Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í september 2001.  Útgáfa 126b.  Prenta í tveimur dálkum.


Vegalög1)

1994 nr. 45 6. maí


    1)Rg. 325/1995.


I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Vegur merkir í lögum þessum akbraut, önnur mannvirki og land sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.
Til vegar telst því vegsvæði og öll mannvirki viðkomandi veginum sem eru innan þess.
2. gr. Veghald merkir forræði yfir vegi og vegsvæði, þar með talið vegagerð, þjónusta og viðhald vega. Veghaldari er sá aðili sem hefur veghald.
Ákvæði laganna gilda um allt veghald að svo miklu leyti sem við á nema annað sé ákveðið í lögum.
3. gr. Þegar lega vegar er ákveðin á staðfestum skipulagsuppdrætti, eða á annan hátt af þar til bærum skipulagsyfirvöldum, skulu ákvæði laga þessara taka gildi um vegalagninguna.

II. kafli. Stjórn vegamála og veghald.
4. gr. Ráðherra sá, er fer með samgöngumál, hefur yfirstjórn vegamála. [Til að stjórna framkvæmdum í þessum málum skipar ráðherra vegamálastjóra til fimm ára í senn og veitir hann Vegagerðinni forstöðu. Ráðherra ræður aðstoðarvegamálastjóra að fengnum tillögum vegamálastjóra. Vegamálastjóri ræður aðra starfsmenn Vegagerðarinnar.] 1)
Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessara laga.
    1)L. 83/1997, 140. gr.
5. gr. Vegagerðin er veghaldari þjóðvega samkvæmt lögum þessum. Vegamálastjóra er þó heimilt að fela einstaklingi, fyrirtæki, sveitarstjórn, stofnun eða samtökum þessara aðila veghald einstakra vegarkafla að nokkru eða öllu leyti.
6. gr. Nú er heimild 5. gr. notuð og skal þá Vegagerðin hafa eftirlit með að lagning og viðhald vega þeirra eða gatna, sem um er að ræða, sé framkvæmt á viðunandi hátt. Sé um vanrækslu að ræða að dómi Vegagerðarinnar skal hún gefa veghaldara fyrirmæli um að framkvæma nauðsynlegar umbætur innan hæfilegs frests. Ef umbætur eru ekki gerðar getur Vegagerðin látið framkvæma þær á kostnað veghaldara og/eða rift samningi við hann.

III. kafli. Þjóðvegir.
7. gr. Þjóðvegir eru þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegáætlun, safnvegaáætlun og landsvegaskrá.
8. gr. Þjóðvegir skulu mynda eðlilegt, samfellt vegakerfi til tengingar byggða landsins. Vegakerfi þetta skal tengja öll býli á landinu, alla þéttbýlisstaði, flugvelli þar sem starfrækt er reglubundið áætlunarflug, hafnir og bryggjur ef þaðan eru stundaðar áætlunarsiglingar og aðra staði eins og nánar er lýst hér á eftir.
Þjóðvegum skal skipað í flokka eftir eftirfarandi reglum:
    Stofnvegir:
   Vegir sem ná til 1.000 íbúa svæðis og tengja slík svæði saman. Víkja má frá reglunni um íbúafjölda ef um er að ræða tengingu kaupstaða eða kauptúna sem mynda samræmda heild frá atvinnulegu eða félagslegu sjónarmiði. Sama gildir um vegi sem hafa mikla árstíðabundna umferð eða þar sem innan 10 ára má búast við 1.000 bíla umferð á dag yfir sumarmánuðina. Við það stofnvegakerfi sem þannig fæst skal tengja með stofnvegi þéttbýli 400 íbúa eða fleiri enda sé tengingin ekki lengri en 20 km, svo og þéttbýli með 200–400 íbúa ef tenging er ekki lengri en sem svarar 5 km fyrir hverja 100 íbúa í þéttbýlinu. Þar sem stofnvegur endar í þéttbýli skal hann ná til þess svæðis sem mikilvægast er fyrir athafnalíf þéttbýlisins.
    Tengivegir:
   Vegir sem tengja safnvegi við stofnvegi og ná að þriðja býli frá vegarenda þar sem búseta er. Þetta ákvæði gildir þó ekki ef um er að ræða veg í kaupstað eða kauptúni. Einnig má telja tengiveg að innsta býli þar sem landsvegur liggur úr byggð.
   Þar sem tengivegur tengir þéttbýli við stofnvegakerfið skal hann ná til þess svæðis sem mikilvægast er fyrir athafnalíf þéttbýlisins.
   Vegir að flugvöllum þar sem starfrækt er reglubundið áætlunarflug og vegir að höfnum og bryggjum, ef þaðan eru stundaðar áætlunarsiglingar, skulu einnig vera tengivegir ef þeir eru ekki stofnvegir samkvæmt skilgreiningu um þann vegflokk.
    Safnvegir:
   Safnvegir tengja einstök býli, stofnanir o.fl. við tengivegi eða stofnvegi.
   Til safnvega teljast:
   Vegir að öllum býlum sem búseta er á og ekki eru tengd með stofnvegi eða tengivegi. Vegur samkvæmt þessum lið skal þó aldrei teljast ná nær býli en 50 m ef hann endar þar eða vera inni í þéttri byggð ef vegakerfi þar er styttra en sem svarar 50 m fyrir hvert býli eða íbúð.
   Vegir að kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum í dreifbýli og í þéttbýli með minna en 200 íbúa.
    Landsvegir:
   Til þessa vegflokks skal telja þjóðvegi sem ekki tilheyra neinum af framangreindum vegflokkum. Þar er um að ræða vegi yfir fjöll og heiðar, þar á meðal vegi sem tengja saman landshluta, vegi innan þjóðgarða og vegi að fjölsóttum ferðamannastöðum.
   Á vegum þessum skal yfirleitt einungis gera ráð fyrir árstíðabundinni umferð og minna eftirliti og minni þjónustu en á öðrum þjóðvegum.

