Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1795, 151. löggjafarþing 506. mál: Fjarskiptastofa.
Lög nr. 75 25. júní 2021.

Lög um Fjarskiptastofu.


1. gr.

Fjarskiptastofa.
     Fjarskiptastofa er sjálfstæð stofnun sem heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra.

2. gr.

Hlutverk.
     Fjarskiptastofa annast stjórnsýslu og eftirlit með framkvæmd fjarskipta- og netöryggismála, þar á meðal:
  1. framkvæmd laga um fjarskipti,
  2. framkvæmd laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða,
  3. framkvæmd laga um íslensk landshöfuðlén,
  4. framkvæmd laga um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta,
  5. framkvæmd eftirlits með lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.

     Fjarskiptastofa skal hafa eftirlit með því að framkvæmd og starfsemi sem henni er að lögum falið að hafa eftirlit með sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur, skilyrði eða ákvarðanir sem um viðkomandi starfsemi gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.
     Fjarskiptastofa hefur yfirlit og heildarsýn yfir útbreiðslu og eiginleika fjarskiptainnviða hér á landi.

3. gr.

Markmið.
     Fjarskiptastofa skal með starfsemi sinni stuðla að aðgengilegum, greiðum, hagkvæmum, skilvirkum og öruggum fjarskiptum. Stofnunin skal gæta að byggðasjónarmiðum og umhverfissjónarmiðum í starfsemi sinni.
     Stofnunin skal stuðla að öryggi almennings, fyrirtækja og samfélagsins alls á sviði fjarskipta og netöryggis. Sérstök áhersla skal lögð á viðbragðsgetu netöryggissveitar og þjónustu við samfélagið, almenning og fyrirtæki.
     Stofnunin skal leitast við að auka vernd og valmöguleika notenda og stuðla að virkri samkeppni og hagkvæmum fjárfestingum á fjarskiptamarkaði.
     Stofnunin skal í starfsemi sinni stuðla að nýsköpun, innleiðingu og hagnýtingu fjarskiptatækni hér á landi í því skyni að hámarka jákvæð áhrif tækninnar á samkeppnisstöðu og framþróun samfélagsins.

4. gr.

Forstjóri og starfsmenn.
     Ráðherra skipar forstjóra Fjarskiptastofu til fimm ára í senn. Hann skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi og búa yfir viðeigandi þekkingu og reynslu. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri Fjarskiptastofu, mótar áherslur, skipulag, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn stofnunarinnar.
     Starfsmenn Fjarskiptastofu mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða annarra aðila sem þeir hafa eftirlit með. Þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila eða samtök þeirra.

5. gr.

Persónuvernd.
     Fjarskiptastofu er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þ.e. upplýsinga sem nauðsynlegar þykja við athugun á málum sem Fjarskiptastofa vinnur að samkvæmt lögum þessum, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

6. gr.

Samkeppni.
     Fjarskiptastofa skal stuðla að samkeppni á sviði fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti, m.a. með því að:
  1. vinna gegn röskun eða takmörkun á samkeppni á fjarskiptamarkaði,
  2. ýta undir hagnýta notkun tíðna og númera og viðhafa skilvirka stjórn á notkun þessara gæða,
  3. stuðla að því að gætt sé jafnræðis við meðferð mála sem varða fjarskiptafyrirtæki sem búa við sömu aðstæður,
  4. gæta að tæknilegu hlutleysi fjarskiptavirkja og fjarskiptaþjónustu eins og við á,
  5. stuðla að hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun í nýjum og endurbættum grunnvirkjum, þar á meðal með því að tryggja að við álagningu kvaða um aðgang sé tekið viðeigandi tillit til þeirrar áhættu sem tekin er með fjárfestingu og stuðlað að samstarfi við útbreiðslu neta, án þess að raska samkeppni,
  6. taka hæfilegt tillit til hugsanlegra mismunandi skilyrða til innviðasamkeppni og aðstöðu neytenda á ólíkum landsvæðum,
  7. leggja aðeins kvaðir á aðila fyrir fram að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja virka og varanlega samkeppni í þágu endanotenda og draga úr eða aflétta slíkum kvöðum um leið og það skilyrði er uppfyllt.


7. gr.

Alþjónusta og aðrir hagsmunir almennings.
     Fjarskiptastofa skal gæta hagsmuna almennings, m.a. með því að:
  1. vinna að því að allir landsmenn hafi aðgang að alþjónustu,
  2. stuðla að vernd réttinda endanotenda í viðskiptum þeirra við fjarskiptafyrirtæki,
  3. vinna að ráðstöfunum til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs,
  4. stuðla að birtingu skýrra upplýsinga fyrir notendur og gagnsærra gjaldskráa og skilmála fyrir almenna fjarskiptaþjónustu,
  5. tryggja hag notenda sem best, þ.m.t. einstakra þjóðfélagshópa, þar á meðal öryrkja,
  6. tryggja að heildstæði, áreiðanleika og öryggi almennra fjarskiptaneta sé viðhaldið,
  7. stuðla að eflingu netöryggis, m.a. með leiðbeiningum og fræðslu.


8. gr.

Öryggi og almannavarnir.
     Fjarskiptastofa skal stuðla að því að fjarskiptanet hér á landi byggist á bestu framkvæmd og nýjustu stöðlum og ávallt sé litið til áreiðanleika- og öryggissjónarmiða, þ.m.t. við uppbyggingu nýrra fjarskiptainnviða.
     Fjarskiptastofa skal stuðla að áreiðanlegum fjarskiptum út frá hagsmunum almannavarna, neyðarfjarskipta og netöryggis og skal vera ráðgefandi aðili fyrir yfirvöld þegar almannavarnaástand er yfirvofandi, það stendur yfir og er afstaðið. Fjarskiptastofa skal jafnframt stuðla að öryggi og viðnámsþrótti fjarskiptainnviða og samhæfðum viðbrögðum við sérstakar aðstæður.
     Þegar almannavarnaástandi hefur verið lýst yfir getur Fjarskiptastofa gefið fjarskiptafyrirtækjum fyrirmæli um aðgerðir til að tryggja fjarskiptasamband á tilteknu svæði, svo sem að opnað skuli fyrir reikiþjónustu.

