Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 2070, 149. löggjafarþing 782. mál: raforkulög og Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði).
Lög nr. 112 6. september 2019.

Lög um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði).


I. KAFLI
Breyting á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

     Í stað orðanna „og kostnaði við kerfisstjórnun“ í 1. málsl. 1. tölul. 3. mgr. 12. gr. laganna kemur: kostnaði við kerfisstjórnun og gjaldtöku skv. 31. gr.

2. gr.

     Í stað orðanna „og kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu“ í 1. málsl. 1. tölul. 3. mgr. 17. gr. laganna kemur: kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu og gjaldtöku skv. 31. gr.

3. gr.

     Á eftir 1. mgr. 24. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Eftirlit samkvæmt lögum þessum, að undanskildum verkefnum tengdum virkjanaleyfum, sbr. 4., 5. og 6. gr., er falið raforkueftirliti Orkustofnunar. Stofnunin er sjálfstæð í ákvörðunum sínum þegar hún sinnir þessu eftirliti og getur ráðherra ekki gefið fyrirmæli um framkvæmd þess. Nánar skal kveðið á um hlutverk og verkefni raforkueftirlits Orkustofnunar í reglugerð.
     Orkustofnun er heimilt að gefa út almennar leiðbeiningar um starfsemi aðila sem heyra undir lög þessi, enda varði málefnið hóp eftirlitsskyldra aðila.
     Til að tryggja sjálfstæði ákvarðana Orkustofnunar skal stofnunin setja sér starfsreglur.

4. gr.

     Á eftir 26. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 26. gr. a og 26. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (26. gr. a.)
Áminning.
     Orkustofnun getur veitt skriflega áminningu með tilhlýðilegum fresti til úrbóta fyrir brot gegn lögum þessum og skal birta slíkar áminningar á vefsíðu stofnunarinnar.
     
     b. (26. gr. b.)
Stjórnvaldssektir.
     Orkustofnun getur lagt stjórnvaldssektir á aðila sem brjóta gegn 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 7. gr., 5. mgr. 8. gr., 1.–2. málsl. 2. mgr. 9. gr., 12. gr. a, 2. mgr. 16. gr. og 17. gr. a. Orkustofnun getur jafnframt lagt stjórnvaldssektir á aðila sem sinna ekki kröfum um úrbætur skv. 26. gr. a eða brjóta ítrekað gegn ákvæðum laga þessara.
     Sektir skv. 1. mgr. geta numið allt að 10% af veltu fyrirtækis. Við ákvörðun á fjárhæð sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Sektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtu. Sektir sem Orkustofnun ákvarðar eru ekki hluti af tekjumörkum.
     Falla má frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða af öðrum ástæðum sé ekki talin þörf á slíkum sektum til að framfylgja lögum þessum. Ákvörðun Orkustofnunar um sektir má skjóta til úrskurðarnefndar raforkumála.

5. gr.

     1. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
     Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru af Orkustofnun á grundvelli laga þessara og varða verkefni er lúta ekki að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa skv. 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 11. gr. sæta kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
  1. Í stað fjárhæðarinnar „0,4 aurum“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 0,58 aurum.
  2. Í stað fjárhæðarinnar „1 eyri“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 1,45 aurum.
  3. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Orkustofnun ákveður hvernig gjaldi skv. 1. mgr. skuli varið til að sinna raforkueftirliti samkvæmt lögum þessum.


7. gr.

     3. mgr. 37. gr. laganna fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, með síðari breytingum.

8. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Orkustofnun er sjálfstæð í ákvörðunum sínum þegar stofnunin sinnir raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði a- og b-liðar 6. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2020.

Samþykkt á Alþingi 2. september 2019.