Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1324, 139. löggjafarþing 198. mál: fjölmiðlar (heildarlög).
Lög nr. 38 20. apríl 2011.

Lög um fjölmiðla.


I. KAFLI
Markmið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun sem og að efla vernd neytenda á þeim vettvangi. Markmið laganna er jafnframt að koma á samræmdri löggjöf á vettvangi fjölmiðlunar óháð því miðlunarformi sem er notað.

2. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
 1. Aðgangskassi er tæki sem er ætlað að taka á móti og vinna úr öllum þáttum stafrænna útsendinga og senda til sjónvarpstækja, þar á meðal þegar við á að veita aðgang að hljóð- og myndmiðlunarefni sem einungis er aðgengilegt gegn endurgjaldi.
 2. Auglýsing er viðskiptaboð sem í felst hvers konar tilkynning sem er miðlað gegn endurgjaldi eða í þágu fjölmiðlaveitu og felur í sér kynningu á ímynd, vöru eða þjónustu.
 3. Ábyrgðarmaður er einstaklingur sem fer með yfirstjórn fjölmiðlaveitu. Ef fjölmiðlaveita er einstaklingur telst sá einstaklingur sjálfkrafa ábyrgðarmaður.
 4. Dagskrá er heildarsamsetning dagskrárliða.
 5. Dagskrárliður er safn hljóðskráa og/eða hreyfimynda sem mynda stakan lið innan áætlunar eða dagskrár sem fjölmiðlaveita setur saman og er að formi og efni til sambærilegt hljóðvarpi eða sjónvarpsútsendingu.
 6. Dulin viðskiptaboð eru kynning í máli eða myndum á vörum, þjónustu, heiti, vörumerki eða starfsemi aðila sem framleiðir vöru eða veitir þjónustu í dagskrárliðum þegar slík kynning er til þess ætluð af hálfu fjölmiðlaveitu að þjóna auglýsingamarkmiðum og gæti villt um fyrir neytendum að því er eðli hennar varðar.
 7. Efnisstjóri er starfsmaður fjölmiðlaveitu sem ber ábyrgð á efnisvali hverju sinni og ákvarðar hvernig það skuli skipulagt, t.d. ritstjóri, dagskrárstjóri, fréttastjóri og aðrir sambærilegir stjórnendur.
 8. Erlent endurvarp er hljóðvarps- eða sjónvarpsútsending frá erlendri fjölmiðlaveitu sem er móttekin af innlendri fjölmiðlaveitu og hún endurvarpar til notenda hér á landi um þráð eða þráðlaust.
 9. Evrópskt efni er það hljóð- og myndmiðlunarefni sem fellur undir n-lið 1. gr. hljóð- og myndmiðlunartilskipunar Evrópusambandsins 89/552/EB, með síðari breytingum.
 10. Fjarskiptafyrirtæki er einstaklingur eða lögaðili sem hefur tilkynnt Póst- og fjarskiptastofnun um fyrirhugaðan rekstur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanets.
 11. Fjarskiptanet er sendikerfi og þar sem það á við skiptistöðvar, beinar og önnur úrræði sem gera mögulegt að miðla merkjum eftir þræði, þráðlaust, með ljósbylgjum, rafdreifikerfi og háspennulínum eða með öðrum rafsegulaðferðum, þ.m.t. net fyrir hljóð- og myndmiðlun.
 12. Fjarkaup eru hljóð- og myndsending sem í felst beint tilboð eða sala á vöru og þjónustu, þ.m.t. fasteignum eða réttindum og skuldbindingum, gegn greiðslu til almennings þar sem við miðlun tilboðs og gerð samnings er notuð ein eða fleiri fjarskiptaaðferðir án þess að neytandinn eða seljandinn hittist. Til fjarkaupa teljast bæði fjarkaupaþættir og fjarkaupainnskot. Fjarkaupaþættir eru heildstæðir dagskrárliðir en fjarkaupainnskot er efni sem er miðlað á milli dagskrárliða og lýtur sömu reglum og viðskiptaboð.
 13. Fjölmiðill er hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljast m.a. dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar.
 14. Fjölmiðlaþjónusta er sú þjónusta sem fjölmiðlar veita.
 15. Fjölmiðlaveita er einstaklingur eða lögaðili sem starfrækir fjölmiðil.
 16. Flutningur samkvæmt reglum um flutningsrétt og flutningsskyldu tekur til flutnings og dreifingar á myndefni frá tengipunkti sjónvarpsstöðvar til aðgangskassa notenda.
 17. Flutningsreglur eru reglur um flutningsrétt og flutningsskyldu.
 18. Flutningsréttur felur í sér að fjölmiðlaveitu er skylt, að nánar gættum skilyrðum uppfylltum, að verða við beiðni fjarskiptafyrirtækis um dreifingu á efni.
 19. Flutningsskylda felur í sér að fjarskiptafyrirtækjum er skylt, að nánar gættum skilyrðum uppfylltum, að verða við beiðni fjölmiðlaveitu um dreifingu efnis.
 20. Gagnvirk auglýsing er auglýsing sem gerir móttakanda hljóð- og myndefnis kleift að nálgast upplýsingar að eigin frumkvæði í gegnum hvers konar viðtæki.
 21. Hlaðvarp kallast það þegar dagskrárliðir í heild eða að hluta í formi hljóðskráa eru boðnir almenningi til niðurhals.
 22. Hljóð- og myndsending í viðskiptaskyni er annars vegar viðskiptaboð og hins vegar fjarkaup.
 23. Hljóðmiðlun er þjónusta sem fjölmiðlaveita býður og er annars vegar hljóðvarp og hins vegar hlaðvarp eða annars konar hljóðmiðlun eftir pöntun.
 24. Hljóðmiðlun eftir pöntun (ólínuleg hljóðmiðlun) er þjónusta sem fjölmiðlaveita býður án tillits til þess viðtækis sem er notað til móttöku útsendingarinnar og án tillits til þess hvort greiða þarf fyrir efnið þannig að notandi getur hlustað á dagskrárliði í heild eða að hluta þegar hann svo kýs og að sérstakri beiðni hans á grundvelli efnisskrár fjölmiðlaveitu.
 25. Hljóðvarp (línuleg hljóðmiðlun) er hvers konar miðlun hljóðefnis án tillits til þess viðtækis sem er notað til móttöku efnisins þar sem fjölmiðlaveita býður fram samtímis hlustun á dagskrárliði á grundvelli dagskráráætlunar.
 26. Kostun er hljóð- og myndsending í viðskiptaskyni sem tekur til hvers konar framlaga opinbers fyrirtækis, einkafyrirtækis eða einstaklings til fjármögnunar einstakra dagskrárliða með það fyrir augum að vekja athygli á heiti viðkomandi, vörumerki, ímynd, starfsemi eða vörum, enda fáist viðkomandi hvorki við hljóð- né myndmiðlun né framleiðslu hljóð- eða myndverka.
 27. Læst útsending er hljóðvarp eða sjónvarpsútsending þar sem hljóð- eða myndmerkjum hefur verið breytt í því skyni að veita einungis þeim aðgang að útsendingunni sem hafa greitt fyrir hana.
 28. Myndmiðlun er þjónusta sem fjölmiðlaveita býður og er annars vegar sjónvarpsútsending og hins vegar myndmiðlun eftir pöntun.
 29. Myndmiðlun eftir pöntun (ólínuleg myndmiðlun) er þjónusta sem fjölmiðlaveita býður, án tillits til þess viðtækis sem er notað til móttöku efnisins og án tillits til þess hvort greiða þarf fyrir efnið þannig að notandi getur horft á dagskrárliði í heild eða að hluta þegar hann svo kýs og að sérstakri beiðni hans á grundvelli efnisskrár fjölmiðlaveitu.
 30. Prentmiðill er fjölmiðill sem miðlar ritefni á prentuðu formi eða öðru sambærilegu formi, svo sem dagblöð og tímarit.
 31. Rafrænn ritmiðill er fjölmiðill sem miðlar ritefni með rafrænum hætti, svo sem netútgáfur dagblaða og tímarita, dagblöð og tímarit sem er dreift með tölvupósti og aðrir netmiðlar.
 32. Ritefni er texti sem er miðlað sjálfstætt. Til ritefnis teljast jafnframt uppdrættir, teikningar, myndir, nótur o.fl.
 33. Ritmiðlun er þjónusta sem fjölmiðlaveita býður og er annars vegar miðlun ritefnis á prentuðu formi eða öðru sambærilegu formi og hins vegar miðlun ritefnis með rafrænum hætti.
 34. Ritstjórn felur í sér stjórn á vali og skipan þess efnis sem miðlað er.
 35. Sjálfstæður framleiðandi hljóð- eða myndefnis er fyrirtæki sem jafnframt er sjálfstæður lögaðili, óháður viðkomandi fjölmiðlaveitu í þeim skilningi að hann er ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum hennar, hvorki sér né sameiginlega með öðrum, og hefur frelsi til að skilgreina sína eigin viðskiptastefnu.
 36. Sjónvarpsútsending (línuleg myndmiðlun) er hvers konar miðlun myndefnis án tillits til þess viðtækis sem er notað til móttöku útsendingarinnar þar sem fjölmiðlaveita býður fram samtímis áhorf á dagskrárliði á grundvelli dagskráráætlunar.
 37. Skjáskipt auglýsing er auglýsing þar sem á hluta skjás er birt auglýsing samhliða útsendingu hvers kyns myndmiðlunarefnis.
 38. Sýndarauglýsing er auglýsing sem ekki er til staðar á vettvangi upptöku myndefnis en er bætt við þannig að hún birtist við útsendingu eða annars konar miðlun efnisins.
 39. Viðskiptaboð eru texti, myndir og/eða hljóð sem er ætlað að vekja, beint eða óbeint, athygli á vörum, þjónustu eða ímynd lögaðila eða einstaklings sem stundar atvinnustarfsemi og er miðlað gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eða til kynningar í eigin þágu. Til viðskiptaboða teljast m.a. auglýsingar, kostun og vöruinnsetning.
 40. Viðtæki er hvert það tæki sem tekur á móti og miðlar fjölmiðlaefni, svo sem sjónvarp, hljóðvarp, tölva, lófatölva, farsími.
 41. Vöruinnsetning er viðskiptaboð sem taka til allra gerða hljóð- og myndsendinga í viðskiptaskyni sem taka til eða vísa til vöru, þjónustu eða vörumerkis hennar með þeim hætti að þær komi fram í dagskrárlið gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi.
 42. Útvarpsmerki er sendibylgja, hvort heldur sem er um þráð eða þráðlaus, sem ber hljóð- og myndmiðlunarefni til viðtækja eða aðgangskassa, ýmist á stafrænu eða hliðrænu formi.


II. KAFLI
Gildissvið og lögsaga.

3. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um alla fjölmiðla sem miðla efni handa almenningi hér á landi, að teknu tilliti til ákvæðis 4. gr. Þau gilda því um allt hljóð- og myndefni í læstri eða ólæstri dagskrá, línulegri dagskrá eða eftir pöntun sem og allt ritefni hvort sem því er miðlað á prentuðu eða öðru sambærilegu formi eða með rafrænum hætti.

4. gr.