9. gr.

Netöryggissveit.
     Netöryggissveit Fjarskiptastofu er landsbundið öryggis- og viðbragðsteymi vegna atvika og áhættu sem varða net- og upplýsingaöryggi, ógnir, hættur og atvik á netinu hér á landi og gegnir hlutverki CSIRT-teymis fyrir Ísland. Netöryggissveitin er tengiliður íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegu samstarfi CSIRT-teyma.
     Netöryggissveit er ætlað að fyrirbyggja og draga úr hættu á netárásum og öðrum öryggisatvikum í netumdæmi Íslands eins og kostur er og sporna við og lágmarka tjón á fjarskiptamarkaði og mikilvægum innviðum í skilningi laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða. Netöryggissveitin leitast við að greina ógnir og atvik á frumstigi í netumdæmi Íslands, fyrirbyggja og takmarka útbreiðslu þeirra og tjón sem af þeim kann að hljótast. Netöryggissveit samhæfir viðbrögð aðila við ógnum og atvikum, í samstarfi við ríkislögreglustjóra þegar við á.
     Starfslið netöryggissveitar skal uppfylla skilyrði öryggisvottunar skv. 24. gr. varnarmálalaga, nr. 34/2008. Hið sama gildir um annað starfslið sem kemur að netöryggismálum hjá Fjarskiptastofu og því ráðuneyti sem fer með mál er varða netöryggi.
     Forstjóri Fjarskiptastofu veitir aðgangsheimildir að starfssvæði netöryggissveitar. Takmarka má, synja um eða afturkalla aðgangsheimild af öryggisástæðum eða ef allsherjarregla krefst þess.
     Þeim einum er heimill aðgangur að starfssvæði netöryggissveitar sem þangað á lögmætt erindi og hefur gilda aðgangsheimild.

10. gr.

Gagnagrunnur almennra fjarskiptaneta.
     Fjarskiptastofa starfrækir stafrænan gagnagrunn um almenn fjarskiptanet. Í gagnagrunninn skal skrá upplýsingar um staðsetningu og tæknilega eiginleika almennra fjarskiptaneta, bæði um virka og óvirka kerfishluta. Trúnaður skal ríkja um upplýsingar sem skráðar eru í gagnagrunninn, sbr. þó 4. og 5. mgr.
     Skylt er að veita Fjarskiptastofu allar nauðsynlegar upplýsingar til skráningar í gagnagrunninn og gerðar útbreiðsluspár á því formi sem stofnunin ákveður. Fjarskiptastofa getur sett reglur um samræmda skráningu upplýsinga af hálfu fjarskiptafyrirtækja og búið til sniðmát fyrir upplýsingasöfnun sem þau skulu nota.
     Fjarskiptastofu er heimilt að hagnýta upplýsingar í gagnagrunninum í starfsemi sinni, m.a. vegna:
  1. eftirlits með virkni, áreiðanleika, öryggi og heildstæði fjarskiptaneta,
  2. aðgerða til að finna og koma í veg fyrir skaðlegar fjarskiptatruflanir,
  3. gerðar korta um útbreiðslu og útbreiðsluspár fjarskiptaneta og -þjónustu,
  4. greiningar á markaðsbresti vegna ríkisaðstoðar,
  5. greiningar á samkeppni á fjarskiptamörkuðum og athugunar á samlegðartækifærum við uppbyggingu, rekstur og samnýtingu fjarskiptainnviða.

     Heimilt er að óska eftir og nýta upplýsingar úr gagnagrunninum endurgjaldslaust vegna stöðumats og stefnumótunar á sviði fjarskipta. Fjarskiptastofu er heimilt að veita öðrum viðeigandi stjórnvöldum aðgang að gagnagrunninum, að hluta eða öllu leyti, til þess að vinna að verkefnum og uppfylla skyldur sínar á sviði almannavarna, lýðheilsu og skipulags- og umhverfismála. Falli til kostnaður við að veita aðgang skv. 2. málsl. skal hann borinn af því stjórnvaldi sem hans óskar.
     Heimilt er að opna fyrir takmarkaðan aðgang almennings að gagnagrunninum, til að mynda um tengingar á mismunandi svæðum sundurliðað eftir staðföngum. Þó skal takmarka aðgengi að upplýsingum ef það er nauðsynlegt í ljósi öryggis neta og áreiðanleika þeirra, þjóðaröryggis, lýðheilsu eða öryggis almennings, trúnaðarkvaða, réttmætra samkeppnishagsmuna, rekstrar- og viðskiptaleyndarmála og persónuverndar.
     Fjarskiptastofu er heimilt á grundvelli sérstaks þjónustusamnings að fela óháðum aðila að hýsa og reka gagnagrunninn séu viðeigandi kröfur um öryggi upplýsinga uppfylltar.

11. gr.

Útbreiðsluspár háhraðaneta.
     Fjarskiptastofa skal vinna heildstætt útbreiðslukort fyrir háhraðanet á a.m.k. þriggja ára fresti. Þá getur stofnunin unnið svæðisbundna útbreiðsluspá fyrir háhraðanet. Leiði útbreiðsluspá í ljós að ekkert fjarskiptafyrirtæki eða opinber aðili hyggist leggja slíkt net, eða uppfæra net sín, á tilteknu svæði innan ákveðinna tímamarka skal stofnunin birta þær niðurstöður.
     Fjarskiptastofu er heimilt að bjóða aðilum að lýsa yfir áformum um uppbyggingu eða uppfærslu neta skv. 1. mgr. á viðkomandi svæði innan umræddra tímamarka. Berist Fjarskiptastofu slík yfirlýsing getur stofnunin kannað hvort aðrir aðilar hafi áform um uppbyggingu á viðkomandi svæði. Stofnunin skal í boðum sínum tilgreina þær upplýsingar sem fylgja skulu yfirlýsingum aðila.
     Fjarskiptastofa skal afhenda, að gættum trúnaði, hlutaðeigandi stjórnvöldum sem fara með úthlutun opinbers fjármagns til útbreiðslu háhraðaneta og gerð svæðisbundinna áætlana yfirlýsingar um áform skv. 2. mgr. enda ber þeim að taka tillit til upplýsinga skv. 10. gr. og ákvæði þessu. Þá skal Fjarskiptastofa taka mið af ákvæði þessu við framkvæmd verkefna sinna á sviði tíðniúthlutana og alþjónustu.