IV. kafli. [Almennir vegir, einkavegir, reiðvegir og hjólreiða- og göngustígar.]1)
    1)L. 54/2000, 3. gr.
9. gr. Almennir vegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir en eru í eigu opinberra aðila og eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar. Einkavegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum. [Reiðvegir eru vegir sem einkum eru ætlaðir umferð ríðandi manna og eru kostaðir af einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum. Hjólreiða- og göngustígar eru einkum ætlaðir hjólandi og gangandi vegfarendum og eru kostaðir af einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.] 1)
    1)L. 54/2000, 1. gr.
10. gr. Eigendur almennra vega og einkavega hafa veghald þeirra. Á einkavegum, sem opnir eru fyrir almennri umferð, getur viðkomandi lögreglustjóri skyldað eiganda að gera úrbætur og stöðvað vegagerð eða bannað umferð um veginn þar til bót hefur verið á ráðin ef hann telur veghaldi svo áfátt að hætta geti stafað af.
11. gr. [Ráðherra getur að fengnum tillögum vegamálastjóra heimilað eignarnám lands til lagningar tiltekinna almennra vega, einkavega, reiðvega og hjólreiða- og göngustíga, enda komi fullar bætur fyrir.] 1) Bætur skulu ákveðnar samkvæmt reglum IX. kafla.
Ráðherra getur bundið eignarnámsheimild fyrir einkavegi skv. 1. mgr. vissum skilyrðum, svo sem um gerð og frágang vegarins, umferðarrétt um hann, viðhald og tengingar við þjóðvegi og almenna vegi.
    1)L. 54/2000, 2. gr.
12. gr. Ríkissjóður ábyrgist greiðslu bóta skv. 11. gr. en getur krafið þann sem bætur á að greiða um tryggingar sem gildar eru metnar, þar á meðal fyrir matskostnaði.
13. gr. Þegar einkavegur er notaður sem umferðarleið að fleiri eignum en einni eru allir eigendur skyldir að halda veginum við í hlutfalli við not þeirra af honum. Ákvæði þetta breytir í engu áunnum réttindum eða ákvörðunum um viðhald vegarins. Viðhaldsskyldu geta eigendur uppfyllt með því að láta í té efni eða vinnu eða með fjárframlögum.
Það er hér hefur verið ákveðið um viðhald einkavega skal við sömu aðstæður gilda um endurbætur og endurbyggingu vegar.
14. gr. Nú verða þeir sem einkaveg nota ekki á eitt sáttir um hverjir hafi rétt til nota af veginum eða um greiðslu viðhaldskostnaðar og getur þá hver þeirra krafist mats samkvæmt reglum 46. gr.
Þegar meiri hluti þeirra sem afnotarétt hafa af veginum er sammála um hvernig mæta skuli sameiginlegum útgjöldum eru þær ákvarðanir bindandi fyrir hina, þar á meðal að kostnaður skuli að einhverju eða öllu leyti greiðast af umferðargjaldi.
Þegar skipting kostnaðar hefur verið ákveðin með samkomulagi eða mati getur endurskoðun ekki farið fram fyrr en liðin eru fimm ár frá síðustu ákvörðun nema rétthafar séu sammála um annað.
Útgjöldum, sem einn eða fleiri rétthafar hafa haft af viðhaldi og ekki hefur verið skipt, er ekki hægt að krefjast að skipt verði með matsgjörð eftir að liðin eru þrjú ár frá því að stofnað var til þeirra.
15. gr. Meiri hluti rétthafa getur ákveðið að rétthafar velji stjórn eða eftirlitsmann með veginum til þriggja ára í senn.
Stjórn vegarins eða eftirlitsmaður skal sjá um að viðhaldsskyldu sé fullnægt eins og til er tekið í mati eða samkomulagi og sker úr ágreiningi í því sambandi.
Stjórn eða eftirlitsmaður getur bannað umferð um veginn til að forða honum frá skemmdum. Vanræki einhver, sem til þess er skyldur, að halda veginum við að sínum hluta getur stjórnin látið framkvæma viðhald á hans kostnað.
16. gr. Í vegáætlun er heimilt að veita fé til greiðslu kostnaðar við eftirfarandi samgönguleiðir: götur í þéttbýli, vegi yfir fjöll og heiðar sem ekki eru þjóðvegir, vegi að bryggjum, vegi að eyðibýlum, vegi að flugvöllum sem ekki eru áætlunarflugvellir en taldir upp í flugmálaáætlun sem þjónustuvellir eða lendingarstaðir, vegi að skipbrotsmannaskýlum, vegi að skíðaskálum og skíðasvæðum, vegi að fjallskilaréttum, vegi að leitarmannaskálum, vegi að fjallaskálum, vegi að fullgerðum orkuverum, vegi að félagsheimilum, vegi að og innan uppgræðslu- og skógræktarsvæða og ferjur sem ekki fullnægja skilyrðum 23. gr.
Þeir aðilar, sem sækja um og er veitt fé til framkvæmda við vegi samkvæmt þessari grein, skulu annast veghald viðkomandi vegar.
Heimilt er að binda fjárveitingu samkvæmt þessari grein skilyrði um afnot vegar og merkingu hans.
Ráðherra ákveður skiptingu fjárveitinga til einstakra framkvæmdaflokka að fengnum tillögum vegamálastjóra og samgöngunefndar Alþingis.
Engar skyldur hvíla á ríkissjóði vegna samgönguleiða samkvæmt þessari grein.
17. gr. Í vegáætlun skal veita fé til reiðvega samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð er að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög.

V. kafli. Vegáætlun og langtímaáætlun.
18. gr. Samgönguráðherra leggur að fengnum tillögum vegamálastjóra tillögu til þingsályktunar um vegáætlun fyrir Alþingi. Tillöguna skal leggja fyrir svo fljótt eftir þingsetningu sem auðið er. Í tillögunni skal gerð grein fyrir fjáröflun þeirri sem fyrirhuguð er á áætlunartímabilinu og útgjöld sundurliðuð eftir helstu framkvæmdaflokkum samkvæmt lögum þessum. Við meðferð tillögunnar fyrir Alþingi skal ákveða skiptingu útgjalda til einstakra framkvæmdaliða og skal tillagan afgreidd í endanlegu formi sem þingsályktun um vegáætlun fyrir fjögurra ára tímabil.
Við skiptingu fjárveitinga milli kjördæma og svæða héraðsnefnda eða vegasamlaga skal hafa hliðsjón af kostnaði við gerð vega, ástandi þeirra, notkun eða lengd eftir því sem við getur átt hverju sinni.
Sé fé veitt til þjóðvegagerðar eftir öðrum leiðum en getið er um í tillögu til þingsályktunar um vegáætlun, svo sem í landshlutaáætlunum, með sérstakri fjáröflun eða á annan slíkan hátt, skal fjalla um skiptingu þess innan ramma vegáætlunarinnar á sama hátt og að framan getur.
Vegáætlun öðlast gildi þegar Alþingi hefur samþykkt hana. 1)
Er þingsályktun um vegáætlun hefur gilt í tvö ár skal hún tekin til endurskoðunar og jafnframt samin áætlun fyrir tvö ár til viðbótar þannig að ávallt sé fyrir hendi gildandi vegáætlun fyrir a.m.k. tvö ár.
    1) Augl. A 118/2000 (um þingsályktun um vegáætlun fyrir árin 2000–2004). Augl. A 119/2000 (um þingsályktun um jarðgangaáætlun fyrir árin 2000–2004).
19. gr. Í vegáætlun skulu taldir upp allir stofnvegir og tengivegir og nýbyggingar á þeim á áætlunartímabilinu. Enn fremur áætlaður kostnaður við vegaviðhald og annar kostnaður Vegagerðarinnar á sama tímabili.
Í vegáætlun um nýbyggingar skal gera grein fyrir fjárveitingum til einstakra framkvæmda a.m.k. þrjú fyrstu ár áætlunartímabilsins.
20. gr. Þar sem þjóðvegur liggur um þéttbýli skal við það miðað við gerð vegarins að til vegagerðarkostnaðar teljist aðeins sá kostnaður sem til fellur vegarins vegna, en þann kostnað, sem sérstaklega er til kominn vegna þéttbýlisins, svo sem við holræsi, færslur á lögnum, [hjólreiða- og göngustíga] 1) og því um líkt, greiði viðkomandi sveitarfélag.
    1)L. 54/2000, 4. gr.
21. gr. Vegagerðin skal gera áætlun til fjögurra ára í senn um framkvæmdir við einstök verkefni á safnvegum í samráði við héraðsnefndir eða vegasamlög. Áætlun þessa skal endurskoða á tveggja ára fresti. Áætlun um safnvegi skal fylgja upptalning allra safnvega.
22. gr. Ráðherra ákveður skiptingu framlags til landsvega árlega að fengnum tillögum vegamálastjóra. Skiptingunni skal fylgja upptalning allra landsvega.
23. gr. Vegagerðinni er heimilt að kaupa, eiga og hafa umsjón með ferjum og flóabátum sem reknir eru til samgöngubóta, svo og eiga aðild að félögum sem hafa eignarhald á þeim.
Heimilt er að greiða af vegáætlun hluta kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði, enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg a.m.k. hluta úr ári. Einnig er heimilt að greiða hluta kostnaðar við bryggjur fyrir slíkar ferjur.
Í vegáætlun skulu ferjuleiðir taldar upp og gerð grein fyrir stofnframlögum til einstakra ferja.
24. gr. Ár hvert skal a.m.k. einum hundraðshluta af tekjum samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, varið til rannsókna og tilrauna við vega- og gatnagerð undir stjórn Vegagerðarinnar.
25. gr. Ráðherra er heimilt að ákveða að fengnum meðmælum vegamálastjóra að ráðist skuli í framkvæmdir sem ekki er gert ráð fyrir í vegáætlun ef til hefur komið tjón á vegum, t.d. vegna vatnavaxta, eldgosa eða annarra náttúruhamfara.
26. gr. Heimilt er að reisa sæluhús við þjóðvegi þar er þurfa þykir og telst kostnaður við byggingu þeirra með vegagerðarkostnaði. Fela má öðrum aðilum viðhald þeirra og rekstur.
27. gr. Ráðherra skal leggja fyrir hvert reglulegt Alþingi skýrslu um framkvæmd vegáætlunar.
28. gr. Samgönguráðherra leggur að fengnum tillögum vegamálastjóra tillögu til þingsályktunar um langtímaáætlun í vegagerð fyrir Alþingi. Áætlunin skal vera til 12 ára. Í áætluninni skal gerð grein fyrir markmiðum áætlunarinnar, áætlaðri fjáröflun skipt á þrjú fjögurra ára tímabil og útgjöld sundurliðuð á helstu framkvæmdaflokka. Við meðferð tillögunnar fyrir Alþingi skal útgjöldum skipt til einstakra framkvæmdaliða á hverju hinna þriggja tímabila, þar með talið til einstakra vegarkafla á stofnvegum. Tillöguna skal afgreiða í endanlegu formi sem þingsályktun um langtímaáætlun í vegagerð.
Langtímaáætlun um vegagerð öðlast gildi þegar Alþingi hefur samþykkt hana. 1)
Þegar þingsályktun um langtímaáætlun í vegagerð hefur gilt í fjögur ár skal hún tekin til endurskoðunar og jafnframt samin áætlun fyrir eitt fjögurra ára tímabil til viðbótar þannig að alltaf sé fyrir hendi gildandi langtímaáætlun fyrir a.m.k. tvö fjögurra ára tímabil.
    1) Augl. A 103/1998, um þingsályktun um langtímaáætlun í vegagerð.