Lögsaga yfir fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni.
     Íslenska ríkið hefur lögsögu yfir þeim fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni og hafa staðfestu á Íslandi. Slíkur aðili telst hafa staðfestu hér á landi:
 1. þegar hann hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi og ákvarðanir um dagskrárefni og aðra þætti sem lúta að ritstjórn eru teknar hér á landi,
 2. þegar hann hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi en ákvarðanir um dagskrárefni og aðra þætti sem lúta að ritstjórn eru teknar í öðru ríki, eða öfugt, að því tilskildu að verulegur hluti starfsliðs við myndmiðlunina starfi hér á landi,
 3. þegar hann hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi en ákvarðanir um dagskrárefni og aðra þætti sem lúta að ritstjórn eru teknar í öðru ríki og verulegur hluti starfsliðs við myndmiðlunina starfar í báðum ríkjum, eða
 4. þegar hann hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi en ákvarðanir um dagskrárefni og aðra þætti sem lúta að ritstjórn eru teknar í öðru ríki, eða öfugt, og verulegur hluti starfsliðs við myndmiðlunina starfar í hvorugu þessara ríkja, og viðkomandi hefur hafið útsendingar samkvæmt útvarpsleyfi sem veitt var með stoð í íslenskum lögum og haldið stöðugum og virkum tengslum við íslenskt efnahagslíf.

     Íslenska ríkið hefur jafnframt lögsögu yfir þeim fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni og hvorki hafa staðfestu hér á landi samkvæmt ákvæði 1. mgr. né í öðru EES-ríki ef þær uppfylla annað eftirfarandi skilyrða:
 1. nota jarðstöð sem staðsett er hér á landi til sendingar merkis í gervitungl, eða
 2. nota flutningsgetu gervitungls sem tilheyrir Íslandi ef ekki er notuð jarðstöð sem staðsett er í öðru EES-ríki til sendingar merkis í gervitungl.

     Komi upp vafi um það hvort fjölmiðlaveita sem miðlar myndefni heyri undir lögsögu íslenska ríkisins eða annars EES-ríkis, og ekki reynist unnt að skera úr um það á grundvelli 1. eða 2. mgr., skal úr því leyst á grundvelli ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. sérstaklega 2. kafla III. hluta samningsins um staðfesturétt.

5. gr.

Tímabundin stöðvun á móttöku myndmiðlunarefnis frá öðrum EES-ríkjum.
     Þrátt fyrir skyldu íslenska ríkisins til þess að tryggja frelsi til móttöku sjónvarpsútsendinga frá öðrum EES-ríkjum getur fjölmiðlanefnd stöðvað slíka móttöku tímabundið að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
 1. útsendingin brýtur augljóslega, verulega og alvarlega gegn ákvæðum 27. eða 28. gr.,
 2. viðkomandi fjölmiðlaveita hefur að minnsta kosti tvívegis á síðastliðnum 12 mánuðum brotið gegn ákvæðum a-liðar,
 3. fjölmiðlanefnd hefur tilkynnt viðkomandi fjölmiðlaveitu og Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, skriflega um meint brot og þær ráðstafanir sem hún hyggst grípa til verði brot endurtekið, eða
 4. samráð við þar til bært stjórnvald í því aðildarríki sem fer með lögsögu yfir viðkomandi fjölmiðlaveitu og Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, hefur ekki leitt til lausnar innan 15 daga frá tilkynningu skv. c-lið og framhald er á meintu broti.

     Þegar um er að ræða myndmiðlun eftir pöntun er heimilt að stöðva tímabundið móttöku myndefnis frá öðru EES-ríki á grundvelli sömu sjónarmiða og tiltekin eru í a-lið 1. mgr., sem og ef það myndefni sem um ræðir er að öðru leyti talið stríða gegn allsherjarreglu, verndun lýðheilsu, almannaöryggi eða neytendavernd.
     Fjölmiðlanefnd skal þó einungis stöðva móttöku myndefnis skv. 2. mgr. ef þar til bært stjórnvald í því aðildarríki sem fer með lögsögu yfir viðkomandi fjölmiðlaveitu hefur ekki orðið við beiðni nefndarinnar um að grípa til aðgerða gagnvart þeirri fjölmiðlaveitu sem í hlut á eða þær aðgerðir sem það hefur gripið til eru ófullnægjandi. Þá skal fjölmiðlanefnd tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, um fyrirhugaða stöðvun á móttöku efnis áður en til hennar kemur.
     Í bráðatilvikum er heimilt að víkja frá ákvæði 3. mgr. Slíkt skal þó án tafa tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, og þar til bæru stjórnvaldi í viðkomandi aðildarríki og það rökstutt sérstaklega að um bráðatilvik hafi verið að ræða.

6. gr.

Ráðstafanir gagnvart fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni og heyra undir lögsögu annarra EES-ríkja.
     Telji fjölmiðlanefnd að fjölmiðlaveita, sem heyrir undir lögsögu annars EES-ríkis en dreifir myndefni sem að mestu eða öllu leyti er ætlað til móttöku hér á landi, hafi brotið gegn ákvæðum laga þessara getur fjölmiðlanefnd farið fram á það við þar til bær stjórnvöld í viðkomandi EES-ríki að þau beini því til fjölmiðlaveitunnar að hún fari að þeim ákvæðum sem um ræðir.
     Telji fjölmiðlanefnd þá niðurstöðu sem fæst með beitingu 1. mgr. ekki fullnægjandi og að sú fjölmiðlaveita sem um ræðir hafi öðlast staðfestu í viðkomandi EES-ríki gagngert í því skyni að sniðganga íslensk lög er henni heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana gegn fjölmiðlaveitunni samkvæmt lögum þessum að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
 1. að hún hafi tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, sem og þar til bærum yfirvöldum í viðkomandi EES-ríki um þær ráðstafanir sem hún hyggst grípa til og rökstutt þær, og
 2. að Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, hafi staðfest að ráðstafanir þær sem um ræðir samrýmist ákvæðum EES-samningsins og að mat fjölmiðlanefndar skv. 1. og 2. mgr. sé rétt.

     Komist framkvæmdastjórnin eða Eftirlitsstofnun EFTA að þeirri niðurstöðu að ráðstafanirnar samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins skal fjölmiðlanefnd ekki grípa til umræddra ráðstafana.

III. KAFLI
Stjórnsýsla.

7. gr.

Fjölmiðlanefnd.
     Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra. Nefndin annast eftirlit samkvæmt lögum þessum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
     Ákvörðunum fjölmiðlanefndar samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.
     Kostnaður við starfsemi fjölmiðlanefndar greiðist úr ríkissjóði.
     Við framkvæmd eftirlits með viðskiptaboðum sem falla undir eftirlit annarra stjórnvalda samkvæmt sérlögum skal fjölmiðlanefnd leita samstarfs um verkaskiptingu við þau stjórnvöld.
     Fjölmiðlanefnd skal gera samstarfssamning við Neytendastofu um mál sem geta varðað starfssvið þessara stofnana.

8. gr.

Skipan fjölmiðlanefndar.
     Mennta- og menningarmálaráðherra skipar fimm manns í fjölmiðlanefnd til fjögurra ára í senn. Tveir fulltrúar skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands, einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins og einn samkvæmt tilnefningu Blaðamannafélags Íslands en þann fimmta skipar ráðherra án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann nefndarinnar og skal hann uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Varaformann skal skipa úr hópi fastra nefndarmanna. Aðrir nefndarmenn og varamenn þeirra skulu hafa sérþekkingu á fjölmiðlamálum, reynslu eða menntun sem nýtist á þessu sviði. Um hæfi nefndarmanna fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ráðherra ákvarðar þóknun nefndarmanna.
     Nefndarmenn skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi. Þeir skulu hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða sérrefsilagaákvæðum.
     Fjölmiðlanefnd setur sér starfsreglur sem skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

9. gr.

Starfsmenn fjölmiðlanefndar.
     Fjölmiðlanefnd er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn til að annast í umboði hennar daglega framkvæmd og stjórnun þeirra verkefna sem nefndinni eru falin samkvæmt lögum þessum. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á fjárreiðum fjölmiðlanefndar. Hann skal hafa háskólamenntun og búa yfir sérþekkingu á sviði fjölmiðlamála. Um starfskjör starfsmanna fer að samningum opinberra starfsmanna og fjölmiðlanefnd setur þeim starfslýsingu.

10. gr.

Starfssvið fjölmiðlanefndar.
     Með starfsemi fjölmiðlanefndar skal stuðlað að því að markmiðum og tilgangi laga þessara verði náð. Skal nefndin vinna að því að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga. Nefndin skal sérstaklega stuðla að því að vernd barna sé virt, samkvæmt fyrirmælum laga þessara.
     Fjölmiðlanefnd skal fara með þau verkefni sem henni eru falin lögum samkvæmt. Nefndin skal m.a.:
 1. fylgjast með því að fjölmiðlaveitur fari að fyrirmælum laga þessara, taka ákvarðanir í málum samkvæmt þeim og beita viðurlögum þegar við á,
 2. fylgjast með stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði og safna upplýsingum þar að lútandi,
 3. annast samskipti við sambærileg stjórnvöld í öðrum EES-ríkjum og alþjóðastofnanir um málefni á starfsvettvangi sínum,
 4. annast eftirlit með skráningarskyldu og veitingu leyfa til hljóð- og myndmiðlunar og tryggja að lögboðnar upplýsingar um allar fjölmiðlaveitur séu til staðar, og
 5. annast eftirlit með innihaldi og framsetningu hljóð- og myndsendinga í viðskiptaskyni sem og viðskiptaboða í prentmiðlum og rafrænum ritmiðlum.


11. gr.

Málsmeðferð.
     Erindum vegna ætlaðra brota á ákvæðum laga þessara skal beint til fjölmiðlanefndar. Fjölmiðlanefnd tekur ákvörðun um það hvort erindi sem berst henni gefi nægar ástæður til meðferðar. Við afgreiðslu mála samkvæmt lögum þessum er fjölmiðlanefnd heimilt að raða málum í forgangsröð. Þá er fjölmiðlanefnd heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði.
     Fjölmiðlanefnd skal, eins fljótt og við verður komið, taka ákvörðun í málum vegna erinda sem til hennar er beint.
     Fjölmiðlanefnd skal eftir því sem við á gæta trúnaðar við meðferð upplýsinga og gagna sem hún aflar eða henni berast á grundvelli laga þessara um hagi einstakra fjölmiðlaveitna. Þótt fjölmiðlanefnd afhendi upplýsingar til annarra sambærilegra stjórnsýslustofnana, sem fara með fjölmiðlamál innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal sami trúnaður ríkja. Tryggt skal vera að tölulegar upplýsingar séu ekki rekjanlegar til einstakra fjölmiðlafyrirtækja.

12. gr.

Sérstök rannsóknarheimild.
     Fjölmiðlanefnd getur krafið fjölmiðlaveitur um skriflegar upplýsingar og gögn vegna ætlaðra brota á ákvæðum laga þessara og skulu slíkar upplýsingar og gögn þá veitt innan hæfilegs frests sem nefndin setur.
     Fjölmiðlanefnd getur við rannsókn ætlaðra brota gegn þeim ákvæðum VI. kafla er varða viðskiptaboð og fjarkaup gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð fjölmiðlaveitu eða stað þar sem gögn eru varðveitt þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn umræddum ákvæðum. Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.