12. gr.

Framþróun og uppbygging fjarskipta.
     Fjarskiptastofa skal stuðla að framförum á fjarskiptamarkaði, m.a. með því að greiða fyrir hagkvæmri uppbyggingu fjarskipta sem byggð er á samnýtingu eða samstarfi, að teknu tilliti til samkeppnissjónarmiða.
     Stofnunin skal leitast við að sýna framsýni og frumkvæði, fylgjast grannt með tækniþróun á alþjóðavísu og leitast við að hafa getu til að takast á við tæknilegar áskoranir og samfélagsbreytingar sem fylgja fjórðu iðnbyltingunni, hlutanetinu, gervigreind og annarri nýtækni sem fjarskipta- og nettækni kann að byggjast á.

13. gr.

Rannsóknir, þróunarstarf og fræðsla.
     Fjarskiptastofu er heimilt að taka þátt í rannsóknum og þróunarstarfi á starfssviði sínu, þ.m.t. nýsköpunarverkefnum.
     Fjarskiptastofa skal stuðla að fræðslu á starfssviði sínu, m.a. í því skyni að bæta þekkingu á sviði netöryggismála.
     Fjarskiptastofa skal taka þátt í þróun markaðar fyrir fjarskipta- og upplýsingatækni, m.a. með því að:
  1. vinna gegn hindrunum í vegi framboðs á fjarskiptanetum, aðstöðu og þjónustu sem þeim tengist og fjarskiptaþjónustu,
  2. hvetja til uppsetningar og þróunar fjarskiptaneta og gagnvirkni þjónustu sem nær til allra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins,
  3. stuðla að hagkvæmum samruna fjarskiptatækni og upplýsingatækni eftir því sem unnt er,
  4. stuðla að þróun upplýsingasamfélagsins og netöryggis með markvissri kynningu þróunar og viðmiða og innleiðingu nýrrar tækni og vinnubragða.


14. gr.

Ráðgjöf til stjórnvalda.
     Fjarskiptastofa skal vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld um málefni sem varða fjarskipti, netöryggismál, tækniþróun á sviði fjarskipta og öryggi net- og upplýsingakerfa og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á umræddum sviðum. Skal stofnunin gera tillögur til ráðherra um nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum ef þess gerist þörf.

15. gr.

Eftirlitsúrræði og viðurlög.
     Fjarskiptastofa getur krafið þá sem stunda starfsemi sem fellur undir lög um fjarskipti og önnur lög sem undir stofnunina heyra um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Í tengslum við eftirlit og athuganir mála samkvæmt ákvæðum laga um fjarskipti sem ekki snúa að fjarskiptafyrirtækjum er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta Fjarskiptastofu í té allar upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg. Um aðgang að og vinnslu upplýsinga vegna starfrækslu netöryggissveitar og um eftirlit með starfsemi stafrænna grunnvirkja og veitenda stafrænnar þjónustu fer samkvæmt lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.
     Fjarskiptastofa getur krafið fjarskiptafyrirtæki um upplýsingar í sambandi við almenna heimild, réttindi eða sérstakar kvaðir, m.a.:
  1. vegna kerfisbundinnar eða tilfallandi könnunar á því að hlítt sé skilyrðum um greiðslu jöfnunargjalds, um gagnkvæma starfrækslu þjónustu og samtengingu neta og um starfrækslugjöld fyrir tíðni og númer,
  2. vegna könnunar þess að farið sé eftir skilyrðum almennra heimilda og réttinda að fenginni kvörtun eða þegar stofnunin hefur aðrar ástæður til að ætla að skilyrði séu ekki virt eða þegar stofnunin hefur að eigin frumkvæði hafið rannsókn,
  3. í samræmi við reglur um málsmeðferð við veitingu réttinda til notkunar tíðna og númera og mat á umsóknum þar að lútandi, svo og í því skyni að stuðla að skilvirkri notkun og stýringu á fjarskiptatíðnirófi og númeraforða í samræmi við ákvæði laga um fjarskipti,
  4. vegna útgáfu upplýsinga um samanburð á gæðum og verði þjónustu í þágu notenda,
  5. í afmörkuðum tölfræðilegum tilgangi eða vegna þátttöku í alþjóðasamstarfi, t.d. í samanburðarrannsóknum eða úttektum,
  6. vegna markaðsgreiningar, og
  7. í tengslum við landfræðilegar kannanir á útbreiðslu fjarskiptaneta.

