Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 621, 150. löggjafarþing 101. mál: skráning einstaklinga (heildarlög).
Lög nr. 140 13. desember 2019.

Lög um skráningu einstaklinga.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.
     Markmiðið með lögum þessum er að tryggja að haldin sé áreiðanleg skrá yfir einstaklinga og að skráningin sé rétt svo að hún skapi grundvöll fyrir tiltekin réttindi og tilteknar skyldur einstaklinga. Enn fremur er það markmið að skráning upplýsinga í þjóðskrá byggist á bestu fáanlegu gögnum á hverjum tíma.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um skráningu einstaklinga hér á landi.
     Skráning einstaklinga fer fram í þjóðskrá. Þjóðskrá inniheldur grunnupplýsingar um einstaklinga sem nauðsynlegar eru til starfrækslu ríkis og sveitarfélaga.
     Í þjóðskrá eru eftirtaldir skráðir:
  1. Þeir sem eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
  2. Íslenskir ríkisborgarar fæddir erlendis.
  3. Börn fædd á Íslandi.


3. gr.

Stjórnsýsla.
     Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
     Þjóðskrá Íslands sér um þjóðskrá og tengdar skrár, annast rekstur og þróun gagnagrunna og upplýsingakerfa þjóðskrár og annast skráningu einstaklinga í skrána.

4. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim merkir:
  1. Birtingarnafn: Nafn eins og því er miðlað í þjóðskrá.
  2. Breytingaskrá: Sá hluti þjóðskrár sem inniheldur breytingasögu einstaklinga.
  3. Fullt nafn: Fullt nafn samkvæmt lögum um mannanöfn, þ.e. eiginnafn einstaklings eða eiginnöfn, millinafn ef því er að skipta og kenninafn eða kenninöfn.
  4. Horfinnaskrá: Miðlægt safn upplýsinga um tiltekinn hóp einstaklinga sem hafa verið felldir brott úr þjóðskrá.
  5. Íbúaskrá: Skrá sem geymir upplýsingar um íbúa sveitarfélaga, þ.e. nöfn, kennitölur, kyn, fæðingarstað, lögheimili, hjúskaparstöðu, lögheimilistengsl og ríkisfang.
  6. Kennitala: Einkvæmt auðkennisnúmer fyrir einstaklinga í þjóðskrá.
  7. Kerfiskennitala: Einkvæmt auðkenni fyrir einstaklinga, gefið út til notkunar fyrir hið opinbera vegna einstaklinga sem ekki þurfa að uppfylla, eða uppfylla ekki, skilyrði til skráningar í þjóðskrá.
  8. Kerfiskennitöluskrá: Miðlægt safn upplýsinga um tiltekinn hóp einstaklinga sem ekki þurfa að uppfylla eða uppfylla ekki skilyrði skráningar í þjóðskrá.
  9. Lögheimilistengsl: Auðkennisnúmer fyrir þá einingu í þjóðskrá sem tilgreinir sameiginlegt lögheimili ákveðins hóps einstaklinga.
  10. Miðlari: Sá aðili sem hefur heimild, samkvæmt samningi við Þjóðskrá Íslands, til að miðla upplýsingum úr þjóðskrá og tengdum skrám.
  11. Miðlun: Sú aðgerð að afhenda eða gera upplýsingar úr þjóðskrá og tengdum skrám aðgengilegar.
  12. Sérvinnsla: Vinnsla upplýsinga úr gagnagrunnum Þjóðskrár Íslands sem hefur verið sérstaklega skilgreind út frá þörfum tiltekins viðskiptavinar og framsetning gagnaafhendingar er ekki sérstaklega skilgreind í gjaldskrá.
  13. Upplýsingaeining: Minnsta afmarkaða miðlunarhæfa eining upplýsinga í þjóðskrá.
  14. Úrtaksaðili: Sá aðili sem hefur heimild til úrtaksvinnslu á grundvelli samnings við Þjóðskrá Íslands.
  15. Vensl: Fjölskyldu- eða skyldleikatengsl einstaklinga í skrám Þjóðskrár Íslands.
  16. Þjóðskrá: Miðlægt safn upplýsinga um tiltekinn hóp einstaklinga.


5. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga.
     Þjóðskrá Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga um heilsufar, ríkisfang, fæðingarland, skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög og hjúskaparstöðu, og annarra upplýsinga sem hinn skráði lætur stofnuninni í té, stofnunin aflar sjálf eða berast frá þriðja aðila í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum og sérákvæðum annarra laga að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

6. gr.

Skráningarupplýsingar í þjóðskrá.
     Í þjóðskrá eru skráðar eftirfarandi upplýsingar um einstaklinga, eftir því sem við á:
  1. fullt nafn,
  2. birtingarnafn,
  3. fæðingardagur, mánuður og ár,
  4. fæðingarstaður,
  5. kennitala,
  6. kyn,
  7. ríkisfang,
  8. hjúskaparstaða,
  9. sambúðarstaða,
  10. lögheimili,
  11. aðsetur,
  12. lögheimilistengsl,
  13. dánardagur,
  14. dánarstaður,
  15. bannmerking,
  16. hvert gjöld til skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skuli renna og
  17. vensl.

     Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að skrá aðrar þær upplýsingar sem þörf er á að safna og halda, svo sem netföng einstaklinga eða staðsetningu hjónavígslu, vegna sérstakra verkefna eða hagsmuna hins opinbera eða sem leiðir af lögum eða alþjóðlegum skuldbindingum eða til hagskýrslugerðar.
     Ráðherra kveður á um form, efni og tímasetningu upplýsingagjafar samkvæmt þessari grein með reglugerð.

7. gr.

Tilkynningar um breytingar.
     Þjóðskrá Íslands má, eftir því sem þörf krefur og heimildir leyfa, taka tillit til annarra upplýsinga sem áhrif hafa á skráningu þeirra atriða sem talin eru í 6. gr. og stofnunin aflar sér sjálf á grundvelli eftirlitsheimilda laga þessara eða laga um lögheimili og aðsetur eða sem henni berast á einn eða annan hátt, svo sem frá erlendum stjórnvöldum, eða sem einstaklingar framvísa sjálfir til skráningar.

8. gr.

Veiting upplýsinga til stjórnvalda.
     Einstaklingar sem hafa verið eða eru búsettir erlendis og skráðir eru í þjóðskrá eru ábyrgir fyrir því að upplýsingar um þá í þjóðskrá séu réttar þegar um er að ræða skráningarupplýsingar sem ekki verða tilkynntar af þar til bærum aðila innan lands.
     Þjóðskrá Íslands getur krafist þess að hún fái þær tilkynningar og upplýsingar sem hún þarfnast til starfsemi sinnar, sbr. 7. gr. og 1. mgr. þessarar greinar.

II. KAFLI
Skráning einstaklinga.

9. gr.

Skráning einstaklinga í þjóðskrá.
     Þjóðskrá Íslands annast skráningu einstaklinga í þjóðskrá og útgáfu kennitölu til þeirra.
     Hjá Þjóðskrá Íslands er sótt um skráningu í þjóðskrá á grundvelli sjálfkrafa réttar einstaklinga til íslensks ríkisfangs og skráningu ríkisborgara ríkja sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), sbr. XI. kafla laga um útlendinga. Hið sama gildir um aðra sambærilega samninga sem íslenska ríkið gerist aðili að, svo sem samninga við ríki sem kjósa að standa utan við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
     Skráning annarra en þeirra sem taldir eru í 2. mgr. fer fram á grundvelli ákvarðana Útlendingastofnunar samkvæmt lögum um útlendinga og lögum um íslenskan ríkisborgararétt.
     Einstaklingur sem óskar eftir skráningu í þjóðskrá hjá Þjóðskrá Íslands skal sanna á sér deili með framvísun vegabréfs eða viðurkennds ferðaskilríkis. Þjóðskrá Íslands er heimilt að víkja frá þessu skilyrði þegar um er að ræða nýskráningu íslenskra barna fæddra erlendis.
     Þjóðskrá Íslands getur gert samkomulag við aðra opinbera aðila um að annast móttöku umsókna og gagna vegna skráningar í þjóðskrá.