13. gr.

Upplýsingaskipti.
     Fjölmiðlanefnd er skylt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, sem og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða, eftir því sem við á, Eftirlitsstofnun EFTA, upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd laga þessara í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
     Við afhendingu upplýsinga og gagna skal eftir því sem við á setja sem skilyrði að:
 1. farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
 2. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við beiðni um upplýsingar, og
 3. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki fjölmiðlanefndar og í þeim tilgangi sem kveðið er á um.


IV. KAFLI
Skráning fjölmiðla, leyfi til hljóð- og myndmiðlunar, gagnsæi, upplýsingagjöf o.fl.

14. gr.

Skráning fjölmiðla.
     Öll starfsemi sem fellur undir gildissvið laga þessara og ekki er leyfisskyld er skráningarskyld. Fjölmiðlaveita sem ekki stundar leyfisskylda hljóð- og myndmiðlun skal tilkynna fjölmiðlanefnd um starfsemi sína áður en hún hefst.
     Tilkynning skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og hafa að geyma upplýsingar um heiti viðkomandi fjölmiðlaveitu, kennitölu hennar, lögheimili, netfang og vefsetur, heiti fjölmiðils eða fjölmiðla sem hún starfrækir, nafn ábyrgðarmanns, ritstjórnar- eða dagskrárstefnu, kallmerki ef við á og eignarhald á þeirri fjölmiðlaveitu sem um ræðir.
     Ábyrgðarmaður fjölmiðlaveitu skal hafa heimilisfesti hér á landi og vera lögráða og fjár síns ráðandi.
     Fjölmiðlaveitu ber að tilkynna fjölmiðlanefnd um allar breytingar sem kunna að verða á högum hennar og varða þær upplýsingar sem liggja til grundvallar tilkynningu hennar skv. 2. mgr.

15. gr.

Erlent endurvarp hljóð- og myndefnis.
     Hljóð- og myndmiðlunarefni sem er endurvarpað erlendis frá af fjölmiðlaveitu sem fellur undir gildissvið laganna ber að tilkynna til fjölmiðlanefndar. Tilkynning skal vera skrifleg og skal koma fram nafn þeirrar erlendu fjölmiðlaveitu sem um er að ræða hverju sinni, heimili hennar, netfang, vefsetur og kallmerki. Þá skal veita upplýsingar um ritstjórnarábyrgð, dagskrárstefnu og eignarhald á viðkomandi fjölmiðlaveitu ef tiltækar eru.

16. gr.

Leyfi til hljóð- og myndmiðlunar.
     Til hljóð- og myndmiðlunar fjölmiðlaveitu sem heyrir undir lögsögu íslenska ríkisins, sem krefst tíðniúthlutunar hjá Póst- og fjarskiptastofnun, þarf leyfi fjölmiðlanefndar, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum.
     Fjölmiðlanefnd getur veitt lögaðilum og einstaklingum tímabundið leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar, annars vegar almennt leyfi til allt að sjö ára í senn og hins vegar skammtímaleyfi að hámarki til þriggja mánaða. Leyfi taka ýmist til landsins alls eða eru staðbundin og afmörkuð við einstaka landshluta.

17. gr.

Umsókn um leyfi til hljóð- og myndmiðlunar.
     Umsókn um almennt leyfi til hljóð- og myndmiðlunar skal vera skrifleg og hafa að geyma eftirfarandi upplýsingar, eftir því sem við á:
 1. nafn umsækjanda, kennitölu, lögheimili, netfang og vefsetur,
 2. nafn ábyrgðarmanns,
 3. fyrirhugaða dagskrárstefnu,
 4. kallmerki,
 5. aðra fjölmiðlastarfsemi umsækjanda,
 6. eignarhald á umsækjanda,
 7. hvort sótt er um leyfi til miðlunar hljóð- eða myndefnis á erlendu tungumáli og ástæður þess,
 8. hvort sótt er um leyfi fyrir landið allt eða staðbundið leyfi,
 9. hvort tilskilinna leyfa hafi verið aflað frá rétthöfum efnis,
 10. hvenær fyrirhugað sé að hefja miðlun hljóð- og myndefnis,
 11. til hve langs tíma leyfis er óskað.

     Umsókn um skammtímaleyfi til hljóð- og myndmiðlunar skal einnig vera skrifleg og hafa að geyma sömu upplýsingar og tilgreindar eru í 1. mgr. að undanskildu því sem fram kemur í e- og f-lið.
     Umsækjandi um almennt leyfi skal skila vottorðum um heimilisfesti, lögræði og búsforræði ábyrgðarmanns og vottorði fyrirtækjaskrár um stofnun og tilvist félags, þegar við á.
     Umsækjandi um leyfi skal hafa staðfestu í EES-ríki. Um heimild annarra til að starfrækja hljóð- eða myndmiðlun fer samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

18. gr.

Meðferð umsókna um leyfi til hljóð- og myndmiðlunar.
     Áður en afstaða er tekin til umsóknar um leyfi skal fjölmiðlanefnd leita umsagnar Póst- og fjarskiptastofnunar um tiltæka tíðni og útgeislað afl. Að fenginni þeirri umsögn ákveður fjölmiðlanefnd hvort leyfi skuli veitt.
     Nú er leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar veitt og skal þá tekið fram í skilmálum leyfis hver sé handhafi þess, hvort um sé að ræða leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar, við hvaða landsvæði það afmarkast, gildistími þess, kallmerki, dagskrárstefna viðkomandi fjölmiðlaveitu sem og önnur atriði sem þýðingu kunna að hafa.
     Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar senditíðnum í samræmi við alþjóðasamþykktir til þeirra sem úthlutað hefur verið leyfi, og skal þá kveðið á um tæknilega eiginleika í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl.

19. gr.

Sérstakar skyldur leyfishafa.
     Fjölmiðlaveitum er heimilt að afla tekna með útvarpsgjaldi, áskriftargjaldi, viðskiptaboðum, fjarkaupum og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þeirra.
     Rekstri, bókhaldi og fjárreiðum vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi skal haldið aðgreindum frá öðrum rekstri og fjárreiðum leyfishafa. Fjölmiðlanefnd getur krafist upplýsinga úr bókhaldi og reikningum leyfishafa, ef þess er talin þörf, um hvort laga- eða reglugerðarákvæði eða leyfisskilmálar hafi verið brotnir. Aðal- og varafulltrúar í fjölmiðlanefnd og starfsmenn nefndarinnar eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem leynt á að fara.
     Leyfi til hljóð- og myndmiðlunar verður ekki framselt, leigt eða flutt með öðrum hætti til annars aðila. Nú er bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta og/eða ábyrgðarmaður uppfyllir ekki skilyrði þau sem fram koma í 3. mgr. 17. gr. og fellur þá leyfið þegar í stað úr gildi.

20. gr.

Breyting á skilmálum og endurnýjun og niðurfelling leyfis.
     Fjölmiðlaveitu ber að tilkynna fjölmiðlanefnd allar breytingar sem á leyfistímanum kunna að verða á högum hennar og varða þær upplýsingar sem liggja til grundvallar umsókn hennar skv. 17. gr.
     Óski leyfishafi eftir því að breyting verði gerð á skilmálum leyfis skal hann sækja um slíkt sérstaklega til fjölmiðlanefndar.
     Óski leyfishafi eftir endurnýjun leyfis skal sótt um það til fjölmiðlanefndar eigi síðar en tveimur mánuðum áður en gildandi leyfi rennur út.
     Hafi leyfishafi ekki hafið starfsemi innan sex mánaða frá uppgefnu tímamarki skv. j-lið 1. mgr. 17. gr. fellur leyfið sjálfkrafa niður. Sé starfsemi hætt og hún ekki hafin á ný innan fjögurra mánaða telst leyfi sjálfkrafa niður fallið. Leyfishafa ber að tilkynna fjölmiðlanefnd þegar starfsemi lýkur varanlega.

21. gr.

Upplýsingagjöf á heimasíðu fjölmiðlanefndar.
     Á heimasíðu fjölmiðlanefndar skal birta upplýsingar um:
 1. nafn þess sem tilkynnt hefur starfsemi sína eða hlotið leyfi, kennitölu, lögheimili, netfang og vefsetur og gildistíma leyfis þegar slíkt á við,
 2. nafn ábyrgðarmanns,
 3. dagskrárstefnu hljóð- og myndmiðla og síðari tilkynningar um breytingu á henni,
 4. ritstjórnarstefnu prentmiðla og rafrænna ritmiðla og síðari tilkynningar um breytingu á henni,
 5. eignarhald á fjölmiðlaveitu,
 6. reglur fjölmiðlaveitu um ritstjórnarlegt sjálfstæði,
 7. jafnréttisáætlun fjölmiðlaveitu, eftir því sem við á, og
 8. ákvarðanir fjölmiðlanefndar í málum fjölmiðlaveitu; úr hinni birtu útgáfu úrskurðar skal þó fella brott upplýsingar um viðkvæm einkamálefni einstaklinga og mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.


22. gr.

Tilkynningarskylda um eigendaskipti að fjölmiðlaveitu.
     Við sölu á hlut í fjölmiðlaveitu bera seljandi og kaupandi ábyrgð á því að tilkynning um söluna sé send fjölmiðlanefnd. Tilkynning um söluna skal hafa borist fjölmiðlanefnd innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings. Þetta ákvæði gildir þó ekki hafi stjórn hlutafélags gert samning við verðbréfamiðstöð skv. 3. mgr.
     Eftir sérhvern aðalfund í einkahlutafélagi og hlutafélagi sem er skráningarskylt eða hefur hljóð- og myndmiðlunarleyfi samkvæmt lögum þessum skal stjórn félags senda fjölmiðlanefnd hlutaskrá félagsins innan fjögurra virkra daga frá því að fundur var haldinn. Þetta ákvæði gildir þó ekki hafi stjórn hlutafélags gert samning við verðbréfamiðstöð skv. 3. mgr.
     Stjórn hlutafélags sem er skráningarskylt eða hefur hljóð- og myndmiðlunarleyfi samkvæmt lögum þessum og er eignarskráð í verðbréfamiðstöð hefur heimild til að gera samning við verðbréfamiðstöð um að hún sendi daglega uppfærða hlutaskrá félagsins til fjölmiðlanefndar.

23. gr.

Skýrslugjöf fjölmiðlaveitna.
     Fjölmiðlaveitu er skylt að senda fjölmiðlanefnd árlega skýrslu sem hefur að geyma upplýsingar um eftirfarandi atriði, eftir því sem við á:
 1. hlutfall evrópsks myndefnis í línulegri dagskrá,
 2. hlutfall myndefnis frá sjálfstæðum framleiðendum í línulegri dagskrá,
 3. hlutfall íslensks myndefnis í línulegri dagskrá,
 4. hlutfall pantana á evrópsku myndefni í ólínulegri dagskrá,
 5. hlutfall pantana á myndefni frá sjálfstæðum framleiðendum í ólínulegri dagskrá,
 6. hlutfall pantana á íslensku myndefni í ólínulegri dagskrá,
 7. aðgerðir viðkomandi fjölmiðlaveitu til að efla kynningu og framboð á evrópsku myndefni,
 8. aðgerðir fjölmiðlaveitunnar til að auka aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndefni hennar,
 9. birtingarmyndir kynjanna, þ.m.t. hlutfall karla og kvenna í hópi viðmælenda í fréttum og fréttatengdu efni,
 10. starfsfólk á fjölmiðlum, fjölda kvenna og karla, greint eftir starfsheitum,
 11. aðgerðir fjölmiðlaveitunnar til að vinna gegn staðalímyndum kynjanna, og
 12. annað sem nauðsynlegt er til að mæla stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði.

