Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í janúar 2002.  Útgáfa 127a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um neytendalán

1994 nr. 121 21. septemberI. kafli. Gildissvið og hugtök laganna.
1. gr. Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur.
2. gr. Eftirtaldir lánssamningar eru undanþegnir lögum þessum:
    a. Lánssamningar sem gilda skemmri tíma en þrjá mánuði.
    b. Lánssamningar sem fela í sér endurgreiðslur án vaxta og kostnaðar.
    c. Lánssamningar þar sem lán er veitt gegn lægra gjaldi en almennt gerist og stendur almenningi ekki til boða.
    d. Leigusamningar, nema eignarleigusamningar, [sbr. lög um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði]. 1)
    e. Lánssamningar að lægri fjárhæð en 15.000 kr. … 1)
    1)
Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki um samninga sem gerðir eru í því skyni að halda þeim utan gildissviðs laga þessara, svo sem með skiptingu fjárhæðar á fleiri en einn lánssamning.
    1)L. 179/2000, 1. gr.
3. gr. [Í samningi um yfirdráttarheimild af tékkareikningi, svo og sambærilegum lánssamningi með breytilegum höfuðstól, skulu neytanda í upphafi slíkra viðskipta veittar upplýsingar um:
    a. Hvaða takmörk eru á lánsupphæðinni sé um slíkt að ræða.
    b. Hverjir vextir eru og hvaða gjöld falli á lánið frá þeim tíma er gengið er frá samningnum, svo og við hvaða skilyrði megi breyta þeim.
    c. Með hvaða hætti samningi skuli sagt upp.
    d. Hvort breytingar geti orðið á vöxtum eða umsömdum gjöldum á samningstímanum. Í þeim tilvikum skal neytandi upplýstur um það með hvaða hætti breytingar verða tilkynntar honum. Slíkt má gera með því að vekja sérstaklega athygli á breytingunum í reikningsyfirliti, með auglýsingum í fjölmiðlum eða á annan sambærilegan hátt.
    e. Árlega hlutfallstölu kostnaðar, sbr. 10.–12. gr., við mismunandi notkun á heimildinni. Árlega skal senda neytanda almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar samkvæmt þessum lið. Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. er heimilt að munnlegri beiðni neytanda að breyta yfirdráttarheimild á tékkareikningi.
Heimilt er að kveða nánar á um framkvæmd upplýsingaskyldu samkvæmt þessari grein í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 13. gr.] 1)
    1)L. 179/2000, 2. gr.
4. gr. Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
    a. Neytandi er einstaklingur sem á lánsviðskipti sem lög þessi ná til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu.
    b. Lánveitandi er einstaklingur, lögaðili eða hópur slíkra aðila sem veitir lán.
    c. Lánssamningur er samningur þar sem lánveitandi veitir eða lofar að veita neytanda lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og neytandi lofar að greiða samkvæmt ákvæðum samningsins.
    d. Heildarlántökukostnaður neytanda er allur kostnaður sem hlýst af töku lánsins og neytanda ber að greiða, þar með taldar vaxtagreiðslur.
    e. Árleg hlutfallstala kostnaðar er heildarlántökukostnaður sem hlýst af gerð lánssamnings, lýst sem árlegri prósentu af upphæð láns þess sem veitt er og reiknuð út í samræmi við 10.–12. gr.
    f. Eignarréttarfyrirvari er þegar við kaup á vöru er samið um að lánveitandi sé eigandi söluvöru þar til andvirði hennar er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi og að lánveitandi geti tekið vöruna til sín ef neytandi stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

II. kafli. Upplýsingaskylda lánveitenda.
5. gr. Lánssamningur skal gerður skriflega og fela í sér upplýsingar þær sem tilgreindar eru í 6. og 8. gr. Neytandi skal fá í hendur eintak af lánssamningnum.
6. gr. Við gerð lánssamnings skal lánveitandi gefa neytanda upplýsingar um:
    1. Höfuðstól, þ.e. lánsfjárhæð án nokkurs kostnaðar. Þegar lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða þjónustu skal höfuðstóll lánsins jafngilda staðgreiðsluverði vörunnar eða þjónustunnar. Ef einungis hluti af andvirði vörunnar eða þjónustunnar er lánaður skal draga útborgunina frá höfuðstól.
    2. Fjárhæð útborgunar, þ.e. höfuðstól að frádregnum lánskostnaði.
    3. Vexti.
    4. Heildarlántökukostnað í krónum, reiknaðan út skv. 7. gr.
    5. Árlega hlutfallstölu kostnaðar, þ.e. heildarlántökukostnað, lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstólsins og reiknaðri út skv. 10.–12. gr.
    6. Heildarupphæð þá sem greiða skal, þ.e. samtölu höfuðstóls, vaxta og lánskostnaðar.
    7. Fjölda einstakra greiðslna, fjárhæð þeirra og gjalddaga.
    8. Gildistíma lánssamnings og skilyrði uppsagnar hans.
    9. Heimild til að greiða fyrir lokagjalddaga, sbr. 16. gr.
Ef breyta má lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara á samningstímanum skal lánveitandi greina neytanda frá því við hvaða aðstæður breytingarnar geta orðið. Ef ekki er unnt að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar skal lánveitandi þess í stað skýra neytanda frá því hverjir vextir eru, hvaða gjöld falla á lánið og við hvaða aðstæður breytingar geti orðið.
Útreikningur á lántökukostnaði.
7. gr. Heildarlántökukostnaður felur í sér allan kostnað af láninu, þar með talda vexti og önnur gjöld sem neytandi skal greiða af því, með þeim undantekningum sem greinir í 3. mgr.
Þegar reiknuð er út árleg hlutfallstala kostnaðar skal ekki tekið tillit til eftirfarandi kostnaðarliða:
    1. Kostnaðar vegna vanskila.
    2. Kostnaðar sem neytandi greiðir við kaup á lausafé eða þjónustu, hvort heldur kaupin fara fram gegn staðgreiðslu eða samkvæmt lánssamningi.
    3. Kostnaðar vegna yfirfærslu fjár.
    4. Kostnaðar vegna viðskiptareiknings sem ætlað er að taka við afborgunum af láninu að undanskildum kostnaði við innheimtu endurgreiðslna, hvort heldur um er að ræða staðgreiðslu eða annað greiðslufyrirkomulag.
    5. Félagsgjalda er rekja má til samninga sem ekki tengjast lánssamningnum, jafnvel þótt þau hafi áhrif á lánsskilmála.
    6. Kostnaðar vegna trygginga eða ábyrgða nema þær eigi að tryggja lánveitanda endurgreiðslu lánsins.
Ákvæði 3.–4. tölul. 2. mgr. eiga því aðeins við að neytandi hafi hæfilegt valfrelsi um það með hvaða hætti yfirfærsla fjárins eða endurgreiðslan fari fram, svo og að kostnaður sé ekki óeðlilega hár.
8. gr. Þegar samningur er gerður skal lánveitandi gefa neytanda upplýsingar um kostnað þann sem frá er greint í 2.–6. tölul. 2. mgr. 7. gr. og jafnframt tilgreina hvenær slíkur kostnaður fellur á. Ef kostnaður er óþekktur skal lánveitandi, ef kostur er, veita neytanda upplýsingar um hvernig hann er reiknaður út eða áætla hver hann er.
Breytilegur lántökukostnaður.
9. gr. Þó að í lögum þessum sé kveðið á um að neytandi skuli fá upplýsingar um vexti eða fjárhæðir þar sem vextir eru meðtaldir, sbr. 6. gr., kemur það ekki í veg fyrir að aðilar geti samið um að vextir séu að nokkru eða öllu leyti breytilegir. Skal þá greint frá vöxtum eins og þeir eru á þeim tíma sem upplýsingarnar eru gefnar, tilgreint skal með hvaða hætti vextirnir eru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast.
Útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.
10. gr. Árleg hlutfallstala kostnaðar er það vaxtaígildi sem jafnar núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstóls lánsins. Hún skal reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem nánar skal mælt fyrir um í reglugerð 1) er ráðherra setur.
    1)Rg. 377/1993, sbr. 491/1993 og 236/2000.
11. gr. Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerður. Við útreikning árlegrar hlutfallstölu skal gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og að lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins.
12. gr. Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.
Þegar reiknuð er út árleg hlutfallstala kostnaðar skal gera ráð fyrir eftirfarandi:
    1. Ef engin hámarksupphæð er tilgreind í lánssamningi skal hámarksupphæð láns, sem veitt er, teljast 150.000 kr.
    2. Ef ekki er tilgreindur ákveðinn lánstími og ekki er unnt að ráða hann af samningi skal lánstími talinn eitt ár.
    3. Ef í samningi er kveðið á um fleiri en einn greiðsludag skal ganga út frá endurgreiðslu á þeim tíma sem samningur kveður fyrst á um.
Auglýsingar.
13. gr. [Á starfsstöð lánveitanda, svo og í auglýsingum og tilboðum, er skylt að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar við lánssamninga sem lög þessi taka til. Ef lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða þjónustu skal einnig gefa upp staðgreiðsluverð hins selda. Um framkvæmd upplýsingaskyldu samkvæmt þessari grein skal nánar mælt fyrir í reglugerð er ráðherra setur.] 1)
    1)L. 179/2000, 3. gr.
14. gr. Nú eru vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi og er lánveitanda þá eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Að öðru leyti fer um vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.
Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar.
Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki ef lánveitandi getur sannað að neytanda hefði mátt vera ljóst hver lántökukostnaðurinn átti að vera. Ef ákvæði 1. eða 2. mgr. leiða til lækkunar eftirstöðva skal neytandi greiða þær samkvæmt samningnum og lækkunin koma fram á síðustu afborgunum.
15. gr. Hafi lánveitandi ekki veitt þær upplýsingar, sem fyrir er mælt í 6. gr., sbr. 5. gr., getur það skapað honum bótaábyrgð, enda hafi neytandi mátt ætla að lánskjör væru hagstæðari en þau síðar reyndust vera.

III. kafli. Greiðsla fyrir gjalddaga.
16. gr. Neytanda skal heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningi fyrir þann tíma sem umsaminn er. Notfæri neytandi sér heimild þessa á hann rétt á lækkun á heildarlántökukostnaði sem nemur þeim vöxtum og öðrum gjöldum sem greiða átti eftir greiðsludag. Ekki er hægt að krefjast endurgreiðslu eða lækkunar á gjöldum sem eru óháð því hvenær greiðsla er innt af hendi.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um greiðslu sem innt er af hendi fyrir gjalddaga þegar hún tengist ekki uppgreiðslu láns fyrir umsaminn lokagjalddaga eða annarri breytingu á umsömdum afborgunum láns.

IV. kafli. Framsal kröfuréttinda.
17. gr. Ef lánveitandi framselur kröfurétt sinn samkvæmt láni sem veitt er samkvæmt lögum þessum til þriðja aðila getur neytandi haldið uppi sömu mótbárum við hann og upphaflegan eiganda kröfunnar. Sama á við ef kröfuhafi hefur sett kröfuna að veði eða fjárnám hefur verið gert í henni.
Þetta á þó ekki við ef neytandi innir greiðslu af hendi til lánveitanda og veit eða má vita að lánveitandi hefur ekki rétt til að taka við greiðslu eða gera samning þar að lútandi.
Ef neytandi á kröfu á hendur lánveitanda, sem jafnframt er seljandi, vegna kaupa, t.d. vegna galla, er framsalshafi meðábyrgur lánveitanda.
Ákvæði þetta nær þó ekki til viðskiptabréfakrafna enda sé til staðar trygging, sbr. 18. gr.
18. gr. Seljandi, sem veitir neytanda lán samkvæmt lögum þessum í formi viðskiptabréfs, skal taka tryggingu vegna hugsanlegrar vanefndakröfu neytanda vegna þeirra viðskipta sem að baki viðskiptabréfi standa.
Tryggingarfjárhæð innan hvers tryggingartímabils, sem er eitt ár, skal nema 5.000.000 kr. Neytandi skal gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár innan eins árs frá afhendingu vöru eða þjónustu. Séu kröfuhafar fleiri en einn fer um rétt þeirra til tryggingarfjárins eftir röð krefjenda. Að gengnum fullnaðardómi eða að gerðri réttarsátt um vanefnd og þegar ljóst er að seljandi getur ekki efnt skyldu sína samkvæmt dóminum eða sáttinni skal neytanda greitt af tryggingarfénu.
Ráðherra skal setja nánari ákvæði um tryggingarskylduna, gildissvið tryggingarinnar, hverjir veitt geti tryggingu og skilmála í reglugerð. Í henni má einnig kveða á um lægri tryggingarfjárhæð en greinir í 2. mgr. þegar umfang viðskipta er það takmarkað að lægri tryggingarfjárhæð veitir nægjanlega vernd.
Nú hefur seljandi ekki gilda tryggingu samkvæmt grein þessari og getur kaupandi þá borið fram mótbárur svo sem bréfið væri ekki viðskiptabréf.

V. kafli. Kaup með eignarréttarfyrirvara og endurheimt eignarréttar.
19. gr. Ef söluhlutur er seldur með eignarréttarfyrirvara getur lánveitandi endurheimt hlutinn á grundvelli skriflegs kaupsamnings þar sem skýrt er kveðið á um eignarréttarfyrirvarann. Skilyrði endurheimtunnar er að neytandi sé í vanskilum með afborganir eða lánskostnað.
Þegar söluhlutur er endurheimtur skal við uppgjör á milli aðila lánssamnings reyna að komast sem næst því að þeir verði jafnsettir og ef viðskiptin hefðu ekki átt sér stað.
Ef andvirði söluhlutar er meira en sem nemur eftirstöðvum lánssamnings skal lánveitandi endurgreiða neytanda mismuninn. Ef andvirði söluhlutar er minna skal neytandi endurgreiða lánveitanda mismuninn.
Við mat á andvirði söluhlutar skal litið til þess hvort slit og rýrnun söluhlutar er eðlilegt og til frádráttar vaxta frá endurheimtudegi til loka lánssamnings.
Komi upp ágreiningur um hvað sé verð söluhlutar á almennum markaði skal hann útkljáður með matsgerð tveggja dómkvaddra og óhlutdrægra manna. Matsmenn skulu ákveða hvernig háttað skuli greiðslu vegna kostnaðar við matið.
20. gr. Nú hafa fleiri en einn hlutur verið keyptir samkvæmt einum samningi og lánveitandi leggur fram kröfu um endurheimt þeirra. Getur neytandi þá valið einn eða fleiri hlutanna til afhendingar gegn því að greiða um leið mismun andvirðis þeirra hluta sem hann heldur eftir. Ef inneign lánveitanda er minni en andvirðið á neytandi rétt á að fá mismuninn greiddan um leið og hlutirnir eru afhentir.
Neytandi getur ekki leyst til sín hlut ef hann er úr safni eða samstæðu sem lánveitandi hefur einnig endurheimt frá neytanda og aðskilnaðurinn hefur í för með sér verulega rýrnun á verðmæti hlutanna.

VI. kafli. Ýmis ákvæði.
21. gr. Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð. 1)
    1)Rg. 377/1993, sbr. 491/1993 og 236/2000.
22. gr. Viðskiptaráðherra getur sett reglur 1) um hvernig prenta skuli leiðbeiningar um réttarstöðu neytanda á skriflega samninga og skjöl sem lögin taka til.
    1)Rg. 377/1993, sbr. 491/1993 og 236/2000.
23. gr. Viðskiptaráðherra getur breytt fjárhæðum í lögum þessum eftir því sem verðlagsþróun gefur tilefni til.
24. gr. Eigi má með samningi víkja frá ákvæðum laga þessara né reglugerða, sem settar kunna að verða samkvæmt lögunum, neytanda í óhag.

VII. kafli. Bótaskylda, eftirlit og gildistaka.
25. gr. Samkeppnisstofnun annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. Um meðferð mála hjá samkeppnisyfirvöldum fer samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga að öðru leyti en því að ákvörðunum samkeppnisráðs um dagsektir verður ekki skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
26. gr. Samkeppnisráð getur bannað athafnir sem brjóta í bága við ákvæði laga þessara. Banni má fylgja ákvörðun um dagsektir sem kemur til framkvæmda ef bannið er brotið. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag.
Áður en til banns kemur skv. 1. mgr. getur Samkeppnisstofnun lokið málinu með sátt. Hafi sátt komist á gildir hún sem bann skv. 1. mgr.
27. gr. Brot á lögum þessum getur valdið skaðabótaskyldu í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.
Gera má lögaðila að greiða bætur þó svo að sök sannist ekki á neinn tiltekinn starfsmann lögaðilans ef sýnt þykir að einhver starfsmaður lögaðilans hafi gerst brotlegur við ákvæði laga þessara.
Bætur, sem dæmdar verða, sbr. 1. mgr., má innheimta hjá þeim einstaklingi sem dæmdur er bótaskyldur eða lögaðila þeim sem hann starfaði hjá þegar brotið var framið.
[28. gr. Lög þessi eru sett í samræmi við ákvæði í XIX. viðauka EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, og til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins nr. 102 frá 22. desember 1986, um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, ásamt síðari breytingum.] 1)
    1)L. 179/2000, 4. gr.