VI. kafli. Skipulag og fjarlægð mannvirkja frá vegi.
29. gr. Vegir skulu lagðir í samræmi við skipulag. Við gerð skipulags skal haft samráð við Vegagerðina um val á legu þjóðvega og tengingar við þá. Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en Vegagerðin telur æskilegt og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmun. Rísi ágreiningur um réttmæti slíkrar kröfu eða um fjárhæð skal málinu skotið til ráðherra til úrskurðar.
30. gr. Óheimilt er að tengja vegi og götur þjóðvegum nema í samræmi við skipulag og að fenginni heimild Vegagerðarinnar. Þegar slík tenging er heimiluð skal eigandi tengingar bera allan kostnað við gerð hennar.
31. gr. Ef skipulag er ekki fyrir hendi er Vegagerðinni heimilt að banna að hús verði reist eða önnur mannvirki gerð innan marka fyrirhugaðs vegar sem mælt hefur verið fyrir og markað. Má slíkt bann vera í gildi allt að þremur árum hverju sinni. Einnig er Vegagerðinni heimilt að óska eftir því við skipulagsstjórn ríkisins að fyrirhugað vegarstæði sé auglýst sem skipulag.
32. gr. Nú er lagður vegur gegnum land manns þar sem skipulag er ekki fyrir hendi og á hann þá rétt á að fá óhindraðan aðgang að vegi, a.m.k. á einum stað frá landareign sinni. Landeigandi skal birta Vegagerðinni kröfu sína í þessu efni áður en vegurinn er fullgerður á þeim stað sem hann vill hafa aðgang að og skal aðgangur gerður þar eða svo nálægt sem kostur er á. Telst kostnaður við það verk með öðrum vegagerðarkostnaði.
Nú birtir landeigandi Vegagerðinni eigi kröfu sína um aðgang að veginum í tæka tíð og skal hann þá gera aðganginn á sinn kostnað.
33. gr. Byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, má ekki staðsetja, nema leyfi Vegagerðinnar komi til, nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega.
Loftlínur má ekki strengja yfir veg nema lægsti hluti línu sé a.m.k. 5 m frá yfirborði vegar.
Ekki er heimilt að gera brýr yfir þjóðvegi nema að fengnu leyfi Vegagerðarinnar sem ákveður hvert lágmarksrými skuli vera undir þeim.
Ekki er heimilt að hengja á loftlínur eða brýr merki eða auglýsingar sem ekki eru leyfð annars staðar á vegsvæðinu.
34. gr. Vegagerðin getur ákveðið að fjarlægð mannvirkja frá vegi skv. 33. gr. skuli aukin. Enn fremur getur Vegagerðin leyft að fjarlægð verði minnkuð á tilteknum köflum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
35. gr. Óheimilt er að reisa mannvirki nema með leyfi Vegagerðarinnar við vegamót á svæði sem takmarkast af beinum línum milli punkta á miðlínu vega 40 m frá skurðpunkti þeirra. Vegagerðin getur ef sérstaklega stendur á fært út mörk þessi, allt að 150 m.
36. gr. Óheimilt er að grafa framræsluskurði, nema leyfi Vegagerðarinnar komi til, nær vegi en 15 m frá miðlínu tengivegar og 30 m frá miðlínu stofnvegar. Einnig er óheimilt að leggja uppgröft úr skurðum að vegi, nema að fengnu leyfi Vegagerðarinnar.

