Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 502, 152. löggjafarþing 169. mál: fjarskipti o.fl. (áfallaþol fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta).
Lög nr. 17 16. febrúar 2022.

Lög um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri (áfallaþol fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta).


I. KAFLI
Breyting á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
 1. Á eftir 3. mgr. koma átta nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Fjarskiptafyrirtæki sem útvistar starfsemi sem nauðsynleg er fyrir virkni, vernd eða stjórnun fjarskipta skal gera um það skriflegan þjónustusamning við þjónustuveitanda. Í þjónustusamningi skal með skýrum hætti afmarka hlutverk og skyldur beggja aðila, tilgreina útvistaða starfsemi og tryggja aðgang Fjarskiptastofu að viðeigandi upplýsingum frá þjónustuveitanda vegna eftirlits á grundvelli laga þessara.
       Fjarskiptafyrirtæki sem útvistar út fyrir íslenska lögsögu starfsemi sem nauðsynleg er fyrir virkni, vernd eða stjórnun fjarskipta á Íslandi skal grípa til viðeigandi ráðstafana eins fljótt og mögulegt er ef hætta er talin á að útvistunin ógni rekstrarsamfellu eða fjarskiptaleynd og varðar almannahagsmuni eða þjóðaröryggi. Ef slík útvistun veldur rofi á rekstrarsamfellu eða fjarskiptaleynd sem varðar almannahagsmuni eða þjóðaröryggi skal fjarskiptafyrirtæki bregðast við án tafar í því skyni að tryggja áframhaldandi starfsemi og takmörkun á tjóni, eftir atvikum með því að færa starfsemina undir íslenska lögsögu.
       Fjarskiptafyrirtæki skal tilkynna Fjarskiptastofu án tafar um nýjar upplýsingar eða annað sem tengist áfallaþoli fjarskiptaneta eða fjarskiptaþjónustu og varðar almannahagsmuni eða þjóðaröryggi.
       Fjarskiptastofa getur farið fram á að fjarskiptafyrirtæki framkvæmi sértækt áhættumat á einstökum rekstrar- og kerfisþáttum fjarskiptaneta eða fjarskiptaþjónustu eða sérstökum ógnum sem geta steðjað að upplýsingum, fjarskiptanetum og fjarskiptaþjónustu. Skal fjarskiptafyrirtæki, eftir atvikum, setja sér sértækar öryggisráðstafanir á grundvelli niðurstöðu slíks mats sem m.a. byggjast á alþjóðlegum viðmiðum um bestu framkvæmd.
       Við mat á öryggisskipulagi, ráðstöfunum og áhættustýringu fjarskiptafyrirtækis samkvæmt ákvæði þessu skal Fjarskiptastofa m.a. horfa til hagsmuna notenda fjarskiptaþjónustu af því að hún haldist órofin, annarra almannahagsmuna og þjóðaröryggis.
       Fjarskiptastofu er heimilt að gera úttektir og prófanir á því hvort fjarskiptafyrirtæki uppfylli kröfur laga þessara er varða upplýsingaöryggi og virkni fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu.
       Fjarskiptastofu er enn fremur heimilt að framkvæma mat á heildstæði, öryggi og virkni fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu með tilliti til áhættu, í heild eða að hluta.
       Ef fjarskiptafyrirtæki uppfyllir ekki kröfur samkvæmt ákvæði þessu að mati Fjarskiptastofu skal stofnunin krefjast þess að úr verði bætt innan hæfilegs frests. Vanræki fjarskiptafyrirtæki að fara að fyrirmælum Fjarskiptastofu um úrbætur getur stofnunin látið vinna verkið á kostnað hlutaðeigandi. Krafa um kostnað vegna þessa er aðfararhæf skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
 3. Í stað „10. mgr.“ í 1. málsl. 11. mgr. kemur: 18. mgr.


2. gr.

     Á eftir 71. gr. laganna kemur ný grein, 71. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Öryggishagsmunir vegna starfsemi fjarskiptafyrirtækja utan íslenskrar lögsögu.
     Ráðherra getur í reglugerð, að fengnum umsögnum Fjarskiptastofu og ríkislögreglustjóra, kveðið á um að kerfi og búnaður í fjarskiptanetum sem teljast mikilvæg með tilliti til almannahagsmuna eða þjóðaröryggis skuli vera staðsett í íslenskri lögsögu, að því gefnu að búnaðurinn og kerfin sem um ræðir séu nauðsynleg fyrir virkni eða stjórnun fjarskipta innan landsins. Í reglugerð skv. 1. málsl. getur ráðherra einnig kveðið á um að rekstur slíks búnaðar og kerfa skuli fara fram í íslenskri lögsögu, þ.m.t. umsjón og eftirlit með virkni og ástandi fjarskiptaneta.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.

3. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Fjarskiptastofa skal jafnframt stuðla að öryggi og viðnámsþrótti fjarskiptainnviða, almanna- og þjóðaröryggi og samhæfðum viðbrögðum við sérstakar aðstæður, eftir atvikum með fyrirmælum um ráðstafanir skv. 4. eða 5. mgr. 47. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
 1. Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: þar á meðal vegna hlutverks Fjarskiptastofu er varðar almannahagsmuni og þjóðaröryggi.
 2. Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Vegna hlutverks Fjarskiptastofu er varðar almannahagsmuni og þjóðaröryggi er stofnuninni heimilt að krefjast upplýsinga um eigendur, keðju eigenda og þá aðila sem raunverulega fara með atkvæðisrétt, stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og eftirlits- og stjórnkerfi innan fjarskiptafyrirtækis.


III. KAFLI
Breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
 1. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 2.      Ráðherra getur bundið erlenda fjárfestingu skilyrðum í því skyni að koma í veg fyrir að hún geti ógnað öryggi landsins, gengið gegn allsherjarreglu, almannaöryggi o.s.frv., sbr. 2. mgr. Áður skal ráðherra veita hlutaðeigandi fjárfesti tækifæri til að tjá sig um möguleg skilyrði og framlengist þá tímafrestur skv. 1. málsl. 2. mgr. sem nemur þeim fresti sem hlutaðeigandi fjárfesti er veittur til að koma að sjónarmiðum sínum.
 3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Ef brotið er gegn skilyrðum sem ráðherra hefur sett á grundvelli 5. mgr. er ráðherra heimilt að taka ákvörðun um að hlutaðeigandi erlend fjárfesting skuli ganga til baka að viðlögðum dagsektum, eftir að hafa skorað á hlutaðeigandi að bæta úr broti. Dagsektum skal fylgja lögveð í réttindum hlutaðeigandi fjárfestis í því atvinnufyrirtæki sem fjárfestingin varðar. Ráðherra getur enn fremur af þessum sökum lýst atkvæðisrétt fjárfestis í viðkomandi atvinnufyrirtæki óvirkan. Þá getur ráðherra af sömu ástæðum krafist innlausnar á eignum og réttindum fjárfestis í viðkomandi atvinnufyrirtæki, en náist ekki samkomulag um innlausnarverð skal fara um mat og greiðslu bóta eftir lögum um framkvæmd eignarnáms. Ráðherra getur neytt fleiri en eins framangreindra úrræða hvort heldur samtímis eða hvers á fætur öðru.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Lög þessi gilda einnig um erlendar fjárfestingar sem áttu sér stað fyrir gildistöku þeirra ef frestur ráðherra til að stöðva þær skv. 12. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, er ekki útrunninn við birtingu laga þessara í A-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt á Alþingi 10. febrúar 2022.