     Fjölmiðlaveita með skammtímaleyfi, skv. 2. mgr. 16. gr., er undanþegin skýrslugjöf.
     Fjölmiðlaveita skal láta fjölmiðlanefnd skýrslu sína skv. 1. mgr. í té eigi síðar en 31. mars ár hvert vegna nýliðins árs.
     Að undangenginni beiðni fjölmiðlanefndar er fjölmiðlaveitu, á öðrum tímum og þegar sérstaklega stendur á, jafnframt skylt að veita þær upplýsingar sem kveðið er á um í 1. mgr. innan hæfilegs frests sem nefndin veitir.
     Fjölmiðlanefnd getur áskilið að faggilt skoðunarstofa staðfesti skýrslur fjölmiðlaveitna skv. 1. og 3. mgr. Fjölmiðlanefnd greiðir þann kostnað sem af störfum skoðunarstofu hlýst.
     Skoðunarstofa og starfsmenn hennar eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd verkefnisins skv. 5. mgr. og leynt á að fara. Um þagnarskylduna gilda ákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og skal brot á henni varða refsingu skv. 136. gr. almennra hegningarlaga.

V. KAFLI
Réttindi og skyldur fjölmiðlaveitna.

24. gr.

Ritstjórnarlegt sjálfstæði.
     Fjölmiðlaveita skal setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Slíkar reglur skulu mótaðar í samráði við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra eða samtök.
     Í reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði skal m.a. fjallað um:
 1. starfsskilyrði viðkomandi efnisstjóra, blaða- og fréttamanna ritmiðla og hljóð- og myndmiðla við að framfylgja ritstjórnar- eða dagskrárstefnu fjölmiðlaveitunnar,
 2. starfshætti sem ætlað er að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði viðkomandi efnisstjóra, blaða- og fréttamanna gagnvart eigendum fjölmiðlaveitunnar, og
 3. skilyrði áminningar og uppsagnar viðkomandi efnisstjóra og blaða- og fréttamanna.

     Reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði skulu sendar fjölmiðlanefnd til staðfestingar.
     Reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði skulu endurskoðaðar árlega. Tilkynna skal fjölmiðlanefnd þegar endurskoðun hefur farið fram og senda henni nýja útgáfu af reglunum til staðfestingar hafi breytingar verið gerðar.

25. gr.

Vernd heimildarmanna.
     Starfsmönnum fjölmiðlaveitu sem hlotið hafa leyfi eða skráningu hjá fjölmiðlanefnd er óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Starfsmönnum fjölmiðlaveitu er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum.
     Bann 1. mgr. gildir einnig um þá sem vegna tengsla við fjölmiðlaveitu eða framleiðslu efnis hefur orðið kunnugt um hver heimildarmaður eða höfundur er eða hefur undir höndum gögn þar að lútandi.
     Heimildarvernd skv. 1. og 2. mgr. verður einungis aflétt með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða höfundar eða á grundvelli 119. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

26. gr.

Lýðræðislegar grundvallarreglur.
     Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti auk þess að hafa í huga friðhelgi einkalífs. Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í umfjöllun sinni um fréttir og fréttatengt efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna.
     Fjölmiðlaveitu sem hefur þá yfirlýstu stefnu að beita sér fyrir tilteknum málstað skal vera óskylt að miðla efni sem gengur í berhögg við stefnu miðilsins.

27. gr.

Bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi.
     Fjölmiðlum er óheimilt að hvetja til refsiverðar háttsemi. Bannað er að kynda undir hatri í fjölmiðlum á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis, skoðana eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.

28. gr.

Vernd barna gegn skaðlegu efni.
     Fjölmiðlaveitu sem miðlar hljóð- og myndefni er óheimilt að miðla efni, þar á meðal hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni, sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi.
     Frá bannákvæði 1. mgr. má gera eftirfarandi undantekningar:
 1. Eftir kl. 21 á kvöldin virka daga og eftir kl. 22 á kvöldin um helgar og til kl. 5 á morgnana er heimilt að miðla efni í línulegri dagskrá sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að á undan því sé birt skýr viðvörun og það sé auðkennt með sjónrænu merki, þegar um miðlun myndefnis er að ræða, allan þann tíma sem efninu er miðlað.
 2. Heimilt er að miðla efni í línulegri dagskrá sem ekki er talið við hæfi barna að því gefnu að tryggt sé með viðeigandi tæknilegum ráðstöfunum að útsendingin nái ekki til barna.
 3. Heimilt er að miðla hljóð- og myndmiðlunarefni eftir pöntun sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að tryggt sé með viðeigandi tæknilegum ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að því.
 4. Heimilt er að miðla fréttum og fréttatengdu efni sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að það sé nauðsynlegur hluti af fréttaþjónustu viðkomandi fjölmiðils og að á undan því sé birt skýr viðvörun og það sé auðkennt með sjónrænu merki, þegar um miðlun myndefnis er að ræða, allan þann tíma sem efninu er miðlað verði því við komið.

     Undantekningarákvæði a- og b-liðar 2. mgr. taka ekki til hljóð- og myndefnis sem getur haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna.
     Aðrar fjölmiðlaveitur skulu kappkosta að efni sem haft getur skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna sé þeim hvorki aðgengilegt né því miðlað til þeirra.

29. gr.

Tal og texti á íslensku.
     Fjölmiðlaveitur skulu eftir því sem við á efla íslenska tungu. Fjölmiðlar sem miðla hljóði og texta á íslensku skulu í því skyni marka sér málstefnu. Þó skal heimilt að starfrækja fjölmiðla hér á landi á öðrum tungumálum en íslensku.
     Hljóð- og myndefni á erlendu máli, hvort heldur sem því er miðlað í línulegri dagskrá eða eftir pöntun, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal fjölmiðlaveita, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa.
     Ákvæði 2. mgr. á ekki við um endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva. Ákvæði 2. mgr. á ekki heldur við þegar viðkomandi hljóð- eða myndmiðill er starfræktur á öðru tungumáli en íslensku, sbr. 1. mgr.

30. gr.

Aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndmiðlunarefni.
     Þær fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni skulu eins og kostur er leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun. Úrræði til að tryggja aðgengi eru m.a. táknmál, textun og hljóðlýsing.

31. gr.

Skyldur vegna almannaheilla.
     Fjölmiðlaveitu er, ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst, skylt að miðla endurgjaldslaust tilkynningum frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum og rjúfa línulega dagskrá ef þörf krefur.

32. gr.

Skylda til auðkenningar.
     Fjölmiðlaveitu sem miðlar hljóð- eða myndefni í línulegri dagskrá er skylt að birta nafn sitt eða annað auðkenni þegar um myndmiðlun er að ræða og kynna nafn sitt þegar um hljóðmiðlun er að ræða. Slík auðkenning skal eiga sér stað a.m.k. einu sinni á hverjum 30 mínútum útsendingar verði því við komið.
     Efnisskrá fjölmiðlaveitu sem starfrækir hljóð- eða myndmiðlun eftir pöntun skal hafa að geyma upplýsingar um það hver veitandi þjónustunnar er.
     Fjölmiðlaveita sem miðlar ritefni á prentuðu formi skal nafngreind í hverju eintaki sem og ritstjóri hafi slíkur aðili verið ráðinn.
     Fjölmiðlaveita sem miðlar ritefni á rafrænu formi skal nafngreina sig með fullnægjandi hætti í viðkomandi miðli sem og ritstjóri hafi slíkur aðili verið ráðinn.

33. gr.

Framboð myndefnis.
     Fjölmiðlaveita sem miðlar myndefni í línulegri dagskrá skal kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Með útsendingartíma er í þessu sambandi átt við heildarútsendingartíma að frádregnum þeim tíma sem varið er til frétta, íþróttaviðburða, leikja, auglýsinga, textavarpsþjónustu og fjarkaupa.
     Fjölmiðlaveita sem miðlar myndefni eftir pöntun skal eftir því sem unnt er tryggja með viðeigandi aðferðum að íslenskt efni og annað evrópskt efni sé áberandi hluti af framboði hennar.

34. gr.

Dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum.
     Fjölmiðlaveita sem miðlar myndefni í línulegri dagskrá skal, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 33. gr., á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum.

35. gr.

Skylda til varðveislu á fjölmiðlaefni.
     Fjölmiðlaveita skal í a.m.k. 18 mánuði varðveita efni sem miðlað hefur verið fari það ekki í bága við réttindi rétthafa. Miða skal upphaf tímafrests skv. 1. málsl. við það tímamark þegar efninu er fyrst miðlað.

36. gr.

Réttur til andsvara.
     Aðili sem telur að lögmætir hagsmunir sínir, einkum æra eða orðspor, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli hefur rétt til andsvara í viðkomandi miðli eða til annarra jafngildra úrræða. Andsvör skulu birt eða þeim miðlað þegar eftir að rök hafa verið færð fyrir beiðni þar um. Birta skal andsvör óháð formi fjölmiðils þannig að eftir verði tekið. Fjölmiðlaveitu er óheimilt að óska eftir greiðslu fyrir birtingu eða miðlun andsvars.
     Fjölmiðlaveita getur synjað beiðni um andsvar við eftirfarandi aðstæður:
 1. ef andsvarið fer yfir þau mörk í tíma eða lengd sem talin eru nauðsynleg til að leiðrétta staðreyndir málsins,
 2. ef í andsvarinu felst annað og/eða meira en að leiðrétta staðreyndir sem fram hafa komið hjá fjölmiðlaveitunni,
 3. ef andsvarið felur í sér efni sem brýtur í bága við almenn hegningarlög og er til þess fallið að gera fjölmiðlaveituna skaðabótaskylda eða er andstætt almennu siðferði,
 4. ef andsvarið brýtur gegn lögvörðum hagsmunum þriðja aðila,
 5. ef aðili getur ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta, og
 6. ef upplýsingarnar sem fjölmiðlaveitan miðlaði eru beinar tilvitnanir í gögn sem stafa frá stjórnvöldum eða dómstólum.