VII. kafli. Girðingar.
[37. gr. Nú er vegur lagður gegnum tún, ræktunarland, engjar eða girt beitiland og skal þá veghaldari girða báðum megin vegarins eða leggja til ristarhlið ásamt grindarhliði ef hann telur það hentugra. Sama gildir ef girðing er lögð umhverfis slík lönd er vegur liggur um. Veghaldara er heimilt að girða með vegum sínum þótt þess sé ekki krafist af landeiganda. Skal veghaldara þá skylt að setja hlið að minnsta kosti á einum stað á slíka girðingu.
Vegagerðinni er heimilt að taka þátt í stofnkostnaði girðinga sem reistar eru til að friða svæði sem vegur liggur um og girðingar með vegum þar með ónauðsynlegar. Skilyrði fyrir slíkri þátttöku er að viðkomandi sveitarfélag banni lausagöngu búfjár á því svæði sem friðað er. Kostnaður Vegagerðarinnar skal takmarkaður við lengd þeirra girðinga með vegum sem komist verður hjá að girða með þessum hætti.
Áður en girðingar samkvæmt þessari grein eru reistar skal haft samráð við viðkomandi sveitarstjórn.] 1)
    1)L. 56/1995, 1. gr.
[38. gr.]1) Enginn má gera girðingu yfir veg með hliði á veginum án leyfis Vegagerðarinnar nema um einkaveg sé að ræða. Sama bann gildir þar sem mælt og markað hefur verið fyrir vegi enda hafi Vegagerðin tilkynnt jarðarábúanda hvar mælt hefur verið.
Nú er leyft að gera girðingu yfir veg með hliði á veginum og skal þá grind vera í hliðinu, að minnsta kosti 4 m á breidd, þannig gerð að hún haldist opin af sjálfu sér meðan ekið er um hliðið. Skylt er vegfarendum að loka hliðinu á eftir sér.
Vegagerðinni er heimilt að afturkalla með eins árs fyrirvara gefið leyfi til þess að gera girðingu yfir veg með hliði á veginum.
    1)L. 56/1995, 2. gr.
39. gr. [[Landeigandi skal annast viðhald girðinga með vegum í landi sínu, sbr. þó 4. mgr.] 1) Viðkomandi sveitarstjórn hefur eftirlit með viðhaldi girðinga í sveitarfélaginu. Sé viðhaldi girðinga ábótavant eða girðing bersýnilega óþörf og til mikillar óprýði er viðkomandi sveitarstjórn heimilt að framkvæma viðhald á girðingunni eða fjarlægja hana á kostnað landeiganda, sbr. þó 2. mgr.
Viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af veghaldara og landeiganda. Þó skal veghaldari greiða allan viðhaldskostnað ef girðingin er reist eingöngu til þess að fría vegsvæði frá búfé, þ.e. á afréttum og öðrum sameiginlegum sumarbeitilöndum búfjár.
Viðhaldskostnaður girðinga með safnvegum og landsvegum greiðist af landeiganda.
[Vegagerðin getur að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag ákveðið að annast og kosta viðhald girðinga með einstökum vegarköflum á þjóðvegum þar sem umferð er 300 bílar á dag eða meira að meðaltali yfir sumarmánuði (SDU), enda sé lausaganga búfjár á viðkomandi vegarkafla bönnuð. Áður en Vegagerðin ákveður að taka við viðhaldi girðinga samkvæmt þessari grein skal hún tilkynna það viðkomandi sveitarfélagi og hlutaðeigandi landeigendum.] 1)
[Viðkomandi sveitarfélag annast viðhald girðinga sem reistar eru skv. 2. mgr. 37. gr. Þó er heimilt að semja um að veghaldari annist viðhaldið. Viðhaldskostnaður þeirra girðinga greiðist að jöfnu af viðkomandi sveitarfélagi og veghaldara nema sérstaklega sé um annað samið.] 1)
Vegagerðinni er heimilt að flytja girðingar og fjarlægja tré og annan gróður ef nauðsyn ber til af öryggisástæðum eða til framkvæmdar viðhaldi, svo sem snjómokstri.] 2)
    1)L. 54/2000, 5. gr. 2)L. 56/1995, 3. gr.
40. gr. Nú liggur vegur, stígur eða götutroðningur yfir land manns og telst eigi til neins vegflokks og er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi.
Ákvörðun sveitarstjórnar skv. 1. mgr. má leggja undir úrskurð vegamálastjóra.

