Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í september 2001.  Útgáfa 126b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Þjóðskjalasafn Íslands

1985 nr. 66 27. júní1. gr. Þjóðskjalasafn Íslands er sjálfstæð skjalavörslustofnun undir yfirstjórn menntamálaráðuneytisins.
Heimilisfang þess er í Reykjavík.
Kostnaður við rekstur safnsins greiðist úr ríkissjóði samkvæmt árlegum fjárveitingum í fjárlögum.
[Ráðherra skipar þjóðskjalavörð til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnarnefndar safnsins. Þjóðskjalavörður annast daglegan rekstur og stjórn safnsins og kemur fram fyrir hönd þess út á við.] 1)
[Þjóðskjalavörður ræður skjalaverði og aðra fasta starfsmenn. Við safnið starfi skjalfræðingur eða sagnfræðingur með skjalfræðimenntun.] 1)
    1)L. 83/1997, 113. gr.
2. gr. Stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns hefur yfirumsjón með rekstri safnsins. Stjórnarnefndin markar safninu stefnu, hefur yfirumsjón með gerð fjárhagsáætlunar og framkvæmd hennar. Einnig fjallar nefndin um eyðingu gagna í skjalasöfnum sem lög þessi taka til.
Menntamálaráðuneytið skipar stjórnarnefndina til fjögurra ára í senn. Nefndin skal þannig skipuð: Þjóðskjalavörður á sæti í nefndinni samkvæmt stöðu sinni. Einn nefndarmaður skal tilnefndur af Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Einn tilnefnir fastráðið starfsfólk Þjóðskjalasafns og einn í nefndinni skal skipaður án tilnefningar. Menntamálaráðuneytið skipar formann úr hópi nefndarmanna.
Nefndin heldur fundi þegar þurfa þykir. Halda skal gerðabók um störf nefndarinnar. Nefndarmenn eiga rétt á að fá bókuð stutt sérálit í gerðabókina. Afl atkvæða ræður úrslitum mála í nefndinni. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.
3. gr. Hlutverk Þjóðskjalasafns er söfnun og varðveisla skjala og annarra skráðra heimilda þjóðarsögunnar til notkunar fyrir stjórnvöld, stofnanir og einstaklinga til þess að tryggja hagsmuni og réttindi þeirra og til notkunar við vísindalegar rannsóknir og fræðiiðkanir.
Þegar talað er um skjöl og skráðar heimildir í lögum þessum er átt við hvers konar gögn, jafnt rituð sem í öðru formi, er hafa að geyma upplýsingar og orðið hafa til við starfsemi á vegum stofnunar eða einstaklings hvort sem um er að ræða skrifleg gögn, uppdrætti, ljósmyndir, filmur, örglærur, hljóðupptökur, gataspjöld, segulbönd eða önnur hliðstæð gögn.
Ríkisútvarp (hljóðvarp og sjónvarp) skal varðveita myndir, plötur og hljómbönd eftir því sem útvarpsstjóri og útvarpsráð ákveða í samráði við þjóðskjalavörð.
4. gr. Hlutverki sínu skal Þjóðskjalasafn meðal annars gegna á þann hátt að:
    1. heimta inn og varðveita skjöl þeirra aðila sem eru afhendingarskyldir samkvæmt 5. gr. þessara laga,
    2. líta eftir skjalasöfnum afhendingarskyldra aðila, láta þeim í té ráðgjöf, gefa út leiðbeiningar um skjalavörslu og tölvuskráningu og ákveða ónýtingu skjala sem ekki er talin ástæða til að varðveita til frambúðar,
    3. gangast fyrir fræðslu um skjalavörslu fyrir fólk sem á að annast skjalavörslu í opinberum stofnunum, svo sem með námskeiðum og leiðbeiningarritum,
    4. skrásetja varðveitt skjalasöfn og gefa út prentaðar eða fjölritaðar skrár um þau til leiðbeiningar um notkun þeirra,
    5. koma upp handbókasafni um skjalfræðileg og sagnfræðileg efni,
    6. líta eftir starfsemi héraðsskjalasafna og annarra skjalavörslustofnana sem varðveita opinber skjöl,
    7. leiðbeina safngestum um notkun varðveittra skjala og heimilda safnsins, vísa safngestum á heimildir eftir því sem kostur er, efla þekkingu á þjóðarsögunni og stuðla að rannsóknum á henni,
    8. halda opnum lestrarsal fyrir almenning þar sem unnt sé að sinna fræðistörfum og færa sér í nyt varðveitt skjöl og aðrar heimildir safnsins,
    9. safna öðrum skráðum heimildum þjóðarsögunnar innanlands og utan, þ. á m. ljósritum og öðrum afritum ef frumheimilda er eigi kostur, og stuðla að varðveislu þeirra,
    10. reka viðgerðar- og bókbandsstofu og taka í þjónustu safnsins þá tækni sem á hverjum tíma telst æskileg til þess að fullkomna starfsemi þess.
5. gr. Eftirgreindir aðilar skulu afhenda Þjóðskjalasafni skjöl sín til varðveislu: Embætti forseta Íslands, Alþingi, Hæstiréttur, Stjórnarráðið og þær stofnanir sem undir það heyra, svo og aðrar stofnanir ríkisins, fyrirtæki í eigu ríkisins, félagasamtök sem fá meiri hluta rekstrarfjár síns með framlagi á fjárlögum og félög sem njóta verulega styrks af opinberu fé.