     Að undanteknum upplýsingum skv. c-lið 2. mgr. má hvorki krefjast upplýsinga samkvæmt þessari grein áður en veittur er aðgangur að markaði né gera þær að skilyrði fyrir slíkum aðgangi. Þegar Fjarskiptastofa óskar eftir þessum upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjum skal stofnunin gera grein fyrir því í hvaða tilgangi á að nota upplýsingarnar. Upplýsingar sem afhentar eru Fjarskiptastofu skv. 1. og 2. mgr. skulu vera réttar, fullnægjandi og uppfærðar.
     Sem hluta af eftirliti er Fjarskiptastofu heimilt að krefjast þess að henni séu m.a. látnir í té ársreikningar, milliuppgjör, yfirlýsingar endurskoðenda eða aðrar sambærilegar upplýsingar. Getur stofnunin krafist hvort sem er munnlegra eða skriflegra upplýsinga, innan hæfilegs frests sem hún ákveður.
     Sem hluta af eftirliti er Fjarskiptastofu heimilt að krefjast upplýsinga og gagna um skipulag net- og upplýsingaöryggis sem að mati stofnunarinnar eru nauðsynleg vegna eftirlits, þ.m.t. reglubundinnar skýrslugjafar. Fjarskiptastofa getur kallað til skýrslugjafar einstaklinga sem hún telur búa yfir upplýsingum um tiltekið mál.
     Telji Fjarskiptastofa að fjárhagsstaða fjarskiptafyrirtækja sé slík að hætta sé á að viðkomandi uppfylli ekki skyldur þær sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum, rekstrarleyfum eða skilgreindum alþjónustukvöðum getur stofnunin krafist þess að bætt verði úr innan tiltekins frests sem stofnunin ákveður.
     Fjarskiptastofa getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fjarskiptafyrirtækja sem úthlutað hefur verið réttindum og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum, lögum um fjarskipti eða reglum eða ákvörðunum stofnunarinnar. Við þessar aðgerðir skal fylgja ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum. Fjarskiptastofu er heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlit og öflun nauðsynlegra upplýsinga í þágu eftirlits.
     Vanræki fjarskiptafyrirtæki skyldur sínar eða uppfylli ekki kröfur sem Fjarskiptastofa gerir um úrbætur innan hæfilegs frests getur stofnunin svipt viðkomandi réttindum til tíðna og númera eða tilkynnt fjarskiptafyrirtæki að það njóti ekki lengur almennrar heimildar, að undangenginni skriflegri viðvörun. Um kröfur Fjarskiptastofu um úrbætur gagnvart stafrænum grunnvirkjum og veitendum stafrænnar þjónustu fer samkvæmt lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.
     Fjarskiptastofa skal gera ráðstafanir til að stöðva rekstur fjarskiptafyrirtækis sem starfar án heimildar eða uppfyllir ekki skilyrði laga og reglna um slíka starfsemi. Er heimilt að leggja á dagsektir í þessu skyni, sbr. 19. gr.
     Forstjóra Fjarskiptastofu er heimilt að fela öðrum hæfum aðilum að annast einstaka þætti skoðunar sem framkvæmd er með heimild í lögum þessum.

16. gr.

Lausn deilumála fjarskiptafyrirtækja.
     Komi upp deilur milli fyrirtækja sem reka almenn fjarskiptanet, veita almenna fjarskiptaþjónustu eða aðstöðu um skyldur sem leiðir af lögum um fjarskipti getur deiluaðili beint málinu til Fjarskiptastofu. Fjarskiptastofa skal leita sátta með aðilum ef stofnunin metur það líklegt til árangurs. Náist ekki samkomulag skal skorið úr ágreiningi með ákvörðun eins fljótt og við verður komið og eigi síðar en innan fjögurra mánaða nema sérstaklega standi á.
     Ákvörðun Fjarskiptastofu skal birta opinberlega með fyrirvara um kröfu um viðskiptaleynd.
     Ef deila milli fjarskiptafyrirtækis á Íslandi og fjarskiptafyrirtækis í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, um annað en úthlutun tíðniréttinda, hefur áhrif á viðskipti milli ríkja skal Fjarskiptastofa viðhafa samráð um lausn deilunnar í samræmi við skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Fjarskiptastofa getur samþykkt tímabundnar ráðstafanir í undantekningartilvikum, hvort heldur að beiðni aðila eða eigin frumkvæði, þar sem nauðsynlegt er að bregðast skjótt við til að standa vörð um samkeppni eða vernda hagsmuni endanotenda. Málsmeðferð samkvæmt þessari grein skal ekki koma í veg fyrir að deila verði borin undir dómstóla.
     Þegar deiluaðilar eru hvor frá sínu landi innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu fjarskiptaeftirlitsstofnanir landanna tveggja eiga samstarf um lausn deilunnar.
     Fjarskiptastofa getur í ákveðnum tilfellum gripið inn í deilur aðila að eigin frumkvæði til þess að ná markmiðum laga um fjarskipti eða annarra laga sem stofnunin starfar samkvæmt.
     Fjarskiptastofu er heimilt að setja reglur um málsmeðferð samkvæmt þessari grein.

17. gr.

Kvartanir.
     Telji neytendur fjarskiptaþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta að fjarskiptafyrirtæki brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um fjarskipti, eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða í rekstrarleyfi eða skilgreindum alþjónustukvöðum, getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Fjarskiptastofu um að hún láti málið til sín taka.
     Fjarskiptastofa skal leita álits viðkomandi fjarskiptafyrirtækis á kvörtuninni og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan hátt. Náist ekki samkomulag skal úr ágreiningi skorið með ákvörðun.
     Fjarskiptastofu er heimilt að setja reglur um lausn slíkra ágreiningsmála.

18. gr.

Heimild til bráðabirgðaákvörðunar.
     Telji Fjarskiptastofa nauðsynlegt að taka ákvörðun í einstökum málum án tafar, enda sé hætta á því að dráttur á úrskurði valdi því að réttindi aðila máls fari forgörðum eða hann verði fyrir verulegu fjártjóni, er stofnuninni heimilt að taka bráðabirgðaákvörðun.
     Fjarskiptastofa skal taka málið til umfjöllunar skv. 16. og 17. gr. innan sjö daga frá því að bráðabirgðaákvörðunin var tekin, ella fellur hún úr gildi.

19. gr.

Sektir og innheimta.
     Þegar fjarskiptafyrirtæki, annar lögaðili eða einstaklingur fer ekki að ákvæðum laga þessara, laga um fjarskipti, skilyrðum almennrar heimildar, skilyrðum sérstakra réttinda, bindandi fyrirmælum eða einstökum ákvörðunum Fjarskiptastofu eða veitir ekki þær upplýsingar sem honum er skylt að afhenda stofnuninni er henni heimilt að leggja á og innheimta dagsektir sem nemi 50.000–1.000.000 kr. á dag til að tryggja að eftir fyrirmælum stofnunarinnar sé farið. Eru slíkar sektir aðfararhæfar skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Málskot til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála frestar aðför en úrskurðir nefndarinnar eru aðfararhæfir. Með sama hætti eru stjórnvaldssektir sem Fjarskiptastofa ákvarðar samkvæmt lögum um fjarskipti aðfararhæfar.

20. gr.