VIII. kafli. Bráðabirgðaafnot lands.
41. gr. Vegagerðinni er heimilt að framkvæma rannsóknir og byrjunarathuganir, sem nauðsynlegar eru við undirbúning vegagerðar, á hvaða landi sem er. Merki, hæla, vörður eða því líkt, sem Vegagerðin hefur sett til að marka mælda veglínu, má ekki nema burt án leyfis hennar. Leit að efni til vegagerðar má Vegagerðin gera hvar sem vera skal.
42. gr. Vegagerðinni eru heimil afnot lands fyrir geymslu efnis og fyrir bækistöðvar vinnuflokka við lagningu eða viðhald vegar.
43. gr. Skylt er landeiganda að leyfa að vatni, sem veita þarf frá vegi, sé gerð framrás um land hans.
Til framkvæmdar vetrarþjónustu má Vegagerðin ryðja snjó af vegi út fyrir vegsvæði ef með þarf.
44. gr. Vegagerðin skal hafa samráð við landeiganda um bráðabirgðaafnot lands.
Um bætur fyrir bráðabirgðaafnot lands fer eftir ákvæðum IX. kafla, eftir því sem við á.

IX. kafli. Eignarnám, jarðrask, átroðningur o.fl.
45. gr. Hver landeigandi er skyldur til að láta af hendi land það er þarf undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur er grjót, möl eða önnur jarðefni enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skulu því aðeins greiddar að álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.
Bætur fyrir jarðrask og eignarnám vegna vegar teljast með kostnaði vegarins.
Veghaldari skal jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við veghald og græða upp sár sem myndast á grónu landi við vegaframkvæmdir.
46. gr. Bætur fyrir eignarnám, jarðrask og átroðning þann, er nýr vegur kann að hafa í för með sér, má ákveða eftir samkomulagi milli landeigenda og veghaldara. Nú næst ekki samkomulag og skal þá ákveða bætur með mati samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
47. gr. Mat skal fara fram á vettvangi þá jörð er snjólaus. Við matið skal taka tillit til árlegs afrakstrar af landi því er um ræðir, svo og til þess hvort girðingar þurfi að flytja eða nýjar að setja og athuga vandlega allt það er getur haft áhrif á verðmæti þess er meta skal. Einnig skal taka tillit til annarra hagsbóta sem eiganda hlotnast við vegagerðina eða geta haft áhrif á verðmæti eignanna.
Nú leggst eldri vegur niður við lagningu nýs vegar og fellur til landeiganda og skal þá við matsgerðina meta sérstaklega hið gamla vegsvæði og draga frá upphæð þeirri er landeiganda er metin fyrir eignarnám lands fyrir hinn nýja veg eða jarðrask er leiðir af lagningu hans. Bætur fyrir átroðning skal eigi meta í slíkum tilfellum nema sannað verði að meiri átroðningur stafi af hinum nýja vegi en af hinum eldri.
48. gr. Landeigandi á bætur allar fyrir eignarnám og jarðrask vegna vegagerðar. Ábúandi á þó bætur fyrir átroðning og skemmdir á mannvirkjum þeim sem eru hans eign og skal meta það sérstaklega.
49. gr. Skaðabóta, sem af vegagerð eða vegaviðhaldi leiðir, skal krefjast innan árs frá því að verki lauk, eða frá því að skaði kom í ljós, ella fellur réttur til skaðabóta niður. Slíkar kröfur fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá því að verki lauk.

