Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í september 2001.  Útgáfa 126b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um skylduskil til safna1)

1977 nr. 43 16. maí


    1)Skv. 3. mgr. í brbákv. í l. 71/1994 eiga ákvæði í þessum lögum um Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn að eiga við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn frá 1. desember 1994.


I. kafli. Tilgangur.
1. gr. Tilgangur þeirrar skilaskyldu, sem á er lögð í II. kafla laga þessara, er að tryggja:
    a. að unnt sé að varðveita til frambúðar það efni, sem skilaskylda nær til;
    b. að unnt sé að gera og gefa út tæmandi skrár um þetta efni eða tiltekinn hluta þess;
    c. að efnið geti verið tiltækt til nota vegna rannsókna, opinberrar stjórnsýslu eða annarra réttmætra þarfa.

II. kafli. Skilaskylt efni.
2. gr. Íslenskar prentsmiðjur, fjölritunarstofur og aðrir aðilar, sem fjölfalda texta eða myndaefni í víðtækasta skilningi (myndir, teikningar, kort, uppdrætti, nótur o.s.frv.), skulu halda eftir af upplagi fjórum eintökum til skylduskila, sbr. þó ákvæði 3. gr.
Til skylduskila skal jafnframt koma annað efni sem fylgir útgefnum prentgrip, svo sem ljósmyndir, hljómplötur o.s.frv.
Til skylduskila skulu enn fremur koma jafnmörg eintök hliðstæðs efnis, sem unnið er erlendis og íslenskir útgefendur standa að, einir eða í samvinnu við aðra.
Af hljómplötum (öðrum en þeim, er fylgja útgefnum prentgrip), svo og af annars konar tón- og talupptökum, sem gefnar eru út, skal afhenda þrjú eintök.
3. gr. Séu afbrigði í texta, myndaefni, pappír eða öðrum frágangi sama upplags, skulu koma til skylduskila þrjú eintök af algengustu gerð, en að auki eitt eintak af hverju afbrigði. Tölusetning eintaka er þó skilin undan þessu ákvæði.
4. gr. Til skylduskila skulu koma sérprentanir og nýjar útgáfur, enn fremur endurprentanir, ef minnsta breyting er gerð á texta, myndaefni eða frágangi, enda þótt sama letursteypa eða filmusetning sé notuð og ekki talið um nýja útgáfu að ræða.
Skyldueintök skulu vera hrein og óskert. Bækur og tímarit skal afhenda í brotnum örkum.
5. gr. Það efni, sem er trúnaðar- eða einkamál og aðeins birt til mjög takmarkaðra afnota, getur útgefandi ákveðið, að safn geymi innsiglað tiltekinn tíma, og er safni skylt að heita því með skriflegri yfirlýsingu, ef óskað er. Sá tími, sem efni er þannig innsiglað að ósk útgefanda, má ekki fara fram úr fyrningartíma höfundaréttar. Útgefandi getur ákveðið, að þann tíma, sem efni er innsiglað, séu öll skyldueintök varðveitt í Landsbókasafni.
Af efni, sem opinber yfirvöld gera upptækt, skulu lögregluyfirvöld tryggja skil eintaka og kveða á um innsiglun þeirra.
Ráðuneyti getur veitt undanþágu frá skylduskilum efnis, sem um er fjallað í þessari grein.
6. gr. Undanþeginn skylduskilum er prentaður gjaldmiðill, svo sem bankaseðlar, verðbréf og frímerki.
Landsbókasafni Íslands er falið að setja reglur um, hvaða tegundir smáprents aðrar skuli vera undanþegnar skylduskilum.

III. kafli. Framkvæmd skylduskila.
7. gr. Skilaskylda hvílir á prentsmiðju eða fjölföldunaraðila, að því er tekur til þess efnis, sem talið er í 1. málsgrein 2. gr., en á útgefanda, að því er tekur til þess efnis, sem greint er í 2., 3. og 4. málsgrein sömu gr. og V. kafla.
8. gr. Landsbókasafn Íslands veitir skyldueintökum viðtöku og hefur eftirlit með skylduskilum. Skilaskyldir aðilar skulu senda safninu eigi sjaldnar en einu sinni á ári það efni, sem þeim ber að skila, og skal skilum fyrir hvert ár lokið eigi síðar en 1. febrúar á næsta ári. Skilum skal fylgja skrá í tvíriti, þar sem hið afhenta efni er greint lið fyrir lið, en hið smærra efni má þó flokka og greina fjölda eininga í hverjum flokki. Skránni skal fylgja skrifleg yfirlýsing hins skilaskylda aðila um, að honum beri ekki samkvæmt lögum þessum að skila öðru efni en því, sem greint er á skránni. Hafi prentsmiðja eða fjölföldunarfyrirtæki ekki unnið neitt skilaskylt efni á árinu, skal eigi að síður senda Landsbókasafni skriflega yfirlýsingu um það. Landsbókasafn skal gefa út eyðublöð fyrir skilaskrár.
9. gr. [Hætti prentsmiðja eða fjölföldunarfyrirtæki störfum], 1) áður en skylduskil hafa að fullu verið innt af höndum, er … 1) kostnaðaraðila hins unna efnis skylt að sjá um, að ákvæðum 2. gr. sé fullnægt.
    1)L. 21/1991, 182. gr.

IV. kafli. Varðveisla og meðferð skyldueintaka.
10. gr. Landsbókasafni Íslands, Amtsbókasafninu á Akureyri og Háskólabókasafni er gert að varðveita skyldueintök og fara með þau í samræmi við þann tilgang þessara laga, sem lýst er í 1. gr. Landsbókasafn skal varðveita tvö eintök, en Amtsbókasafnið á Akureyri og Háskólabókasafn eitt eintak hvort safn.
Af hljómplötum og annars konar tón- og talupptökum, sem gefnar eru út, skal Landsbókasafn Íslands varðveita tvö eintök, en Amtsbókasafnið á Akureyri eitt.
11. gr. Landsbókasafn Íslands og Amtsbókasafnið á Akureyri skulu aðeins lána skyldueintök til afnota á lestrarsal. Háskólabókasafni er heimilt að lána út skyldueintök stofnunum Háskólans, starfsmönnum og stúdentum vegna rannsókna þeirra, enn fremur öðrum söfnum innan lands og utan og stjórnsýslustofnunum.
12. gr. Landsbókasafn Íslands skal gefa út skrár um það efni, sem safnið fær samkvæmt lögum þessum, annað en smáprent.

V. kafli. Ríkisstyrkt útgáfa.
13. gr. Þeir útgefendur, stofnanir, félög eða einstaklingar, sem njóta styrks af almannafé til útgáfu á ritum, skulu afhenda Landsbókasafni ókeypis allt að tíu eintökum hvers slíks rits, ef landsbókavörður óskar þess, og ber Landsbókasafni að taka frá þrjú eintök af hverju þeirra og ætla þau Amtsbókasafninu í Stykkishólmi, Bókasafni Ísafjarðar og Amtsbókasafninu á Seyðisfirði, eitt eintak hverju safni. Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

VI. kafli. Viðurlög.
14. gr. [Nú gerir skilaskyldur aðili ekki fullnaðarskil í tæka tíð, og getur þá Landsbókasafn Íslands lagt á hann dagsektir. Kröfu um dagsektir má fullnægja með fjárnámi.] 1)
    1)L. 92/1991, 71. gr.

VII. kafli. Gildistaka.
15. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi …