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins,
  2. starfsemi sem felst í að veita upplýsingar um vátryggingarsamning eftir forsendum sem viðskiptavinur velur, á vefsíðu eða öðrum miðlum; einnig að veita upplýsingar um vátryggingar sem eru í boði, þ.m.t. verð, samanburð eða afslátt þegar viðskiptavinur getur gert vátryggingarsamning, beint eða óbeint, á vefsíðunni eða miðlinum,
  3. starfsemi sem felst í að kynna, gera tillögu um eða undirbúa gerð endurtryggingarsamnings, efna slíkan samning eða aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins; sama gildir þegar starfsemin er hjá endurtryggingafélagi án íhlutunar endurtryggingamiðlara.
 5. Dreifingaraðili: Vátryggingafélag, vátryggingaumboðsmaður, vátryggingamiðlari og aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð.
 6. Félagið: Sá sem með samningi skuldbindur sig til að veita vátryggingu.
 7. Hópvátrygging:
  1. í skaðatryggingum; vátrygging þar sem réttindi og skyldur fyrir hópinn sem vátryggingin tekur til eru ákvörðuð með samningi sem vátryggingartaki gerir vegna eða til hagsbóta fyrir þá sem teljast til hópsins,
  2. í persónutryggingum; vátrygging sem tekur til manna í nánar tilteknum hópi og eftir atvikum einnig maka þeirra, barna o.fl.
 8. Höfuðstólstrygging: Vátrygging þar sem félagið skal greiða tiltekna fjárhæð sem þó getur verið skipt niður á fleiri en einn gjalddaga.
 9. Lífeyristrygging: Vátrygging þar sem félagið á að greiða fjárhæð fyrir tiltekið tímabil svo lengi sem tilgreindur maður lifir eða þar til hann nær ákveðnum aldri.
 10. Rétthafi: Sá sem vátryggingartaki tilgreinir í vátryggingarsamningi og á rétt til þess að fá vátryggingarfjárhæðina greidda eftir að vátryggingaratburður hefur orðið.
 11. Varanlegur miðill: Tæki sem gerir viðskiptavini kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í hæfilegan tíma.
 12. Varúðarreglur: Fyrirmæli í vátryggingarsamningi um:
  1. að vátryggður eða aðrir skuli gera tilteknar ráðstafanir sem fallnar eru til þess að fyrirbyggja eða takmarka tjón eða sjá til þess að þær verði gerðar,
  2. að vátryggður eða aðrir skuli við notkun, geymslu eða viðhald vátryggðs hlutar uppfylla tiltekin skilyrði um hæfni eða hafa tilgreind réttindi,
  3. að vátryggður eða aðrir skuli við notkun, geymslu eða viðhald vátryggðs hlutar gera það á tiltekinn hátt.
 13. Vátryggður:
  1. í skaðatryggingum er hinn vátryggði sá sem samkvæmt vátryggingarsamningi á rétt á að krefjast bóta,
  2. í ábyrgðartryggingum er hinn vátryggði sá sem nýtur vátryggingaverndar á skaðabótaskyldri háttsemi sinni,
  3. í persónutryggingum er hinn vátryggði sá maður hvers lífs eða heilsu vátryggingin tekur til.
 14. Vátryggingamiðlari: Einstaklingur eða lögaðili, með starfsleyfi samkvæmt lögum um dreifingu vátrygginga, sem dreifir frum- og/eða endurtryggingum gegn gjaldi.
 15. Vátryggingaratburður: Atvik sem samkvæmt vátryggingarsamningi veldur því að til greiðslu bóta getur komið.
 16. Vátryggingaráhætta:
  1. þeir hagsmunir sem njóta vátryggingaverndar samkvæmt vátryggingarsamningi ef vátryggingaratburður verður og
  2. þeir þættir eða aðstæður sem leitt geta til þess að vátryggingaratburður verður.
 17. Vátryggingarfjárhæð: Fjárhæð sem tilgreind er í vátryggingarsamningi og hagsmunir eru að hámarki vátryggðir fyrir.
 18. Vátryggingarskírteini: Staðfesting vátryggingafélags á því að vátryggingarsamningur hafi verið gerður þar sem fram koma m.a. upplýsingar um hvaða vátryggingu er um að ræða, vátryggingartaka og vátryggðan, svo og þær upplýsingar sem greinir í 12. gr. c.
 19. Vátryggingartaki: Sá sem gerir einstaklingsbundinn samning eða hópvátryggingarsamning við félagið. Sá telst einnig vátryggingartaki sem öðlast eignarrétt að vátryggingu.
 20. Vátryggingarverðmæti: Verðmæti vátryggðra muna eða annarra hagsmuna þegar vátryggingaratburður verður.
 21. Vátryggingatengd fjárfestingarafurð: Vátryggingarafurð með líftíma eða endurkaupsvirði og líftíminn eða endurkaupsvirðið er að öllu leyti eða hluta, beint eða óbeint, óvarið fyrir flökti á markaði og er ekki:
  1. skaðatrygging skv. 20. eða 21. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016,
  2. líftrygging þar sem bætur eru aðeins greiddar út við dauðsfall eða örorku vegna slysa eða sjúkdóma,
  3. lífeyrisréttindi (afurð) með þann megintilgang að greiða út við starfslok tekjur með tilteknum kjörum,
  4. starfstengd lífeyrisréttindi samkvæmt lögum um starfstengda eftirlaunasjóði eða lögum um vátryggingastarfsemi,
  5. lífeyrisréttindi sem krefjast fjárframlags starfsmanns og hvorki vinnuveitandi starfsmannsins né starfsmaðurinn sjálfur hafa val um lífeyrissjóðinn eða réttindin.
 22. Vátryggingasölumaður: Starfsmaður sem starfar við dreifingu vátrygginga á vegum vátryggingafélags, vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns og á ábyrgð þeirra.
 23. Vátryggingaumboðsmaður: Einstaklingur eða lögaðili sem á grundvelli samnings dreifir vátryggingum á vegum eins eða fleiri vátryggingafélaga og á ábyrgð þeirra gegn endurgjaldi.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Orðin „I. hluta“ í 1. mgr. falla brott.
 2. Í stað orðanna „þessa hluta“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: um skaðatryggingar.


4. gr.

     Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Gildissvið og skilgreiningar.

5. gr.

     4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Almenn upplýsingaskylda.
     Vátryggingamiðlari skal veita vátryggingartaka eftirfarandi upplýsingar tímanlega áður en vátryggingarsamningur er gerður:
 1. Heiti og heimilisfang hans og staðfestingu á því að hann sé vátryggingamiðlari.
 2. Hvort ráðgjöf sé veitt um vátrygginguna sem um ræðir.
 3. Hvernig hann getur lagt fram kvörtun vegna starfa vátryggingamiðlarans, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga um dreifingu vátrygginga, og hvernig fara skuli með ágreiningsmál, sbr. 47. gr. sömu laga.
 4. Hvar hann er skráður og hvernig hægt er að staðfesta skráninguna.
 5. Hvort vátryggingamiðlarinn sé fulltrúi viðskiptavinar eða vátryggingafélags og þá hvaða.

     Vátryggingafélag og umboðsmaður þess skulu veita vátryggingartaka eftirfarandi upplýsingar tímanlega áður en vátryggingarsamningur er gerður:
 1. Heiti og heimilisfang vátryggingafélags.
 2. Hvort ráðgjöf sé veitt um vátrygginguna sem um ræðir.
 3. Hvernig hann getur lagt fram kvörtun vegna starfa þeirra, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga um dreifingu vátrygginga, og hvernig fara skuli með ágreiningsmál, sbr. 47. gr. sömu laga.

     Heiti og heimilisfang vátryggingafélags skal ávallt koma fram í upplýsingum eða tilkynningum til vátryggingartaka, svo og heiti og heimilisfang höfuðstöðva félagsins þegar um útibú er að ræða.
     Aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð skal upplýsa vátryggingartaka um atriði skv. 1., 3. og 4. tölul. 1. mgr.
     Þegar um ábyrgðartryggingu ökutækja er að ræða og veitt er þjónusta án starfsstöðvar skal nafn og heimilisfang þess fulltrúa félagsins sem annast tjónsuppgjör einnig koma fram.
     Hver sá sem hefur með höndum sölu vátrygginga á vegum vátryggingafélags skal við störf sín framvísa fullnægjandi skilríkjum sem útgefin eru af því félagi eða félögum sem hann starfar fyrir.

6. gr.

     5. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Upplýsingar um hagsmunaárekstra, gagnsæi og endurgjald.
     Vátryggingamiðlari skal veita vátryggingartaka eftirfarandi upplýsingar með góðum fyrirvara áður en vátryggingarsamningur er gerður:
 1. Hvort hann fari með virkan eignarhlut í vátryggingafélagi sem vátryggir, sbr. 44. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
 2. Hvort vátryggingafélag eða móðurfélag vátryggingafélags fari með virkan eignarhlut í vátryggingamiðluninni, sbr. 44. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
 3. Hvort hann, vegna vátryggingarsamninga sem hann leggur til eða gefur ráðgjöf um:
  1. veiti ráðgjöfina á grundvelli hlutlausrar og persónulegrar þarfagreiningar,
  2. sé samningsbundinn til að dreifa vátryggingum fyrir eitt eða fleiri vátryggingafélög; ef um fleiri vátryggingafélög er að ræða skulu nöfn þeirra tilgreind,
  3. sé hvorki samningsbundinn einu eða fleiri vátryggingafélögum né veiti ráðgjöf á grundvelli hlutlausrar og persónulegrar þarfagreiningar; í slíkum tilvikum skal tilgreina nöfn þeirra vátryggingafélaga sem hann á viðskipti við.
 4. Hvaða form sé á endurgjaldi sem hann fær vegna samningsins.
 5. Hvort hann starfi:
  1. gegn gjaldi sem viðskiptavinurinn greiði,
  2. gegn því að fá umboðslaun af einhverju tagi, þ.e. að endurgjaldið sé innifalið í iðgjaldinu,
  3. gegn annars konar endurgjaldi, þar á meðal hvers konar efnahagslegum ávinningi vegna vátryggingarsamningsins,
  4. gegn samsettu endurgjaldi skv. a-, b- eða c-lið.

     Ef vátryggingartaki greiðir endurgjald beint til vátryggingamiðlara skal hann upplýstur fyrir fram um fjárhæðina eða, ef það er ekki mögulegt, hvernig endurgjaldið er reiknað.
     Vátryggingafélag skal, áður en vátryggingarsamningur er gerður, upplýsa vátryggingartaka með góðum fyrirvara um hvers konar endurgjald vátryggingasölumaður eða vátryggingaumboðsmaður fær vegna samningsins.
     Ef vátryggingartaki greiðir aðrar greiðslur en iðgjöld og reglubundnar greiðslur vegna vátryggingarsamnings eftir lok hans skal upplýsa hann um slíkar greiðslur.
     Aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð skal upplýsa vátryggingartaka um form á endurgjaldi, sbr. 4. tölul. 1. mgr.
     Upplýsingar samkvæmt ákvæði þessu skal einnig veita við breytingu eða endurnýjun á vátryggingarsamningi.

7. gr.

     6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Þarfagreining.
     Áður en vátryggingarsamningur er gerður skal dreifingaraðili vátrygginga skilgreina kröfur og þarfir vátryggingartaka á grundvelli upplýsinga frá honum sjálfum. Upplýsingar um mögulega vátryggingarsamninga skulu vera hlutlausar og í samræmi við þarfir vátryggingartaka og á því formi sem gerir vátryggingartaka kleift að taka upplýsta ákvörðun.
     Ef ráðgjöf er veitt áður en vátryggingarsamningur er gerður skal dreifingaraðili vátrygginga veita vátryggingartaka persónulega ráðgjöf og útskýra hvers vegna tiltekin vátrygging hentar best þörfum hans. Þarfagreiningin skal taka mið af eðli vátryggingarinnar sem mælt er með og þekkingu vátryggingartaka á vátryggingunni.
     Ef vátryggingamiðlari gerir þarfagreiningu skal ráðgjöfin byggjast á greiningu á nægilegum fjölda vátrygginga sem eru í boði sem gera honum kleift að veita faglega og persónulega ráðleggingu um hvaða vátrygging henti best þörfum vátryggingartaka.
     Áður en vátryggingarsamningur er gerður og án tillits til þess hvort vátryggingarsamningurinn er hluti af pakka skv. 9. gr. skal dreifingaraðili vátrygginga veita vátryggingartaka upplýsingar um vátryggingu á því formi sem gerir honum kleift að taka upplýsta ákvörðun um hana.

8. gr.

     7. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Formskilyrði við upplýsingagjöf.
     Dreifingaraðili vátrygginga skal veita vátryggingartaka upplýsingar samkvæmt kafla þessum og 140. gr. d á pappír eða öðrum varanlegum miðli.
     Gera skal vátryggingartaka kleift, fyrir gerð vátryggingarsamnings, að kynna sér skilmála vátryggingarinnar, vátryggingaverndina og kjör sem í boði eru. Upplýsingarnar skulu vera á íslensku eða öðru tungumáli sem vátryggingartaki samþykkir og settar skýrt fram án endurgjalds.
     Ef upplýsingar eru veittar á varanlegum miðli eða á vefsvæði skal sá vátryggingartaki sem þess óskar fá eintak á pappír.
     Heimilt er að veita upplýsingar á varanlegum miðli öðrum en pappír ef það er viðeigandi vegna viðskiptanna og vátryggingartaki kýs að fá upplýsingarnar þannig.
     Dreifingaraðila vátrygginga er heimilt að veita vátryggingartaka upplýsingar á vefsvæði sínu ef þeim er beint sérstaklega til hans eða eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
 1. Viðeigandi er að veita upplýsingarnar vegna viðskiptanna á vefsvæðinu.
 2. Vátryggingartaki samþykkir að upplýsingarnar séu veittar á vefsvæðinu.
 3. Vátryggingartaki hefur verið upplýstur um vefsvæðið og hvar upplýsingarnar er að finna þar.
 4. Upplýsingarnar eru aðgengilegar á vefsvæðinu svo lengi sem vátryggingartakinn þarf á þeim að halda.

     Upplýsingar skv. 4. og 5. mgr. teljast fullnægjandi birtar á varanlegum miðli og vefsvæði ef unnt er að sýna fram á að vátryggingartaki hafi reglulegan aðgang að netinu. Litið skal á það sem sönnun ef vátryggingartaki hefur gefið upp netfang í því skyni að sinna viðskiptum vegna vátryggingarsamnings.
     Við símsölu skal dreifingaraðili vátrygginga veita vátryggingartaka upplýsingar samkvæmt þessum kafla og 140. gr. d munnlega og skal þegar eftir gerð vátryggingarsamningsins senda vátryggingartaka staðlað upplýsingaskjal skv. 10. gr. eða upplýsingar skv. 11. gr. eftir því hvað við á. Upplýsingarnar skal senda á varanlegum miðli ef vátryggingartaki hefur valið að fá upplýsingarnar þannig.

9. gr.

     8. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Upplýsingar um efni löggjafar.
     Gildi önnur löggjöf en íslensk um vátryggingarsamninginn skal félagið eða sá sem gerir samninginn fyrir þess hönd upplýsa vátryggingartaka um efni þeirrar löggjafar sem gilda skal um samninginn.
     Val á löggjöf um vátryggingarsamning skv. XXII. kafla ásamt staðfestingu á að vátryggingartaki hafi fengið upplýsingar skv. 1. mgr. skal koma fram í samningnum sjálfum eða í fylgigögnum með honum.

10. gr.

     9. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Vátrygging með annarri vöru eða þjónustu.
     Ef vátrygging er boðin með vöru eða þjónustu sem hluti af pakka eða í sama samningi skal dreifingaraðili vátrygginga upplýsa vátryggingartaka hvort unnt er að kaupa afurðirnar hvora í sínu lagi. Ef unnt er að kaupa þær hvora í sínu lagi skal vátryggingartaki fá fullnægjandi upplýsingar um hvora afurð fyrir sig auk aðgreinds kostnaðar af hvorri afurð á sannanlegan hátt.
     Ef vátryggingaverndin yrði önnur ef vátrygging skv. 1. mgr. er tekin ein og sér skal dreifingaraðili gefa nákvæma lýsingu á því hvernig samsetningin breytir vátryggingaverndinni.
     Þegar vátrygging er boðin sem viðbót með sölu eða þjónustu skal dreifingaraðili bjóða vátryggingartaka þann valkost að kaupa þjónustuna eða vöruna sér.
     Í tilvikum sem um getur í 1. og 3. mgr. skal dreifingaraðili greina þarfir vátryggingartaka vegna vátrygginga sem eru hluti af pakka eða í sama samningi.
     Ef sýnt er fram á að tiltekin sala vátrygginga með vöru eða þjónustu sem hluti af pakka eða sama samningi samkvæmt þessu ákvæði sé skaðleg hagsmunum neytenda getur Fjármálaeftirlitið gert auknar kröfur um söluna eða bannað hana.

11. gr.

     10. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Staðlað upplýsingaskjal vegna skaðatrygginga.
     Við dreifingu skaðatrygginga skv. 20. gr. laga um vátryggingastarfsemi skal dreifingaraðili veita staðlaðar upplýsingar á sérstöku skjali á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Vátryggingafélag skal útbúa slíkt upplýsingaskjal vegna allra skaðatrygginga.
     Staðlað upplýsingaskjal skal uppfylla eftirfarandi formkröfur:
 1. vera sjálfstætt skjal,
 2. vera stutt, skýrt og auðvelt aflestrar,
 3. ef það er framleitt í lit skal það vera jafnauðvelt aflestrar og ef það er prentað eða ljósritað í svarthvítu,
 4. vera á íslensku eða öðru tungumáli sem aðilar semja um,
 5. vera nákvæmt og ekki villandi,
 6. hafa yfirskriftina „upplýsingaskjal um vátryggingu“ efst á fyrstu blaðsíðu,
 7. innihalda yfirlýsingu um að tæmandi upplýsingar hafi verið veittar áður en vátryggingarsamningur er gerður og að skilmálar samningsins komi fram í öðrum skjölum.

     Staðlað upplýsingaskjal skal innihalda eftirfarandi upplýsingar:
 1. tegund vátryggingarinnar sem um ræðir,
 2. samantekt um vátryggingaverndina, þ.m.t. helstu áhættur sem eru tryggðar, vátryggingarupphæð og, eftir atvikum, landfræðilegt gildissvið og hvaða áhættur eru ekki bættar,
 3. greiðslumáta iðgjalda og greiðslutíma,
 4. helstu undanþágur frá bótakröfu,
 5. skyldur aðila við upphaf samnings,
 6. skyldur aðila á samningstímanum,
 7. skyldur aðila vegna bótakröfu,
 8. gildistíma samningsins, þ.m.t. upphafs- og lokadagsetningu,
 9. skilyrði fyrir uppsögn samningsins.

     Fjármálaeftirlitið skal setja reglur um form á stöðluðu upplýsingaskjali um vátryggingarsamninga.

12. gr.

     11. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Sérstök upplýsingaskylda vegna persónutrygginga.
     Áður en vátryggingarsamningur er gerður í greinaflokkum líftrygginga og öðrum sem leyfi er veitt fyrir skv. 21. gr. laga um vátryggingastarfsemi og á samningstímanum skal vátryggingartaki upplýstur á íslensku um eftirfarandi atriði:
 1. allar tegundir bóta sem í samningnum felast og um rétt til breytinga á þeim á samningstímanum,
 2. gildistíma líftryggingarinnar,
 3. hvernig samningnum verði sagt upp,
 4. hvernig iðgjöld skuli greidd, hve lengi og hvernig þeim verði breytt á samningstímanum,
 5. hvernig ágóðahluti er reiknaður og hvernig og hvenær hann verði greiddur ef við á,
 6. reglur um endurkaup og frítryggingu og að hvaða marki ábyrgst er að réttur til slíks sé fyrir hendi ef við á,
 7. sundurliðun iðgjalda á hverja grein líftrygginga (bótategunda) og vegna aukagreina þegar þær eru innifaldar,
 8. líftryggingar tengdar fjárfestingum, skilgreiningu á hlutaeiningum sem tengdar eru bótum,
 9. líftryggingar tengdar fjárfestingum, hvers eðlis eignir að baki hlutaeiningum eru,
 10. hvernig háttað er rétti vátryggingartaka til að hætta við að taka líftrygginguna,
 11. skatta sem ber að greiða vegna líftryggingarinnar.

     Auk líftryggingarskilmála, bæði almennra skilmála og sérskilmála, sem látnir skulu í té, skal vátryggingartaki á samningstíma líftryggingar upplýstur um eftirfarandi:
 1. sérhverjar breytingar á atriðum sem snerta heiti félagsins, félagsform, heimilisfang aðalstöðva þess og þegar við á þess útibús sem samningur er gerður við,
 2. sérhverjar breytingar varðandi vátryggingarskilmála eða breytingar á lögum sem snerta a–h-lið 1. mgr.,
 3. árlega um stöðu inneignar vegna ágóðahluta, ef við á.

     Heimilt er að veita upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. á öðru tungumáli en segir í 1. mgr. að fenginni beiðni vátryggingartaka eða þegar vátryggingartaki hefur val um þá löggjöf sem gildir um samninginn.
     Hafi samningur um líftryggingu til a.m.k. sex mánaða komist á og sé um einstaklingslíftryggingu að ræða skal félagið tilkynna vátryggingartaka um gildistöku samningsins. Vátryggingartaki skal hafa 30 daga frest til að segja vátryggingunni upp frá þeim tíma er honum barst tilkynningin. Sannanleg uppsögn leysir aðila undan öllum skyldum sem síðar hefði leitt af samningnum.
     Réttaráhrif og skilyrði uppsagnar fara að öðru leyti eftir þeim lögum sem um samninginn gilda.
     Almenningi skal heimill aðgangur að upplýsingum um þann grundvöll sem útreikningur líftryggingarskuldar og ágóðahlutar er reistur á.

13. gr.

     12. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Stóráhætta.
     Ekki þarf að veita upplýsingar samkvæmt ákvæðum þessa kafla ef vátryggingu er dreift vegna stóráhættu, sbr. 35. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

14. gr.

     Á eftir 12. gr. laganna koma fimm nýjar greinar, 12. gr. a – 12. gr. e, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (12. gr. a.)
Skyldubundinn starfstengdur lífeyrir.
     Ef dreifingaraðili ber ábyrgð á skyldubundnum starfstengdum lífeyri fyrir vinnuveitanda og starfsmaður verður aðili að slíku fyrirkomulagi án þess að hafa sjálfur tekið um það ákvörðun skal dreifingaraðili þá þegar veita starfsmanninum upplýsingar samkvæmt þessum kafla.
     
     b. (12. gr. b.)
Skyldur vátryggingafélags við tjón.
     Vátryggingafélag skal sjá til þess að tjónþoli fái fullnægjandi upplýsingar um bótarétt sinn og sundurliðun á því hvernig bætur til hans eru ákveðnar.
     
     c. (12. gr. c.)
Vátryggingarskírteini.
     Þegar er samningur hefur verið gerður og ákveðið er hvaða skilmálar gilda um vátrygginguna skal félagið afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á því að samningur sé kominn á og vísa til skilmála hans. Auk skírteinisins skal félagið afhenda vátryggingartaka skilmálana.
     Í vátryggingarskírteini skal koma fram:
 1. heiti vátryggingar,
 2. gildistími vátryggingarsamnings,
 3. hverjir séu aðilar að vátryggingarsamningnum,
 4. iðgjald vegna vátryggingarinnar og gjalddagi þess,
 5. árétting til vátryggingartaka um að hann kynni sér ákvæði skilmála vátryggingarinnar sem varða fyrirvara sem tengjast greiðslu iðgjalds, takmörkun ábyrgðar, varúðarreglur sem um vátrygginguna gilda og fresti til að tilkynna um vátryggingaratburð,
 6. ákvæði vátryggingarsamningsins sem ekki koma fram í vátryggingarskilmálunum,
 7. hvaða frestur sé til þess að tilkynna um vátryggingaratburð þegar hann hefur orðið, sbr. 1. mgr. 51. gr. og 1. mgr. 124. gr.

     Ef rétthafi er tilnefndur við töku persónutryggingar skal hann tilgreindur í vátryggingarskírteini.
     
     d. (12. gr. d.)
Upplýsingar við endurnýjun vátryggingar.
     Við endurnýjun vátryggingar skal félagið upplýsa um nýja valkosti í vátryggingum þeim sem um ræðir eða viðbótarvernd sem það getur veitt og er tilkomin eftir að vátrygging var tekin eða endurnýjuð síðast.
     
     e. (12. gr. e.)
Vöruþróun og dreifing.
     Vátryggingafélag og vátryggingamiðlari skulu hafa vöruþróunarferli þegar nýjar vátryggingar eru þróaðar eða verulegar breytingar gerðar á vátryggingum sem þegar eru í boði.
     Vöruþróunarferli skal hafa samþykktarferli, skilgreindan markhóp fyrir vátrygginguna og meta sérstaklega áhættur sem skipta máli fyrir markhópinn. Dreifingaráætlun og markaðssetning skal vera í samræmi við markhópinn og gera skal ráðstafanir til að tryggja að markaðssetning beinist að honum.
     Vátryggingafélag skal tryggja að innan félagsins sé skilningur á þeim vátryggingum sem eru í boði. Vátryggingin skal endurskoðuð reglulega, með tilliti til atburða sem gætu haft áhrif á áhættu markhópsins, svo að unnt sé að meta hvort vátryggingin samræmist enn þörfum hans og hvort gera skuli ráðstafanir til að markaðssetningin beinist áfram að markhópnum.
     Vátryggingafélag skal hafa aðgengilegar upplýsingar fyrir dreifingaraðila um nýjar vátryggingar, vöruþróunarferli og skilgreindan markhóp vátryggingarinnar.
     Dreifingaraðili skal afla sér viðeigandi upplýsinga um vátryggingar sem hann veitir ráðgjöf um, sbr. 4. mgr., til að tryggja þekkingu á eiginleikum hennar og skilgreindum markhópi.
     Ráðherra skal setja reglugerð um nánari útfærslu og ferla við upplýsingagjöf samkvæmt ákvæði þessu.

15. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Upplýsingaskylda.

16. gr.

     Á undan III. kafla laganna kemur ný hlutafyrirsögn, II. hluti, Skaðatryggingar, og breytist röð annarra hluta samkvæmt því.

17. gr.

     Á undan 13. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. f, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Gildissvið II. hluta.
     Ákvæði í þessum hluta laganna gilda um skaðatryggingar.

18. gr.

     Í stað orðsins „skriflegt“ í 2. mgr. 13. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sannanlegt.

19. gr.

     Í stað orðsins „skrifleg“ í 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sannanleg.

20. gr.

     Í stað orðsins „skriflega“ í 1. málsl. 2. mgr. 51. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 58. gr., 1. málsl. 3. mgr. 79. gr., 1. mgr. 102. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 124. gr. laganna kemur: sannanlega.

21. gr.

     Í stað orðanna „10. gr.“ í lokamálslið 55. gr. laganna kemur: 12. gr. c.

22. gr.

     Fyrirsögn I. hluta laganna verður: Almenn ákvæði.

23. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
 1. 2. mgr. fellur brott.
 2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gildissvið III. hluta.


24. gr.

     62.–72. gr. laganna falla brott.

25. gr.

     Á eftir 140. gr. laganna kemur nýr hluti, IV. hluti, Vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir, með einum nýjum kafla, XX. kafla, Vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir, með átta nýjum greinum, 140. gr. a – 140. gr. h, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist röð annarra hluta og kafla samkvæmt því:
     
     a. (140. gr. a.)
Gildissvið IV. hluta.
     Auk ákvæða í I. hluta gildir þessi hluti um dreifingu vátryggingamiðlara, vátryggingafélaga og vátryggingaumboðsmanna á vátryggingatengdum fjárfestingarafurðum.
     Í þessum hluta eru dreifingaraðilar: vátryggingamiðlari, vátryggingafélag og vátryggingaumboðsmaður.
     
     b. (140. gr. b.)
Ráðstafanir til varnar hagsmunaárekstrum.
     Dreifingaraðilar skulu hafa skilvirkt skjalfest verklag til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem geta haft neikvæð áhrif á hagsmuni viðskiptavinar. Verklagið skal taka mið af starfseminni, vátryggingarafurðunum og dreifingaraðilum.
     
     c. (140. gr. c.)
Hagsmunaárekstrar.
     Dreifingaraðilar skulu greina mögulega hagsmunaárekstra sem geta orðið milli þeirra, þ.m.t. stjórnenda og starfsfólks, eða annarra aðila sem beint eða óbeint tengjast þeim, og viðskiptavina eða milli einstakra viðskiptavina.
     Ef verklag skv. 140. gr. b tryggir ekki svo óyggjandi sé hagsmuni viðskiptavinar skulu dreifingaraðilar, áður en vátryggingarsamningur er gerður, greina viðskiptavininum frá eðli hagsmunaárekstranna.
     Upplýsingar skv. 2. mgr. skulu veittar á varanlegum miðli og gera viðskiptavini kleift að taka upplýsta ákvörðun um vátrygginguna sem hagsmunaáreksturinn varðar.
     
     d. (140. gr. d.)
Upplýsingagjöf.
     Til viðbótar við ákvæði 5. og 6. gr. skal, áður en gerður er samningur um vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir, veita viðskiptavini hið minnsta upplýsingar um:
 1. hvort hann muni fá reglulega þarfagreiningu,
 2. mögulegar fjárfestingarleiðir, leiðbeiningar um þær og áhættur sem felast í hverri þeirra,
 3. kostnað og tengd gjöld vegna sölunnar, þ.m.t. kostnað við ráðgjöf, ef við á, og kostnað við afurðina sem og hvernig viðskiptavinurinn getur greitt fyrir hana. Einnig skal upplýsa um allar greiðslur og þóknanir til þriðja aðila.

     Upplýsingar um kostnað og gjöld, þ.m.t. kostnað við samning, sem eru ekki tilkomin vegna undirliggjandi markaðsáhættu, skulu vera á samanteknu formi svo viðskiptavininum sé kleift að átta sig á heildarkostnaðinum og samlegðaráhrifum á ávöxtun af fjárfestingunni. Ef viðskiptavinur óskar eftir því skal leggja fram sundurliðun á kostnaði og gjöldum. Upplýsingarnar skal veita reglulega og minnst árlega á líftíma fjárfestingarinnar.
     Upplýsingagjöf samkvæmt þessari grein skal vera á samanteknu formi og gera viðskiptavini kleift að skilja eðli og áhættu afurðarinnar þannig að hann geti tekið upplýsta ákvörðun um fjárfestinguna. Upplýsingarnar má veita á stöðluðu formi.
     Þrátt fyrir ákvæði 4. og 5. tölul. 1. mgr. og 3. mgr. 5. gr. geta dreifingaraðilar greitt eða fengið greidda þóknun, umboðslaun, eða gefið eða fengið ófjárhagslegan ávinning frá öðrum en viðskiptavini eða aðila sem kemur fram fyrir hans hönd ef greiðslan eða ávinningurinn:
 1. skaðar ekki gæði þjónustunnar,
 2. kemur ekki í veg fyrir að þeir uppfylli skyldur um að starfa heiðarlega, af sanngirni og faglega með hagsmuni viðskiptavinar að leiðarljósi.

