Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1147, 150. löggjafarþing 648. mál: sveitarstjórnarlög (neyðarástand í sveitarfélagi).
Lög nr. 18 18. mars 2020.

Lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (neyðarástand í sveitarfélagi).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Ráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, að sveitarstjórn sé heimilt að víkja tímabundið frá tilteknum skilyrðum ákvæða III., V., VII. og X. kafla laganna, stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra og samþykktum sveitarfélags við stjórn sveitarfélags til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku.
     Ráðuneytið skal birta ákvörðun skv. 1. mgr. í Stjórnartíðindum og getur hún aðeins gilt í fjóra mánuði í senn.
     Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2020. Ákvarðanir skv. 1. mgr. sem teknar eru fyrir 31. desember 2020 skulu þó halda gildi sínu í allt að fjóra mánuði, sbr. 2. mgr.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2020.