Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1724, 151. löggjafarþing 355. mál: Barna- og fjölskyldustofa.
Lög nr. 87 22. júní 2021.

Lög um Barna- og fjölskyldustofu.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Stofnun og valdmörk.
     Barna- og fjölskyldustofa er ríkisstofnun sem heyrir undir ráðherra.
     Barna- og fjölskyldustofa starfar á grundvelli laga þessara og sinnir verkefnum sem tengjast þjónustu í þágu barna á grundvelli barnaverndarlaga, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, laga um Ráðgjafar- og greiningarstöð, laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

2. gr.

Skipun forstjóra.
     Ráðherra skipar forstjóra Barna- og fjölskyldustofu til fimm ára í senn. Engan má skipa oftar en tvisvar sinnum í embættið.
     Við skipun í embætti forstjóra skal ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Ráðherra setur nefndinni reglur um mat á umsóknum. Nefndin skal láta ráðherra í té skriflega rökstudda umsögn um hæfni umsækjenda.

3. gr.

Meginhlutverk.
     Markmið Barna- og fjölskyldustofu er að vinna að velferð barna. Meginhlutverk stofnunarinnar er að veita og styðja við þjónustu í þágu barna og stuðla að gæðaþróun í samræmi við bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.
     Verkefni Barna- og fjölskyldustofu eru m.a.:
 1. Almenn og sérhæfð fræðsla til stjórnvalda og annarra.
 2. Útgáfa leiðbeininga, gátlista og annars stuðningsefnis.
 3. Leiðbeiningar og ráðgjöf um vinnslu einstakra mála.
 4. Þróun og innleiðing gagnreyndra aðferða og úrræða í þágu barna.
 5. Uppbygging og yfirstjórn heimila, stofnana og sérhæfðra úrræða fyrir börn.
 6. Fræðilegar rannsóknir sem þjóna markmiðum laga þessara og stuðningur við þróunar- og rannsóknarstarf.
 7. Vinnsla upplýsinga, þ.m.t. söfnun og skráahald.
 8. Önnur verkefni sem er kveðið á um í lögum eða eru falin stofnuninni samkvæmt ákvörðun ráðherra.

     Barna- og fjölskyldustofa skal hafa samvinnu við Ráðgjafar- og greiningarstöð og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu um verkefni sem varða þjónustu í þágu markhópa stofnananna.
     Barna- og fjölskyldustofa þjónar landinu öllu.
     Við framkvæmd laga þessara skal gæta að mannréttindum þeirra hópa sem fá þjónustu sem lýtur eftirliti stofnunarinnar í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist.

II. KAFLI
Vinnsla upplýsinga, skrár, skýrslur o.fl.

4. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga, upplýsingaskylda og þagnarskylda.
     Barna- og fjölskyldustofu er heimil vinnsla persónuupplýsinga sem nauðsynleg er vegna verkefna stofnunarinnar. Heimild þessi tekur til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga og annarra upplýsinga viðkvæms eðlis, þ.m.t. heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um félagslegar aðstæður einstaklinga, svo og upplýsinga um refsiverða háttsemi og ætlaða refsiverða háttsemi. Þá er miðlun persónuupplýsinga milli stofnunarinnar og þeirra sem veita þjónustu á grundvelli laga sem falla innan valdmarka hennar, sbr. 2. mgr. 1. gr., heimil ef slík miðlun er nauðsynleg til þess að þeir aðilar geti sinnt verkefnum sínum. Jafnframt er Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála heimil miðlun upplýsinga sín á milli í þágu verkefna stofnananna.
     Stofnunin getur krafið þá aðila sem vísað er til í 1. mgr. um upplýsingar og skýringar sem nauðsynlegar eru til að sinna verkefnum sem henni eru falin að lögum.
     Um alla vinnslu persónuupplýsinga fer eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Starfsfólk Barna- og fjölskyldustofu er bundið þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.

5. gr.

Gagnagrunnar.
     Barna- og fjölskyldustofu er heimilt að starfrækja gagnagrunna og stafrænar lausnir vegna verkefna sem eru unnin á grundvelli laga sem talin eru upp í 2. mgr. 1. gr. Gagnagrunna og stafrænar lausnir má jafnframt starfrækja í þágu verkefna Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

6. gr.

Ársskýrsla.
     Barna- og fjölskyldustofa skal gera árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.

III. KAFLI
Gildistaka o.fl.

7. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022.

8. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995: Í stað orðsins „Barnaverndarstofu“ tvívegis í d-lið 1. mgr. og þrívegis í 6. mgr. 13. gr. laganna kemur: Barna- og fjölskyldustofu.
 2. Barnaverndarlög, nr. 80/2002:
  1. Í stað orðsins „Barnaverndarstofu“ í 2. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, nema í 6. mgr. 21. gr., 2. mgr. 38. gr., 3. málsl. 3. mgr. 46. gr., 1. málsl. 1. mgr. 73. gr., 78. gr., 5. mgr. 80. gr., 4. og 6. mgr. 82. gr., 5. mgr. 84. gr., 2. mgr. 85. gr., 2. mgr. 86. gr., 4. mgr. 89. gr. b, 2. mgr. 89. gr. d, 2. og 3. mgr. 91. gr. og 1. og 2. málsl. 2. mgr. 93. gr., kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Barna- og fjölskyldustofa.
  2. Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
   1. 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
   2. 4. mgr. fellur brott.
  3. 2. málsl. 6. gr. laganna fellur brott.
  4. 7. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
  5. Barna- og fjölskyldustofa.
        Barna- og fjölskyldustofa starfar samkvæmt þeim lögum sem um stofuna gilda og fer með verkefni ríkisins eins og nánar er mælt fyrir um í lögum.
        Verkefni Barna- og fjölskyldustofu eru m.a. að:
   1. vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu, m.a. með því að stuðla að samþættingu barnaverndarstarfs og annarrar þjónustu í þágu barna,
   2. veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf um framkvæmd barnaverndarlaga og vinnslu einstakra mála,
   3. stuðla að því að vinnsla barnaverndarmála sé í samræmi við lög, reglugerðir og leiðbeiningar,
   4. veita barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum skv. XII. kafla,
   5. fara með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk skv. XIII. kafla og hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót,
   6. hafa yfirumsjón með vistun barna á heimilum og stofnunum, sbr. e-lið,
   7. fara með yfirstjórn barnahúsa og hlutast til um að þau verði sett á fót eftir því sem þörf krefur.

        Barna- og fjölskyldustofu er jafnframt heimilt eftir atvikum að:
   1. reka sérstakar þjónustumiðstöðvar eða verkefni í því skyni að treysta þverfaglegt samstarf, eflingu og samhæfingu stofnana við meðferð mála á sviði barnaverndar eða þjónustu við börn,
   2. reka sérhæfð úrræði fyrir börn sem glíma við fjölþættan vanda í samstarfi við önnur yfirvöld, t.d. á sviði fötlunar- eða félags- eða heilbrigðisþjónustu,
   3. bjóða barnaverndarnefndum aðra sérhæfða þjónustu, svo sem úrræði utan stofnana á sviði meðferðar fyrir börn, sem hefur það að markmiði að auðvelda nefndunum að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

