Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 1998.  Útgáfa 122b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Útflutningsráð Íslands

1990 nr. 114 31. desember1. gr. Útflutningsráð Íslands hefur það hlutverk að koma á auknu samstarfi fyrirtækja, samtaka og stjórnvalda í málum er lúta að eflingu útflutnings og veita útflytjendum alhliða þjónustu og ráðgjöf í því skyni að greiða fyrir og auka útflutning á vöru og þjónustu. Enn fremur skal Útflutningsráð vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum sem varða utanríkisviðskipti Íslendinga.
2. gr. Heimili og varnarþing Útflutningsráðs skal vera í Reykjavík.
3. gr. [Tekjur Útflutningsráðs eru:
    1. 0,015% gjald, markaðsgjald, sem lagt er á veltu atvinnufyrirtækja, eins og hún er skilgreind skv. 11. gr. laga um virðisaukaskatt, að meðtalinni veltu sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 12. gr. þeirra laga.
    2. Framlag ríkissjóðs.
    3. Þóknun fyrir veitta þjónustu.
    4. Sérstök framlög og aðrar tekjur.
Markaðsgjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
Um álagningu og innheimtu markaðsgjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.– XIV. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.] 1)
    1)L. 122/1993, 51. gr.
4. gr. Útflutningsráð skal opið öllum aðilum sem flytja út vörur og þjónustu eða afla gjaldeyris á annan hátt, svo og samtökum atvinnugreina. Allir þeir aðilar, sem greiða til ráðsins skv. 3. gr. þessara laga, verða sjálfkrafa félagar. Af hálfu stjórnvalda eiga aðild að Útflutningsráði utanríkisráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og viðskiptaráðuneyti.
5. gr. Stjórn Útflutningsráðs skipa tíu menn sem valdir eru til tveggja ára í senn. Samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi tilnefna þrjá menn og Félag íslenskra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna tilnefna sameiginlega þrjá menn, Ferðamálaráð tilnefnir einn mann, Verslunarráð Íslands tilnefnir einn mann og utanríkisráðherra og samgönguráðherra tilnefna einn mann hvor. Sömu aðilar skulu einnig tilnefna varamenn, þó þannig að iðnaðarráðherra tilnefni varamann fyrir þann fulltrúa sem samgönguráðherra tilnefnir og sjávarútvegsráðherra fyrir þann fulltrúa sem utanríkisráðherra tilnefnir. Utanríkisráðherra skipar stjórnina samkvæmt tilnefningu ofangreindra aðila.
Stjórnin kýs sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnin skipuleggur og ákveður verkefni Útflutningsráðs.
6. gr. Útflutningsráð skal starfrækja skrifstofu sem annast öll dagleg störf og þau verkefni er stjórnin tekur ákvörðun um. Skrifstofan skal hafa sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Hún skal undanþegin opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs og sveitarfélaga. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra og ákveður laun og önnur starfskjör hans. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk. Stjórnin ákveður gjaldskrá fyrir þjónustu skrifstofunnar. Þess skal gætt að útseld þjónusta standi að mestu leyti undir kostnaði við þau störf sem unnin eru samkvæmt beiðni einstakra útflytjenda.
7. gr. Útflutningsráði skal heimilt að ráða viðskiptafulltrúa sem starfa á skrifstofum Útflutningsráðs erlendis eða í sendiráðum að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið. Um aðstöðu þeirra við sendiráð Íslands skal semja við utanríkisráðuneytið. Um skipan þeirra, stöðu og starfskjör setur stjórn ráðsins sérstakar reglur. Útflutningsráði er einnig heimilt að ráða eða styrkja menn til starfa erlendis í þágu þeirrar starfsemi sem ráðið sinnir.
8. gr. Utanríkisráðherra getur samkvæmt tillögum stjórnar Útflutningsráðs sett nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Útflutningsráðs í reglugerð.
9. gr.
10. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991.
[Ákvæði til bráðabirgða.
I. Fjármálaráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um fyrirframgreiðslu markaðsgjalds á árunum 1994–1996, sbr. 110. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
II. Hjá atvinnufyrirtækjum skal þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga þessara leggja á markaðsgjald á árunum 1994, 1995 og 1996 vegna veltu áranna 1993, 1994 og 1995 samkvæmt þessu ákvæði:
    a. Fiskvinnsla og iðnaður, þar með talin byggingarstarfsemi, greiði 0,049% af gjaldstofni skv. 3. gr. á árinu 1994, 0,037% á árinu 1995 og 0,026% á árinu 1996.
    b. Fiskveiðar greiði 0,035% af gjaldstofni skv. 3. gr. á árinu 1994, 0,028% á árinu 1995 og 0,022% á árinu 1996.
    c. Samgöngur greiði 0,022% af gjaldstofni skv. 3. gr. á árinu 1994, 0,019% á árinu 1995 og 0,017% á árinu 1996.
III. Af innheimtu markaðsgjaldi, samkvæmt framanskráðu, greiðist kirkjugörðum fjárhæð samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.
IV. Á árinu 1998 skal endurskoða lög um Útflutningsráð og frá og með árinu 1999 skal álagning markaðsgjalds falla niður hafi lögin þá ekki verið endurskoðuð.] 1)
    1)L. 122/1993, 52. gr.