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.
     Ákvarðanir Fjarskiptastofu sæta kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Hið sama á við um ákvarðanir stjórnvalda samkvæmt lögum um póstþjónustu. Skal kæran berast úrskurðarnefnd innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi varð kunnugt um ákvörðun Fjarskiptastofu. Í úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sitja þrír menn sem skipaðir eru af ráðherra og jafnmargir til vara. Formaður og varaformaður skulu hafa lögmannsréttindi og búa yfir reynslu sem nýtist við úrlausn kærumála í fjarskipta- og póstmálum. Að minnsta kosti einn nefndarmaður skal búa yfir tækniþekkingu. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár. Nefndinni er heimilt að kveðja til sérfræðinga sér til ráðgjafar.
     Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan tólf vikna frá því að kæra berst henni.
     Ef aðili vill ekki una úrskurði nefndarinnar getur hann borið úrskurðinn undir dómstóla en slíkt mál skal höfða innan sex mánaða frá því að viðkomandi fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Fjarskiptastofa getur í undantekningartilfellum borið úrskurð nefndarinnar undir dómstóla. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndarinnar.
     Aðili getur borið ákvörðun Fjarskiptastofu undir dómstóla án þess að mál sé fyrst borið undir úrskurðarnefnd. Slíkt mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi fékk vitneskju um ákvörðun stofnunarinnar. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvarðana stofnunarinnar. Málskot til dómstóla hindrar að úrskurðarnefnd sé heimilt að taka kæru til málsmeðferðar.
     Taka skal gjald vegna málskots fjarskiptafyrirtækja, rekstraraðila neta og póstrekenda til úrskurðarnefndar og málsmeðferðar fyrir nefndinni. Gjaldið skal taka mið af kostnaði vegna þóknunar nefndarmanna, reksturs málsins fyrir nefndinni, starfsaðstöðu, sérfræðiaðstoðar og gagnaöflunar. Tapist mál í grundvallaratriðum skal sá málsaðili sem tapar að jafnaði greiða málskostnað. Nefndin kveður á um fjárhæð og skiptingu gjalds í úrskurðarorðum sínum. Ekki er heimilt að gera neytendum fjarskiptaþjónustu og póstþjónustu, Fjarskiptastofu eða Byggðastofnun að greiða gjald samkvæmt ákvæði þessu. Gjöld samkvæmt þessari grein eru aðfararhæf.
     Þóknun úrskurðarnefndar vegna málskots neytenda fjarskiptaþjónustu og málsmeðferðar fyrir nefndinni skal ákveðin af ráðherra og greiðist úr ríkissjóði. Úrskurðarnefnd getur að fengnu samþykki ráðherra ráðið nefndinni starfslið eða falið sjálfstætt starfandi aðila að sjá um skrifstofuhald fyrir nefndina.
     Reglubundið og a.m.k. einu sinni á ári skal Fjarskiptastofa birta samantekt um fjölda og almennt inntak kæra skv. 1. mgr., lengd málsmeðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og fjölda úrskurða sem heimila tímabundnar ráðstafanir. Samantektina má birta í ársskýrslu skv. 29. gr.

21. gr.

Gjaldtaka o.fl.
     Við veitingu réttinda fyrir notkun tíðna þar sem takmarka þarf fjölda rétthafa, t.d. vegna takmarkaðs tíðnisviðs fyrir viðkomandi þjónustu og úthlutun tíðna fer fram eftir birtingu auglýsingar um fyrirhugaða úthlutun eða útboð, eða þegar tíðni er úthlutað á grundvelli útboðs til annarra nota en fjarskiptaþjónustu, skal innheimta sérstakt gjald fyrir tíðnirnar. Gjaldið ákvarðast af kostnaði við úthlutunina.
     Fyrir úthlutun símanúmera til fjarskiptafyrirtækja skal innheimt fyrir hvert úthlutað símanúmer árlegt gjald að upphæð 10 kr. fyrir hvert númer. Til viðbótar skal innheimt 200.000 kr. árlegt gjald fyrir fjögurra stafa númer, þ.m.t. forskeyti og alþjóðlega netkóða, óháð fjölda tölustafa í kóðanum. Innheimta skal 1.000.000 kr. árlegt gjald fyrir þriggja stafa númer.
     Fjarskiptafyrirtæki skulu árlega greiða Fjarskiptastofu rekstrargjald sem nemur 0,38% af bókfærðri veltu. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem þessir aðilar hafa af fjarskiptastarfsemi sinni hér á landi. Rekstrargjald skal standa straum af kostnaði við eftirlit með starfsemi á sviði fjarskipta og samanlagt taka til kostnaðar sem hlýst af stjórnun, eftirliti og framkvæmd laga um fjarskipti. Rekstrargjald skal miða við næsta almanaksár á undan ákvörðun gjaldsins. Tekjur skal telja til bókfærðrar veltu á því ári sem þær verða til.
     Fjarskiptafyrirtæki skulu skila Fjarskiptastofu upplýsingum um gjaldskylda veltu eigi síðar en 30. apríl ár hvert. Berist Fjarskiptastofu ekki upplýsingar innan tilskilins tíma er stofnuninni heimilt að áætla veltu viðkomandi aðila.
     Álagning rekstrargjalds skv. 3. mgr. skal fara fram eigi síðar en 15. maí ár hvert. Fjarskiptastofa skal gera eftirlitsskyldum aðilum grein fyrir álagningunni með bréfi.
     Rekstrargjald greiðist með þremur jafnháum greiðslum. Það greiðist þannig að gjalddagi 1. ársþriðjungs er 1. júní og eindagi 15. júní, gjalddagi 2. ársþriðjungs er 1. september og eindagi 15. september og gjalddagi 3. ársþriðjungs er 1. desember og eindagi 15. desember.
     Sé rekstrargjald greitt eftir eindaga hverrar greiðslu reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu.
     Vanræki fjarskiptafyrirtæki greiðslu rekstrargjalds er Fjarskiptastofu heimilt að fella niður skráningu viðkomandi fyrirtækis.
     Fjarskiptastofu er heimilt að ákvarða álagningu rekstrargjalds að nýju fyrir tiltekna aðila reynist álagningarstofn eða aðrar forsendur fyrri álagningar ekki réttar.
     Fjarskiptastofa getur gert fjarskiptafyrirtæki eða rekstraraðila neta að greiða samkvæmt reikningi útlagðan kostnað, svo sem vegna sérfræðivinnu, við sérstakar kannanir sem stofnunin telur nauðsynlegar vegna eftirlits með starfsemi á þeirra vegum og rekja má sérstakan kostnaðarauka til atvika sem varða fyrirtækið.
     Ráðherra setur gjaldskrá fyrir aðra þjónustu sem Fjarskiptastofu er falið að veita samkvæmt lögum þessum og lögum um fjarskipti. Heimilt er að taka gjald sem miðast við kostnað fyrir eftirfarandi þætti: skráningu fyrirtækja, útgáfu leyfisbréfa og skírteina, mælingar, innsiglanir og skoðun fjarskiptabúnaðar. Auk þess er Fjarskiptastofu heimilt að taka gjald fyrir aðra þjónustu sem aðilar óska eftir. Við ákvörðun gjalda samkvæmt þessari grein skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskipta, búnaðar og tækja, stjórnunar og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu, auk ferða og uppihalds sem af því leiðir.
     Fjarskiptastofa annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein. Tekjur af gjöldunum renna í ríkissjóð að undanskildum tekjum skv. 2., 10. og 11. mgr. sem renna til stofnunarinnar. Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til reksturs Fjarskiptastofu sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af gjöldum samkvæmt þessari grein og skv. 22. gr.

