Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 612, 151. löggjafarþing 19. mál: utanríkisþjónusta Íslands (skipun embættismanna o.fl.).
Lög nr. 161 23. desember 2020.

Lög um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með síðari breytingum (skipun embættismanna o.fl.).


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Utanríkisþjónustan greinist í ráðuneyti, sendiskrifstofur og ræðisskrifstofur. Til sendiskrifstofa teljast sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og aðalræðisskrifstofur með útsendum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar samkvæmt ákvörðun sem tekin er í samræmi við 4. gr.

2. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Hafa skal sendiskrifstofur og ræðisskrifstofur á þeim stöðum erlendis þar sem slíkt er álitið nauðsynlegt til gæslu hagsmuna Íslands. Staðsetning sendiskrifstofa skal ákveðin með forsetaúrskurði að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

3. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Forstöðumenn sendiskrifstofa eru sendiherrar og sendifulltrúar. Ráðherra getur veitt forstöðumanni sendiskrifstofu sendiherranafnbót, meðan hann gegnir því starfi, sé hann eigi skipaður sendiherra, sbr. 3. mgr. 9. gr.

4. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skipar embættismenn í 1. og 2. flokki 1. mgr. 8. gr. til fimm ára í senn. Embættismenn í 1. flokki eru skipaðir í utanríkisþjónustuna án staðarákvörðunar og lúta flutningsskyldu skv. 10. gr. Við skipun í embætti skal miða við að þeir verði ekki fleiri en fjöldi sendiskrifstofa hverju sinni. Auk þess að fullnægja almennum hæfisskilyrðum samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skulu embættismenn í 1. flokki hafa lokið háskólaprófi og hafa víðtæka reynslu af alþjóða- og utanríkismálum.
     Ráðherra getur að auki skipað sendiherra tímabundið til allt að fimm ára til að veita tiltekinni sendiskrifstofu forstöðu eða gegna hlutverki sérstaks erindreka. Ráðherra skilgreinir hlutverk og valdsvið sendiherra samkvæmt þessari málsgrein í erindisbréfi og hann verður ekki fluttur í annað embætti. Skal sá sem skipaður er með þessum hætti hafa háskólamenntun og reynslu af alþjóða- og utanríkismálum eða sértæka reynslu sem nýtist í embætti. Skipunartími endurnýjast ekki þótt ráðherra kalli sendiherra heim til annarra starfa innan skipunartímans. Að lokinni skipun samkvæmt þessari málsgrein fellur hún niður án mögulegrar framlengingar. Hlutfall sendiherra samkvæmt þessari málsgrein má á skipunardegi ekki vera hærra en fimmtungur af heildarfjölda skipaðra embættismanna í 1. flokki skv. 1. mgr.
     Ráðherra getur sett sendifulltrúa tímabundið í embætti sendiherra meðan hann gegnir starfi forstöðumanns sendiskrifstofu, sbr. 2. málsl. 6. gr. Við lok þess starfstíma tekur hann að nýju við starfi sendifulltrúa í utanríkisþjónustunni í samræmi við fyrri skipun eða ráðningu. Að öðru leyti og meðan á setningu stendur fer um réttindi og skyldur hans eftir viðeigandi ákvæðum II. hluta laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Hlutfall þeirra sem gegna sendiherraembætti samkvæmt þessari málsgrein má ekki vera hærra en fimmtungur af heildarfjölda skipaðra embættismanna í 1. flokki skv. 1. mgr.
     Heimilt er að skipa kjörræðismenn ótímabundið.
     Starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem ekki eru embættismenn, eru ráðnir til starfa í samræmi við almennar reglur.
     Við skipun sendiherra skv. 1. og 2. mgr. skal ráðherra skipa þriggja manna hæfnisnefnd sem er honum til ráðgjafar um hæfni og almennt hæfi mögulegra sendiherraefna áður en af skipun verður.

5. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heimilt er að flytja ráðinn sendifulltrúa í embætti skrifstofustjóra um tiltekinn tíma samkvæmt ákvörðun ráðherra án undangenginnar auglýsingar en þó eigi lengur en í fimm ár. Um réttindi hans og skyldur fer þá eftir reglum II. hluta laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er gilda um þá sem settir eru í embætti.

6. gr.

     Í stað orðanna „embættismenn í 1. flokki 8. gr.“ í 2. málsl. 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: sendiherra skv. 2. og 3. mgr. 9. gr. og skrifstofustjóra skv. 2. mgr. 10. gr.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Með gildistöku laga þessara er stöðu þeirra sem þegar hafa verið skipaðir eða settir í embætti í utanríkisþjónustunni ekki raskað. Frá gildistöku laga þessara skal ekki skipa í embætti þau sem 1. mgr. 9. gr. laganna tekur til fyrr en fjöldinn er kominn niður fyrir það hámark sem þar er kveðið á um.

Samþykkt á Alþingi 15. desember 2020.