Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 1998.  Útgáfa 122b.  Prenta í tveimur dálkum.


Leiklistarlög

1977 nr. 33 12. maí1. gr. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn leiklistarmála samkvæmt lögum þessum.
Lög þessi taka, eftir því sem við á, til allrar leiklistarstarfsemi í landinu.
2. gr. Ríkið rekur og kostar Þjóðleikhús og Leiklistarskóla Íslands eftir því sem fyrir er mælt í löggjöf um þessar stofnanir og í fjárlögum.
Alþingi veitir einnig árlega fé í fjárlögum til stuðnings annarri leiklistarstarfsemi:
    I. Til Leikfélags Reykjavíkur.
    II. Til Leikfélags Akureyrar.
    III. Til Bandalags íslenskra leikfélaga.
    IV. [Til leiklistarstarfsemi áhugaleikfélaga.] 1)
    V. Til leiklistarráðs.
    [VI. Til annarrar leiklistarstarfsemi.] 1)
    [VII. Til óperustarfsemi.] 1)
Sveitarstjórnir veita fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögum eftir því sem ákveðið verður í fjárhagsáætlun þeirra, þó eigi lægri fjárhæð til hvers leikfélags en ríkissjóður greiðir skv. 3. gr.
    1)L. 10/1979, 1. gr.
3. gr. Menntamálaráðuneytið úthlutar fé því sem veitt er í fjárlögum samkvæmt IV. lið í 2. gr., að fengnum tillögum Bandalags íslenskra leikfélaga.
4. gr. Hlutverk leiklistarráðs er:
    I. [Að vera vettvangur umræðna um leiklistarmál og stuðla að því að leiklistarstarfi séu búin þroskavænleg skilyrði.] 1)
    II. Að vera ráðgefandi aðili fyrir ráðuneytið, sveitarfélög og leiklistarstofnanir þær sem taldar eru í 2. gr.
    III. Að stuðla að ritun og útgáfu leikrita.
    IV. Að sinna öðrum verkefnum í þágu leiklistar í samráði við menntamálaráðuneytið.
    1)L. 10/1979, 2. gr.
5. gr. Menntamálaráðuneytið skipar leiklistarráð, einn fulltrúa án tilnefningar, en aðra ráðsmenn og jafnmarga til vara tilnefna eftirtaldir aðilar:
    Bandalag íslenskra leikfélaga einn fulltrúa fyrir hvern tug félaga sem eru fullgildir aðilar að Bandalaginu.
    Félag íslenskra leikara þrjá fulltrúa.
    Eftirtaldir aðilar tilnefna einn hver:
    Ríkisútvarp, einn frá hljóðvarpi og annan frá sjónvarpi, Félag leikstjóra, Félag leikritahöfunda, Samtök félagsheimila, Leikfélag Akureyrar, Leikfélag Reykjavíkur, Tónskáldafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Þjóðleikhúsráð.

Ráðherra er heimilt að veita öðrum, er fjalla með nokkrum hætti um leiklistarmál, aðild að leiklistarráði, að fenginni umsögn ráðsins. Skipunartími ráðsmanna er þrjú ár í senn. Ráðið kýs sér sjálft formann og varaformann.
6. gr. Leiklistarráð kemur saman til fundar einu sinni á ári, nema sérstök ástæða sé til fleiri funda. Skylt er að boða fund, ef 5 ráðsmenn hið fæsta óska þess bréflega og tilgreina umræðuefni.
Framkvæmdastjórn þriggja manna fer með málefni leiklistarráðs milli funda. Leiklistarráð kýs tvo menn í framkvæmdastjórn, en formaður ráðsins er sjálfkjörinn.
Leiklistarráð er ólaunað, en greiða skal þóknun fyrir stjórnarstörf og ferða- og dvalarkostnað utanbæjarmanna vegna fundarsetu.
7. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Ráðherra setur reglugerð 1) um framkvæmd laganna.
    1)Rg. 786/1982.