     
     e. (140. gr. e.)
Þarfagreining.
     Þegar ráðgjöf er veitt skulu dreifingaraðilar til viðbótar við upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. 6. gr. fá nauðsynlegar upplýsingar um reynslu og þekkingu viðskiptavinar á fjárfestingum vegna vátryggingatengdu fjárfestingarafurðarinnar, fjárhagsstöðu hans, þ.m.t. getu hans til að þola tap, og fjárfestingarmarkmið, þ.m.t. áhættuþol, svo að hægt sé að mæla með hentugri afurð.
     Þegar veitt er fjárfestingarráðgjöf sem felur í sér að vátrygging er boðin með vöru eða þjónustu, sem hluti af pakka eða í sama samningi skv. 9. gr., skal tryggt að heildarpakkinn samræmist þörfum viðskiptavinar.
     
     f. (140. gr. f.)
Lágmarksupplýsingaöflun.
     Þrátt fyrir að ráðgjöf sé ekki veitt skv. 140. gr. e skulu dreifingaraðilar til viðbótar við upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. 6. gr. fá upplýsingar um þekkingu og reynslu viðskiptavinar á fjárfestingum vegna afurðarinnar svo að hægt sé að meta hvort hún henti viðskiptavininum. Þegar vátrygging er boðin með vöru eða þjónustu, sem hluti af pakka eða í sama samningi skv. 9. gr., skal meta hvort heildarpakkinn samræmist þörfum viðskiptavinar.
     Ef afurð samræmist ekki þörfum viðskiptavinar skal hann upplýstur um það.
     Ef viðskiptavinur veitir ekki upplýsingar skv. 1. mgr. eða veitir ófullnægjandi upplýsingar skal hann upplýstur um að ekki sé hægt að meta hvort afurðin samræmist þörfum hans. Slíkar upplýsingar geta verið á stöðluðu formi.
     
     g. (140. gr. g.)
Varðveisla gagna og form upplýsingagjafar.
     Dreifingaraðilar skulu varðveita öll skjöl sem liggja til grundvallar viðskiptum, þar sem fram koma réttindi og skyldur aðila og aðrir skilmálar þjónustunnar.
     Að minnsta kosti árlega skal dreifingaraðili láta viðskiptavini í té á varanlegum miðli samantekt um veitta þjónustu þar sem fram koma upplýsingar um regluleg samskipti og aðrar upplýsingar sem miðast við hversu flókin vátryggingatengda fjárfestingarafurðin er og eðli þjónustunnar. Þegar við á skal tilgreina kostnað viðskiptavinar vegna viðskiptanna og þjónustunnar.
     Þegar ráðgjöf er veitt um vátryggingatengda fjárfestingarafurð skal, áður en samningur er gerður, veita viðskiptavini samanteknar upplýsingar á varanlegum miðli sem tilgreinir hvaða ráðgjöf er veitt og hvernig sú ráðgjöf uppfyllir markmið og þarfir viðskiptavinarins skv. 1.–4. mgr. 7. gr.
     Ef vátryggingarsamningur er gerður í fjarsölu eða á annan hátt þar sem ekki er unnt að veita upplýsingar fyrir samningsgerð má veita samanteknu upplýsingarnar á varanlegum miðli þegar samningurinn er kominn á, ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
 1. viðskiptavinur hefur samþykkt að fá upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar eftir að samningurinn er komin á og
 2. viðskiptavini hefur verið gefinn kostur á að fresta gerð samningsins til að fá upplýsingarnar fyrir gerð samningsins.

     Þegar þarfagreining er gerð reglulega á samningstímanum skal niðurstaðan koma fram í samantekt skv. 2. mgr.
     
     h. (140. gr. h.)
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra skal setja reglugerð þar sem ákvæði 140. gr. b eru útfærð nánar og:
 1. skilgreint hvaða kröfur eru gerðar til dreifingaraðila til að greina, koma í veg fyrir, stýra og birta upplýsingar um hagsmunaárekstra vegna dreifingar á vátryggingatengdum fjárfestingarafurðum,
 2. tilgreind viðmið um þá hagsmunaárekstra sem kunna að skaða hagsmuni viðskiptavina.

     Ráðherra getur sett reglugerð þar sem sett eru viðmið vegna endurgjalds skv. 140. gr. d:
 1. um mat á því hvort endurgjald sem dreifingaraðili greiðir eða tekur við feli í sér söluhvata sem hafi skaðleg áhrif á gæði þjónustunnar,
 2. um mat á því hvort dreifingaraðili, sem greiðir eða tekur við endurgjaldi sem felur í sér söluhvata, starfi af heiðarleika, sanngirni og faglega í samræmi við hagsmuni viðskiptavinarins.

     Ráðherra skal setja reglugerð þar sem tilgreint er nánar hvernig vátryggingamiðlarar eða vátryggingafélög skulu fylgja meginreglum 140. gr. c – 140. gr. g, þ.m.t. hvaða upplýsingar skuli fá frá viðskiptavini við þarfagreiningu. Upplýsingarnar skulu taka mið af:
 1. eðli þjónustunnar sem er veitt að teknu tilliti til tegundar, markmiðs, umfangs og tíðni viðskiptanna,
 2. eðli afurðanna sem boðnar eru, þ.m.t. mismunandi tegundum vátryggingatengdra fjárfestingarafurða,
 3. hvort viðskiptavinur hefur almenna þekkingu eða fagþekkingu.