10. gr.

Breytingar á kennitölu.
     Einungis er heimilt að breyta kennitölu eða að fá nýja kennitölu útgefna ef slík breyting byggist á lagaheimild eða er nauðsynleg vegna leiðréttingar, svo sem vegna misritunar við skráningu, og þá því aðeins að fullnægjandi gögn séu lögð fram til grundvallar leiðréttingu.

11. gr.

Kerfiskennitala – sérstök skráning.
     Erlendir ríkisborgarar geta vegna sérstakra hagsmuna hér á landi fengið útgefna kerfiskennitölu hjá Þjóðskrá Íslands. Opinberir aðilar geta haft milligöngu um skráningu kerfiskennitölu.
     Við útgáfu kerfiskennitölu eru skráðar tilteknar persónuupplýsingar um þann einstakling sem hlýtur kerfiskennitöluna. Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða persónuupplýsingar skuli skrá við útgáfu kerfiskennitölu.
     Kerfiskennitölur eru haldnar í sérstakri skrá, kerfiskennitöluskrá. Kerfiskennitölur skulu við miðlun skv. III. kafla og aðra notkun aðgreindar með sýnilegum hætti frá kennitölum einstaklinga í þjóðskrá.

III. KAFLI
Miðlun þjóðskrár og útgáfa vottorða.

12. gr.

Afhending upplýsinga úr þjóðskrá.
     Öll miðlun á þjóðskrá er leyfisskyld. Þjóðskrá Íslands getur miðlað eða veitt miðlurum leyfi til að annast miðlun þjóðskrár á grundvelli samninga og skilmála sem Þjóðskrá Íslands setur í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Kveðið skal á um skilyrði fyrir leyfi í reglugerð sem ráðherra setur.
     Heildarafhending þjóðskrár er óheimil en ráðherra getur á grundvelli almannahagsmuna kveðið á um undanþágur frá því í reglugerð.
     Miðlun og afhending þjóðskrárupplýsinga til viðskiptavina fer fram á grundvelli samninga og skilmála sem Þjóðskrá Íslands setur. Um miðlun og notkun kennitölu og annarra persónugreinanlegra upplýsinga gilda reglur laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Þjóðskrá Íslands er heimilt að takmarka og hafna afhendingu á upplýsingum úr þjóðskrá eða viðkvæmum persónuupplýsingum í skilningi ákvæða laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þjóðskrá Íslands er enn fremur heimilt að takmarka afhendingu tiltekinna upplýsinga úr þjóðskrá, sbr. 6. gr., við opinbera aðila eða tiltekna starfsmenn þeirra.
     Óheimilt er að nota eða afrita þjóðskrárupplýsingar í þeim tilgangi að stofna eða viðhalda skrá til eigin nota eða til áframhaldandi miðlunar.
     Þjóðskrá Íslands hefur eftirlit með miðlun og notkun upplýsinga úr þjóðskrá. Þjóðskrá Íslands er heimilt að heimsækja starfsstöð miðlara eða viðskiptavinar hans til að ganga úr skugga um að meðhöndlun gagna úr þjóðskrá sé í samræmi við lög. Þjóðskrá Íslands getur hvenær sem er krafið miðlara eða viðskiptavin hans um að hann sýni fram á að meðhöndlun gagna úr þjóðskrá sé í samræmi við lög. Miðlara eða viðskiptavini hans er skylt að verða við beiðni stofnunarinnar þar um. Þjóðskrá Íslands er heimilt að fá óháðan úttektaraðila til að sinna eftirliti. Verði miðlarar þjóðskrár og viðskiptavinir þeirra þess áskynja að meðferð upplýsinga úr þjóðskrá samræmist ekki lögum þessum ber þeim þegar í stað að gera Þjóðskrá Íslands viðvart.
     Þjóðskrá Íslands er heimilt að taka gjald fyrir miðlun upplýsinga, sbr. 19. gr.
     Brot gegn þessu ákvæði getur varðað fyrirvaralausri afturköllun leyfis, riftun samnings og sektum, sbr. 22. gr.

