Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1004, 150. löggjafarþing 252. mál: íslenskur ríkisborgararéttur.
Lög nr. 11 28. febrúar 2020.

Lög um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, með síðari breytingum (biðtími vegna refsinga o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „þrjú“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: fjögur.
  2. 4. málsl. 2. mgr. orðast svo: Heimilt er að víkja frá þessum skilyrðum hafi dvöl umsækjanda hér á landi verið rofin allt að einu ári samtals á þeim tíma sem hann verður að uppfylla skv. 1. mgr., en þó allt að tveimur árum vegna tímabundinnar atvinnu erlendis eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum eins og vegna veikinda umsækjanda eða nákomins ættingja, en þó allt að þremur árum vegna náms erlendis.
  3. Á eftir 4. málsl. 2. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Dvöl erlendis vegna atvinnu maka eða forsjárforeldris, sem er íslenskur ríkisborgari, sem gegnir störfum erlendis á vegum íslenska ríkisins eða er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að heyrir enn fremur undir 4. málsl. Búseta telst þó vera samfelld hér á landi dveljist umsækjandi ekki lengur en 90 daga samtals erlendis á hverju 12 mánaða tímabili. Ef samfelld dvöl erlendis á þessu tímabili er lengri en 90 dagar dregst hún öll frá búsetutímanum.
  4. 5. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þrátt fyrir heimild til dvalar erlendis verður sá tími sem umsækjandi hefur átt hér lögheimili og dvöl að vera að minnsta kosti jafnlangur þeim tíma sem hann verður að uppfylla skv. 1. mgr.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 1. tölul. orðast svo: Umsækjandi hafi sannað með fullnægjandi hætti hver hann sé. Komi í ljós að umsækjandi hafi dvalist hér á landi á grundvelli skilríkja sem reynast ekki hans eða upplýsinga sem reynast ekki réttar reiknast sá dvalartími ekki sem búseta skv. 8. gr.
  2. 2. tölul. fellur brott.
  3. Í stað orðsins „Námsmatsstofnun“ í 3. málsl. 3. tölul. kemur: Menntamálastofnun.
  4. Í stað orðanna „Er umsækjanda skylt að sýna fram á að hann hafi“ í 2. málsl. 5. tölul. kemur: Enn fremur er umsækjanda skylt að sýna fram á að á sama tíma hafi hann.
  5. 6. tölul. orðast svo: Umsækjandi hafi ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum. Frá þessu má þó víkja að liðnum biðtíma sem greinir í 9. gr. a.
  6. Á eftir 6. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Sá sem talinn er ógna mikilvægum þjóðarhagsmunum, öryggi ríkisins eða utanríkisstefnu þess á ekki rétt á íslenskum ríkisborgararétti.
  7. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  8.      Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd 1. og 5. tölul. 1. mgr.
         Heimilt er að víkja frá skilyrðum 1. og 6. tölul. 1. mgr. varðandi framvísun gagna frá heimaríki eða fyrra dvalarríki ef aðstæður umsækjanda eru óvenjulegar og ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Umsækjandi þarf jafnframt að uppfylla önnur skilyrði laga þessara fyrir veitingu ríkisborgararéttar.


3. gr.

     Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, svohljóðandi:
     Hafi umsækjandi sætt sektum eða fangelsisrefsingu er heimilt að víkja frá skilyrðum 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. að liðnum biðtíma sem greinir í eftirfarandi töflu ef sekt hefur verið greidd að fullu eða refsing fullnustuð með öðrum hætti og aðrar upplýsingar um umsækjanda mæla ekki gegn því:
Refsing Biðtími
Sekt lægri en 80.000 kr. Enginn biðtími.
Sekt 80.000–200.000 kr. Að liðnu einu ári frá því að brot var framið.
Sekt 200.001–300.000 kr. Að liðnum tveimur árum frá því að brot var framið.
Sekt 300.001–1.000.000 kr. Að liðnum þremur árum frá því að brot var framið.
Sekt hærri en 1.000.000 kr. Að liðnum fimm árum frá því að brot var framið.
Fangelsi allt að 60 dagar. Að liðnum sex árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Fangelsi allt að sex mánuðir. Að liðnum átta árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Fangelsi allt að eitt ár. Að liðnum níu árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Fangelsi allt að tvö ár. Að liðnum 10 árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Fangelsi allt að fimm ár. Að liðnum 12 árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Fangelsi allt að tíu ár. Að liðnum 14 árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Fangelsi meira en tíu ár. Að liðnum 25 árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Skilorðsbundinn dómur. Að liðnum þremur árum frá því að skilorðstími er liðinn.
Ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið. Að liðnum tveimur árum frá því að skilorðstími er liðinn.
Ákvörðun um skilorðsbundna ákærufrestun. Að liðnu einu ári frá því að skilorðstími er liðinn.
     Þegar talið er að refsing sé úttekin með gæsluvarðhaldi reiknast tíminn frá því að viðkomandi var látinn laus.
     Ef hluti dóms er skilorðsbundinn hefst biðtími þegar afplánun lýkur og miðast hann við lengd óskilorðsbundna dómsins.
     Ef umsækjandi hefur einungis sætt sektarrefsingu og samanlögð fjárhæð sekta er lægri en 200.001 kr. er heimilt að veita íslenskan ríkisborgararétt ef aðrar upplýsingar um umsækjanda mæla ekki gegn því, enda sé liðið að minnsta kosti eitt ár frá því að síðasta brot var framið.
     Ef umsækjandi hefur framið fleiri en eitt brot sem ekki heyra undir 4. mgr. reiknast biðtíminn frá því broti sem síðast var framið eða dómur fullnustaður, sbr. töflu 1. mgr., en með telst biðtími sem gildir um hvert og eitt brot sem framið hefur verið þar á undan eða eftirstöðvar hans sé hluti biðtímans liðinn.
     Ef umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun er biðtíminn 14 ár frá því að öryggisgæslu lýkur.

4. gr.

     Í stað tölunnar „7“ í 3. tölul. B-liðar 14. gr. laganna kemur: 3.

5. gr.

     Við lögin bætist ný grein, svohljóðandi:
     Sá sem misst hefur íslenskt ríkisfang samkvæmt upphaflegum ákvæðum 7. gr. laga nr. 100/1952 en hefði haldið því ef greinin hefði verið fallin úr gildi á þeim tíma er hann missti íslenska ríkisfangið getur óskað þess við Útlendingastofnun að öðlast ríkisfangið að nýju, enda uppfylli hann skilyrði 12. gr. og leggi fram fullnægjandi gögn að mati Útlendingastofnunar.
     Sé viðkomandi háður forsjá annarra skal beiðni borin fram af forsjármanni.
     Ef sá sem öðlast íslenskt ríkisfang samkvæmt þessu ákvæði á ógift börn yngri en 18 ára, sem hann hefur forsjá fyrir, öðlast þau einnig ríkisfangið. Hafi barnið náð 12 ára aldri og sé með erlent ríkisfang skal það veita samþykki sitt til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Samþykkis skal þó ekki krafist ef barnið er ófært um að veita það sökum líkamlegrar eða andlegrar hömlunar eða annars sambærilegs ástands.

6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2020. Um meðferð umsókna um íslenskan ríkisborgararétt sem lagðar eru fram á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna, og borist hafa Útlendingastofnun fyrir gildistöku laga þessara, fer hvað varðar búsetutíma samkvæmt eldri lögum. Um aðrar umsóknir fer samkvæmt lögum þessum.

Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 2020.