26. gr.

     Í stað orðanna „Sambands íslenskra tryggingafélaga“ í 1. mgr. 141. gr. laganna kemur: Samtaka fjármálafyrirtækja.

27. gr.

     Á eftir 141. gr. laganna kemur ný grein, 141. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Úrskurðarnefnd vegna dreifingar vátrygginga.
     Ágreiningi milli dreifingaraðila og viðskiptavinar eða vátryggingartaka um réttindi og skyldur skv. I. og IV. hluta má vísa til úrskurðarnefndar um dreifingu vátrygginga.
     Úrskurðarnefndin kveður upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda en aðilar máls geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla.

28 gr.

     Fyrirsögn III. hluta laganna, sem verður V. hluti, verður: Ýmis ákvæði.

29. gr.

     Á undan XXII. kafla laganna kemur nýr kafli, XXIII. kafli, Eftirlit og viðurlög, með sjö nýjum greinum, 145. gr. a – 145. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist röð annarra kafla samkvæmt því:
     
     a. (145. gr. a.)
Eftirlit.
     Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirlit með því að upplýsingagjöf dreifingaraðila sé í samræmi við I. og IV. hluta.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að upplýsingagjöf í þjónustu án starfsstöðvar og útibúa hér á landi sé í samræmi við I. og IV. hluta. Eftirlit samkvæmt þessu ákvæði skal vera í samræmi við ákvæði 44. og 45. gr. laga um dreifingu vátrygginga.
     Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um vátryggingastarfsemi, laga um dreifingu vátrygginga og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Ef vátryggingamiðlari, vátryggingaumboðsmaður eða aðili sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð og hefur starfsleyfi eða er skráður hér á landi en meginstarfsstöð er í öðru aðildarríki getur Fjármálaeftirlitið gert samkomulag við eftirlitsstjórnvald þess ríkis um að það komi fram sem eftirlitsstjórnvald viðkomandi aðila vegna ákvæða laga þessara. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna viðkomandi aðila og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um slíkt fyrirkomulag án tafar.
     
     b. (145. gr. b.)
Stjórnvaldssektir.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
 1. 4. gr. um almenna upplýsingaskyldu,
 2. 5. gr. um upplýsingar um hagsmunaárekstra, gagnsæi og endurgjald,
 3. 6. gr. um þarfagreiningu,
 4. 7. gr. um formskilyrði við upplýsingagjöf,
 5. 1.–3. mgr. 9. gr. um kröfur þegar vátrygging er boðin með annarri vöru eða þjónustu,
 6. 1.–3. mgr. 10. gr. um staðlað upplýsingaskjal vegna skaðatrygginga,
 7. 11. gr. um sérstaka upplýsingaskyldu vegna persónutrygginga,
 8. 1.–5. mgr. 12. gr. e um ferli við nýjar vátryggingar,
 9. 140. gr. b um ráðstafanir til varnar hagsmunaárekstrum,
 10. 140. gr. c um hagsmunaárekstra,
 11. 140. gr. d um upplýsingagjöf,
 12. 140. gr. e um þarfagreiningu,
 13. 140. gr. f um lágmarksupplýsingaöflun,
 14. 140. gr. g um varðveislu gagna og form upplýsingagjafar.

     Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 90 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 650 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 5% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 5% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu eða allt að tvöfaldri fjárhæð hagnaðar eða taps sem komist er hjá vegna brotsins ef mögulegt er að ákvarða það. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     
     c. (145. gr. c.)
Sátt.
     Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
     
     d. (145. gr. d.)
Réttur einstaklinga.
     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
     
     e. (145. gr. e.)
Fyrning stjórnvaldssektar.
     Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
     Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
     
     f. (145. gr. f.)
Tilkynning um brot.
     Dreifingaraðili vátrygginga skal vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot eða mögulegt brot skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, gegn misrétti eða annars konar ósanngjarnri meðhöndlun sem rekja má til tilkynningar hans.
     Ef dreifingaraðili brýtur gegn skyldu sinni skv. 1. mgr. skal hann greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.
     Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi á milli starfsmanns og fyrirtækis.
     
     g. (145. gr. g.)
Innleiðing.
     Með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018, frá 26. október 2018, eru með lögum þessum tekin upp 1. mgr. 2. gr., 12., 14., 15., 18. og 19. gr., 1. og 4.–9. mgr. 20. gr., 21. gr., 1. og 5. mgr. 22. gr., 23.–29. gr., 1., 2. og 4.–6. mgr. 30. gr., 31. gr., 33.–35. gr. og viðauki I tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/97 um dreifingu vátrygginga.

30. gr.

     Fyrirsögn XXII. kafla laganna, sem verður XXIV. kafli, verður: Gildistaka.

31. gr.

     Fyrirsögn IV. hluta laganna, sem verður VI. hluti, verður: Eftirlit og viðurlög.

32. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Úrskurðarnefnd skv. 141. gr. a skal skipuð eigi síðar en 1. janúar 2020.
     Ráðherra skipar nefnd með fulltrúum frá dreifingaraðilum og Neytendasamtökunum sem er ætlað að koma með tillögu um skipulag, fjármögnun og málsmeðferðarreglur úrskurðarnefndarinnar. Nefndin skal ljúka störfum og skila tillögum til ráðherra fyrir árslok 2019.

33. gr.

Gildistaka.

     Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2019.

Samþykkt á Alþingi 7. júní 2019.