13. gr.

Vottorð.
     Þjóðskrá Íslands staðfestir skráningu í þjóðskrá með útgáfu opinberra vottorða, svo sem um fæðingu, búsetu, hjúskaparstöðu, sambúðarskráningu, forsjá, ríkisfang, staðfestingu á dánardegi o.fl.
     Þjóðskrá Íslands er heimilt að taka gjald fyrir útgáfu vottorða og staðfestingu á tiltekinni skráningu í þjóðskrá samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar, sbr. 19. gr.

14. gr.

Vernd skráðra einstaklinga gegn afhendingu upplýsinga.
     Þjóðskrá Íslands getur, ef ríkar ástæður eru fyrir hendi, heimilað einstaklingi sem með rökstuddum hætti óskar eftir því, og eftir atvikum með framlagningu gagna þar um, að upplýsingum um nafn og/eða lögheimili eða aðsetur hans og nánustu fjölskyldu verði ekki miðlað úr þjóðskrá. Gildir verndin í eitt ár nema hlutaðeigandi óski þess að hún sé felld niður fyrr. Þjóðskrá Íslands er heimilt að framlengja verndina í allt að eitt ár í senn ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Þjóðskrá Íslands heimilt að afhenda opinberum aðilum hinar duldu upplýsingar ef brýn ástæða er til að mati stofnunarinnar. Enn fremur er Þjóðskrá Íslands heimilt að afhenda Hagstofu Íslands upplýsingarnar til hagskýrslugerðar.
     Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um skilyrði fyrir vernd skráðra einstaklinga gegn afhendingu upplýsinga með reglugerð.

15. gr.

Notkun þjóðskrár í markaðssetningartilgangi.
     Þjóðskrá Íslands er heimilt að afhenda upplýsingar úr þjóðskrá til fyrirtækja sem hafa heimild Þjóðskrár Íslands til úrtaksvinnslu samkvæmt samningi við stofnunina.
     Kveða skal á um skilyrði fyrir úrtaksvinnslu í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Þjóðskrár Íslands.
     Þjóðskrá Íslands heldur skrá yfir þá sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi. Ráðherra setur, í samráði við Þjóðskrá Íslands og Persónuvernd, nánari reglur um gerð og notkun slíkrar skrár og hvaða upplýsingar skuli koma þar fram. Ábyrgðaraðilar sem starfa í beinni markaðssókn og þeir sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi skulu, áður en slík skrá er notuð í slíkum tilgangi, bera hana saman við skrá Þjóðskrár Íslands til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku. Þjóðskrá Íslands getur heimilað undanþágu frá þessari skyldu í sérstökum tilvikum í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um einstaklinga sem njóta verndar skv. 14. gr.
     Þjóðskrá Íslands hefur eftirlit með úrtaksaðilum og notkun upplýsinga á sama hátt og kveðið er á um í 6. mgr. 12. gr. Verði úrtaksaðilar þjóðskrár þess áskynja að viðskiptavinir þeirra fari ekki með úrtök í samræmi við reglur Þjóðskrár Íslands ber þeim þegar í stað að gera Þjóðskrá Íslands viðvart.
     Þjóðskrá Íslands er heimilt að taka gjald fyrir notkun þjóðskrár samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 19. gr.
     Brot gegn ákvæði þessu getur varðað fyrirvaralausri riftun samnings og sektum, sbr. 22. gr.

16. gr.

Sérvinnslur.
     Þjóðskrá Íslands er heimilt að sérvinna upplýsingar úr þjóðskrá og tengdum skrám.
     Sérvinnslur Þjóðskrár Íslands skulu vera unnar í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

17. gr.