22. gr.

Gjald fyrir tíðninotkun.
     Þeir aðilar sem fengið hafa heimild til að nota tíðnir til þráðlausra fjarskipta skulu greiða árlegt gjald samkvæmt því sem hér segir:
  1. Radíóstöðvar með skipa- og flugtíðnum.
    1. Með milli- og stuttbylgju (MF/HF): 6.400 kr.
    2. Án milli- og stuttbylgju (aðeins VHF): 4.100 kr.
  2. Farstöðvarásir.
    1. Fyrir hver 25 kHz á gjaldsvæði 1: 63.000 kr.
    2. Fyrir hver 25 kHz á gjaldsvæði 2 eða 3: 12.600 kr.
    3. Fyrir samnýttar rásir greiðist 25% af gjaldi skv. a- og b-lið eftir því sem við á.
    4. Aðilar að landssamtökum björgunarsveita greiða 25% af gjaldi skv. a- og b-lið.
  3. Jarðstöðvar.
    1. Jarðstöðvar með sendiafl meira en 50 dBW: 25.100 kr.
    2. Jarðstöðvar fyrir almenn fjarskiptanet: 25.100 kr.
  4. Fastasambönd.
    1. Grunngjald fyrir hvert fastasamband: 10.000 kr.
    2. Að auki fyrir hvert MHz: 830 kr.
    3. Fyrir hvert MHz við afnot af 64–66, 71–76 og 81–86 GHz: 83 kr.
         Ekki skal taka gjald skv. a- og b-lið þessa töluliðar þegar fastasamband er notað sem heimtaug fyrir heimili og fyrirtæki.
  5. Almenn farnet (t.d. GSM, 3G, 4G og 5G).
    1. Fyrir hvert MHz undir 2300 MHz: 256.500 kr.
    2. Fyrir hvert MHz milli 2300 MHz og 10 GHz: 128.250 kr.
    3. Fyrir hvert MHz yfir 10 GHz: 25.650 kr.
  6. TETRA neyðar- og öryggisnet. Fyrir hvert MHz: 64.100 kr.
  7. Þráðlaus aðgangsnet.
    1. Fyrir hvert MHz á gjaldsvæði 1: 33.800 kr.
    2. Fyrir hvert MHz á gjaldsvæði 2: 22.500 kr.
    3. Fyrir hvert MHz á gjaldsvæði 3: 2.300 kr.
  8. Fyrir hverja rás í sjónvarpssendi.
    1. Gjaldsvæði 2, sendiafl 1 kW og meira: 119.000 kr.
    2. Gjaldsvæði 2, sendiafl 100–999 W: 89.000 kr.
    3. Gjaldsvæði 2, sendiafl minna en 100 W: 59.300 kr.
    4. Gjaldsvæði 3, sendiafl 1 kW og meira: 29.700 kr.
    5. Gjaldsvæði 3, sendiafl 100–999 W: 22.200 kr.
    6. Gjaldsvæði 3, sendiafl minna en 100 W: 14.800 kr.
         Ef sama rás er notuð í fleiri en einum sendi á sama gjaldsvæði ræður samanlagt sendiafl. Ekki skal taka gjald fyrir starfrækslu sjónvarpssenda með afl minna en 2W sem þjóna svæðum með færri en 100 íbúa.
  9. Fyrir hverja rás í hljóðvarpssendi.
    1. Gjaldsvæði 2, sendiafl 1 kW og meira: 29.600 kr.
    2. Gjaldsvæði 2, sendiafl 100–999 W: 22.200 kr.
    3. Gjaldsvæði 2, sendiafl minna en 100 W: 14.800 kr.
    4. Gjaldsvæði 3, sendiafl 1 kW og meira: 7.400 kr.
    5. Gjaldsvæði 3, sendiafl 100–999 W: 5.600 kr.
    6. Gjaldsvæði 3, sendiafl minna en 100 W: 3.700 kr.
         Ef sama rás er notuð í fleiri en einum sendi á sama gjaldsvæði ræður samanlagt sendiafl. Ekki skal taka gjald fyrir starfrækslu hljóðvarpssenda með afl minna en 2W sem þjóna svæðum með færri en 100 íbúa.

     Gjaldsvæði sem tilgreind eru í 1. mgr. skulu afmörkuð sem hér segir:
  1. Gjaldsvæði 1: Allt landið.
  2. Gjaldsvæði 2: Höfuðborgarsvæðið (Hafnarfjörður, Kópavogur, Garðabær, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær).
  3. Gjaldsvæði 3: Einstök svæði utan gjaldsvæðis 2.