X. kafli. Viðhald þjóðvega og reglur fyrir umferð.
50. gr. Vegagerðin skal, svo fljótt sem við verður komið eftir að hún hefur fengið vitneskju um skemmdir á þjóðvegum sem hættulegar eru umferð, láta gera við þær eða merkja hina hættulegu staði þar til viðgerð hefur farið fram.
Vegagerðin er ekki ábyrg fyrir tjóni sem hljótast kann af slysum á þjóðvegum nema um sé að ræða stórkostlegt gáleysi af hendi starfsmanna hennar og sannað sé að slysi hefði ekki orðið afstýrt þótt ökumaður hefði sýnt eðlilega varkárni.
51. gr. Kostnað við vetrarþjónustu skal telja með öðrum viðhaldskostnaði vega. Heimilt er Vegagerðinni að binda vetrarþjónustu því skilyrði að allur kostnaður við hana eða hluti hans verði greiddur með framlagi úr héraði.
52. gr. Vegagerðin getur sett þær reglur fyrir umferð, sem nauðsynlegar eru, til þess að girða fyrir skemmdir á vegum eða til þess að greiða fyrir umferð, svo sem um hámarksþunga bifreiða er fara mega um ákveðna vegarkafla.
Vegagerðin getur enn fremur bannað umferð ökutækja þann tíma árs sem hættast er við skemmdum á vegum. Einnig getur Vegagerðin bannað alla umferð ökutækja um vegi sem hættulegir eru vegna skemmda eða af öðrum slíkum orsökum þar til viðgerð er lokið.

XI. kafli. Skemmdir á mannvirkjum o.fl.
53. gr. Óheimilt er að gera skurði eða önnur mannvirki sem aukið geta vatnsrennsli í vegskurðum án leyfis Vegagerðarinnar. Enn fremur er óheimilt að leiða holræsi úr íbúðarhúsum, verksmiðjum eða þess háttar í vegskurði.
54. gr. Enginn má stífla skurði meðfram vegi eða ræsi gegnum veg eða gera neitt það er hindrað getur eða aukið eðlilegt vatnsrennsli gegnum veg eða frá vegi eða veita vatni á veg.
55. gr. Bannað er að skilja eftir hluti eða muni á vegi eða vegsvæði. Enn fremur er bannað að kasta sorpi eða hvers konar úrgangi á vegi eða vegsvæði. Vegagerðinni er heimilt að fjarlægja óviðkomandi hluti eða muni af vegi eða vegsvæði á kostnað eigenda.
56. gr. Lausaganga búfjár á vegsvæðum stofnvega og tengivega þar sem girt er báðum megin vegar er bönnuð. Vegagerðinni er heimilt að fjarlægja búfé af lokuðum vegsvæðum á kostnað eigenda.
57. gr. Enginn má skemma eða aðhafast neitt sem leitt getur til skemmda á vegi eða mannvirki sem til vegarins telst.
Skemmist eitthvert mannvirki, sem til vegarins telst, við árekstur ökutækis er ökumanni skylt að tilkynna það þegar Vegagerðinni eða lögreglu. Skal sá er valdið hefur árekstrinum skyldur að bæta áorðnar skemmdir.
58. gr. Hver sá sem notar sæluhús skal ganga þrifalega um það, fara gætilega með eld, eldfæri og önnur tæki er þar kunna að vera, ganga frá hverju á sínum stað og loka dyrum svo að ekki nái að fenna inn. Skylt er hverjum sem verður var við að brotið hafi verið á móti þessu að tilkynna það tafarlaust umsjónarmanni sæluhússins eða lögreglustjóra.

XII. kafli. Sektir fyrir brot gegn lögum þessum.
59. gr. Brot gegn lögum þessum og þeim reglugerðum og ákvæðum, sem sett verða samkvæmt lögunum, varða sektum nema þyngri hegning liggi við að lögum. Bæta skal einnig á kostnað hins seka tjón það sem hann hefur unnið.
60. gr. Með brot gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

XIII. kafli. Gildistaka og brottfallin lög.
61. gr. Ákvæði III. kafla, 16. og 17. gr. og V. kafla laga þessara, sem fjalla um vegáætlun, flokkun þjóðvega og styrkvegi, öðlast gildi við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar. Ákvæði 56. gr. öðlast gildi 1. janúar 1995. Önnur ákvæði laganna taka þegar gildi.
62. gr.
Ákvæði til bráðabirgða. Heimilt er að greiða hluta kostnaðar við ferjur skv. 23. gr. í allt að fimm ár frá gildistöku laga þessara þótt ekki sé fullnægt skilyrðum greinarinnar.