        Heimilt er að taka gjöld fyrir þau sérstöku verkefni sem Barna- og fjölskyldustofa sinnir skv. 3. mgr. eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði við rekstur þjónustumiðstöðvar eða þeirrar sértæku þjónustu sem um ræðir, þ.m.t. er kostnaður vegna launa og þjálfunar starfsfólks svo og önnur útgjöld sem sannanlega hljótast af þjónustunni.
  6. 3. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.
  7. Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
   1. 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ef uppi er ágreiningur milli barnaverndarnefnda um hvaða barnaverndarnefnd skuli fara með mál getur Barna- og fjölskyldustofa lagt fyrir tiltekna nefnd að taka við meðferð málsins.
   2. 3. málsl. 5. mgr. orðast svo: Ef uppi er ágreiningur milli barnaverndarnefnda um hvaða barnaverndarnefnd skuli fara með mál getur Barna- og fjölskyldustofa lagt fyrir tiltekna nefnd að taka við meðferð málsins.
   3. 7. mgr. fellur brott.
  8. Orðin „að fengnum tillögum Barnaverndarstofu“ í 6. mgr. 21. gr., 2. mgr. 38. gr., 3. málsl. 3. mgr. 46. gr., 78. gr., 4. og 6. mgr. 82. gr., 5. mgr. 84. gr., 2. mgr. 85. gr., 2. mgr. 86. gr., 4. mgr. 89. gr. b, 2. mgr. 89. gr. d, 3. mgr. 91. gr. og 2. mgr. 93. gr. laganna falla brott.
  9. Á eftir 65. gr. laganna kemur ný grein, 65. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
  10. Almennar kröfur til fósturforeldra.
        Fósturforeldrar skulu vera vel í stakk búnir til þess að veita barni trygga umönnun og öryggi.
        Við mat skv. 1. mgr. skal m.a. líta til sakaferils og heilsufars fósturforeldra og fjárhags og félagslegra þátta, svo sem fjölskyldusamsetningar.
        Barna- og fjölskyldustofa veitir fósturforeldrum fræðslu og faglegan stuðning.
        Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um hæfi fólks til að taka börn í fóstur, þar á meðal um kröfur til fósturforeldra.
  11. 66. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
  12. Málsmeðferð leyfisveitinga.
        Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála veitir leyfi til að taka börn í fóstur að fenginni umsögn Barna- og fjölskyldustofu. Eftir að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála berst umsókn skal stofnunin senda hana til umsagnar Barna- og fjölskyldustofu nema augljóst þyki að skilyrði fyrir útgáfu leyfis séu ekki uppfyllt.
        Barna- og fjölskyldustofa hefur samvinnu við barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi umsækjenda við gerð umsagnar. Barna- og fjölskyldustofa boðar umsækjendur jafnframt á námskeið. Markmið með námskeiði er annars vegar að leggja mat á hæfni umsækjenda og hins vegar að veita umsækjendum leiðbeiningar og fræðslu.
        Að loknu námskeiði sendir Barna- og fjölskyldustofa Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsögn sína. Þegar sérstaklega stendur á getur Barna- og fjölskyldustofa gefið umsögn án þess að umsækjendur hafi sótt námskeið.
        Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála tilkynnir umsækjanda og Barna- og fjölskyldustofu um niðurstöðu sína.
        Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um leyfisveitingar, þar á meðal um umsögn Barna- og fjölskyldustofu og samvinnu við barnaverndarnefnd.
  13. 67. gr. laganna orðast svo:
  14.      Barna- og fjölskyldustofa heldur skrá yfir þá sem hafa leyfi til að taka börn í fóstur.
        Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur sendir beiðni um fósturheimili til Barna- og fjölskyldustofu áður en barnið fer á fósturheimili og velur fósturforeldra úr hópi þeirra sem eru á skrá skv. 1. mgr. í samráði við stofuna. Velja ber fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins sem í hlut á. Val á fósturforeldrum skal miða að því að tryggja stöðugleika í lífi barns og valda sem minnstri röskun á högum þess. Ávallt skal leitast við að finna systkinum sameiginlegt fósturheimili nema sérstakar ástæður hamli.
        Telji barnaverndarnefnd þörf á að barn fái sérstaka umönnun og þjálfun skv. 4. mgr. 65. gr. skal kveðið á um það í fóstursamningi. Ef ríkið tekur þátt í kostnaði vegna slíkrar viðbótarþjónustu, sbr. 88. gr., eru ákvæði í fóstursamningi sem að þessu lúta háð samþykki Barna- og fjölskyldustofu, svo sem varðandi kostnaðarþátttöku ríkisins og forsendur fyrir slíkum greiðslum. Barna- og fjölskyldustofa velur enn fremur fósturforeldra við þessar aðstæður í samvinnu við barnaverndarnefnd.
  15. Í stað orðsins „Barnaverndarstofu“ í 1. málsl. 1. mgr. 73. gr. laganna kemur: Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
  16. Eftirfarandi breytingar verða á 89. gr. c laganna:
   1. Í stað orðanna „metur gæði og árangur“ í 2. mgr. kemur: hefur innra eftirlit með gæðum og árangri.
   2. Við 2. mgr. bætist: og aflar nauðsynlegra upplýsinga í þessu skyni eftir því sem ástæða þykir til.
   3. 3. mgr. orðast svo:
   4.      Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um innra eftirlit Barna- og fjölskyldustofu samkvæmt þessu ákvæði.
   5. 4. mgr. fellur brott.
  17. Í stað orðsins „Barnaverndarstofu“ í 1. málsl. 2. mgr. 93. gr. laganna kemur: þess sveitarfélags þar sem keppnin verður haldin.
 3. Lög um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008: Á eftir 2. mgr. 4. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Stofnunin hefur samstarf við Barna- og fjölskyldustofu um stuðning við þjónustuveitendur vegna samþættingar þjónustu í þágu barna þar sem þörf er á sérþekkingu á þjónustu í þágu blindra, sjónskertra og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
 5. Lög um grunnskóla, nr. 91/2008: Eftirfarandi breytingar verða á 6. mgr. 5. gr. laganna:
  1. Orðið „Barnaverndarstofu“ í 1. málsl. fellur brott.
  2. Í stað orðsins „Barnaverndarstofu“ í 2. málsl. kemur: Barna- og fjölskyldustofu.
 6. Lög um útlendinga, nr. 80/2016: Í stað orðsins „Barnaverndarstofu“ í 6. mgr. 24. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Barna- og fjölskyldustofa.


Samþykkt á Alþingi 11. júní 2021.