Íbúaskrá.
     Íbúaskrá sveitarfélags inniheldur tilteknar grunnupplýsingar, sbr. 5. tölul. 4. gr., um íbúa þess og miðast hún við 1. desember til jafnlengdar næsta árs.
     Þjóðskrá Íslands tekur til skoðunar athugasemdir er varða skráningu í þjóðskrá jafnóðum og þær berast. Tilgangur íbúaskrár er að tryggja að skráning einstaklinga í þjóðskrá miðað við ákveðið tímamark, sbr. 1. mgr., sé varðveitt.
     Sveitarfélög skulu yfirfara íbúaskrá sína með reglubundnum hætti en eigi sjaldnar en þrisvar á ári.

18. gr.

Mat á erlendum gögnum og kröfur til þeirra.
     Þjóðskrá Íslands leggur mat á skjöl sem framvísað er vegna skráningar. Skjöl skulu vera í frumriti eða ljósrit þeirra staðfest. Þjóðskrá Íslands getur krafist þess að lögð sé fram löggilt þýðing á vottorðum og skilríkjum sem eru á erlendum tungumálum. Einstaklingar bera sjálfir kostnað af þýðingu þeirra gagna sem Þjóðskrá Íslands óskar eftir.
     Þjóðskrá Íslands getur krafist þess að lögð verði fram staðfesting yfirvalds á gildi erlendra skjala eða vottorða.

19. gr.

Gjaldtaka.
     Um gjald fyrir upplýsingar úr þjóðskrá, afnot þeirra eða vinnslu og aðra þjónustu Þjóðskrár Íslands fer samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Heimilt er að innheimta gjöld vegna:
  1. uppflettingar í þjóðskrá,
  2. staðfestingar upplýsinga í þjóðskrá,
  3. útgáfu vottorða er byggjast á skráningu í þjóðskrá,
  4. einingarverðs fyrir hverja upplýsingaeiningu úr þjóðskrá,
  5. úrtaksvinnslu úr þjóðskrá,
  6. aðgangs að upplýsingum úr þjóðskrá í lokuðu uppflettikerfi, vefþjónustu, vefgátt eða sambærilegu viðmóti sem getur t.d. falist í árgjaldi, mánaðargjaldi og stofngjaldi þjónustu,
  7. sérvinnslu upplýsinga úr þjóðskrá og tengdum skrám, þ.m.t. fyrir vinnu starfsmanna og aðgang að gagnasöfnum,
  8. sölu á sérhæfðri þjónustu vegna lögmæltra verkefna á starfssviði stofnunarinnar.

     Tekjum af þjónustu skv. 1. mgr. skal varið til að standa undir rekstrarþáttum þjóðskrár, eftirliti með miðlun og notkun, viðhaldi, uppbyggingu og framþróun þjóðskrárkerfisins.
     Ef stofnun sem nýtur gjaldfrelsis samkvæmt lögum sem um hana gilda óskar eftir upplýsingum úr þjóðskrá og leggja þarf til vinnu sérfræðings til að gera umbeðnar upplýsingar aðgengilegar er Þjóðskrá Íslands heimilt að innheimta gjald vegna þeirrar vinnu þótt upplýsingarnar sjálfar séu gjaldfrjálsar. Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, framleiðslu, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, reksturs, viðhalds og þróunar kerfa og annars búnaðar og tækja, alþjóðlegrar samvinnu og stjórnunar- og stoðþjónustu, auk kostnaðar sem almennt hlýst af eftirliti og þjónustu.
     Sé óskað eftir þjónustu utan hefðbundins skrifstofutíma skal greiða fyrir vinnu starfsmanns samkvæmt útseldum taxta með álagi samkvæmt gjaldskrá Þjóðskrár Íslands.

20. gr.

Kostnaður við rekstur þjóðskrár.
     Ríkissjóður stendur straum af árlegum kostnaði við rekstur þjóðskrár að 9/ 10 hlutum og Tryggingastofnun að 1/ 10 hluta.