     Synjun skv. 2. mgr. skal tilkynnt hlutaðeigandi innan þriggja sólarhringa frá því að beiðni um andsvar er sett fram.
     Synji fjölmiðlaveita beiðni um andsvar skv. 2. mgr. eða bregðist ekki við beiðni aðila innan þeirra tímamarka sem þar eru tilgreind getur hlutaðeigandi beint erindi þar að lútandi til fjölmiðlanefndar sem tekur ákvörðun um hvort aðili eigi rétt á að koma andsvörum á framfæri. Ákvörðun skal tekin innan viku frá því að fjölmiðlanefnd berst erindi þar um og skal nefndin leggja fyrir viðkomandi fjölmiðlaveitu að miðla andsvari án tafar þegar við á.
     Skylt er að láta þeim sem telur á sér brotið og rétt á til andsvara skv. 1. og 2. mgr. endurgjaldslaust í té afrit af því efni sem um er að ræða. Ágreining um rétt til efnis samkvæmt þessari málsgrein má einnig bera undir fjölmiðlanefnd til ákvörðunar.
     Fjölmiðlaveita skal hafa aðgengilegt á heimasíðu sinni, eða með öðrum opinberum hætti, hvert aðili geti leitað telji hann að lögmætir hagsmunir sínir hafi beðið tjón. Gefa skal upp nafn, símanúmer og/eða netfang þess sem leita skal til hjá viðkomandi fjölmiðlaveitu.

VI. KAFLI
Viðskiptaboð og fjarkaup.

37. gr.

Almennar meginreglur.
     Viðskiptaboð skulu vera auðþekkjanleg sem slík og vera skýrt afmörkuð frá öðru efni með þeim hætti sem best hentar því formi miðlunar sem notað er hverju sinni. Sama gildir um fjarkaup.
     Dulin viðskiptaboð eru óheimil. Í hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.
     Viðskiptaboð og fjarkaup skulu ekki:
 1. skerða virðingu fyrir mannlegri reisn,
 2. fela í sér nokkra mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar eða þjóðernis, ríkisfangs, trúarbragða eða trúarskoðana, fötlunar, aldurs, kynhneigðar eða vegna annarrar stöðu,
 3. hvetja til hegðunar sem er hættuleg heilbrigði eða öryggi, eða
 4. hvetja til hegðunar sem er í áberandi andstöðu við umhverfisvernd.

     Óheimil eru viðskiptaboð og fjarkaup fyrir tóbaksvörur og áfengi sem og happdrættis- og veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi. Sama gildir um viðskiptaboð um lyfseðilsskyld lyf, eins og kveðið er á um í lyfjalögum. Fullyrðingar sem fram koma í viðskiptaboðum og fjarkaupainnskotum fyrir óáfengar drykkjarvörur þarf að vera hægt að færa sönnur á.

38. gr.

Vernd barna gegn ótilhlýðilegum viðskiptaboðum og fjarkaupum.
     Viðskiptaboð og fjarkaup skulu vera þannig að ekki valdi börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í viðskiptaboðum og fjarkaupum er óleyfilegt að:
 1. hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,
 2. hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er,
 3. hvetja börn til neyslu á matvælum og drykkjarvörum sem innihalda næringarefni og efni sem hafa næringar- og lífeðlisfræðileg áhrif og ekki er mælt með að séu í óhóflegum mæli hluti af mataræði, einkum fitu, transfitusýrur, salt/natríum og sykur,
 4. notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks, eða
 5. sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.


39. gr.

Vöruinnsetning í hljóð- og myndefni.
     Vöruinnsetning er heimil í kvikmyndaverkum, myndum og þáttaröðum gerðum fyrir fjölmiðlaþjónustu, íþróttaþáttum og léttum skemmtidagskrám.
     Vöruinnsetning er jafnframt heimil í öðru hljóð- og myndmiðlunarefni þar sem ekki er um að ræða greiðslu heldur aðeins að tilteknar vörur séu afhentar eða þjónusta veitt án endurgjalds, svo sem leikmunir eða verðlaun, í því skyni að þær verði hluti af dagskrárlið.
     Vöruinnsetning gegn greiðslu er þó aldrei heimil í hljóð- og myndmiðlunarefni sem er ætlað börnum.
     Hljóð- og myndmiðlunarefni með vöruinnsetningu skal uppfylla allar eftirfarandi kröfur:
 1. Vöruinnsetningin má ekki snerta innihald hljóð- og myndmiðlunarefnisins að öðru leyti né hafa áhrif á ábyrgð og ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðlaveitunnar.
 2. Ekki skal beinlínis hvatt til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu.
 3. Varan eða þjónustan sem um ræðir skal ekki sett fram á óþarflega áberandi hátt.
 4. Áhorfendum skal greint frá því á skýran hátt sé um vöruinnsetningu að ræða, m.a. þannig að dagskrárliðir með vöruinnsetningu séu auðkenndir á viðeigandi hátt við upphaf og lok þeirra og þegar slíkir dagskrárliðir hefjast aftur eftir auglýsingahlé.

     Hafi fjölmiðlaveitan ekki sjálf framleitt það hljóð- og myndmiðlunarefni sem um ræðir eða það verið framleitt í umboði fjölmiðlaveitunnar eða í fyrirtæki tengdu henni má falla frá auðkenningarskyldu skv. d-lið 4. mgr.

40. gr.

Sýndarauglýsingar í myndefni.
     Sýndarauglýsingar eru heimilar í myndmiðlunarefni að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:
 1. staðsetning auglýsingarinnar sé eðlilegur hluti af umhverfi viðkomandi dagskrárliðar og raski ekki möguleikum áhorfenda á að fylgjast með framvindu hans,
 2. auglýsingin sé hvorki í andstöðu við efni dagskrárliðarins né skerði rétt rétthafa, og
 3. áhorfendum sé greint frá því á skýran hátt að sýndarauglýsingar komi fyrir í viðkomandi dagskrárlið og frá hverjum þær stafa, m.a. þannig að dagskrárliður með sýndarauglýsingum sé auðkenndur á viðeigandi hátt við upphaf og lok hans og þegar dagskrárliðurinn hefst aftur eftir auglýsingahlé.

     Sýndarauglýsingar eru þó aldrei heimilar í hljóð- og myndmiðlunarefni sem er ætlað börnum.

41. gr.

Tímar fyrir auglýsingar og fjarkaupainnskot í hljóð- og myndefni.
     Heimilt er að skjóta auglýsingum eða fjarkaupainnskotum inn í dagskrárliði með þeim hætti að það hafi ekki áhrif á framvindu þeirra, að teknu tilliti til eðlilegra hléa og til lengdar og eðlis dagskrárliðarins, sem og að gættum rétti rétthafa.
     Við myndmiðlun skal hlutfall auglýsinga og fjarkaupainnskota innan hverrar klukkustundar ekki fara yfir 20%. Í merkingu þessa ákvæðis telst eftirfarandi ekki til auglýsinga:
 1. Tilkynningar frá fjölmiðlaveitu um myndmiðlunarefni hennar sjálfrar og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni, kostunartilkynningar og tilkynningar um vöruinnsetningu og sýndarauglýsingar.
 2. Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt að rjúfa útsendingu mynda sem gerðar eru fyrir sjónvarp (að undanteknum þáttaröðum, framhaldsþáttum og heimildarmyndum), kvikmyndaverka og fréttaþátta með auglýsingum eða fjarkaupainnskotum oftar en einu sinni fyrir hvert tímabil í dagskránni sem er að minnsta kosti 30 mínútur.
     Óheimilt er að rjúfa útsendingu á guðsþjónustu eða sambærilegum trúarathöfnum og fréttum með auglýsingum eða fjarkaupainnskotum.
     Auglýsingar og fjarkaupainnskot eru óheimil í dagskrá sem er ætluð börnum yngri en 12 ára. Bann þetta hefst 5 mínútum áður en dagskrá ætluð börnum yngri en 12 ára hefst og stendur þar til 5 mínútum eftir að útsendingu slíkrar dagskrár lýkur.

42. gr.

Kostun hljóð- og myndefnis.
     Heimilt er fjölmiðlaveitu að afla kostunar við gerð og kaup hljóð- og myndmiðlunarefnis, svo framarlega sem kostandi hefur ekki áhrif á innihald, efnistök eða tímasetningu kostaðs efnis og raskar ekki ábyrgð og ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðlaveitunnar.
     Óheimilt er að kosta fréttaútsendingar og fréttatengt efni.
     Nú er efni kostað og má þá innihald þess ekki fela í sér hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostanda eða annars aðila, t.d. með því að auglýsa slíka vöru eða þjónustu sérstaklega.
     Kostað hljóð- og myndmiðlunarefni skal vera auðkennt sem slíkt með kynningu, nafni, vörumerki, öðru auðkenni kostanda eða öðrum þeim hætti sem best hentar því formi miðlunar sem notað er. Auðkenning skal eiga sér stað í upphafi efnisþáttar, á meðan á honum stendur og/eða við lok hans.
     Óheimilt er að aðrir en fjölmiðlaveita kosti almennt dagskrá miðilsins þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.

43. gr.

Fjölmiðlaþjónusta á vettvangi hljóð- og myndmiðlunar sem eingöngu er helguð auglýsingum, fjarkaupum og kynningu í eigin þágu og fjarkaupaþættir.
     Ákvæði laga þessara gilda að breyttu breytanda um fjölmiðlaþjónustu á vettvangi hljóð- og myndmiðlunar sem eingöngu er helguð auglýsingum, fjarkaupum eða kynningu í eigin þágu. Ákvæði 33., 34. og 41. gr. gilda þó ekki um slíka þjónustu.
     Um fjarkaupaþætti í fjölmiðlaþjónustu sem ekki er eingöngu helguð fjarkaupum gilda eftirfarandi ákvæði:
 1. Þeir skulu standa yfir í að minnsta kosti 15 mínútur órofið.
 2. Þeir skulu skýrt auðkenndir með myndskilti, hljóðmerki eða öðrum þeim hætti sem best hentar því formi miðlunar sem notað er.

     Ákvæði laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga skulu gilda um fjarkaup samkvæmt lögum þessum eftir því sem við á.

VII. KAFLI
Reglur um flutning myndefnis.

44. gr.

Flutningsskylda á myndefni.
     Fjarskiptafyrirtæki sem rekur almennt stafrænt fjarskiptanet sem notað er til flutnings sjónvarpsútsendinga er skylt að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum fjölmiðlaveitu um flutning á sjónvarpsútsendingum, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
 1. það efni sem óskað er eftir að flutt verði um fjarskiptanet sé sjónvarpsútsending fjölmiðlaveitu sem hefur staðfestu á Íslandi samkvæmt lögum þessum að undanskildum sjónvarpsútsendingum sem eingöngu eru helgaðar fjarkaupum,
 2. um sé að ræða sjónvarpsútsendingu sem send er út á rauntíma með hefðbundnum stafrænum gæðum, og
 3. umtalsverður hluti notenda í landinu eða á tilteknu landsvæði nýti sér viðkomandi fjarskiptanet til að taka á móti sjónvarpsútsendingum.

     Þrátt fyrir að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt er fjarskiptafyrirtæki aðeins skylt að flytja sjónvarpsútsendingar samkvæmt ákvæðinu sem nemur einum þriðja af flutningsgetu viðkomandi fjarskiptanets. Ef fleiri óska eftir flutningi en fjarskiptanetið annar skal fjarskiptafyrirtækið flytja þær sjónvarpsútsendingar sem hafa mest áhorf. Ávallt skal þó flytja sjónvarpsútsendingar Ríkisútvarpsins sé þess óskað.
     Fjölmiðlaveita skal sjá um að koma útvarpsmerki að tengipunkti fjarskiptafyrirtækis á viðeigandi formi.

45. gr.

Flutningsréttur á myndefni.
     Fjölmiðlaveitu er skylt að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um að fjarskiptafyrirtæki fái að flytja sjónvarpsútsendingar á stafrænu fjarskiptaneti sínu að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
 1. Flutningur sjónvarpsútsendinga til notenda um viðkomandi fjarskiptanet sé af fullnægjandi gæðum og einnig með nægilegu öryggi til að verja lögverndaða hagsmuni rétthafa útsends efnis. Ef um er að ræða læstar sjónvarpsútsendingar skal vera mögulegt að nota aðgangsstýringu. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um lágmarkskröfur um útsendingargæði og öryggi.
 2. Það efni sem óskað er eftir að flytja megi um fjarskiptanet sé íslensk sjónvarpsútsending fjölmiðlaveitu sem hefur staðfestu á Íslandi samkvæmt lögum þessum eða erlend sjónvarpsútsending sem íslensk fjölmiðlaveita hefur gert einkaréttarsamning um eða útsending á ákveðnum viðburðum sem ekki fyllir heila dagskrá samkvæmt framansögðu, svo sem íþrótta- eða listviðburðum.
 3. Ákvæði í samningum við rétthafa efnis, sem gerðir voru fyrir gildistöku laga þessara, standi því ekki í vegi að flytja megi efnið um fjarskiptanetið.

     Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um seinkaðar sjónvarpsútsendingar og útsendingar á háskerpustaðli eða öðrum stöðlum sem krefjast umtalsvert meiri bandbreiddar.
     Nú hefur fjölmiðlaveita staðbundið leyfi og nær þá flutningsréttur samkvæmt þessari grein ekki út fyrir það svæði sem hið staðbundna leyfi tekur til.
     Við kaup á sjónvarpsefni er fjölmiðlaveitu skylt að semja svo við rétthafa að flytja megi sjónvarpsefnið um öll stafræn fjarskiptanet sem fullnægja skilyrðum a-liðar 1. mgr.
     Fjölmiðlaveitu er óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki.

46. gr.

Málsmeðferð og framkvæmd.
     Nú er óskað eftir samningum um flutning á sjónvarpsútsendingu sem fellur undir 44. eða 45. gr. og skulu þá fjölmiðlaveita og fjarskiptafyrirtæki semja um það svo fljótt sem verða má. Við gerð samninga skal gæta jafnræðis um flutning sjónvarpsútsendinga skv. 44. og 45. gr. og við framkvæmd þeirra. Setja skal viðsemjendum sömu skilmála í sams konar viðskiptum og veita þjónustu og upplýsingar með sömu skilmálum og af sömu gæðum og veitt eru eigin þjónustudeildum, dótturfyrirtækjum eða samstarfsaðilum. Nú flytur fjarskiptafyrirtæki sjónvarpsútsendingu á grundvelli samnings eða ákvörðunar og skal fjarskiptafyrirtækið gæta jafnræðis milli íslenskra sjónvarpsútsendinga og hafa allar slíkar útsendingar jafnaðgengilegar notendum. Jafnframt skal fjarskiptafyrirtæki láta sjónvarpsútsendingar með íslensku tali eða texta hafa forgang þannig að þær séu framar erlendum endurvarpsrásum við röðun á fjarstýringu. Þetta ákvæði gildir þó ekki um sjónvarpsútsendingar sem starfrækja á skemur en eitt ár og sjónvarpsútsendingar sem einskorðast við fjarkaup.
     Ef ekki tekst samkomulag um flutning eða ef til ágreinings kemur um flutning á síðari stigum getur aðili beint málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar. Stofnunin skal þá leita sátta með aðilum. Takist ekki að ná sáttum skal skorið úr ágreiningi með ákvörðun eins fljótt og við verður komið. Áður en ákvörðun er tekin skal Póst- og fjarskiptastofnun leita álits fjölmiðlanefndar.
     Heimili Póst- og fjarskiptastofnun flutning og aðilar ná ekki samkomulagi um innheimtu áskriftargjalds getur stofnunin ákveðið að kröfu aðila hvort innheimta áskriftargjalds skuli vera í höndum fjölmiðlaveitu eða fjarskiptafyrirtækis. Með sama hætti getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið endurgjald í samræmi við nánari fyrirmæli 47. gr. Við mat Póst- og fjarskiptastofnunar skal líta til atriða er varða hagkvæmni, hagsmuni notenda og eflingu samkeppni að teknu tilliti til meðalhófs. Áður en ákvörðun er tekin skal Póst- og fjarskiptastofnun leita álits fjölmiðlanefndar.
     Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að taka ákvörðun til bráðabirgða, enda sé hætta á því að dráttur á ákvörðun valdi því að réttindi aðila máls fari forgörðum eða hann verði fyrir verulegu fjártjóni. Bráðabirgðaákvörðun skal gilda í tiltekinn tíma og má endurnýja hana ef það er talið nauðsynlegt. Endanleg ákvörðun skal tekin svo fljótt sem unnt er.
     Við meðferð mála samkvæmt þessari grein er aðilum skylt að láta Póst- og fjarskiptastofnun í té allar upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg.
     Heimilt er að bera ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt þessari grein undir úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála eða dómstóla eftir því sem segir í 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun.
     Á þriggja ára fresti skal fjölmiðlanefnd láta gera úttekt á aðgengi almennings að sjónvarpsútsendingum og meta hvort aðstæður kalli á breytingar á ákvæðum þessa kafla um flutningsreglur.

47. gr.

Ákvörðun endurgjalds vegna flutnings myndefnis.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið, nái aðilar ekki samkomulagi þar að lútandi, hvort fjarskiptafyrirtæki eða fjölmiðlaveita fær greiðslu fyrir flutning eða efni og fjárhæð þeirra greiðslna. Við ákvörðun endurgjalds fyrir flutning sjónvarpsútsendinga skal líta til stofn- og rekstrarkostnaðar búnaðar og þjónustu, afskrifta og hæfilegrar arðsemi af bundnu fjármagni með hliðsjón af áhættu við fjárfestinguna. Póst- og fjarskiptastofnun getur við útreikninga á kostnaði tekið mið af rekstri sambærilegrar þjónustu sem telst rekin með hagkvæmum hætti, tekið mið af gjaldskrám á sambærilegum samkeppnismörkuðum og notað kostnaðargreiningaraðferðir sem eru óháðar aðferðum viðkomandi fjarskiptafyrirtækis. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki geri kostnaðarlíkan til útreiknings á gjaldi. Við ákvörðun á gjaldi fyrir flutning skal m.a. taka tillit til þeirrar bandbreiddar sem sjónvarpsútsending tekur á fjarskiptaneti og fjölda notenda viðkomandi þjónustu.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið gjald fyrir ýmsa þjónustuþætti sem tengjast flutningi sjónvarpsútsendinga og skal við slíka ákvörðun miða við sömu sjónarmið og gilda um flutninginn sjálfan eftir því sem við á.
     Við ákvörðun á endurgjaldi fyrir sjónvarpsútsendingar í tilviki flutningsréttar þegar fjarskiptafyrirtækið stýrir áskriftarkerfinu er heimilt að byggja á kostnaði við öflun viðkomandi sjónvarpsefnis auk hæfilegrar álagningar eða miða við hæfilegan afslátt af því verði sem fjölmiðlaveitan býður notendum sínum sjálf.
     Heimilt er að taka áður ákveðið gjald fyrir flutning eða sjónvarpsefni til endurskoðunar ef annar hvor aðila setur fram kröfu um það ásamt rökstuðningi fyrir nauðsyn endurákvörðunar gjaldsins.

VIII. KAFLI
Takmörkun á einkaréttindum yfir myndefni.

48. gr.

Aðgangur almennings að myndmiðlun frá þýðingarmiklum viðburðum.
     Heimilt er að ákveða í reglugerð að einkarétt fjölmiðlaveitu til myndmiðlunar frá innlendum og erlendum viðburðum sem taldir eru hafa verulega þýðingu í þjóðfélaginu sé einungis heimilt að nýta á þann hátt að meginhluti þjóðarinnar eigi þess kost að fylgjast með viðkomandi viðburðum í beinum eða seinkuðum útsendingum án sérstaks endurgjalds. Í reglugerðinni skal vera tæmandi og nákvæm skrá um þá viðburði sem ákvörðun er ætlað að taka til, og skal ákvörðun um skrána tekin með góðum fyrirvara. Í reglugerð skulu enn fremur vera ákvæði um það hvort hinir tilteknu viðburðir skuli sýndir í heild eða að hluta í beinum útsendingum, eða í heild eða að hluta í seinkuðum útsendingum, ef það telst nauðsynlegt eða hagfellt vegna þarfa almennings, sem og önnur atriði sem nauðsynlegt þykir að kveða á um.
     Fjölmiðlaveita, sem aflar sér einkaréttar fyrir Ísland og/eða önnur EES-ríki til myndmiðlunar frá viðburði sem tiltekinn er í reglugerð skv. 1. mgr., skal þegar í stað tilkynna það til fjölmiðlanefndar sem hefur eftirlit með framkvæmd ráðstafana samkvæmt grein þessari.
     Bjóði einkaréttarhafi annarri fjölmiðlaveitu leyfi til myndmiðlunar frá viðburði til þess að uppfylla skyldu sína skv. 1. mgr. skal það boðið gegn sanngjörnu endurgjaldi. Rísi ágreiningur um endurgjald getur hvor aðili um sig leitað ákvörðunar fjölmiðlanefndar um sanngjarnt endurgjald fyrir leyfið. Fjölmiðlanefnd skal meta endurgjaldið með hliðsjón af því hvað telst vera eðlilegt markaðsverð á samkeppnismarkaði fyrir réttindi þau sem um ræðir.
     Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðun fjölmiðlanefndar skv. 3. mgr. skal einkaréttarhafi engu síður eftirláta viðkomandi fjölmiðlaveitu leyfi til hljóð- og myndmiðlunar frá þeim viðburði sem um ræðir, enda setji hann tryggingu fyrir greiðslu endurgjaldsins sem fjölmiðlanefnd metur fullnægjandi.

49. gr.

Gagnkvæm viðurkenning á reglum EES-ríkja.
     Fjölmiðlaveitu, sem lýtur íslenskri lögsögu, er einungis heimilt að nýta einkaréttindi sín til myndmiðlunar frá viðburðum sem annað EES-ríki hefur ákveðið að teljist hafa verulega þýðingu í því þjóðfélagi á þann hátt að meginhluti íbúanna í viðkomandi ríki eigi þess kost að fylgjast með viðburðunum í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds.
     Einkaréttindi skulu nýtt í samræmi við reglur viðkomandi EES-ríkis um útsendingu í heild eða að hluta og um beina eða seinkaða útsendingu frá viðburðunum.
     Fjölmiðlanefnd skal hafa eftirlit með framkvæmd ráðstafana samkvæmt grein þessari.

IX. KAFLI
Ábyrgð, viðurlög, fullnusta o.fl.

50. gr.