     Gjalddagi gjalda samkvæmt þessari grein er 1. mars ár hvert fyrir notkun tíðna á því sama ári. Handhafi heimildar til tíðninotkunar á gjalddaga er ábyrgur fyrir greiðslunni.
     Miða skal greiðslu árlegra tíðnigjalda við þann dag þegar heimild til tíðninotkunar tekur gildi, óháð því hvenær viðkomandi tíðni er tekin í notkun.
     Ef heimild til tíðninotkunar er gefin út eftir 1. mars ber að greiða árlegt tíðnigjald við útgáfu heimildarinnar og skal þá greiða í hlutfalli við það sem eftir er af árinu og telst útgáfumánuður heimildarinnar með sem heill mánuður.
     Fyrir heimild sem gildir skemur en sex mánuði skal taka hálft árlegt gjald og fyrir heimild til að nota tíðnir til tilrauna greiðast 50.000 kr. Gjöld samkvæmt þessari málsgrein greiðast við útgáfu heimildar.
     Fjarskiptastofa annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein og renna þau í ríkissjóð.

23. gr.

Aðrar tekjur.
     Fjarskiptastofu er heimilt að hafa tekjur af sérhæfðri þjónustu og verksamningum, svo og af rannsóknastarfsemi og þróunarverkefnum.
     Gjaldtaka skv. 1. mgr. skal ákveðin í viðmiðunargjaldskrá sem Fjarskiptastofa setur.
     Ráðherra staðfestir gjaldskrá samkvæmt þessari grein.

24. gr.

Umsögn hagsmunaaðila.
     Áður en Fjarskiptastofa tekur ákvörðun sem hefur veruleg áhrif á viðkomandi fjarskiptamarkað skal stofnunin veita hagsmunaaðilum rétt til umsagnar innan hæfilegra tímamarka sem skulu ekki vera skemmri en 30 dagar, nema í undantekningartilvikum. Niðurstöður samráðsferlis skulu vera aðgengilegar öllum að því marki sem ekki er um upplýsingar að ræða sem háðar eru þagnarskyldu lögum samkvæmt. Fjarskiptastofa skal setja reglur um meðferð upplýsinga samkvæmt þessari grein og birtingu þeirra.
     Tilhlýðilegt tillit skal taka til neytenda, ekki síst fatlaðs fólks, við ákvarðanir um málefni sem tengjast réttindum endanotenda að því er varðar fjarskiptaþjónustu sem skal vera aðgengileg öllum. Í reglum skv. 1. mgr. má kveða á um samráðsfyrirkomulag sem er aðgengilegt endanotendum með fötlun.

25. gr.

Þagnarskylda og samskipti við eftirlitsstjórnvöld.
     Starfsmenn Fjarskiptastofu eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Sama gildir um endurskoðendur og aðra sérfræðinga sem starfa á vegum stofnunarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
     Með gögn og aðrar upplýsingar, t.d. að því er varðar viðskiptahagsmuni sem stofnunin aflar við eftirlit eða af öðrum ástæðum, skal fara sem trúnaðarmál.
     Fjarskiptastofu er heimilt að birta tölfræðilegar upplýsingar um magn fjarskipta og skulu fjarskiptafyrirtæki láta stofnuninni í té slíkar upplýsingar.
     Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má veita eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og Alþjóðaviðskiptastofnuninni upplýsingar sé það liður annaðhvort í samstarfi ríkjanna um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila eða við úrlausn einstakra mála og slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti eða verkefnum. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig um skipti á upplýsingum við eftirlitsstjórnvöld hér á landi. Fjarskiptastofu er því aðeins heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein að sá sem upplýsingarnar fær sé háður sams konar þagnarskyldu.
     Um meðferð upplýsinga og þagnarskyldu vegna hlutverks Fjarskiptastofu sem eftirlitsstjórnvalds og samhæfingarstjórnvalds, svo og starfrækslu netöryggissveitar, gilda jafnframt lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.
     Þagnarskylda samkvæmt lögum þessum skal ekki vera því til fyrirstöðu að Fjarskiptastofa gefi fulltrúum Eftirlitsstofnunar EFTA sem fjalla um fjarskiptamál allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar við framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
     Fjarskiptastofu er heimilt að skiptast á upplýsingum við sambærilegar stofnanir innan Evrópska efnahagssvæðisins og samningsríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að því marki sem ekki er um trúnaðarupplýsingar að ræða.
     Fjarskiptastofa getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.
     Fjarskiptastofa og Samkeppniseftirlitið skulu setja sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem geta bæði fallið innan marka laga um fjarskiptamál og samkeppnislaga. Skulu reglur þessar birtar.
     Fjarskiptastofa og ríkislögreglustjóri skulu hafa gagnkvæmt og virkt samstarf um net- og upplýsingaöryggi, svo og um viðbúnaðaræfingar og aðrar aðgerðir sem miða að því að stuðla að öryggi og viðnámsþrótti innviða.

26. gr.

Samvinna og samráð.
     Fjarskiptastofa skal hafa samvinnu og samráð við þá aðila, félög, samtök og stofnanir sem tengjast starfsemi hennar.
     Fjarskiptastofu er heimilt að setja á fót tímabundna samstarfshópa á einstökum fagsviðum stofnunarinnar, þ.m.t. í því skyni að vinna að samstarfsverkefnum á sviði nýsköpunar, netöryggis og fjarskipta, til að stuðla að bestu framkvæmd á einstökum sviðum eða ef samstarf er nauðsynlegt til þess að ná markmiðum laganna.

27. gr.

Alþjóðlegt samstarf.
     Fjarskiptastofa tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi og mótun alþjóðareglna á starfssviði sínu eftir því sem kveðið er á um í lögum, alþjóðasamningum eða með ákvörðun ríkisstjórnar.
     Stofnunin skal m.a.:
  1. eiga samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir á Evrópska efnahagssvæðinu og Eftirlitsstofnun EFTA í þeim tilgangi að koma á samræmdum eftirlitsháttum og samræmdri túlkun löggjafar,
  2. annast undirbúning samninga við erlend ríki og alþjóðastofnanir og eftir atvikum gerð slíkra samninga,
  3. vinna að innleiðingu og framfylgd alþjóðasamninga og EES-gerða, og
  4. hafa eftirlit með að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðasamningum og annast undirbúning og þátttöku í alþjóðlegum úttektum.

     Stofnuninni er heimilt að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á sínu sviði að eigin frumkvæði til þess að efla starf sitt, þar á meðal um netöryggismál og um bestu framkvæmd um stjórnunarhætti internetsins á alþjóðavísu.

28. gr.

Samskipti við eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Áður en Fjarskiptastofa tekur ákvörðun, sem hefur áhrif á viðskipti milli ríkja, um skilgreiningu fjarskiptamarkaða og greiningu þeirra, um kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild eða um aðgang og samtengingu og breytingar á skyldum á smásölumarkaði skal stofnunin hafa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsstofnanir í einstökum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
     Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á og skal þá tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsstofnunum í einstökum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu tafarlaust um ákvörðunina.
     Fjarskiptastofa skal haga eftirliti sínu með tilliti til fyrirsjáanleika með því að tryggja samræmdar eftirlitsaðferðir og endurmeta þær reglubundið að teknu tilliti til þróunar viðurkenndra viðmiða um bestu framkvæmd.
     Fjarskiptastofa skal veita Eftirlitsstofnun EFTA almennar upplýsingar sem skylt er að veita með hliðsjón af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, svo sem varðandi fjarskiptamarkaði, alþjónustu og kvaðir sem lagðar eru á fyrirtæki.

29. gr.

Skýrsla.
     Fjarskiptastofa skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína, þar á meðal ákvarðanir og málsmeðferðartíma, mönnun, nýtingu fjárheimilda, ráðstöfun rekstrargjalda og framtíðarsýn. Í skýrslunni skal fjallað um stöðu fjarskiptamarkaðar á hverjum tíma, m.a. birtur listi yfir fjarskiptafyrirtæki og upplýsingar um kostnað við alþjónustu og eftir atvikum jöfnunargjaldsgreiðslur og hvaða hag fyrirtæki sem settar hafa verið alþjónustuskyldur hafa haft af því á fjarskiptamarkaðinum. Enn fremur skal fjallað almennt um stöðu og þróun net- og upplýsingaöryggismála á Íslandi.

30. gr.

Reglugerðir.
     Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli í reglugerð um starfsemi Fjarskiptastofu og framkvæmd laga þessara þar sem fram koma þau fyrirmæli samkvæmt lögum þessum sem setja skal eða heimilt er að setja í reglugerð og lúta að:
  1. framkvæmd eftirlits Fjarskiptastofu,
  2. gagnagrunni almennra fjarskiptaneta, sbr. 10. gr., þ.m.t. um aðgengi og birtingu upplýsinga úr gagnagrunni um almenn fjarskiptanet og takmarkanir á aðgengi, svo og um öflun og vinnslu upplýsinga,
  3. hlutverki Fjarskiptastofu á sviði rannsókna og þróunarstarfs,
  4. úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, sbr. 20. gr., þar á meðal um starfshætti úrskurðarnefndarinnar, tímafresti, starfslið, sérfræðiaðstoð og umfang hennar, skrifstofuhald, starfsstöð, málsmeðferð, birtingu og aðfararhæfi, frestun réttaráhrifa, útgáfu úrskurða nefndarinnar, málskotsgjöld og kostnað lögaðila, skiptingu kostnaðar og aðra þætti er lúta að starfsumhverfi nefndarinnar,
  5. innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) og stofnun til að styðja við BEREC-hópinn (BEREC-skrifstofu), um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/2120 og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 1211/2009,
  6. innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/881 frá 17. apríl 2019 um Netöryggisstofnun Evrópu (ENISA) og netöryggisvottunarkerfi upplýsinga- og samskiptatækja og um niðurfellingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 526/2013 frá 21. maí 2013 um Net- og upplýsingaöryggisstofnun Evrópusambandsins (ENISA) o.fl.

     Ráðherra setur, að viðhöfðu samráði við Fjarskiptastofu og að fenginni umsögn frá Persónuvernd og ríkislögreglustjóra, eftir því sem við á, nánari fyrirmæli um starfsemi netöryggissveitar í reglugerð. Í henni skal m.a. mælt fyrir um:
  1. hlutverk, skipulag og verkefni netöryggissveitar,
  2. skipun og hæfi starfsmanna netöryggissveitar, þ.m.t. um öryggisvottun,
  3. meðferð upplýsinga og viðeigandi öryggisráðstafanir, þar á meðal gagnvart erlendum samstarfsaðilum,
  4. ráðstafanir til að tryggja öryggi og eyðingu gagna og aðrar ráðstafanir til að tryggja friðhelgi einkalífs,
  5. viðbúnaðaræfingar,
  6. samstarf við önnur stjórnvöld og stofnanir, og
  7. skýrslugjöf um starfsemi netöryggissveitar.


31. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021. Jafnframt falla úr gildi lög um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

32. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019: Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnunar“ í 4. mgr. 3. gr. og „Póst- og fjarskiptastofnun“ í 1. mgr. 10. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Fjarskiptastofa.
  2. Lög um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta, nr. 125/2019: Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnun“ í 2. tölul. 2. gr. og „Póst- og fjarskiptastofnunar“ í 5. mgr. 3. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Fjarskiptastofa.
  3. Lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007: Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnun“ í 6. tölul. 3. gr. laganna kemur: Fjarskiptastofu.
  4. Lög um almannavarnir, nr. 82/2008: Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnunar“ í 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Fjarskiptastofu.
  5. Lög um samræmda neyðarsvörun, nr. 40/2008: Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnun“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: Fjarskiptastofa.
  6. Lög um fjölmiðla, nr. 38/2011: Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnun“ í 10. tölul. 2. gr. og „Póst- og fjarskiptastofnunar“ í 1. mgr. 18. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Fjarskiptastofa.
  7. Lög um fjarskipti, nr. 81/2003: Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnun“ í 2. mgr. og „Póst- og fjarskiptastofnunar“ í 6. mgr. 2. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Fjarskiptastofa.
  8. Lög um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum (stjórnsýsla neytendamála), nr. 18/2021: Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnun“ í 20. gr. laganna kemur: Fjarskiptastofa.


Samþykkt á Alþingi 12. júní 2021.