Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1828, 151. löggjafarþing 668. mál: fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra (gagnsæi, skráning og vinnsla persónuupplýsinga).
Lög nr. 109 25. júní 2021.

Lög um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006 (gagnsæi, skráning og vinnsla persónuupplýsinga).


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Markmið laga þessara er að auka traust á stjórnmálastarfsemi, tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði og gagnsæi stjórnmála. Markmið laganna er jafnframt að kveða á um almenn framlög til frambjóðenda í kjöri til embættis forseta Íslands, til Alþingis og til sveitarstjórna og opinber og almenn fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi og draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum þeirra.

2. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist nýr töluliður er verður 2. tölul., svohljóðandi: Flokkseiningar: Einingar eða félög sem starfa undir merkjum og með leyfi stjórnmálasamtaka, svo sem sérsambönd, svæðisfélög og kjördæmisráð.

3. gr.

     Á eftir I. kafla laganna koma fjórir nýir kaflar, I. kafli A, Félagsaðild og vinnsla persónuupplýsinga, með þremur nýjum greinum, 2. gr. a – 2. gr. c, ásamt fyrirsögnum, I. kafli B, Gagnsæi í stjórnmálabaráttu, með einni nýrri grein, 2. gr. d, ásamt fyrirsögn, I. kafli C, Skráning stjórnmálasamtaka, með sex nýjum greinum, 2. gr. e – 2. gr. j, ásamt fyrirsögnum, og I. kafli D, Framboð stjórnmálasamtaka, með einni nýrri grein, 2. gr. k, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
     
     a. (2. gr. a.)
Félagar og félagatal.
     Þeir sem sannanlega sækja um aðild að stjórnmálasamtökum teljast félagar í þeim þegar umsókn þeirra hefur verið samþykkt. Stjórnmálasamtök skulu varðveita sönnunargögn um aðildarumsókn þar til aðild fellur niður. Aðild að stjórnmálasamtökum fellur niður við úrsögn, brottvísun eða andlát.
     Stjórnmálasamtökum er heimilt að halda félagatal með persónuupplýsingum um félaga sína í þeim tilgangi að leggja á félagsgjöld, staðfesta kjörgengi innan samtakanna, upplýsa um atriði í starfi þeirra og uppfæra skráningu félaga. Samtökin eru ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga sem skráðar eru í félagatal og er heimilt að vinna með þær innan samtakanna í framangreindum tilgangi.
     Í félagatal er heimilt að skrá nöfn, kennitölur, aldur og kyn félaga, dagsetningar upphafs og loka aðildar þeirra að samtökunum, greiðsluupplýsingar og tengiliðaupplýsingar sem þeir hafa veitt samtökunum. Heimilt er að uppfæra þær með upplýsingum úr skrám sem eru aðgengilegar opinberlega. Þá er heimilt að vinna í félagatali með upplýsingar um greiðslu félagsgjalda, störf félaga á vegum samtakanna, aðild þeirra að flokkseiningum og opinberar upplýsingar um önnur félagsstörf þeirra.
     Falli aðild að stjórnmálasamtökum niður skal innan tveggja ára eyða öllum upplýsingum um viðkomandi félaga úr félagatali.
     
     b. (2. gr. b.)
Vinnsla persónuupplýsinga um almenning.
     Um aðgang stjórnmálasamtaka að kjörskrá fer eftir lögum um kosningar til Alþingis, lögum um kosningar til sveitarstjórna og lögum um framboð og kjör forseta Íslands, eftir því sem við á. Að öðru leyti er stjórnmálasamtökum heimilt að beina efni og auglýsingum í tengslum við stjórnmálabaráttu til almennings að gættum eftirtöldum skilyrðum:
 1. Skilyrðum laga um skráningu einstaklinga um notkun úrtaks úr þjóðskrá til markaðssetningar.
 2. Skilyrðum laga um fjarskipti um óumbeðin fjarskipti með notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts, þ.m.t. hvers konar rafrænna skilaboða.
 3. Skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá er stjórnmálasamtökum að auki óheimilt að nýta persónusnið til að beina að einstaklingum efni og auglýsingum í tengslum við stjórnmálabaráttu sem fela í sér hvatningu um að nýta ekki kosningarréttinn. Skal þess að öðru leyti gætt að nýting persónusniðs samrýmist lýðræðislegum gildum.