Ábyrgð á hljóð- og myndefni.
     Ef hljóð- eða myndmiðlunarefni brýtur í bága við lög fer um viðurlög, refsi- og fébótaábyrgð svo sem hér segir:
 1. Einstaklingur sem tjáir sig í eigin nafni, flytur eða miðlar efni sem hann hefur sjálfur samið eða flytur efni samið af öðrum samkvæmt eigin ákvörðun ber á því ábyrgð sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli.
 2. Kaupandi hljóð- og myndsendingar í viðskiptaskyni, hvort heldur sem um einstakling eða lögaðila er að ræða, ber ábyrgð á efni hennar sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli.
 3. Í öðrum tilvikum bera viðkomandi efnisstjóri og/eða ábyrgðarmaður fjölmiðlaveitu ábyrgð á því efni sem miðlað er.

     Fjölmiðlaveita ber ábyrgð á greiðslu stjórnvaldssekta, fésekta og skaðabóta sem starfsmanni hennar kann að vera gert að greiða samkvæmt þessari grein.
     Skylt er fjölmiðlaveitu að veita hverjum þeim sem telur á sér brotið með miðlun hljóð- og myndefnis upplýsingar um það hver beri ábyrgð á efninu.

51. gr.

Ábyrgð á ritefni.
     Ef ritefni brýtur í bága við lög fer um viðurlög, refsi- og fébótaábyrgð svo sem hér segir:
 1. Einstaklingur ber ábyrgð á því efni sem hann ritar í eigin nafni eða merkir sér með augljósum hætti sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli. Sé ritefni réttilega haft eftir nafngreindum einstaklingi ber sá sem það er haft eftir ábyrgð á eigin ummælum hafi hann samþykkt miðlun þeirra og sé annaðhvort heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli.
 2. Kaupandi viðskiptaboða, hvort heldur sem um einstakling eða lögaðila er að ræða, ber ábyrgð á efni þeirra sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli.
 3. Í öðrum tilvikum en þeim sem tilgreind eru í a- og b-lið bera viðkomandi efnisstjóri og/eða ábyrgðarmaður fjölmiðlaveitu ábyrgð á því efni sem birt er.

     Fjölmiðlaveita ber ábyrgð á greiðslu stjórnvaldssekta, fésekta og skaðabóta sem starfsmanni hennar kann að vera gert að greiða samkvæmt þessari grein.
     Skylt er fjölmiðlaveitu að veita hverjum þeim sem telur á sér brotið með miðlun ritefnis upplýsingar um það hver beri ábyrgð á efninu.

52. gr.

Bann við miðlun hljóð- og myndefnis og afturköllun hljóð- og myndmiðlunarleyfis.
     Fjölmiðlanefnd getur að undangenginni lögmæltri málsmeðferð samkvæmt lögum þessum bannað með ákvörðun miðlun efnis sem telst andstætt ákvæðum laga.
     Fjölmiðlanefnd getur afturkallað leyfi til hljóð- og myndmiðlunar vegna brota á ákvæðum laga þessara, enda sé um alvarleg og ítrekuð brot að ræða.

53. gr.

Dagsektir.
     Fjölmiðlanefnd getur lagt allt að 200.000 kr. dagsekt, fyrir hvern byrjaðan dag, á þann sem:
 1. vanrækir að verða við ákvörðun fjölmiðlanefndar um afhendingu skriflegra upplýsinga og gagna skv. 1. mgr. 12. gr.,
 2. vanrækir að verða við ákvörðun fjölmiðlanefndar um afhendingu upplýsinga úr bókhaldi og reikningum skv. 19. gr.,
 3. vanrækir að senda fjölmiðlanefnd hlutaskrá félags skv. 2. mgr. 22. gr.,
 4. vanrækir að senda fjölmiðlanefnd skýrslu skv. 23. gr.,
 5. vanrækir að verða við ákvörðun fjölmiðlanefndar um skyldu til að birta andsvör skv. 4. mgr. 36. gr. og um afhendingu efnis skv. 5. mgr. 36. gr. og sinnir ekki upplýsingaskyldu skv. 6. mgr. 36. gr., eða
 6. miðlar efni sem fjölmiðlanefnd hefur bannað, sbr. 1. mgr. 52. gr.,
 7. vanrækir að setja reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni skv. 24. gr.

     Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt allt að 200.000 kr. dagsekt, fyrir hvern byrjaðan dag, á þann sem:
 1. ekki fer að ákvörðunum um flutningsrétt eða flutningsskyldu skv. 2., 3. og 4. mgr. 46. gr., eða
 2. vanrækir að veita upplýsingar eða gögn skv. 5. mgr. 46. gr.

     Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega og á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.

54. gr.

Stjórnvaldssektir.
     Fjölmiðlanefnd leggur stjórnvaldssektir á lögaðila sé brotið gegn eftirtöldum ákvæðum:
 1. 14. gr. um að skráningarskyld starfsemi fari ekki fram án tilkynningar, fyrir hendi sé ábyrgðarmaður og/eða breytingar á högum tilkynningarskylds aðila tilkynntar.
 2. 15. gr. um tilkynningarskyldu erlends endurvarps.
 3. 16. gr. um að leyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án leyfis.
 4. 2. mgr. 19. gr. um aðskilnað reksturs, bókhalds og fjárreiðna leyfisskyldrar starfsemi frá rekstri, bókhaldi og fjárreiðum annarrar starfsemi.
 5. 1. mgr. 20. gr. um breytingu á högum leyfishafa.
 6. 27. gr. um refsiverða háttsemi.
 7. 1.–3. mgr. 28. gr. um vernd barna gegn skaðlegu efni.
 8. 29. gr. um tal og texta á íslensku.
 9. 31. gr. um skyldur vegna almannaheilla.
 10. 32. gr. um skyldu til auðkenningar.
 11. 35. gr. um skyldu til varðveislu fjölmiðlaefnis.
 12. 1. og 4. mgr. 36. gr. um rétt til andsvara.
 13. VI. kafla um viðskiptaboð og fjarkaup.
 14. 49. gr. um gagnkvæma viðurkenningu á reglum EES-ríkja.
 15. 1. mgr. 52. gr. um miðlun efnis sem fjölmiðlanefnd hefur bannað.
 16. 60. gr. um óheimila hagnýtingu fjölmiðlaefnis.
 17. 61. gr. um óheimilan aðgang að hljóð- og myndmiðlunarefni.

     Fjölmiðlanefnd skal leggja stjórnvaldssekt bæði á seljanda og kaupanda komi í ljós að þeir hafi vanrækt að tilkynna um eigendaskipti á hlut í útvarpsstöð skv. 1. mgr. 22. gr.
     Póst- og fjarskiptastofnun leggur stjórnvaldssektir á þá sem brjóta gegn ákvæði 4. og/eða 5. mgr. 45. gr. um flutningsrétt.
     Sektir skv. 1.–3. mgr. geta numið allt að 10 millj. kr. Við ákvörðun sektar skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots og tekna fjölmiðlaveitu af broti þegar það á við.
     Falla má frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða af öðrum ástæðum er ekki talin þörf á beitingu sekta. Í slíku tilviki er fjölmiðlanefnd heimilt að ljúka málsmeðferð með útgáfu álits sem birt er á heimasíðu hennar.
     Fjölmiðlanefnd er heimilt að mæla fyrir um birtingu ákvörðunar að hluta eða í heild. Skal birtingin fara fram með þeim hætti og í þeim mæli sem sanngjarnt má teljast. Hinn brotlegi skal annast og kosta birtinguna.

55. gr.

Fullnusta.
     Ákvarðanir fjölmiðlanefndar samkvæmt lögum þessum eru fullnaðarúrlausnir innan stjórnsýslunnar og sæta ekki stjórnsýslukæru. Nú vill aðili ekki una ákvörðun fjölmiðlanefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun fjölmiðlanefndar. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar fjölmiðlanefndar nema svo standi á sem kveðið er á um í 6. mgr.
     Ákvarðanir fjölmiðlanefndar um stjórnvalds- og dagsektir eru aðfararhæfar. Innheimtar stjórnvalds- og dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
     Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun fjölmiðlanefndar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þó að aðili sinni síðar þeim skyldum sem á honum hvíldu, nema fjölmiðlanefnd ákveði það sérstaklega.
     Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar um dagsektir skv. 1. eða 2. mgr. 53. gr. innan 14 daga frá því að viðkomandi fjölmiðlaveitu var tilkynnt um hana og óski hún jafnframt eftir því að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar slíkrar ákvörðunar leggjast dagsektir áfram á viðkomandi fjölmiðlaveitu.

56. gr.

Refsingar.
     Ábyrgðarmaður, starfsmenn fjölmiðlaveitu eða stjórnarmenn sem framkvæma eða láta framkvæma brot gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara skulu sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar:
 1. 14. gr. um að skráningarskyld starfsemi fari ekki fram án tilkynningar, fyrir hendi sé ábyrgðarmaður og/eða breytingar á högum tilkynningarskylds aðila tilkynntar.
 2. 15. gr. um tilkynningarskyldu erlends endurvarps.
 3. 16. gr. um að leyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án leyfis.
 4. 1. mgr. 19. gr. um tekjur fjölmiðlaveitna og 2. mgr. 19. gr. um aðskilnað reksturs, bókhalds og fjárreiðna leyfisskyldrar starfsemi frá rekstri, bókhaldi og fjárreiðum annarrar starfsemi.
 5. 1. mgr. 20. gr. um breytingu á högum leyfishafa.
 6. 25. gr. um vernd heimildarmanna.
 7. 27. gr. um refsiverða háttsemi.
 8. 1.–3. mgr. 28. gr. um vernd barna gegn skaðlegu efni.
 9. 29. gr. um tal og texta á íslensku.
 10. 31. gr. um skyldur vegna almannaheilla.
 11. 32. gr. um skyldu til auðkenningar.
 12. 35. gr. um skyldu til varðveislu fjölmiðlaefnis.
 13. 1. og 4. mgr. 36. gr. um rétt til andsvara.
 14. VI. kafla um viðskiptaboð og fjarkaup.
 15. 4. og 5. mgr. 45. gr. um flutningsrétt.
 16. 49. gr. um gagnkvæma viðurkenningu á reglum EES-ríkja.
 17. 1. mgr. 52. gr. um miðlun efnis sem fjölmiðlanefnd hefur bannað.
 18. 60. gr. um óheimila hagnýtingu fjölmiðlaefnis.
 19. 61. gr. um óheimilan aðgang að hljóð- og myndmiðlunarefni.

     Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og má þá gera honum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

57. gr.

Kæra mála til lögreglu.
     Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru fjölmiðlanefndar eða þegar við á Póst- og fjarskiptastofnunar.
     Varði brot á lögum þessum bæði refsiábyrgð fyrir einstakling og lögaðila metur fjölmiðlanefnd, eða eftir atvikum Póst- og fjarskiptastofnun, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða hvort mál skuli kært til lögreglu að hluta eða í heild. Ef brot eru meiri háttar er viðkomandi stjórnvaldi skylt að vísa þeim til lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
     Með kæru stjórnvalds skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um ákvörðun um að kæra mál til lögreglu.
     Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent mál sem varðar brot á lögum þessum og gögn því tengd til fjölmiðlanefndar eða Póst- og fjarskiptastofnunar, eftir því sem við á, til meðferðar og ákvörðunar.

58. gr.

