Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1407, 151. löggjafarþing 365. mál: lögreglulög o.fl. (eftirlit með lögreglu, lögregluráð o.fl.).
Lög nr. 50 21. maí 2021.

Lög um breytingu á lögreglulögum, lögum um dómstóla og lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði (eftirlit með lögreglu, lögregluráð o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996.

1. gr.

     Lokamálsliður 4. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að starfrækja lögregluráð, sbr. 6. gr. a.
 2. F-liður 2. mgr. fellur brott.


3. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Lögregluráð.
     1. Í lögregluráði eiga sæti allir lögreglustjórar og héraðssaksóknari og er hlutverk þess að efla samráð á meðal lögreglustjóra. Markmið lögregluráðs er að samhæfa störf lögreglu með það að leiðarljósi að tryggja hagræðingu, framþróun og öryggi í starfsemi lögreglu.
     2. Ráðherra setur nánari reglur um starfsemi lögregluráðs.

4. gr.

     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     10. Erlendir lögreglumenn sem koma til starfa hér á landi skv. 1. mgr. 11. gr. a fara með lögregluvald.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. 2. mgr. orðast svo:
 2.      2. Lögregla skal, eftir því sem þörf er á, hafa gagnkvæmt samstarf við önnur stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og einkaaðila við lögreglurannsóknir, framkvæmd löggæslu og önnur verkefni. Er lögreglu og samstarfsaðilum heimilt að skiptast á upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum, að því marki sem nauðsynlegt er, til að lögregla eða samstarfsaðili geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Sérstaklega skal lögregla vinna með félagsmála-, heilbrigðis- og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samvinna lögreglu við önnur stjórnvöld og stofnanir og aðra aðila.


6. gr.

     Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Samstarf við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir.
     1. Lögregla skal eiga samstarf við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði löggæslu. Við lögreglurannsóknir og framkvæmd annarra löggæsluverkefna er ríkislögreglustjóra, öðrum lögreglustjórum og héraðssaksóknara, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að taka á móti erlendum lögreglumönnum. Meðan á dvöl þeirra stendur starfa þeir undir stjórn og leiðsögn viðkomandi lögreglustjóra, eftir atvikum í samráði við hið erlenda lögregluyfirvald. Ríkislögreglustjóri ákveður hvort erlendir lögreglumenn hér á landi skuli fara með lögregluvald. Í sama tilgangi er ríkislögreglustjóra, öðrum lögreglustjórum og héraðssaksóknara, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að senda lögreglumenn tímabundið til starfa erlendis. Við störf þeirra erlendis njóta þeir sömu réttinda og bera sömu skyldur og hér á landi.
     2. Lögreglu er heimilt að skiptast á upplýsingum úr ökutækjaskrá og upplýsingum um erfðaefni og fingraför við erlend lögregluyfirvöld í löggæslutilgangi. Jafnframt er lögreglu heimilt að miðla öðrum persónuupplýsingum sem tengjast þessum upplýsingum beint, eftir atvikum í samræmi við ákvæði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Heimilt er að miðla framangreindum upplýsingum að því marki sem nauðsynlegt er til að ná áætluðum tilgangi.
     3. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir, þar á meðal um vopnaburð erlendra lögreglumanna og upplýsingaskipti skv. 2. mgr., einkum að því er varðar gagnkvæma notkun gagnagrunna og aðgang að þeim.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
 1. A-liður 2. mgr. fellur brott.
 2. F-liður 2. mgr. orðast svo: hafa lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.
 3. Í stað tilvísunarinnar „a–e-liða 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: b–e-liða 2. mgr.
 4. Í stað orðanna „fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi, eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt“ í a-lið 3. mgr. kemur: embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.
 5. Orðin „að fenginni umsögn hæfnisnefndar, sbr. f-lið 2. mgr. 5. gr.“ í 1. málsl. 4. mgr. falla brott.


8. gr.

     35. gr. a laganna orðast svo:
     1. Hlutverk eftirlitsnefndar er að:
 1. taka við kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans,
 2. taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald; berist slíkar kvartanir til annarra embætta eða stofnana skulu þær framsendar nefndinni án tafar,
 3. taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar nefndin telur tilefni til.

     2. Nefndin skal taka rökstudda afstöðu til hinnar ætluðu aðfinnsluverðu starfsaðferðar eða framkomu og senda viðeigandi embætti kvörtun til frekari meðferðar ef tilefni er til.
     3. Nefndin skal fylgjast með meðferð viðkomandi embættis á erindum sem stafa frá henni og embætti sem fá til meðferðar kvartanir sem heyra undir nefndina skulu tilkynna henni um niðurstöður þeirra. Nefndin skal einnig senda viðeigandi embætti eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum athugasemdir sínar við afgreiðslu einstakra mála eða tilmæli um aðrar aðgerðir ef henni þykir tilefni til.
     4. Berist nefndinni erindi um ætlaða refsiverða háttsemi skal erindinu beint án tafar til héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara. Hið sama á við ef einstaklingur lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot.
     5. Nefndin skal vísa erindum frá séu tvö ár liðin frá þeirri háttsemi sem kvörtun lýtur að nema sérstakar ástæður mæli með því að taka málið til meðferðar.
     6. Ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjórum, þ.m.t. ríkislögreglustjóra, er skylt að afhenda nefndinni þær upplýsingar sem hún þarf til að sinna starfsskyldum sínum.
     7. Nefndin er bundin þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Nefndin er einnig bundin þagnarskyldu um efni gagna og upplýsinga sem hún fær frá ákæruvalds- og löggæsluembættum á sama hátt og starfsmenn þeirra embætta.
     8. Ráðherra setur nánari reglur um starfsemi nefndarinnar, þar á meðal um tímafresti, eftirfylgni mála og birtingu upplýsinga.

9. gr.

     35. gr. b laganna orðast svo:
     1. Héraðssaksóknari rannsakar kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans. Hið sama á við um atvik þegar maður lætur lífið, hann verður fyrir stórfelldu líkamstjóni eða lífi manns er hætta búin í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot. Ef rannsókn á því máli leiðir til þess að rannsakað er annað eða önnur brot skal héraðssaksóknari ákveða hvort hann fari jafnframt með rannsókn þeirra brota.
     2. Héraðssaksóknari rannsakar kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot utan starfs, varði brot þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi, eða varði brot gegn ákvæði XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
     3. Ríkissaksóknari fer með rannsókn skv. 1. og 2. mgr. ef rannsókn beinist að lögreglumanni sem starfar hjá héraðssaksóknara eða öðrum starfsmanni hans. Við meðferð slíkra mála getur ríkissaksóknari beitt þeim heimildum sem lögregla hefur endranær. Lögreglu ber að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn mála samkvæmt þessari málsgrein eftir því sem óskað er.
     4. Héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari skal taka ákvörðun um hvort hefja skuli rannsókn eða vísa kæru frá svo fljótt sem verða má, þó eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku kæru. Um málsmeðferð fer eftir lögum um meðferð sakamála.
     5. Héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara ber að tilkynna eftirlitsnefnd um rannsókn máls skv. 1. og 2. mgr. sem og um afdrif máls.
     6. Lögreglustjórum ber að vekja athygli héraðssaksóknara á ætluðum brotum starfsmanna sinna skv. 1. málsl. 1. mgr. eða á atvikum skv. 2. málsl. 1. mgr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um dómstóla, nr. 50/2016.

10. gr.

     1. tölul. 2. mgr. 29. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 3. gr. laganna:
 1. A-liður fellur brott.
 2. F-liður orðast svo: Hefur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.


12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2021.