Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 555, 126. löggjafarþing 90. mál: neytendalán (upplýsingaskylda seljenda).
Lög nr. 179 20. desember 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á fyrri málsgrein 2. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „sbr. lög nr. 19/1989“ í d-lið kemur: sbr. lög um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
  2. Orðin „eða hærri fjárhæð en 1.500.000 kr.“ í e-lið falla brott.
  3. F-, g- og h-liður falla brott.


2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Í samningi um yfirdráttarheimild af tékkareikningi, svo og sambærilegum lánssamningi með breytilegum höfuðstól, skulu neytanda í upphafi slíkra viðskipta veittar upplýsingar um:
  1. Hvaða takmörk eru á lánsupphæðinni sé um slíkt að ræða.
  2. Hverjir vextir eru og hvaða gjöld falli á lánið frá þeim tíma er gengið er frá samningnum, svo og við hvaða skilyrði megi breyta þeim.
  3. Með hvaða hætti samningi skuli sagt upp.
  4. Hvort breytingar geti orðið á vöxtum eða umsömdum gjöldum á samningstímanum. Í þeim tilvikum skal neytandi upplýstur um það með hvaða hætti breytingar verða tilkynntar honum. Slíkt má gera með því að vekja sérstaklega athygli á breytingunum í reikningsyfirliti, með auglýsingum í fjölmiðlum eða á annan sambærilegan hátt.
  5. Árlega hlutfallstölu kostnaðar, sbr. 10.–12. gr., við mismunandi notkun á heimildinni. Árlega skal senda neytanda almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar samkvæmt þessum lið. Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. er heimilt að munnlegri beiðni neytanda að breyta yfirdráttarheimild á tékkareikningi.

     Heimilt er að kveða nánar á um framkvæmd upplýsingaskyldu samkvæmt þessari grein í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 13. gr.

3. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Á starfsstöð lánveitanda, svo og í auglýsingum og tilboðum, er skylt að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar við lánssamninga sem lög þessi taka til. Ef lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða þjónustu skal einnig gefa upp staðgreiðsluverð hins selda. Um framkvæmd upplýsingaskyldu samkvæmt þessari grein skal nánar mælt fyrir í reglugerð er ráðherra setur.

4. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 28. gr., svohljóðandi:
     Lög þessi eru sett í samræmi við ákvæði í XIX. viðauka EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, og til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins nr. 102 frá 22. desember 1986, um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, ásamt síðari breytingum.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2000.