21. gr.

Undantekningar frá gjaldtöku.
     Hið árlega framlag Tryggingastofnunar skv. 20. gr. er endurgjald fyrir not hennar á upplýsingum úr þjóðskrá, svo og fyrir almenna þjónustu og aðstoð sem Þjóðskrá Íslands lætur Tryggingastofnun í té og eigi skal koma greiðsla fyrir. Ákvæði þetta gildir ekki um þjónustu sérfræðings skv. 3. mgr. 19. gr.
     Hagstofu Íslands er heimilt að hagnýta þjóðskrá og gögn hennar til hagskýrslugerðar. Þjóðskrá Íslands skal láta Hagstofu Íslands í té afrit af skránni og upplýsingar úr henni eftir því sem hún óskar og án þess að gjald komi fyrir. Þjóðskrá Íslands skal jafnframt aðstoða Hagstofu Íslands eftir föngum við að finna upplýsingar um þátttakendur í úrtaksathugunum hennar enda eru upplýsingarnar skráðar hjá Þjóðskrá Íslands. Hagstofu Íslands er skylt að fara með skrána og önnur gögn tengd henni sem hagskýrslugögn sem um gildir trúnaður.
     Sveitarfélög eiga, án þess að sérstök greiðsla komi fyrir, rétt á íbúaskrám til að sinna skyldum sínum skv. 3. mgr. 17. gr.

22. gr.

Refsingar.
     Það varðar sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum, að veita Þjóðskrá Íslands rangar eða villandi upplýsingar til skráningar, sbr. 7. gr. og 2. mgr. 8. gr., og að miðla þjóðskránni án leyfis, sbr. 12. og 15. gr.
     Gera má lögaðila fésekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn 12. gr. laga þessara.
     Tilraun og hlutdeild í brotum skv. 1. og 2. mgr. er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

23. gr.

Reglugerð.
     Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara, svo sem um:
  1. tilkynningar, söfnun og skráningu upplýsinga skv. 6. gr. sem og upphaf skráningar fleiri atriða en þar eru nefnd,
  2. skráningu og úthlutun kennitölu skv. 10. gr.,
  3. skráningu, notkun og miðlun kerfiskennitölu skv. 11. gr.,
  4. útgáfu vottorða og staðfestingu skráningar skv. III. kafla, þ.m.t. um form og efni vottorða, sbr. 13. gr.,
  5. notkun, miðlun og dreifingu upplýsinga úr þjóðskrá, þ.m.t. hvaða upplýsingum er heimilt að miðla til þriðja aðila og að hve miklu leyti, sbr. 12. gr.,
  6. notkun þjóðskrár til markaðssetningar, sbr. 15. gr.,
  7. sérvinnslur skv. 16. gr. og
  8. kröfur til framlagðra gagna, sbr. 7., 8. og 18. gr.


24. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi taka gildi 1. janúar 2020. Samtímis falla úr gildi lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, og reglur nr. 112/1958 um útgáfu vottorða og veitingu upplýsinga úr þjóðskránni.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 2. málsl. 3. mgr. 11. gr. um miðlun kerfiskennitalna, ákvæði 2. mgr. 12. gr. um bann við heildarafhendingu þjóðskrár og 4. mgr. 12. gr. um heimild Þjóðskrár Íslands til að takmarka og hafna afhendingu á upplýsingum gildi 1. janúar 2021.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 14. gr. um vernd skráðra einstaklinga gegn afhendingu upplýsinga gildi 1. janúar 2022.

25. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Lög um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum: Í stað orðanna „þjóðskrá og almannaskráningu“ í 44. gr. laganna kemur: skráningu einstaklinga.
  2. Lög um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, með síðari breytingum: Í stað orðanna „2. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu“ í 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: 3. mgr. 19. gr. laga um skráningu einstaklinga.
  3. Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, með síðari breytingum: 2. og 3. mgr. 21. gr. laganna falla brott.


Samþykkt á Alþingi 3. desember 2019.