Sveitarfélög og stofnanir þeirra skulu og afhenda Þjóðskjalasafni skjöl sín ef þau eru ekki aðilar að héraðsskjalasafni og afhenda skjöl sín þangað.
Safninu er heimilt að taka við gögnum annarra en afhendingarskyldra aðila.
6. gr. Skilaskyld skjöl skal afhenda Þjóðskjalasafni að jafnaði eigi síðar en þegar þau hafa náð þrjátíu ára aldri. Er þá miðað við síðustu innfærslu í bók eða síðasta bréf afgreidds máls. Þjóðskjalavörður getur lengt þennan frest eða stytt í einstökum tilvikum ef sérstakar ástæður mæla með því.
Forstöðumenn skilaskyldra stofnana bera ábyrgð á skjalavörslu stofnananna.
Afhendingarskyldir aðilar eru skyldugir að hlíta fyrirmælum safnsins um skráningu, flokkun og frágang skjala.
Ný skjalavistunarkerfi og skjalageymslur skulu samþykkt af Þjóðskjalasafni áður en þau eru tekin í notkun.
7. gr. Afhendingarskyldum aðilum er óheimilt að ónýta nokkurt skjal í skjalasöfnum sínum nema heimild Þjóðskjalasafns komi til eða samkvæmt sérstökum reglum sem settar verða um ónýtingu skjala.
8. gr. Afhendingarskyldir aðilar eiga rétt á að fá lánuð skjöl eða að fá ljósrit skjala sem þeir hafa afhent Þjóðskjalasafni þurfi þeir á þeim að halda við störf sín.
Heimilt er að lána skjöl til notkunar í lestrarsal [Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns] 1) og í opinber skjalasöfn, bókasöfn og rannsóknarstofnanir ef aðstaða er þar til að varðveita skjöl tryggilega að mati þjóðskjalavarðar. Önnur útlán eru að jafnaði óheimil. Stofnanir, sem fá skjöl að láni, bera ábyrgð á varðveislu þeirra og skilum á tilteknum tíma.
    1)L. 71/1994, 13. gr.
9. gr. [Um aðgang að skjölum og öðrum gögnum, sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands, fer samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Um aðgang að öðrum gögnum og skjölum, sem upplýsingalög taka ekki til, skal mælt fyrir um í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fengnum tillögum þjóðskjalavarðar.] 1)
    1)L. 50/1996, 25. gr.
10. gr. Mikilvægustu skjöl safnsins skulu vera til á filmum og eintak af þeim varðveitt á öruggum stað utan húsakynna safnsins.
11. gr. Þegar skjöl, sem að dómi þjóðskjalavarðar hafa fræðilegt gildi en eru í eigu einkaaðila, eru flutt úr landi skal tilkynna það Þjóðskjalasafni og safnið hafa heimild til að semja um ljósritun þeirra eða afritun með öðrum hætti áður en farið er með skjölin úr landi.
12. gr. Stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns getur heimilað [sveitarstjórnum] 1) að koma á fót héraðsskjalasöfnum til að varðveita skjöl viðkomandi bæjarfélaga, sýslufélaga og hreppsfélaga ef fullnægjandi húsnæði og önnur skilyrði eru fyrir hendi að mati þjóðskjalavarðar. Heimilt er [sveitarstjórnum] 1) að stofna sameiginlegt héraðsskjalasafn fyrir fleiri en [eitt sveitarfélag]. 1) Er safnið þá sameign þessara aðila og skulu þeir koma sér saman um stjórnarfar og rekstur og gera um það samning sem bera skal undir þjóðskjalavörð til staðfestingar.
    1)L. 108/1988, 64. gr.
13. gr. Falli héraðsskjalasafn í vanhirðu eða séu ekki lengur fyrir hendi þau skilyrði sem voru forsenda fyrir leyfi til stofnunar safnsins skal þjóðskjalavörður vekja athygli stjórnar safnsins á því sem aflaga er talið fara og æskja úrbóta. Sé endurtekinni viðvörun ekki sinnt skal þjóðskjalavörður láta flytja safngögnin í Þjóðskjalasafn á kostnað þeirra aðila sem að héraðsskjalasafninu stóðu.
14. gr. Þar sem héraðsskjalasöfn starfa skulu renna til þeirra skjöl sýslunefnda, bæjarstjórna, hreppsnefnda og hreppstjóra á safnsvæðinu. Þangað skulu einnig renna embættisskjöl allra stofnana og starfsmanna á vegum þessara aðila, skjöl félaga og samtaka sem njóta verulega styrks af opinberu fé og starfa eingöngu innan umdæmis héraðsskjalasafnsins.
Um afhendingu skjala til héraðsskjalasafns gilda sömu reglur og um afhendingu til Þjóðskjalasafns.
Nánari ákvæði um héraðsskjalasöfn, þ. á m. hverjir séu afhendingarskyldir til þeirra, skal setja í reglugerð. 1)
    1)Rg. 283/1994.
15. gr. Um lán skjala úr héraðsskjalasafni og notkun þeirra gilda sömu reglur og um Þjóðskjalasafn.
16. gr. Héraðsskjalasöfn skulu njóta árlegs styrks úr ríkissjóði samkvæmt því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.
17. gr. Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    1)Rg. 5/1916 og 283/1994.
18. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. …