Þagnarréttur.
     Einstaklingi sem hefur réttarstöðu sakbornings er óskylt að svara spurningum í málum sem getur lokið með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu í samræmi við lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Fjölmiðlanefnd eða Póst- og fjarskiptastofnun, eftir því sem við á, skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

59. gr.

Birting dóms.
     Nú er fjölmiðlaveitu eða öðrum þeim sem ábyrgð ber á efni samkvæmt lögum þessum dæmd refsing, ummæli ómerkt eða fébætur dæmdar og má þá ákveða í dómi að viðlögðum dagsektum, eftir kröfu þess sem misgert er við, að forsendur og dómsorð skuli birt þegar um ritmiðil er að ræða eða grein gerð fyrir þeim í dagskrá þegar um hljóð- eða myndmiðil er að ræða.
     Þegar um ritmiðil er að ræða skal birta dómshlutann með sama hætti og annað efni viðkomandi miðils og á þeim stað að eftir verði tekið og þegar um hljóð- eða myndmiðil er að ræða skal grein gerð fyrir honum á þeim tíma þegar hlustun eða áhorf er mest.

X. KAFLI
Ýmis ákvæði.

60. gr.

Óheimil hagnýting fjölmiðlaefnis.
     Notendum fjölmiðla er óheimilt án leyfis viðkomandi rétthafa að hagnýta sér efni þeirra til tekjuöflunar með nokkrum hætti, svo sem með upptöku efnis, útgáfu þess eða annarri miðlun.

61. gr.

Óheimill aðgangur að hljóð- og myndmiðlunarefni.
     Óheimilt er að framleiða, afhenda, leigja, setja upp eða gera við aðgangskassa, viðtæki eða annan útbúnað í því skyni að veita aðila sem ekki hefur innt af hendi áskriftargjald eða annað tilskilið endurgjald aðgang að læstri útsendingu eða hljóð- og myndmiðlunarefni eftir pöntun.
     Óheimilt er að nota aðgangskassa, viðtæki eða annan útbúnað til þess að taka á móti læstri útsendingu eða hljóð- og myndmiðlunarefni eftir pöntun án þess að inna af hendi áskriftargjald eða annað tilskilið endurgjald.

62. gr.

Setning reglugerðar.
     Mennta- og menningarmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra. Í slíkri reglugerð er m.a. heimilt að fjalla nánar um og útfæra eftirfarandi þætti laganna:
 1. Nánari fyrirmæli um starfsemi fjölmiðlanefndar, þ.m.t. málsmeðferð, sbr. III. kafla.
 2. Nánari fyrirmæli á grundvelli IV. kafla, svo sem um tilhögun skráningar fjölmiðlaveitu, form og efni umsókna um leyfi til hljóð- og myndmiðlunar og tilhögun slíkra leyfa; tilhögun lögboðinna tilkynninga um breytingar á starfsemi og starfsgrundvelli fjölmiðlaveitu, þ.m.t. form og efni tilkynninga um breytt eignarhald skv. 22. gr.; form upplýsingagjafar á heimasíðu fjölmiðlanefndar og upplýsingagjöf skv. 23. gr.
 3. Einstakar skyldur og réttindi fjölmiðlaveitu skv. V. kafla, þ.m.t. um vernd barna gegn skaðlegu efni skv. 28. gr. og form andsvarsréttar skv. 36. gr.
 4. Nánari útfærslu einstakra forma viðskiptaboða og fjarkaupa, þ.m.t. um skilyrði undanþágu og frávika frá meginreglum VI. kafla.
 5. Nánari fyrirmæli um framkvæmd og málsmeðferð vegna flutnings hljóð- og myndefnis skv. VII. kafla.
 6. Aðgang almennings að þýðingarmiklum viðburðum í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 48. gr. og gagnkvæma viðurkenningu á reglum EES-ríkja skv. 49. gr.
 7. Form og tilhögun álagningar dagsekta skv. 53. gr. og stjórnvaldssekta skv. 54. gr.; afturköllun leyfis skv. 2. mgr. 52. gr. og frágang kæru til lögreglu skv. 57. gr.

     Áður en kemur til setningar reglugerðar skal aflað tillagna fjölmiðlanefndar. Við setningu nánari reglna um flutning hljóð- og myndmiðlunarefnis skv. e-lið 1. mgr. skal jafnframt aflað umsagnar Póst- og fjarskiptastofnunar.
     Innanríkisráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um málsmeðferð og framkvæmd flutnings sjónvarpsútsendinga skv. VII. kafla. Áður en til setningar reglugerðar kemur skal aflað tillagna Póst- og fjarskiptastofnunar og umsagnar fjölmiðlanefndar. Þá er innanríkisráðherra heimilt að setja reglugerð um nánari útfærslu á kostnaðargreiningu endurgjalds fyrir flutning myndefnis, m.a. um aðferðir við eignamat, afskriftir og ávöxtunarkröfu auk gerðar kostnaðarlíkana.

XI. KAFLI
Gildistaka o.fl.

63. gr.

     Með lögum þessum eru leidd í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/65/EB frá 11. desember 2007 um breytingu á tilskipun ráðsins 89/552/EBE um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur.

64. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku þeirra falla úr gildi ú tvarpslög, nr. 53/2000.

65. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessa verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um prentrétt, nr. 57/1956.
  1. Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Lög þessi taka ekki til rita sem teljast til fjölmiðla samkvæmt lögum um fjölmiðla.
  3. 9., 10., 14.–22. og 31. gr. laganna falla brott.
 2. Höfundalög, nr. 73/1972.
  1. Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Sendi útvarpsstöð út stutt myndskeið með heimild í 4. mgr. 48. gr. er heimilt að útsendingin taki einnig til verks sem verndað er samkvæmt lögunum.
  3. Við 48. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Nú sendir útvarpsstöð er nýtur verndar samkvæmt lögum þessum út viðburð, sem vekur mikinn áhuga á meðal almennings, á grundvelli samnings um einkarétt til útsendingar og er þá, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., annarri útvarpsstöð sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu heimilt að senda út stutt myndskeið að eigin vali frá viðkomandi viðburði. Heimild þessi nær þó eingöngu til útsendingar slíkra myndskeiða í almennum fréttaþáttum. Sé myndskeið sýnt með heimild í þessari málsgrein skal nafn eða annað auðkenni þeirrar útvarpsstöðvar sem einkaréttinn á birt ef unnt er.
        Skilmálar útvarpsstöðvar sem er aðili einkaréttarsamnings fyrir nýtingu skv. 4. mgr. skulu vera réttlátir, sanngjarnir og án mismununar og kynntir með góðum fyrirvara.
 3. Lög um fjarskipti, nr. 81/2003. 55. gr. laganna fellur brott.
 4. Lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, nr. 62/2006.
  1. 2. málsl. 4. gr. laganna orðast svo: Um mat á sýningarhæfi annars dagskrárefnis í hljóð- og myndmiðlum en fellur undir 2. tölul. 1. gr. fer eftir ákvæðum laga um fjölmiðla.
  2. Í stað orðsins „Barnaverndarstofa“ og orðsins „Barnaverndarstofu“ hvarvetna í 5. gr. laganna kemur: fjölmiðlanefnd; og: fjölmiðlanefndar.
 5. Lög um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007.
  1. 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Tekjur af hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess. Samanlagðar tekjur Ríkisútvarpsins ohf. af kostun skulu þó eigi vera hærri en sem nemur hlutfalli tekna af kostun í samanlögðum tekjum Ríkisútvarpsins af hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni á árinu 2006. Ríkisútvarpinu ohf. er óheimilt að selja auglýsingar til birtingar á veraldarvefnum. Þá er vöruinnsetning óheimil í öllum dagskrárliðum hvort heldur sem er í línulegri eða ólínulegri dagskrá. Bann við vöruinnsetningu nær þó einungis til þess efnis sem Ríkisútvarpið ohf. hefur framleitt sjálft eða efnis sem hefur verið framleitt í umboði þess eða tengdra fyrirtækja.
  2. 1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
  3.      Að öðru leyti en fram kemur í lögum þessum gilda um Ríkisútvarpið ohf. lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, og lög um fjölmiðla á hverjum tíma.
 6. Lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. 2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
 7.      Auk þess taka lög þessi til samninga, skilmála og athafna aðila sem hefur staðfestu á Íslandi og ætlað er að hafa áhrif í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu og um er að ræða ætlað brot gegn ákvæðum III.–V. kafla.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 64. gr. skulu hljóðvarps- og sjónvarpsleyfi gefin út á grundvelli laga nr. 53/2000 sem í gildi eru við gildistöku laga þessara halda gildi sínu í tólf mánuði. Innan þess tíma skulu fjölmiðlaveitur sem falla undir 16. gr. hafa sótt um endurnýjun á leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar til fjölmiðlanefndar. Skammtímaleyfi, sem hafa verið gefin út á grundvelli laga nr. 53/2000 og eru í gildi við gildistöku laga þessara, gilda samkvæmt þeim tímamörkum sem tilgreind eru í þeim. Fjölmiðlaveitur, sem starfrækja þjónustu sem fellur undir 14. og 15. gr., skulu tilkynna fjölmiðlanefnd um starfsemi sína innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara.
     Stjórnir einkahlutafélaga og hlutafélaga skulu senda fjölmiðlanefnd nýjustu hlutaskrá sína fyrir 1. júní 2011. Brot á ákvæði þessu varðar dagsektum skv. c-lið 1. mgr. 53. gr.

II.
     Fjölmiðlanefnd er heimilt að óska eftir gildandi samningum um kaup á sjónvarpsefni og er fjölmiðlaveitu skylt að verða við þeim tilmælum. Nú heimilar gildandi samningur fjölmiðlaveitu um hljóð- og myndmiðlunarefni við rétthafa, sem gilda mun til lengri tíma en þriggja ára frá gildistöku laga þessara, ekki að flytja megi efnið um þau fjarskiptanet sem tilgreind eru í 45. gr. og skal þá fjölmiðlaveita gera nýjan samning við rétthafa sem heimilar slíkt innan sex mánaða frá gildistöku laganna. Takist slíkir samningar ekki er fjölmiðlaveitu óheimilt að senda út efnið að þeim tíma liðnum.

III.
     Mennta- og menningarmálaráðherra skal skipa nefnd til að gera tillögur í frumvarpsformi um viðeigandi takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa hvers þingflokks sem á sæti á Alþingi við skipan hennar. Þess utan skipar ráðherra formann og varaformann nefndarinnar og skulu þeir vera sérfróðir um fjölmiðlamál. Nefndin skal í störfum sínum og eftir því sem við getur átt taka sérstakt mið af forsendum og niðurstöðum fjölmiðlanefndar þeirrar sem lauk störfum með skýrslu í apríl 2005. Nefndin skal skila tillögum sínum fyrir 1. júní 2011.

IV.
     Lög þessi skal endurskoða innan þriggja ára frá setningu þeirra.

V.
     Þrátt fyrir ákvæði 64. gr. skal útvarpsréttarnefnd vera við störf og sinna lögbundnu eftirliti samkvæmt lögum nr. 53/2000 þar til skipað hefur verið í fjölmiðlanefnd.

Samþykkt á Alþingi 15. apríl 2011.