Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 808, 150. löggjafarþing 315. mál: breyting á lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar (alþjóðlegar skuldbindingar).
Lög nr. 158 27. desember 2019.

Lög um breytingu á lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar.


I. KAFLI
Breyting á sjómannalögum, nr. 35/1985.

1. gr.

     Í stað orðanna „farþegaskipum og flutningaskipum“ í 1. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: skipum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007.

2. gr.

     Eftirfarandi orðskýring bætist við 3. gr. laganna í viðeigandi stafrófsröð: Fiskimaður er hver sá sem starfar eða er ráðinn til vinnu á fiskiskipi, þ.m.t. þeir sem eru ráðnir upp á aflahlut. Hafnsögumenn, löggæsluaðilar, aðrir aðilar í fastri þjónustu hins opinbera, starfsmenn í landi sem sinna störfum um borð í fiskiskipum eða eftirlitsmenn með fiskveiðum teljast ekki vera fiskimenn.

3. gr.

     Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Skráningar- og ráðningarþjónusta fiskimanna.
     Fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu fiskimanna skulu starfa í samræmi við viðurkennd gæðastjórnunarkerfi að fengnu leyfi frá Samgöngustofu.
     Skráningar- og ráðningarþjónusta skal vera skilvirk, fullnægjandi, áreiðanleg, fiskimönnum að kostnaðarlausu og til þess fallin að auðvelda fiskimönnum að ráða sig í skipsrúm.
     Samgöngustofa hefur eftirlit með því að skráningar- og ráðningarþjónusta fiskimanna uppfylli kröfur samkvæmt lögum þessum og reglugerð á grundvelli þeirra.
     Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um skráningar- og ráðningarþjónustu fiskimanna og eftirlit með henni í reglugerð.

4. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist greinatala á eftir samkvæmt því:
Heilbrigðiskröfur til fiskimanna.
     Útgerðarmaður og skipstjóri fiskiskipa skulu gera kröfu um að fiskimenn leggi fram vottorð um að þeir uppfylli skilyrði um sjón og heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur.
     Gildistími heilbrigðisvottorðs sem heimilar fiskimanni að starfa á fiskiskipi, sem er 24 metrar að lengd eða lengra eða er að jafnaði á sjó í þrjá daga eða lengur, skal vera að hámarki tvö ár. Ef fiskimaður er yngri en 18 ára skal gildistíminn þó vera eitt ár. Renni gildistími heilbrigðisvottorðs út meðan á veiðiferð stendur heldur það þó gildi sínu til loka veiðiferðar.
     Gildistími heilbrigðisvottorðs sem heimilar vél- og skipstjórnarmönnum að starfa á fiskiskipi, sem er styttra en 24 metrar og er að jafnaði á sjó í minna en þrjá daga, skal vera að hámarki fimm ár. Aðrir fiskimenn á slíkum skipum þurfa ekki að framvísa heilbrigðisvottorði.
     Ráðherra skal setja í reglugerð nánari kröfur um heilbrigði fiskimanna, réttindi skipverja vegna heilbrigðisvottorða og um gerð, efni, útgáfu og gildistíma vottorða.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2019.