     
     c. (2. gr. c.)
Eftirlit.
     Persónuvernd annast eftirlit með framkvæmd ákvæða þessa kafla um vinnslu persónuupplýsinga.
     
     d. (2. gr. d.)
Bann við nafnlausum áróðri.
     Stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, er óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.
     Frá þeim degi er kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, til sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands, svo og vegna boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu, skulu auglýsingar og annað kostað efni, sem ætlað er að hafa áhrif á úrslit kosninga, vera merkt auglýsanda eða ábyrgðarmanni.
     
     e. (2. gr. e.)
Skráning stjórnmálasamtaka.
     Ríkisskattstjóri skráir stjórnmálasamtök samkvæmt lögum þessum og starfrækir stjórnmálasamtakaskrá í því skyni.
     Stjórnmálasamtakaskrá skal birt almenningi á vef Stjórnarráðs Íslands ásamt upplýsingum sem fylgja umsókn um skráningu skv. 1. mgr. 2. gr. g. Við birtingu á vef er heimilt að undanskilja birtingu kennitalna, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. g.
     
     f. (2. gr. f.)
Skilyrði skráningar.
     Skilyrði fyrir skráningu í stjórnmálasamtakaskrá er að tilgangur samtaka sé að bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórnar, samþykktir samtaka séu í samræmi við 2. gr. h og að önnur tilskilin gögn fylgi umsókn, sbr. 2. gr. g.
     
     g. (2. gr. g.)
Umsókn um skráningu.
     Samtök sem óska skráningar í stjórnmálasamtakaskrá skulu senda ríkisskattstjóra umsókn um skráningu. Með umsókn skulu fylgja upplýsingar um:
 1. Heiti samtaka og heimilisfang.
 2. Samþykktir samtaka.
 3. Yfirlit yfir flokkseiningar og hlutverk þeirra.
 4. Nöfn og kennitölur stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra sem geta skuldbundið samtökin, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru.

     Meiri hluti stjórnar skal undirrita umsókn og lýsa því yfir að þær upplýsingar sem fram koma í umsókninni séu réttar og þeir sem þar eru tilgreindir hafi rétt til að skuldbinda samtökin að lögum.
     
     h. (2. gr. h.)
Samþykktir.
     Í samþykktum skráðra stjórnmálasamtaka, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. g, skal m.a. kveðið á um eftirtalin atriði:
 1. Heiti samtakanna, heimilisfang og aðalstarfsstöð.
 2. Tilgang.
 3. Skipulag samtakanna.
 4. Hlutverk stjórnar, fjölda stjórnarmanna, skipan þeirra og starfstíma.
 5. Hverjir rita firma samtakanna.
 6. Reglur um inngöngu í samtökin og úrsögn úr samtökunum.
 7. Kjörtímabil endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja, sbr. 2. mgr. 8. gr.
 8. Hvernig skal staðið að breytingum á samþykktum.
 9. Reglur um slit samtakanna.
 10. Hvernig fara á með eignir samtakanna séu þau lögð niður eða þeim slitið.

     
     i. (2. gr. i.)
Tilkynning um breytingu og afskráningu.
     Breytingu á samþykktum skráðra stjórnmálasamtaka ber að tilkynna til stjórnmálasamtakaskrár innan þriggja mánaða frá breytingunni. Sama gildir ef breyting verður á hlutverki, fjölda og heiti flokkseininga.
     Breytt samþykkt í heild sinni skal fylgja tilkynningu um breytingu á henni. Sömu reglur gilda um meðferð tilkynningar um breytingu og um tilkynningu þegar stjórnmálasamtök voru upphaflega skráð.
     Þegar stjórnmálasamtökum er slitið eða þau óska ekki lengur eftir því að vera skráð í stjórnmálasamtakaskrá skulu þau senda stjórnmálasamtakaskrá tilkynningu þess efnis. Falla þá niður öll þau réttindi og þær skyldur sem af skráningu leiddi lögum samkvæmt.
     
     j. (2. gr. j.)
Eftirlitsúrræði.
     Ef skilyrði skráningar samkvæmt þessum kafla eru ekki lengur fyrir hendi eða stjórnmálasamtök vanrækja skyldur sínar samkvæmt lögum þessum skal ríkisskattstjóri veita stjórnmálasamtökunum skriflega viðvörun og setja þeim frest til að bæta úr því sem áfátt er. Skal fresturinn ekki vera skemmri en einn mánuður. Ef ekki er bætt úr því innan frestsins getur ríkisskattstjóri ákveðið að fella skráningu stjórnmálasamtaka úr gildi.
     Ákvörðun ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. er kæranleg til ráðherra. Um meðferð kæru til ráðherra fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
     
     k. (2. gr. k.)
Listabókstafur og heiti stjórnmálasamtaka.
     Að afloknum kosningum til Alþingis skal ráðuneytið taka saman skrá um listabókstafi og heiti stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við kosningarnar. Skal skráin birt í B-deild Stjórnartíðinda eigi síðar en átta vikum eftir hverjar almennar alþingiskosningar.
     Hyggist stjórnmálasamtök, sem ekki hafa skráðan listabókstaf skv. 1. mgr., bjóða fram lista við alþingiskosningar skulu þau sækja um úthlutun listabókstafs til ráðuneytisins eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út og óska eftir staðfestingu á heiti samtakanna. Umsókn skal fylgja yfirlýsing a.m.k. 300 kjósenda þar sem hver og einn mælir með heiti samtakanna og úthlutun listabókstafs. Yfirlýsingin skal dagsett og skal greina nafn meðmælenda, kennitölu og heimili. Ráðuneytið skal þegar tilkynna stjórnmálasamtökum, sem eru á skrá skv. 1. mgr., um beiðnina.
     Yfirlýsingum kjósenda skv. 2. mgr. skal safna rafrænt eða á pappír. Ráðherra skal í reglugerð m.a. mæla fyrir um form og viðmót við söfnun yfirlýsinga, tegund rafrænnar auðkenningar meðmælenda, meðferð persónuupplýsinga og varðveislu og eyðingu upplýsinga. Þjóðskrá Íslands er heimilt að kanna hvort meðmælandi sé kosningarbær og samkeyra í því skyni meðmælendayfirlýsinguna við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Ráðuneytið staðfestir heiti nýrra stjórnmálasamtaka og ákveður bókstaf þeirra að fengnum óskum og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka, sbr. skrá skv. 1. mgr. Heiti nýrra stjórnmálasamtaka skal ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem þegar eru á skrá um listabókstafi skv. 1. mgr. Telji ráðuneytið að svo sé skal það tilkynnt samtökunum og þeim gefinn hæfilegur frestur til að bæta úr. Sama á við óski samtök sem þegar eru á skrá um listabókstafi að breyta heiti sínu. Þegar ákvörðun ráðuneytisins um heiti og listabókstaf liggur fyrir skal nýi listabókstafurinn og heiti stjórnmálasamtaka fært í skrá ráðuneytisins skv. 1. mgr. og uppfærð skrá birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tilkynna skal landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum um skráð heiti stjórnmálasamtaka og nýja listabókstafi.

4. gr.

     4. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     Lokamálsliður 1. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Skilyrði úthlutunar.
     Skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum er að viðkomandi stjórnmálasamtök séu skráð skv. I. kafla C, hafi áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda skv. 8. og 9. gr. og að ríkisendurskoðandi hafi birt ársreikning þeirra.

7. gr.

     12. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
 1. Í stað tilvísunarinnar „12. gr.“ í 3. mgr. kemur: 1. mgr. 2. gr. d.
 2. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Hver sem af ásetningi kostar nafnlausan áróður frá þeim degi er kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, til sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands, svo og vegna boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 2. mgr. 2. gr. d, skal sæta sektum.
 4. Í stað tilvísunarinnar „1.–3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 1.–4. mgr.
 5. 5. mgr. orðast svo:
 6.      Refsa skal fyrir brot á 1.–3. mgr. séu þau framin af ásetningi eða gáleysi.


9. gr.

     Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Viðurlög og gildistaka.

10. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. a skulu þeir félagar í stjórnmálasamtökum sem fengu aðild að þeim fyrir gildistöku ákvæðisins halda félagsaðild sinni og vera skráðir í félagatal þar til aðild fellur niður við úrsögn, brottvísun eða andlát.

11. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
     Hyggist stjórnmálasamtök, sem ekki hafa skráðan listabókstaf samkvæmt skrá ráðuneytisins um listabókstafi sem birt var með auglýsingu í Stjórnartíðindum 21. febrúar 2018 og viðauka við hana, bjóða fram lista við alþingiskosningar 2021 skulu þau sækja um úthlutun listabókstafs og staðfestingu á heiti samtakanna hjá ráðuneytinu í samræmi við 2. gr. k.
     Þegar ákvörðun ráðuneytisins um heiti og listabókstaf liggur fyrir skal nýi listabókstafurinn og heiti stjórnmálasamtaka fært í skrá ráðuneytisins um listabókstafi sem birt var í Stjórnartíðindum 21. febrúar 2018, ásamt viðaukum og skráin svo uppfærð birt aftur án tafar.

12. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Flokkum eða samtökum sem falla undir gildissvið laga þessara og skráð eru í fyrirtækjaskrá við gildistöku þeirra er heimilt að breyta skráningu sinni í stjórnmálasamtök. Jafnframt skal skrá þau í stjórnmálasamtakaskrá og skila inn þeim gögnum sem mælt er fyrir um í 2. gr. g.

13. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um starfsemi stjórnmálasamtaka.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu e–k-liður 3. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2022.

15. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000:
  1. Á eftir 29. gr. laganna kemur ný grein, 29. gr. a, svohljóðandi:
  2.      Þau stjórnmálasamtök sem bjóða fram lista við kosningar til Alþingis geta fengið aðgang að kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands. Aðgangur skal veittur án endurgjalds, svo og önnur gögn sem kunna að verða tilgreind í reglugerð. Heimilt er að nýta aðganginn í þágu eftirlits með framkvæmd kosninga, til að sannreyna hverjir séu kjósendur og koma upplýsingum á framfæri við þá í aðdraganda kosninga. Óheimilt er að birta kjörskrána eða einhverjar upplýsingar úr henni opinberlega eða miðla henni. Við vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðinu skulu stjórnmálasamtök uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
        Að fengnum tillögum landskjörstjórnar skal ráðherra í reglugerð kveða nánar á um heimildir stjórnmálasamtaka og frambjóðenda til nýtingar kjörskrárgagna skv. 1. mgr., meðferð þeirra á kjörskrá og lokun aðgangs að henni.
  3. VIII. kafli laganna, Listabókstafir stjórnmálasamtaka, fellur brott.
  4. Í stað tilvísunarinnar „38. gr.“ í 1. mgr. 43. gr. laganna kemur: 2. gr. k laga um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006.
 2. Lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998: Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. a, svohljóðandi:
 3.      Um aðgang stjórnmálasamtaka sem bjóða fram lista í kosningum að kjörskrá fer samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis.
 4. Lög um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945: Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um aðgang frambjóðenda í forsetakjöri að kjörskrá fer samkvæmt sömu reglum og gilda um aðgang stjórnmálasamtaka að kjörskrá samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis.


Samþykkt á Alþingi 13. júní 2021.