Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög í september 2001. Útgáfa 126b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur)
1945 nr. 3 12. janúar
1. gr. Í hverju prestakalli skal sóknarprestur færa kirkjubók (ministerialbók) og manntalsbók (sálnaregistur) fyrir allt prestakallið, og varðveitir prestur þær. Auk þess skulu sóknarnefndarformenn í hverri sókn færa slíkar bækur, að því er til sóknarinnar tekur og geyma þeirra. Heimilt er sóknarnefnd að fela öðrum, er hún telur sérstaklega vel til þess hæfan, að rita bækurnar. Bækur þessar skal rita greinilega og án nokkurrar undanfellingar. Skylt er sóknarpresti að láta sóknarnefndarformanni eða kirkjubókarritara í té alla nauðsynlega vitneskju við færslu framangreindra bóka. Þeir skulu bera bækurnar vandlega saman að minnsta kosti einu sinni á ári, í janúarmánuði ár hvert, en aldrei mega þær vera eina nótt undir sama þaki báðar. Ákvæði þessarar greinar um manntalsbækur taka þó ekki til þeirra kaupstaða, þar sem öðrum en prestum er með lögum falið að skrá manntal.
2. gr. Kirkjustjórnin skal hlutast til um, að ávallt sé kostur á hentugum kirkju- og manntalsbókum úr vönduðum pappír og í því formi, er tíðkast hefur eða hún ákveður síðar. Bækurnar séu gegnþræddar, innsiglaðar og löggiltar af biskupi. Hlutaðeigandi prófastur skal hafa eftirlit með því á yfirreiðum sínum, að þær séu vel og samviskusamlega færðar, og annast um, að misfellum í því efni verði kippt í lag. Andvirði kirkju- og manntalsbóka greiðist úr ríkissjóði.
3. gr. Kirkjubækur sóknarpresta skulu sendar þjóðskjalasafninu til varðveislu áður en 50 ár eru liðin frá löggildingu þeirra, og má aldrei halda þeim lengur en 15 ár, frá því að þær eru fullritaðar.
Kirkju- og manntalsbækur sókna skulu afhentar hlutaðeigandi héraðs- eða kaupstaðarbókasafni til eignar og geymslu, þegar þær eru fullskrifaðar. Nú er ekki til héraðsbókasafn, og skal þá afhenda bækurnar hlutaðeigandi prófasti, sem kemur þeim í örugga geymslu innan héraðs.
Forstöðumanni héraðs- og kaupstaðarbókasafns er heimilt að gefa fæðingarvottorð og önnur vottorð samkvæmt kirkjubókum safnsins þeim, er þess óska, og gegn sama gjaldi og greitt er til þjóðskjalasafnsins fyrir slíkt vottorð.
4. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum til ríkissjóðs … 1) nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum, og skulu mál út af brotum sæta meðferð opinberra mála.
1)L. 10/1983, 13. gr.
5. gr. Ráðherra getur sett með reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.